Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Frv. þau sem hér eru á dagskrá voru tekin til umræðu í hið fyrra sinn með afbrigðum hinn 8. nóv. sl. Þá lauk ekki 1. umr. og er hér í dag framhald hennar og ætla má að ástæða þyki til að ræða þessi mál býsna ítarlega. Í umræðunni sem hófst þann 8. nóv. sl. talaði hv. 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson og lýsti þar í nokkrum orðum stefnu Sjálfstfl. og gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem við sjálfstæðismenn höfum til þessa frv. í
nokkrum atriðum. Enda þótt hann lýsti þeim í þeirri ræðu sinni hafði vitaskuld ekki gefist tóm til að kafa í málið með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið vegna þess að það kom hér á borð þingmanna örfáum klukkustundum áður en það var tekið til umræðu með afbrigðum eins og fyrr er sagt. Síðan hefur málið legið og er nú komið hér til framhalds 1. umr.
    Mér þykir rétt að vekja í örfáum orðum athygli á afstöðu Sjálfstfl. til þessa máls. Það má segja að hún sé í stórum dráttum þessi:
    Í fyrsta lagi að umhverfismál séu meðal hinna þýðingarmestu málaflokka okkar samfélags.
    Í öðru lagi að stefnt verði að því að sinna varðveislu og verndun náttúrugæða í auknum mæli frá því sem nú er og verið hefur.
    Í þriðja lagi er það skoðun okkar að umhverfismál í víðum skilningi séu tengd flestum eða nálega öllum málaflokkum sem við er að fást í þjóðfélaginu og tilheyra almennri stjórnsýslu.
    Í fjórða lagi. Með tilliti til þessa sé útilokað að steypa saman öllum þessum málaflokkum, þeim málaflokkum sem tengjast umhverfismálum á einn eða annan máta, í eitt ráðuneyti.
    Í fimmta lagi er það grundvallaratriði í okkar skoðun að saman skuli fara yfirstjórn á nýtingu náttúrugæða og auðlinda og verndun þeirra.
    Í sjötta lagi teljum við eðlilegt og nauðsynlegt að einum aðila verði falið að hafa forustu fyrir samstarfi og samræmingu þeirra afla sem að umhverfismálum vinna. Jafnframt að sá aðili hafi með höndum þau samskipti sem nauðslynleg eru við erlendar stofnanir og erlendar þjóðir á þessum vettvangi.
    Í sjöunda lagi. Við erum því andvígir að setja á stofn sérstakt ráðuneyti til að fara með þessi mál. Við höfum lagt fram frv. sem hefur m.a. það efni að geyma að einni stjórnarráðsskrifstofu verði falið að hafa með höndum það samræmingarstarf sem ég hef getið um og að sú stjórnarráðsdeild verði vistuð í samgrn. Þetta kemur fram í frv. hv. 1. þm. Reykn. og nokkurra annarra þingmanna Sjálfstfl., sem liggur fyrir hér á hinu háa Alþingi. Ég mun ekki ræða það frv. hér við þessa umræðu. En í því er þó að finna vegvísi um stefnu okkar sjálfstæðismanna sem ég hef reynt að draga fram í örfáum þáttum.
    Auðvitað er það svo með það frv. að hægt er að hugsa sér að á því séu gerðar breytingar, enda er þar um frumsmíð að ræða og við sjálfstæðismenn erum ekki með einstrengingslega afstöðu til þessara mála á þann máta að þær tillögur sem við höfum lagt fram

geti ekki tekið einhverjum breytingum í meðförum Alþingis. Enda er það svo að lengi má koma auga á að sitthvað megi betur fara í meðferð mála af þessum toga.
    Af því sem að framan segir er vitaskuld ljóst að Sjálfstfl. er andvígur því frv. sem hér er til umræðu. Þetta frv. gengur í ýmsum atriðum þvert á sjónarmið okkar sjálfstæðismanna. Ég vil minna á að það frv. sem hér liggur fyrir um umhverfisráðuneyti er þáttur í fyrirætlunum núv. hæstv. ríkisstjórnar um breytingar á Stjórnarráði Íslands. Þetta frv., sem er flutt til breytinga á lögum um Stjórnarráðið frá árinu 1969, er þó væntanlega hið eina af þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru sem lagt verður fyrir hv. Alþingi. Aðrar breytingar sem hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. forsrh. hugsa sér að gera á Stjórnarráðinu verða væntanlega gerðar með reglugerðarbreytingum.
    Það er afar mikilvægt fyrir Alþingi og fyrir almenning í landinu að gefa þessu gaum vegna þess að þetta felur í sér að hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn hafa það í hendi sinni að gera þær breytingar sem þeim sýnist án þess að aðrir, þar á meðal stjórnarandstaðan hér á hv. Alþingi, komi þar nokkrum vörnum við eða geti einu eða neinu um það ráðið.
    Nú er vert að athuga í þessu sambandi að breytingar á Stjórnarráði Íslands eru í sjálfu sér ekki pólitískt mál. Ríkisstjórnir koma og fara. Sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur setið í rúmlega eitt ár. Enginn veit hvort hún situr lengur eða skemur og væntanlega verða dagar hennar taldir í síðasta lagi um næstu kosningar. Breytingar á Stjórnarráði Íslands eru þess vegna ekki gerðar fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr né nokkra aðra ríkisstjórn í landinu. Breytingar á Stjórnarráðinu eiga að þjóna því markmiði að þar verði hlutum betur fyrir komið, þar fari fram hagræðing sem feli í sér þau meginmarkmið að betri virkni verði í meðferð mála og að sparnaður náist. Og þegar ég segi sparnaður þá á ég við sparnað sem birtist í beinhörðum peningum. Þetta eru ekki pólitísk mál, þetta eru ekki mál einnar ríkisstjórnar. Þetta eru mál sem aðilar á Alþingi, þ.e. bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, ættu að taka höndum saman um. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. hafa kosið að haga
þessum málum svo að fjalla um þessi mál á eigin vegum og ekki í samstarfi við stjórnarandstöðuna hér á hinu háa Alþingi, nema að hluta til í einhverju samstarfi við hv. fulltrúa Kvennalistans.
    Þetta fullyrði ég að sé röng meðferð mála. Þetta fullyrði ég að sé ekki við hæfi þegar á að vinna upp tillögur að nýju skipulagi um Stjórnarráð Íslands. Ég hygg að þessu hafi verið nokkuð á annan veg farið í hin fyrri sinn þegar breytingar hafa átt sér stað á lögum um Stjórnarráðið. Ég minni á að þegar núgildandi lög voru sett undir forustu Bjarna heitins Benediktssonar voru til kvaddir menn sem ekki höfðu pólitískan stimpil. Þá voru til kvaddir reyndir menn frá Háskóla Íslands og frá Hæstarétti og frá Stjórnarráðinu sjálfu, þ.e. ráðuneytisstjórar sem höfðu

