Forgangur mála á dagskránni
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Eftir þær umræður sem hafa orðið hér um þingsköp og þá einkum um dagskrá þessa fundar finnst mér að full ástæða sé til þess að dagskránni sé hnikað þannig til að hægt sé að taka fyrir nú þegar mál nr. 5, 6 og 7 umræðulaust. Ég tel að í orðum hv. 10. þm. Reykv. felist verulegur stuðningur úr stjórnarliðinu við þessi frv., a.m.k. sum þeirra, og í trausti þess að hæstv. fjmrh. hafi fallið frá orðinu til að greiða fyrir þessum málum og greiða götu þeirra í gegnum þingið tel ég eðlilegt að fallast á að þessi mál séu nú þegar tekin fyrir án umræðna eins og mér skilst að um hafi verið talað, þótt kannski fullmikið sé sagt að um hafi verið samið að fullu og öllu og fyrirvaralaust, og þannig sé greitt fyrir því að hægt sé að fylgja dagskránni eftir það. Í trausti þess að þetta geti gerst með þessum hætti tel ég ástæðulaust að halda þessum þingskapaumræðum áfram en óska eftir því við virðulegan forseta að hann sjái til þess að nú þegar fari þessi mál til nefndar, enda tel ég að það sé verulegur og víðtækur stuðningur við þau.