Forgangur mála á dagskránni
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Eins og kom glöggt fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv. var það hæstv. fjmrh. sjálfur sem hefur komið af stað þeim illindum sem hér hafa orðið með ræðu sinni um þetta mál, 5. dagskrármálið, síðast þegar það var á dagskrá. Ég ætla hins vegar ekki að bæta neinu við það, herra forseti, en mig langar að vekja athygli á því að hér er jafnframt á dagskrá mál nr. 7 sem var fyrst tekið fyrir til umræðu fyrir hálfum mánuði síðan. Síðan var umræðunni frestað sakir þess að fjmrh. var ekki viðstaddur. Hann sá ekki ástæðu til þess að vera við þegar 1. umr. hófst um afnám ekknaskattsins svokallaða. Þess vegna var umræðunni frestað. Hann hefur ekki séð ástæðu til þess að greiða fyrir því að þetta mál komist á dagskrá og hægt sé að afgreiða það til nefndar eins og eðlilegt er.
    Við sem flytjum þetta mál gerðum þá kröfu að hæstv. fjmrh. tjáði sig um málið, þannig að það kæmi fram gagnvart því fólki sem þar á hlut að máli hvort einhverra réttarbóta getur verið von, hvort ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir einhverjum breytingum í þá átt að lina ekknaskattinn. Við þessu hefur ekki komið neitt svar. Ég tel að það sé fyllilega tímabært að knýja á um það að bæði þessi mál, 5. og 7. og reyndar 6. málið líka, fái hér eðlilega afgreiðslu við 1. umr., fjmrh. tjái sig um þetta með eðlilegum hætti og því sé síðan komið til nefndar.
    Það er auðvitað algjörlega óviðunandi, herra forseti, að vera hér með sömu málin á dagskrá viku eftir viku eingöngu vegna þess að ráðherra þessa málaflokks sér ekki ástæðu til þess að hirða um umræður um mál af þessum toga. Þetta er auðvitað hrein vanvirða og verður síst til þess að greiða fyrir þingstörfum hér og samvinnu við okkur stjórnarandstöðuþingmenn um önnur mál.