mikla reynslu. Það var ekki farið í manngreinarálit eftir pólitískum skoðunum. Þau lög voru sett undir yfirlýsingum oddvita stjórnarandstöðunnar, Ólafs heitins Jóhannessonar, sem lýsti yfir fullum stuðningi, enda var ekki farið á bak við stjórnarandstöðuna í neinum greinum. Þar var rétt að verki staðið. Þar voru kvaddir til menn með reynslu. Þar voru kvaddir til menn án pólitískra sjónarmiða. Þar voru kvaddir til menn sem voru að leggja grunn að framtíðarskipulagi sem átti ekki að þjóna einni ríkisstjórn í landinu heldur mörgum. Nú virðast þær breytingar sem hér eru fyrirhugaðar sumpart vera þáttur í hrossakaupum um pólitíska lífdaga þessarar ríkisstjórnar. Með stofnun sérstaks ráðuneytis til þess að einn ráðherra hæstv. ríkisstjórnar geti fengið að sinna fleiri störfum en að vera ráðherra Hagstofu Íslands. Og í annan stað eru þeir, sem hafa undirbúið þetta frv. og þær breytingar sem hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn hugsa sér að gera á Stjórnarráðinu, valdir með öðrum hætti en gert var þegar stjórnarráðslögin sem sett voru 1969 voru undirbúin.
    Ég ætla ekki að kasta neinum steini að þeim mönnum persónulega sem hér eiga hlut að máli en sú nefnd sem hefur undirbúið þetta frv. er þannig skipuð, skv. því sem hér segir í aths. með lagafrv. á þskj. 133, að formaður hennar er Jón Sveinsson, aðstoðarmaður forsrh., aðrir í nefndinni eru Arnmundur Backman hæstaréttarlögmaður, Bjarni Guðleifsson náttúrufræðingur, Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Bryndís Brandsdóttir jarðeðlisfræðingur og Óli Þ. Guðbjartsson alþm. En eftir að sá hv. alþm. varð hæstv. ráðherra tók sæti hans í nefndinni Guðmundur Ágústsson alþm.
    Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að kasta neinum steini í garð þessara manna sem vafalaust vilja vel. En það er auðvitað ljóst að þeir eru pólitískt skipaðir. Skipun þeirra sannar í rauninni að verið er að vinna að tilteknum aðgerðum í þessum málum sem eiga að tryggja framhaldslíf þessarar ríkisstjórnar. Þetta er þáttur í pólitískum hrossakaupum og í annan stað eru hér reynslulitlir menn. Einn þeirra er að vísu ráðuneytisstjóri en hann hefur gegnt því starfi skamma hríð. Aðrir tveir eru eða hafa verið aðstoðarmenn ráðherra, einnig um skamma hríð. Hér er ekki að finna reynslumikla menn í lögum eða stjórnskipan og hér er ekki að finna menn sem hafa mikla reynslu í því hvernig eigi að reka eða koma fyrir íslenska Stjórnarráðinu, íslenska stjórnkerfinu.
    Ég hlýt að segja það hér að ég er mjög undrandi á þessum vinnubrögðum. Og ég vil segja það við hæstv. forsrh. þó hann kjósi nú að ganga úr salnum ( Forsrh.: Hann er hér.) að þessi vinnubrögð eru ekki til þess fallin að treysta álit á því verki sem hér hefur verið unnið og verið er að vinna. Til þess eru þeir aðilar sem valdir hafa verið til undirbúnings á þessu verki of reynslulitlir, of háðir pólitískum hagsmunum, sumir jafnvel háðir pólitískum hrossakaupum.
    Þannig kýs hæstv. forsrh. núv., á árinu 1989, Steingrímur Hermannsson, að standa að verki þegar hann er að undirbúa breytingar á lögum um

Stjórnarráð Íslands og breytingar á verkaskipan í Stjórnarráðinu. Það er á annan veg að verki staðið en þegar Bjarni heitinn Benediktsson lagði grunn að þeim breytingum sem gerðar voru 1969 og það er einnig á annan veg að staðið heldur en þegar Hermann Jónasson, þáv. forsrh., vann að undirbúningi á breytingum á Stjórnarráðinu á árunum 1956--1959. Nýir siðir, nýir herrar. Og þetta er ekki eina dæmið þar sem afturförin er augljós.
    Ég vil svo aðeins segja það að lokum almennt um breytingar á Stjórnarráðinu að það er eðlilegt og sjálfsagt að þegar stjórnarráðslögin eru orðin 20 ára gömul þá þurfi að gera breytingar. Þær breytingar þurfa að skoðast að bestu manna yfirsýn, þeirra sem hafa mikla reynslu af starfi Stjórnarráðsins og þeirra sem hafa mikla reynslu af stjórnkerfi landsins í heild. Þær þurfa að hafa það að markmiði að mál gangi greiðar og séu eðlilegar saman sett en í sumum tilvikum má finna í núverandi skipan. Um leið þurfa þær að hafa í för með sér sparnað í rekstri en ekki hið gagnstæða. Séu breytingar gerðar breytinganna vegna eða vegna þess að þær eigi kannski að þjóna, eins og hér kemur fram, pólitískum hrossakaupum ellegar handahófskenndum breytingum sem mótaðar eru vegna tillagna reynslulítilla manna, þá er hætt við að breytingarnar þjóni ekki þeim markmiðum sem til ætti að ætlast. Þá er hætt við að það verði ekki sparnaður sem felist í þeim breytingum sem gerðar eru. Það er margföld reynsla fyrir því að ef breytingar á stjórnskipan eru ekki
nægilega vel undirbúnar og kannski ekki gætt þeirra sjónarmiða sem nauðsynleg eru, þá fylgi því ekki sparnaður, raunar fremur hið gagnstæða. Ég hygg t.d. að sú breyting sem síðast var gerð á verkaskipan í Stjórnarráðinu, sem var að færa utanríkisviðskiptin frá viðskrn. yfir í utanrrn. hafi ekki falið í sér sparnað heldur miklu fremur hið gagnstæða. Kostnaðurinn óx stórum, ekki einungis í utanrrn. heldur einnig í viðskrn. sem þó lét af hendi þýðingarmikinn þátt í starfi síns ráðuneytis.
    Ég geri þetta hér að umtalsefni vegna þess að hæstv. forsrh., sem kosið hefur að standa að undirbúningi mála með þessum hætti, getur komið þessum breytingum fram, fái hann þá lagasetningu gegnum Alþingi sem hér er á dagskrá um nýtt ráðuneyti, umhverfismálaráðuneyti. Síðan getur hann komið þeim breytingum fram með reglugerðum sem hann kýs án þess að bera það undir Alþingi, án þess að stjórnarandstaðan hafi nokkurn hlut átt að máli, án þess
að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafi haft nokkurt tækifæri til að koma við ráðum og ráðleggingum um það sem betur mætti fara. Og með þeim hætti að til eru kvaddir menn sem litla reynslu hafa og litla þekkingu á starfi því sem fram þarf að fara í þessum stofnunum. E.t.v. finnst sumum hér harðlega að orði kveðið og ég endurtek það, ég kasta ekki steinum að þeim mönnum sem hér eiga að standa að verki í undirbúningi. Og þó að ég segi að þeir séu reynslulitlir, þá miða ég við að þeir sem áður hafa

staðið að undirbúningi slíkra breytinga hafa haft margfalda reynslu, bæði af starfi Stjórnarráðsins og af stjórnskipan landsins í heild, og vitna ég þar enn til þeirra breytinga sem urðu á vegum Bjarna heitins Benediktssonar fyrir lagasetninguna 1969.
    Það frv. sem hér liggur fyrir um umhverfisráðuneyti er í sjálfu sér ekki viðamikið frv. En það er þó frv. sem þarfnast ítarlegrar athugunar. Frv. er í raun aðeins tvær greinar og eitt ákvæði til bráðabirgða og þessar greinar eru ein setning hvor. Frv. er því ekki viðamikið að vöxtum en, eins og ég sagði, það þarfnast þeim mun betri athugunar.
    Ég tel ástæðu til þess, áður en ég hef að ræða efni frv. sjálfs, að vitna til þess að umhverfisráðuneyti hafa verið stofnuð í ýmsum löndum og hin fyrstu þeirra fyrir nálega 20 árum. Þessi ráðuneyti voru stofnuð til að mynda á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Þá höfðu sumir menn í þessum löndum þá trú að það væri hyggilegt að stofna umhverfisráðuneyti sem fjölluðu um alla þætti umhverfismála eins og hér er verið að gera tilraun til að koma fram á Íslandi árið 1989. Reynslan af þessum ráðuneytum hefur yfirleitt orðið sú að þau hafa þanist út, eins og hér var vitnað til í umsögn sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson las úr frá landbrn., og þau hafa orðið viðamikil að mannafla og umsvifum og kostnaði en þó ekki náð því markmiði sem þeim var ætlað, að hafa samræmda heildarstjórn á þeim málum sem þau áttu að fást við.
    Í danska umhverfismálaráðuneytinu eru nú um það bil 3000 starfsmenn, ef taldir eru þeir starfsmenn ráðuneytisins sem tilheyra stofnunum sem undir það heyra. Og í norska umhverfisráðuneytinu eru nú á þriðja þúsund starfsmenn, þar af um 1500 starfsmenn í ráðuneytinu í Osló og stofnunum sem tengjast ráðuneytinu þar. Aðrir starfsmenn á vegum umhverfisráðuneytisins norska eru í hinum ýmsu fylkjum landsins. Þetta er aðeins dæmi um það hvernig þessi ráðuneyti hafa þanist út að mannafla og kostnaði og, eins og hér var lýst í umsögn landbrn. um þetta frv., ,,þau hafa þanist út með ólíkindahraða og orðið tröllauknar stofnanir, en samt ekki náð að verða virk á þann hátt sem upphaflega var stefnt að og vonir voru bundnar við``. Því var það að Sameinuðu þjóðirnar settu á laggir nefnd til að athuga þessi mál og reyna að komast að raun um á hvern máta væri hyggilegast að koma fyrir yfirstjórn þessara mála í hinum ýmsu löndum. Þessi nefnd, sem starfaði undir forustu Gro Harlem Brundtland, síðar forsætisráðherra Noregs, skilaði skýrslu á árinu 1987 sem vakið hefur mikla athygli og segja má að hafi hlotið heimssamþykki. Þessi skýrsla hefur til að mynda hlotið samþykki í ýmsum Evrópulöndum, þar á meðal verið samþykkt af Evrópubandalaginu, af EFTA og hér á Norðurlöndunum af norrænu ráðherranefndinni, svo að dæmi séu tekin. Segja má að víðast hvar í heiminum séu þau sjónarmið, sem sett eru fram í þessari skýrslu og hún byggist á, viðurkennd sem hin réttu.
    Meginsjónarmið þessarar skýrslu eru þau að til þess að ná árangri í umhverfismálum þurfi saman að fara

