Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hér hefur verið borin fram mjög eðlileg ósk af hálfu hv. 5. þm. Vesturl. Hæstv. ráðherra Hagstofu hefur samkvæmt sérstöku erindisbréfi, eftir því sem upplýst hefur verið, fengið það verkefni að hafa forustu um umhverfismál í núverandi hæstv. ríkisstjórn. Að vísu er það mjög kynleg ráðstöfun og ég veit ekki nákvæmlega hvernig hún stenst núgildandi lög um Stjórnarráðið, að fela einstökum ráðherrum verkefni með sérstöku erindisbréfi án þess að breyta lögum um Stjórnarráðið og kemur það mál vafalaust efnislega til umræðu hér, hvernig að þeim málum hefur verið staðið, í umræðunni sjálfri. En með því að þetta hefur verið gert og hæstv. ráðherra Hagstofu hefur ekki bara hér innan lands heldur á erlendum vettvangi komið fram sem ráðherra umhverfismála er hér sett fram mjög eðlileg krafa um það að umræðunni verði frestað þangað til sá ráðherra getur verið viðstaddur sem með sérstöku erindisbréfi frá hæstv. forsrh. hefur þessi mál til umfjöllunar innan ríkisstjórnarinnar. Ég vil ítreka þessa ósk og beina því sérstaklega til forseta að hann taki tillit til hennar. Það hlýtur að greiða fyrir umræðu málsins að verða við óskinni. Hitt hlýtur öllum að vera ljóst að það hlýtur að tefja umræðuna ef slíkri ósk er ekki sinnt.