yfirstjórn á nýtingu og verndun náttúruauðlinda en alls ekki að skilja þetta í sundur. Séu þessir þættir skildir í sundur, þá megi búast við árekstrum, þá megi búast við misskilningi og þá megi búast við því að starfið mistakist. Á hinn bóginn starfi samræmingaraðili annað tveggja í sérstöku ráðuneyti ellegar í sérstakri ráðuneytisdeild sem fari með yfirstjórn á samræmingu þessara mála og leiði þá aðila saman til samstarfs sem hlut eiga að máli.
    Segja má að grundvallaratriði í þessari skýrslu séu sumpart þau sömu sem ég lýsti sem grundvallaratriðum í stefnu okkar sjálfstæðismanna í þessum málum. En síðan kemur hæstv. forsrh. hér á Íslandi árið 1989 og flytur fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar frv. til l. um þetta efni sem fer gersamlega í bága við þetta meginstefnumið Brundtland-skýrslunnar.
    Ég held að það sé mikil ástæða til að rekja fleira úr þeim umsögnum sem fyrir liggja um það frv. sem hér er á dagskrá en gert var í ágætri ræðu hv. þm. Inga Björns Albertssonar hér áðan. Í þeim umsögnum sem hann vitnaði til komu fram mjög sterkar athugasemdir og mjög mikil andstaða við það frv. sem hér er á dagskrá. Og hverjir skyldu nú hafa staðið að því að senda þessar umsagnir? Jú, það voru þeir menn sem höfðu reynslu af meðferð þeirra málaflokka sem um var fjallað. Það voru bara íhaldsmenn, sagði hæstv. forsrh. hér í hliðarherbergi. Ég ætla nú ekki að telja upp þá menn sem hæstv. forsrh. kallar íhaldsmenn, en meðal íhaldsmanna sem hann kallar svo eru t.d. Páll Bergþórsson veðurstofustjóri, það má nefna skógræktarstjórann, Sigurð Blöndal, það má nefna borgarlækni sem vitnað var til áðan og það má nefna hina og þessa menn aðra sem hæstv. forsrh. leyfir sér hér í hliðarsal að kalla íhaldsmenn. Ég tel að vísu að á því sé ekki neinn ljóður þó að þeir vilji halda í það sem vel hefur reynst og ég vildi gjarnan bjóða þá velkomna í Sjálfstfl. En ég hugsa að hæstv. forsrh. hafi ekki talið sig vera að hæla þessum mönnum með því að kalla þá íhaldsmenn. Hans túlkun á því orði er einhver önnur. Hann sagði þetta í niðrandi merkingu.
    Ég hef hér undir höndum til að mynda umsögn landbrn. sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson vitnaði lítillega til áðan. Ég held að það sé ástæða til að ég lesi, með leyfi hæstv. forseta, örfáar klausur úr þessari umsögn vegna þess að þær eiga fullt erindi inn í þessa umræðu. Ég vil fyrst lesa eina málsgrein sem varðar þá skýrslu sem ég hef hér vitnað til, sem er svokölluð Brundtland-skýrsla, en í umsögn landbrn. segir, með leyfi forseta:
    ,,Á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur verið samin skýrsla um umhverfis- og þróunarmál sem út kom árið 1987. Skýrslan heitir á norsku ,,Var felles fremtid``. Nefnd sú sem samdi skýrsluna var undir forsæti Gro Harlem Brundtland. Nefndin komst m.a. að þeirri niðurstöðu að breyta þyrfti starfsaðferðum í umhverfismálum. Í stað þess að taka afleiðingum af ákvörðun annarra og bæta úr þar sem þær hafa valdið umhverfistjóni verði allir þeir sem með ákvörðunum

sínum geti haft áhrif á umhverfið gerðir meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð þannig að hagræn sjónarmið og vistræn ákvarðist af sömu aðilum.``
    Margt segir fleira og er vitnað til úr þessari skýrslu sem allt styður það meginmarkmið hennar að saman skuli fara yfirstjórn á hagnýtingu og verndun náttúruauðlinda til lands og sjávar. Í umsögn landbrn., umfram það sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson hefur hér greint frá, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytið [þ.e. landbrn.] og stofnanir þess hafa unnið mikið kynningar- og fræðslustarf meðal bænda og annarra er landið nýta, mest með fundahöldum og útgáfu fræðslurita, en einnig í þeim skólum sem tilheyra landbúnaðinum. Þannig hefur verið stofnuð ný námsbraut við Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi, umhverfisbraut, og er skógrækt þar ein námsgreina. Kennsla í umhverfisfræðum, landnýtingu og skógrækt hefur verið stóraukin við báða bændaskólana, að Hólum og Hvanneyri. Gefið hefur verið út kennslurit í umhverfisfræðum, eitt hið fyrsta sinnar tegundar í nálægum löndum og er það þegar notað við bændaskólana.``
    Tillögur nefndarinnar um að skilja að málefni landgræðslu og skógræktar frá landbrn. og færa þau undir umhverfismálaráðuneyti ganga, eins og áður segir, í þveröfuga átt við stefnumótun Brundtland-skýrslunnar sem hefur fengið alheimsundirtektir til þessa. Síðar segir í þessari umsögn landbrn., með leyfi forseta:
    ,,Af mörgum er árangursríkasta leiðin til virkra aðgerða í umhverfismálum innan stjórnsýslunnar talin sú að starfrækja innan ráðuneyta, sem fara með umhverfismál, deildir eða starfssvið um þau viðfangsefni. Viðfangsefni slíkra starfssviða og úrlausnir mætti síðan sameina í umhverfisstofnun sem starfaði innan einhvers núverandi ráðuneyta eða í umhverfisráðuneyti sem teikn eru um að verði sett á laggirnar.
    Sérstakt umhverfissvið er starfrækt í landbrn. Á vegum þess var á þessu ári, í samráði við ýmis samtök, gert stórátak til hreinsunar í sveitum landsins. Unnið hefur verið að því að draga úr flakki vörslulauss búfjár þar sem tjón getur af hlotist eða hætta skapast. Auk þess hefur verið unnið að fjölda annarra verkefna.
    Umhverfisráðuneyti sem annast eftirlit, fræðslu, aðhald og samræmingu gagnvart öllum þeim sem gætu með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi haft áhrif á umhverfi sitt ætti eðli málsins samkvæmt að vera lítið ráðuneyti, mannað sérhæfðu starfsliði og ekki hafa með höndum stjórn stofnana umfram brýna nauðsyn.``
    Í þessum tilvitnuðu orðum kemur fram í fyrsta lagi að á vegum landbrn. er unnið mikið fræðslu- og samræmingarstarf. Þar er sérstakt svið sem vinnur að þessum málum og hefur unnið þýðingarmikið starf. Í þessari umsögn kemur einnig fram sú eindregna skoðun að sú stjórnardeild ellegar sérstaka ráðuneyti, ef það verður ofan á, sem fer með yfirstjórn þessara mála, ætti að vinna samræmingarstarf og vinna að samtengingu þeirra aðila sem þessum málum sinna í

hinum ýmsu ráðuneytum Stjórnarráðsins og öðrum stofnunum þjóðfélagsins en ekki að hrúga þessum stofnunum öllum saman í eitt ráðuneyti og gera það að bákni.
    Ég tel ástæðu til þess, herra forseti, að rekja hér helstu niðurstöður í umsögn landbrn. sem dagsett er 22. okt. sl. og sent er aðstoðarmanni forsrh., Jóni Sveinssyni, en þessar niðurstöður eru svohljóðandi, með leyfi forseta:
,,1. Árangur af starfi Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins eru meira háðar góðum samskiptum við bændur og atvinnuveg þeirra í heild en margir riddarar skrifborða þekkja.
    2. Eftirlit og afskipti af hvers konar auðlindanýtingu í þágu atvinnuvega hljóta að eiga að vera samræmd.
    3. Alþjóðleg stefnumótun í umhverfismálum staðfestir að Íslendingar hafa undanfarin ár staðið í grundvallaratriðum rétt að málum varðandi umhverfismál og auðlindanýtingu.
    4. Ekkert hefur komið fram sem réttlætir breytta skipan þeirra mála en vitað er að breytingar samkvæmt hugmyndum nefndarinnar varðandi vistun málefna Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins mundu riðla mörgu og rústa margt sem áunnist hefur af því sem teljast verður í þágu umhverfismála og gróðurríkis Íslands.``
    Undir þetta skrifar ráðuneytisstjórinn í landbrn., Sveinbjörn Dagfinnsson.
    Í þessari umsögn kemur fram sú afstaða landbrn. að það ráðuneyti er algerlega andvígt því frv. sem hér er á dagskrá. Andvígt því að setja á laggir
sérstakt umhverfisráðuneyti sem rjúfi, eins og hér eru gerðar tillögur um, yfirstjórn hagnýtingar náttúruauðlinda annars vegar og verndunar hins vegar. Þetta er inntak frv. að því er varðar landbúnaðinn og gróðurríki landsins en þetta er á hinn bóginn ekki inntak frv. að því er varðar auðlindir hafsins og er athyglisvert það misræmi sem í frv. er hvað þetta snertir.
    Ýmsar stofnanir, sem hér hefur enn ekki verið vitnað til, hafa gefið umsögn um þetta frv. Meðal þeirra er ítarleg umsögn skógræktarstjóra, Sigurðar Blöndals, dagsett í Reykjavík 23. okt. 1989. Þessi umsögn er það ítarleg og vel unnin að í raun væri ástæða til að lesa hana í heild. Ég mun þó ekki gera það heldur lesa hluta af þessari umsögn. Í henni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í öllum löndum í nágrenni við Ísland sem ég þekki til eru skógræktarmál vistuð í landbúnaðarráðuneytum eða í sérstökum skógræktarráðuneytum nema í Danmörku og eru þó sumar skógræktarstofnanir þar undir landbúnaðarráðuneytinu. Um skeið voru skógræktarmál Kanada vistuð í umhverfisráðuneyti við mikla óánægju skógræktarmanna en voru haustið 1984 færð aftur í landbúnaðarráðuneytið.
    Skógræktarlöggjöf Norðvestur- og Mið-Evrópu er fullkomnasta löggjöf um varðveislu lifandi auðlindar sem til er. Hún er að hluta til gróðurverndarlöggjöf af

hæstu gráðu því að skógurinn með öllu sínu fjölbreytta lífi er í skógræktarlöggjöf þessara landa talinn eilíf verðmæti sem ein kynslóð hefur blátt áfram ekki leyfi til að rýra, hvað þá eyðileggja, í hverra eigu sem hann er. Í löndum eins og Þýskalandi og Danmörku er hefð sem byggist á þessum hugsunarhætti orðin 200--300 ára gömul.
    Fram á hin síðustu ár hefur skógræktarlöggjöf þessara landa sem ég er að vitna til fyrst og fremst miðast við að skógur er ein þýðingarmesta hráefnalind þeirra. En á síðustu einum til tveimur áratugum hafa hugtökin ,,fjölnytjaskógar`` og ,,útivistarskógar`` rutt sér til rúms í hugum skógræktarmanna og verið að festast í álitsgerðum og jafnvel lögum og reglugerðum.
    Enn fremur er smám saman verið að setja í skógræktarlög ákvæði um náttúruvernd í þrengsta skilningi, t.d. bann við höggi í fjallskógi, verndun skógarjarða, svo aðeins tvennt sé nefnt. Er þetta afleiðing m.a. af þeim hugsunarhætti sem ruddi sér til rúms í náttúruverndarbylgjunni eftir 1970.
    Þannig voru sett í sænsku skógræktarlögin frá 1979 ákvæði í þessum anda. Sænski skógræktarstjórinn skýrði okkur kollegum sínum á hinum Norðurlöndunum frá þessu í skógarferð í júní 1979 og útskýrði hvernig sænska skógareftirlitið hygðist framfylgja þessum nýju ákvæðum. Mér er kunnugt um að það hefur verið gert rækilega og hef séð dæmi um það með eigin augum.
    Svíþjóð er í dag eitt allra fremsta skógræktarland heimsins og þar er nú fegurri og betri skógur en nokkru sinni í sögu landsins, en stór héruð voru orðin skóglaus þar fyrir einni öld sem afleiðing rányrkju. Er það árangur af framkvæmd skógræktarlöggjafar þeirrar sem ég hef verið að vitna til. Samt ætla sænskir skógræktarmenn sér að gera enn betur. Þeir hafa nú ákveðið að vinna að skógræktinni á þann hátt sem þeir nefna ,,standortsanpassad skogsbruk`` sem þýðir það að meðhöndla skóginn á hverjum bletti í samræmi við náttúruskilyrðin en ekki láta vélvæðingu og hrein fjárhagsleg hagkvæmnisjónarmið ráða eins og nokkur brögð hafa verið að eftir að stórfelld vélvæðing ruddi sér braut á síðustu 20 árum.
    Sænsku ríkisskógarnir sem eiga 26% af skóglendi landsins hafa á þessu hausti stofnað í yfirstjórn sinni embætti yfirvistfræðings og ráðið til þess þann
skógvísindamann sænskan sem hefur verið boðberi þessara nýju sjónarmiða og sett þau fram í stórri kennslubók sem nú er skyldunámsefni á öllum stigum skógræktarnáms.
    Landbúnaðarráðuneytið, skógstjórnin og ríkisskógarnir sem er vistuð þar hafa þannig rækilega tekið í hnakkadrambið á sjálfu sér þegar svo leit út um tíma að skógræktin ætlaði að fara að ganga á snið við lögmál skógarvistkerfisins.
    Ef litið er til Noregs er sama uppi á teningnum. Enda þótt skógræktarlögin norsku frá 1932 staðfestu þá hugsun, sem ég hef rakið hér á undan, að skógurinn sé eilíft verðmæti sem aldrei megi rýra miðuðust þau þó einkum við að varðveita skóginn sem hráefnalind. Í þessi lög voru sett ákvæði sem

tryggja að skógurinn verði ætíð endurnýjaður. Í apríl 1989 var birt á vegum landbúnaðarráðuneytisins yfirgripsmikil álitsgerð sem nefnist ,,Flersidig skogbruk. Skogbrukets forhold til naturmiljö og friluftsliv``. Álitsgerðin er samin af starfsfólki sem skógræktarstjórinn var formaður fyrir. Í henni eru vistfræði og náttúruverndarsjónarmið sett í fyrirrúm í þeim mæli að ýmsum skógareigendum þykir þrengt óþægilega að svigrúmi sínu til að nýta skóginn í fjárhagslegu augnamiði. 80% af norsku skógunum eru í einkaeign. Skógstjórninni verður gert að framfylgja þessum ákvæðum ef Stórþingið samþykkir þau.``
    Eftir þennan lestur um ástand mála á Norðurlöndunum koma síðan ályktanir skógræktarstjóra sem ég leyfi mér einnig að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:
    ,,Fyrir því hef ég talið þörf á að rekja svona ítarlega þessi atriði í þróun skógræktarmála í löndum þar sem skógvernd og skógrækt stendur á hæstu stigi og þar sem stjórn skógræktarmála er vistuð í landbúnaðarráðuneytum, að ekkert hefur rekið þessar þjóðir til að rjúka til og vista skógræktarmál sín í umhverfisráðuneytum sem í sumum þeirra, t.d. Danmörku og Noregi, eru orðin að stjórnsýslulegum ófreskjum.
    Þau dæmi sem ég hef rakið frá Noregi og Svíþjóð eru í fullu samræmi við höfuðniðurstöðu Brundtland-skýrslunnar svonefndu, sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út, að byggja eigi atvinnumálaráðuneytin sem stjórna nýtingu auðlinda þannig upp að þau verði ábyrg fyrir þeim auðlindum sem valdsvið þeirra nær til.
    Í samræmi við þessa niðurstöðu Brundtland-skýrslunnar er það skoðun yfirstjórnar Skógræktar ríkisins að umhverfisráðuneyti á Íslandi eigi að vera lítið ráðuneyti sem eigi að hafa að meginhlutverki þau verkefni sem talin eru upp í 6. gr. (bls. 2) í tillögum nefndarinnar sem samið hefur fyrirliggjandi reglugerðardrög.
    Yfirstjórn Skógræktar ríkisins telur að það myndi valda stórslysi fyrir þau málefni sem þessari stofnun er ætlað að fjalla um og stýra ef hún væri nú flutt úr landbrn. þegar góður friður og mikil samvinna er komin á á milli hennar og bænda landsins og stofnana þeirra og félagasamtaka, þeirra aðila sem öðrum fremur nýta landið.
    Það er bjargföst sannfæring okkar sem á undanförnum árum höfum verið að berjast við að skapa skilning meðal bænda á nauðsyn alhliða gróðurverndar og gildi skógræktar, iðulega með stórum orðum og við mikla reiði margra bænda, að vistun Skógræktar ríkisins í umhverfisráðuneyti mundi leiða til erfiðleika og jafnvel stríðs við bændur landsins sem flestir hverjir eru á þeirri skoðun, hvort sem hún er rétt eða röng, að umhverfisráðuneyti væri ekki síst stofnsett þeim til höfuðs.
    Núverandi skipan með skógræktarmálin í landbrn. gengur vel og er beinlínis nauðsynleg nú þegar skógrækt er orðin sú staðreynd í þjóðfélaginu og hefur nú þegar áhrif á varðveislu byggðar í nokkrum

sveitum landsins.
    Okkur skógræktarmönnum er öldungis óskiljanlegt að aðrir geti haft betri skilning á því en við hvað sé málinu fyrir bestu stjórnsýslulega.
    Það má ekki rjúfa þann frið sem nú hefur skapast um skógræktarmálin og er óðum að skapast um alhliða gróðurvernd milli Skógræktar ríkisins og skógræktarfélaganna annars vegar og félagskerfis bænda hins vegar. Slíkt væri ófyrirgefanlegt ábyrgðarleysi.``
    Undir þetta skrifar f.h. Skógræktar ríkisins skógræktarstjóri, Sigurður Blöndal, einn þeirra manna sem hæstv. forsrh. kallaði hér fram í úr hliðarsal áðan og leyfði sér að kalla íhaldsmann.
    Sú íhaldssemi sem birtist í orðum skógræktarstjóra og fulltrúa Skógræktar ríkisins sem látið hafa frá sér fara þessa umsögn er skynsamleg og heilbrigð og hún er rökrétt. Og hún á ekkert skylt við pólitískar skoðanir þessa einstaklings né þeirra einstaklinga sem þar liggja að baki.
    En ég tel ástæðu til að spyrja: Hvar er hæstv. forsrh.? Ég tel enga ástæðu til þess að halda áfram ræðu minni nema hann sé viðstaddur. ( Forseti: Vegna orða ræðumanns vil ég upplýsa að hæstv. forsrh. var kallaður í símann fyrir örfáum mínútum og er ekki kominn til baka. Ég skal gera ráðstafanir til þess að það verði náð í hann.) (Gripið fram í.) Forseta er að sjálfsögðu heimilt að fresta umræðunni og ég fresti ræðu minni um stund.
    Herra forseti. Ég taldi ástæðu til að hæstv. forsrh. væri við þessa umræðu og ég er alveg tilbúinn til að endurtaka nokkuð af því sem ég hef hér flutt
meðan hans nærveru naut ekki við. Mér liggur ekkert á ef hæstv. ráðherra kýs að sinna því ekki sem er skylda hans sem flm. þessa frv. ( Forsrh.: Ég hef heyrt langmest hér úr hliðarsölum.) að vera ekki við umræðuna. En ég var að vitna í niðurstöður í umsögn skógræktarstjóra, Sigurðar Blöndals, en sú umsögn er dagsett 23. okt. 1989. Hann sagði m.a. í þeirri umsögn:
    ,,Yfirstjórn Skógræktar ríkisins telur að það myndi valda stórslysi fyrir þau málefni sem þessari stofnun er ætlað að fjalla um og stýra ef hún væri nú flutt úr landbrn. þegar góður friður og mikil samvinna er komin á á milli hennar og bænda landsins og stofnana þeirra og félagasamtaka, þeirra aðila sem öðrum fremur nýta landið.``
    Hann sagði enn fremur:
    ,,Núverandi skipan með skógræktarmálin í landbrn. gengur vel og er beinlínis nauðsynleg nú þegar skógrækt er orðin sú staðreynd í þjóðfélaginu og hefur nú þegar áhrif á varðveislu byggðar í nokkrum sveitum landsins.``
    Enn fremur sagði skógræktarstjóri:
    ,,Okkur skógræktarmönnum er öldungis óskiljanlegt að aðrir geti haft betri skilning á því en við hvað sé málinu fyrir bestu stjórnsýslulega.
    Það má ekki rjúfa þann frið sem nú hefur skapast um skógræktarmálin og er óðum að skapast um alhliða gróðurvernd milli Skógræktar ríkisins og

skógræktarfélaganna annars vegar og félagskerfis bænda hins vegar. Slíkt væri ófyrirgefanlegt ábyrgðarleysi.``
    Þessi orð skógræktarstjóra er ástæða til að hæstv. forsrh. hugleiði. Skógræktarstjóri, Sigurður Blöndal, er einn þeirra manna sem hafa gefið umsögn um þetta frv. sem hæstv. forsrh. leyfði sér í niðrandi merkingu í hans munni að kalla íhaldsmann hér úr hliðarsal áðan. ( Forsrh.: Hann er góður íhaldsmaður, Sigurður Blöndal, mjög góður íhaldsmaður.) Sigurður Blöndal á heiður skilið og virðingu ( Forsrh.: Já, það er rétt.) fyrir þau störf sem hann hefur unnið að skógræktarmálum á Íslandi. Hann á einnig heiður skilið fyrir það að hann gefur umsögn um þetta mál í samræmi við reynslu sína og þekkingu, í samræmi við það sem hann veit að þessum málum er fyrir bestu, í samræmi við reynslu sína af samskiptum við bændur, félagasamtök bænda og landbrn. Hann kallar stórslys ef þessu samstarfi væri raskað. Og hann segir einnig: Það er óskiljanlegt ef einhverjir aðrir en við sem að þessum málum höfum starfað hafa á þeim einhverja betri þekkingu heldur en við og telja sig vita hvað sé þessum málum fyrir bestu. Það er óskiljanlegt. Hæstv. forsrh. virðist vera einn í þeirra hópi sem skógræktarstjóri nefnir í þessum orðum sínum. (Gripið fram í.) Ég kem að því síðar, hæstv. forsrh. Ég ætla að ræða einstök atriði frv. hér síðar í ræðu minni og þá óska ég einnig eftir því að hæstv. forsrh. sé við.
    Í umsögn frá Landgræðslu ríkisins, sem undirritað er af landgræðslustjóra, Sveini Runólfssyni, þann 23. okt. sl., kemur einnig fram sterk andstaða við það að taka Landgræðslu ríkisins undan landbrn. og færa hana undir yfirstjórn nýs ráðuneytis, umhverfisráðuneytis. Ég skal ekki tefja tímann með því að lesa þessa umsögn alla sem er mjög ítarleg, en ég les hér aðeins niðurstöður hennar sem eru í örstuttu máli. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
,,1. Landgræðsla ríkisins leggur áherslu á að yfirstjórn mála stofnunarinnar sé hjá landbrn.
    2. Óeðlilegt er að gera greinarmun á eftirliti með auðlindum landsins og eftirliti með auðlindum hafsins. Landgræðsla ríkisins telur að hvort tveggja eigi að tilheyra viðkomandi fagráðuneyti.
    3. Því er fagnað að stofnun umhverfisráðuneytis verður til að flýta fyrir gerð landnýtingaráætlunar.
    4. Landgræðslan telur það óeðlilegt ef landbúnaður sem atvinnuvegur verður sviptur að hluta til eða öllu leyti því forræði sem hann á eðli málsins samkvæmt að hafa á nýtingu landsins og gæðum þess.
    5. Landgræðsla ríkisins telur að þörf sé fyrir samræmingu á aðgerðum stjórnvalda í þágu umhverfismála. Þær aðgerðir ættu að tryggja að umhverfissjónarmið komist að á öllum stjórnstigum til aðhalds gagnvart aðgerðum og/eða aðgerðarleysi þeirra sem fara með umhverfismál.
    Mælt er með að unnið verði með gát þannig að við lærum af mistökum annarra þjóða, en hermum ekki eftir þeim. Sömu lögmál hljóta að gilda hér varðandi varðveislu og eftirlit með auðlindum eins og talið er

nú farsælast um heim allan, sbr. tillögu Brundtland-nefndarinnar.``
    Í þessum niðurstöðum sem hér hefur verið vitnað til kemur fram að Landgræðsla ríkisins er eindregið andvíg því að stofnunin eða hluti hennar sé sett undir annað ráðuneyti en landbrn. Þar eru rökin þau sömu og fyrr og er megininntak Brundtland-skýrslunnar, og er raunar einnig eitt megininntakið í stefnu okkar sjálfstæðismanna, að það eigi að vera einn aðili sem samræmir starf hinna ýmsu stofnana og hinna ýmsu ráðuneyta að þessum málum og það megi gera í stjórnardeild ellegar litlu umhverfisráðuneyti sem hafi það starf með höndum, og að það beri ekki að skilja að nýtingu auðlinda annars vegar og eftirlit og verndun þeirra hins vegar.
    Og skyldu nú ekki forsvarsmenn Landgræðslu ríkisins --- þeir menn sem hafa
unnið að því um áratuga skeið að vernda og bæta gróðurríki Íslands og hafa samstarf við bændur um þessi mál, koma á takmörkunum með beitarstjórn og með því að stytta beitartíma búfjár á afréttum, girða af landsvæði o.s.frv. o.s.frv., allt undir yfirstjórn landbrn. --- skyldu nú ekki þessir menn hafa meiri þekkingu á þessum málum heldur en þeir menn sem hæstv. forsrh. hefur kosið til að undirbúa þetta mál, ellegar þeir menn sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands? Ég leyfi mér að taka svo stórt til orða. Svari hver sem vill. Ég er ekki í vafa um svarið.
    Þeir menn sem best hafa unnið að þessum málum og eru dag frá degi að starfa í samstarfi við aðra aðila vita betur hvar skórinn kreppir og hvað þarf til þess að koma málum áfram heldur en þeir sem lítt hafa að verki staðið. ( ÁHE: Þeir eru fastir í farinu.) Það væri nú ákjósanlegt fyrir hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson að marka sér einhvers staðar far sem hann gæti þá verið í áður en hann fer að kasta steinum að öðrum og jafnvel þeim mætu mönnum sem hér er verið að vitna til. En það verður a.m.k. ekki sagt um þennan hv. þm. að hann sé fastur í farinu því að hann er svo laus í rásinni að hann skilur hvergi eftir sig far.
    Ég get hér einnig vitnað til umsagnar frá Búnaðarfélagi Íslands, undirskrifað af búnaðarmálastjóra, Jónasi Jónssyni. Þar er einn þeirra manna sem hæstv. forsrh. kallar íhaldsmenn sem ekki þurfi að hlusta á. Í umsögn Búnaðarfélags Íslands, sem rituð er af Jónasi Jónssyni búnaðarmálastjóra þann 24. okt. sl., er fyrst vitnað til ályktana frá búnaðarþingi. Og það má enn minna á það að þegar þetta frv. var flutt í hið fyrra sinn af hæstv. forsrh., þá riðu búnaðarþingsfulltrúar til aukabúnaðarþings. Hvers vegna? Ekki til þess að vera með fagnaðarlæti yfir frv. hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórnar heldur til þess að snúast til varnar. Og þegar ég vakti athygli á þessu í umræðum hér á síðasta þingi leyfði hæstv. forsrh. sér það í umræðum hér að kasta köpuryrðum að þessum mönnum. En í umsögn Búnaðarfélags Íslands er ályktun búnaðarþings þar sem fram kemur að þau meginsjónarmið sem búnaðarþing leggur áherslu á séu í stuttu máli þessi, með leyfi forseta:
,,1. Að brýnt sé að sem víðtækust samstaða náist um

stjórn umhverfismála, bæði innan stjórnsýslunnar og meðal alls almennings í landinu.
    2. Að hinir einstöku þættir í stjórn umhverfismála séu að meginhluta til best komnir í umsjón hinna ýmsu fagráðuneyta. Þó er fallist á nauðsyn þess að fyrir hendi sé ákveðinn aðili eða ráðuneytisdeild sem hafi með hendi samræmingu á verkaskiptingu hinna einstöku ráðuneyta, m.a. þar sem verkefni skarast [dæmi: samgöngumál, landvernd] og komi fram sem sameiginlegur fulltrúi þjóðarinnar við umheiminn um þessa mikilvægu málaflokka, sbr. sjávar- og loftmengun.``
    Í þessari ályktun kemur enn fram hið sama grundvallarsjónarmið sem gengur eins og rauður þráður í gegnum allar þessar umsagnir og allar þessar ályktanir sem hér hefur verið vitnað til og enn hið sama og er megininntak Brundtland-skýrslunnar og er enn hið sama og meginsjónarmið okkar sjálfstæðismanna. Ég hlýt að spyrjast fyrir um það hvort hæstv. forsrh. finnist það ekki harla veikur málstaður að halda á málum þvert gegn öllum þessum meginsjónarmiðum. ( ÁHE: Það eiga allir hagsmuna að gæta.) Hvort hæstv. forsrh. finnist það nú ekki harla veikur grundvöllur sem hann hefur verið að reyna að fóta sig á sem er andstæður því sem fram kemur í Brundtland-skýrslunni eftir mikið starf alþjóðlegrar nefndar, skýrslu sem hlotið hefur samþykki og meðmæli fjölmargra alþjóðastofnana, bæði í Evrópu og annars staðar, þar á meðal á Norðurlöndunum nema hjá hæstv. ríkisstjórn Íslands. Og hvort hæstv. forsrh. finnist það ekki veikur grundvöllur að standa á að hafa fengið til að undirbúa sitt mál reynslulitla menn sem sumir hverjir hafa um skamma hríð starfað í Stjórnarráði Íslands og sumir hverjir sem þangað eru settir til þess að gæta pólitískra hagsmuna án þess að vitað sé að þeir hafi til brunns að bera nokkra marktæka þekkingu á þessum málum. Þegar allir þeir sem hér hefur verið vitnað til og hafa ótvíræða og mikla þekkingu á þessum málum, hafa áratuga reynslu að baki í meðferð þessara mála og þekkja það hvaða aðferðum þarf að beita til þess að ná árangri í samstarfi við aðra menn, bændur landsins, einstaklinga, félagasamtök, stofnanir og ráðuneytið sjálft sem er landbrn., að þá skuli hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn leyfa sér það að segja að þetta sé bara hagsmunagæsla eins og hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson var hér enn að kasta fram í. ( ÁHE: Þetta er ekkert annað en sérhagsmunagæsla.) Má það vera að hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson sé svo skyni skroppinn að hann kasti því fram í í þingsal Alþingis að Gro Harlem Brundtland sé með hagsmunagæslu í málefnum um umhverfismál í heiminum ellegar þeir menn, fulltrúar annarra þjóða á vegum Sameinuðu þjóðanna sem að því verki unnu ásamt þessari ágætu konu? Ég tel að frammíköll af þessu tagi opinberi svo hastarlega vanþekkingu að ég segi ekki aulahátt að ég held að það væri betra fyrir hv. þm. að láta það vera. ( ÁHE: Ég held mig nú við hagsmunagæsluna hér á landi.)
    Ég get vitnað hér í ýmislegt fleira í umsögnum

Búnaðarfélags Íslands og kem e.t.v. að nokkrum atriðum þar síðar þegar ég tek að ræða frv. í einstökum
atriðum, en ég vil hér einnig minna á það að um þetta efni hafa verið ritaðar blaðagreinar sem byggja á mikilli þekkingu á þessum málum og sýna það að víða hvar koma fram þær skoðanir annars staðar en hjá þeim aðilum sem leitað hefur verið beint til sem eiga að sjálfsögðu erindi inn í þessa umræðu.
    Við umræðuna þann 8. nóv. vitnaði hv. 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson til blaðagreinar eftir dr. Gunnlaug Þórðarson sem hann ritaði í Morgunblaðið 24. okt. sl. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að endurtaka það sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson vitnaði þar til. En þar er með skýrum orðum tekið í hinn sama streng og hér hefur verið rakinn úr umsögnum ýmissa stofnana um þessi mál, þann sama streng sem er meginburðarásinn í þeirri skýrslu sem hér hefur margsinnis verið vitnað til og kennd er við Gro Harlem Brundtland. Ég held að það sé sem sagt ekki ástæða til að ég fari að rekja atriði úr þessari blaðagrein að nýju. Ég aðeins minni á að það var gert af hv. þm. Ólafi G. Einarssyni fyrr í þessari umræðu.
    Í þessari grein segir þó, sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson lét kyrrt liggja, sem auðvitað er annar þáttur þessa máls sem ég kem að síðar, en þar segir dr. Gunnlaugur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisbáknið þenst stöðugt út og bruðlið með almannafé hefur aldrei verið annað eins og í tíð tveggja síðustu ríkisstjórna Steingríms Hermannssonar og verður e.t.v. vikið að því síðar. T.d. mun jafnmörgum pólitískum framagosum aldrei hafa verið raðað á ríkisjötuna og í tíð áðurnefndra ríkisstjórna til einskis gagns en aðeins til aukinna útgjalda, nánast atvinnubótavinna fyrir flokksþý.
    Enginn getur talist hafa átt meiri þátt í öllu því bruðli sem umræddar ríkisstjórnir hafa haft forgöngu um en einmitt forsætisráðherrann og fjármálaráðherrarnir. Svo tala þessir menn af yfirlæti um að spara í ríkisrekstrinum, en því fylgir því miður aðeins pólitísk sýndarmennska.
    Forsætisráðherra ímyndar sér að undirritaður sé einn á báti í því að vilja sporna við tilgangslausri útþenslu ríkisbáknsins og bruðli. Þar fer hann villur vega eins og í sumu öðru. Slík afstaða var og á að vera leiðarljós embættismanna og var það án efa þau tæp 30 ár sem ég starfaði í Stjórnarráðinu og er tvímælalaust ríkari þáttur í fari embættismanna annarra en einhverra pólitískra framagosa. Fæstir þeirra vita nema þeir verði dottnir út úr hlutverki sínu á morgun, m.a. vegna þess að æviráðning embættismanna verndar þá ekki, sem er betri kostur heldur en að kalla til skyndistarfskrafta sem skortir venjulega reynslu, hutlægi og yfirvegun. Í seinni tíð virðast þessir aðstoðarmenn, eða hvað þeir kallast, fremur ílendast í starfi en áður var, en það mun ekki hafa verið hinn upphaflegi tilgangurinn,,, segir í þessari grein dr. Gunnlaugs Þórðarsonar.
    Ég held að það sé ekki að ófyrirsynju að hér er talað um bruðl. Ég held að það sé alls ekki að

ófyrirsynju þó að reyndur starfsmaður úr Stjórnarráðinu átelji það harðlega, að vísu með bæði hvössum og hörðum orðum, að með því að stefna að því að setja á laggir umhverfisráðuneyti sé verið að auka útgjöld ríkisins að óþörfu. Reynsla annarra þjóða sýnir okkur að útgjöld vaxa með nýju ráðuneyti, ráðuneyti sem hefur óljósan tilgang, ráðuneyti sem hefur tilburði eða tilhneigingar til þess að þenja sig yfir stórt svið, ráðuneyti sem meiningin er að fái undir sína yfirstjórn margvíslegar stofnanir Stjórnarráðsins, og eins og reynslan hefur orðið hjá öðrum hefur það tilhneigingu til að þenjast út.
    Ég tel að þessi viðvörunarorð og þessi hörðu ádeiluorð dr. Gunnlaugs Þórðarsonar séu ekki að ófyrirsynju þótt deila megi um hversu hvasslega á að taka til orða sem hann vissulega gerir í sinni grein.
    Ég held að það sé kannski rétt að greina frá því að þegar er hæstv. ríkisstjórn og þeir sem kannski hugsa sér að taka við þessu ráðuneyti farnir að bollaleggja um ný útgjöld á vegum þess. Á fundi fjvn. í morgun kom sendimaður hæstv. hagstofuráðherra. Þar var maður á ferð sem er einn af hinum allra bestu starfsmönnum íslenska ríkisins sem ég þekki. Grandvar maður, glöggur og traustur. Enginn skal láta sér detta það í hug að ég ætli að fara að kasta hér einhverjum steinum að þeim mæta og hæfa manni. Hann kom hins vegar vitaskuld sem sendimaður síns ráðherra, sem einn af starfsmönnum Hagstofu Íslands. Það kemur sem sé í ljós að gerðar eru tillögur um að veitt verði fé til svokallaðs norræns umhverfisárs sem á að hefjast þann 5. júní 1990 og standa fram á sumar 1991, með samstarfi Norðurlandaþjóðanna. Þar kemur einnig í ljós að óskað var eftir að veitt yrði fé til að unnt væri að taka þátt í svokölluðu norrænu fjármögnunarfélagi. Og þetta norræna fjármögnunarfélag á að annast mengunarvarnir í Austur-Evrópu. Byrjunarframlag til þessa fjármögnunarfélags á af hálfu okkar Íslendinga að vera 29 millj. kr., eins konar byrjunarframlag.
    Hér er verið að byrja á nýrri starfsemi. Hinn nýi hagstofuráðherra, sem ætlar sér ef Alþingi vill samþykkja að verða umhverfisráðherra, er þegar farinn að gera tillögur um það að við Íslendingar tökum þátt í norrænu fjármögnunarfélagi sem taki að sér að vinna að mengunarvörnum í Austur-Evrópu,
vitaskuld á þann máta að þar sé um að ræða mengunarvarnir sem komi Norðurlöndunum að einhverju leyti til góða. Hæstv. hagstofuráðherra er þegar farinn að gera tillögur um að Íslendingar taki þátt í stóru fjármögnunarfyrirtæki sem á að gæta þess að ekki verði mengunarslys á borð við Tsjernóbíl-slysið, og að stöðva þá miklu mengun sem er í ánum sem renna í Eystrasaltið, pólsku ánum, sovésku ánum og austur-þýsku, sem vissulega er stóralvarlegt mál og er að eyða lífi Eystrasaltsins. Þetta er byrjunin á því að gera því skóna að Íslendingar taki að hluta til að sér þessar mengunarvarnir í Austur-Evrópu áður en Alþingi hefur á nokkurn máta samþykkt að umhverfisráðuneyti verði stofnað og áður en 1. umr. um þetta frv. er hálfnuð.

    Hæstv. hagstofuráðherra er vafalaust stórhuga maður, enda hefur hann lýst sjálfum sér sem hugsjónamanni, og ég á von á því að hugsjónir hans, ef þær verða eitthvað í líkingu við þetta, muni verða ærið kostnaðarsamar fyrir íslenska þjóð.
    Ég er ekki vanur að koma hér með vinnugögn úr fjvn. en ég taldi rétt að koma með þessar upplýsingar hingað því þær eru merkilegt innlegg í þessa umræðu.
    Eitthvað hafði heyrst um það að hæstv. ríkisstjórn teldi að nú væri sú tíð að það þyrfti að gæta aðhalds og sparnaðar í fjármálum ríkisins. Og víst er það að þegar núv. hæstv. fjmrh. tók við sínu starfi setti hann sér það markmið að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs og lýsti því markmiði sínu með býsna fjálglegum orðum, kannski nokkru steigurlæti en eigi að síður með fjálgum orðum og sterkum yfirlýsingum, þegar hann mælti fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1989. Þetta markmið fór auðvitað út í veður og vind vegna þess að hann réði ekki við þetta verkefni, sumpart vitaskuld vegna þess að hæstv. ríkisstjórn vill ekki beita aðhaldi eða sparnaði í fjármálum ríkisins nema í orði, hún vill beita eyðslu og sóun á borði. Einn þáttur þess er það frv. sem hér er á ferðinni. Fjölgun ráðuneyta í Stjórnarráðinu, nýtt ráðuneyti sem á að hlaða um sig bákni og auka kostnað, m.a.s. að teygja sig til Austur-Evrópu með starfsemi sína.
    Hæstv. fjmrh., sem er hér ekki viðstaddur, má sín auðvitað lítils við það að ná saman endum í fjármálum ríkisins undir slíkum markmiðum og ef hann ekki sjálfur nær því þá að stöðva slíkar fyrirætlanir. Það er því alls ekki að ófyrirsynju þó að einn af reyndum starfsmönnum Stjórnarráðsins skrifi grein, sem ég vitnaði hér til áðan og áður hafði verið vitnað til annarra atriða úr, dr. Gunnlaugur Þórðarson, og bendi á hvað hér er á ferðinni.
    Ég vil gjarnan vitna hér í aðra grein sem birtist í Morgunblaðinu 18. nóv. sl., og rituð er af ráðuneytisstjóranum í landbrn., Sveinbirni Dagfinnssyni, og ber yfirskriftina ,,Lífbeltin tvö og umhverfismál``. Ég skal ekki lesa mikið úr þessari grein, en ég hvet þá sem heyra orð mín eða kynnu að sjá þau eftir að þau eru komin á þrykk að kynna sér þessa grein sem rituð er af hófsemi, yfirvegun og þekkingu. Sveinbjörn Dagfinnsson vitnar m.a. til frægra orða Kristjáns heitins Eldjárns, forseta Íslands, þar sem hann talaði um lífbeltin tvö í eftirminnilegu ávarpi á nýársdag 1972. Í grein Sveinbjörns Dagfinnssonar er haft eftir Kristjáni heitnum Eldjárn, fyrrv. forseta Íslands, svo, með leyfi forseta:
    ,,Bersýnilegt er að fyrr en varir verður það talin ein af frumskyldum allra þjóða að taka virkan þátt í að friða, rækta og vernda land og sjó, vernda náttúruna, um leið og þær nytja hana og lifa á henni. Það má með sanni tala um lífbeltin tvö, grónu ræmuna, eða beltið upp frá ströndinni, og sjóræmuna með ströndum fram.`` Enn segir: ,,Sumir óttast að hugmyndir um gróðurvernd séu hættulegar fornum atvinnuvegum. En þau ráð er hægt að finna með nútímaþekkingu og tækni og raunar blasir alls staðar þetta sama við, að samræma nýtingu og vernd. Um þetta ættu allir að

geta verið sammála.``
    Enn kemur fram þetta sama meginsjónarmið, að samræma nýtingu og vernd ef vel á að fara.
    Fyrrverandi forseti Íslands, Kristján Eldjárn, er fyrri til en Gro Harlem Brundtland að setja þessi orð á blað. Og við getum verið stoltir af því Íslendingar að það skyldi vera forseti okkar, sem þjóðinni var kær, sem vakti athygli á því að þetta meginsjónarmið verður að virða ef vel á að fara. Enn bætist maður í hópinn sem hefur þau meginsjónarmið sem eru gersamlega andvíg því frv. sem hér liggur fyrir. Ég ætla ekki að fyrrv. forseti Íslands, Kristján Eldjárn, hafi verið í hópi þeirra sem hæstv. forsrh. kallaði hér í köpuryrðum sínum áðan íhaldsmenn. ( Forsrh.: Ég held að hv. ræðumaður ætti ekki að vera að bera sjálfan sig saman við Kristján Eldjárn.) Hæstv. forsrh. ætti að fylgjast með máli mínu ( Forsrh.: Ég er að því.) og hlusta á það sem ég segi, en það hefur hann sýnilega ekki gert ef hann er að halda því fram að ég sé á einhvern máta að bera mig saman við Kristján Eldjárn. Það er rangt. Á hinn bóginn eru meginsjónarmið sem fram koma í þessu fræga nýársávarpi Kristjáns Eldjárns hin sömu og hjá þeirri nefnd sem Sameinuðu þjóðirnar skipuðu og starfaði undir forustu Gro Harlem Brundtland. Þetta sjónarmið höfum við sjálfstæðismenn tekið upp. Og þetta er það meginsjónarmið sem gengur sem
rauður þráður í gegnum allar þær umsagnir sem hér hefur verið vitnað til, bæði af mér og öðrum varðandi frv. sem fyrir liggur.
    Því segi ég enn: Sá grundvöllur sem hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn standa á í þessum málatilbúnaði sínum er hæpinn, hann er veikur og hann er rangur. Og eins og Sigurður Blöndal sagði í sinni umsögn: Þetta meginsjónarmið má ekki rjúfa ef ekki á illa að fara. Og það væri glapræði að taka þær stofnanir sem annast verndun og ræktun náttúruauðlinda á landi hér undan því ráðuneyti sem fer með yfirstjórn landnýtingar.
    Í hinni ágætu grein Sveinbjörns Dagfinnssonar í Morgunblaðinu 18. nóv. er rakið hvernig stjórnvöld, þ.e. landbrn. og stofnanir á vegum þess ásamt bændum og samtökum bænda, hafa unnið að gróðurbótum og verndun lands á undanförnum árum og hversu mjög aukinn skilningur er á milli aðila um þessi efni. Það er samdóma álit Sveinbjörns Dagfinnssonar og Sigurðar Blöndals að ef þetta samstarf væri rofið væri hætta á að stríðsástand skapaðist. Eftir að slíkt umhverfisráðuneyti hefði tekið að sér þessi málefni og starfað í einhver ár væri ekki vafamál að það þyrfti að skipa á Íslandi nýja nefnd, eins konar Brundtland-nefnd til þess að stoppa upp í götin og reyna að greiða úr þeim mistökum sem gerð hefðu verið undir slíkum kringumstæðum.
    Sveinbjörn Dagfinnsson leggur áherslu á fræðslu og það gerði hann einnig í umsögn landbrn. til þeirrar nefndar hæstv. forsrh. sem stýrt er af Jóni Sveinssyni. Og hann leggur áherslu á að mál þurfi að vinnast með samstarfi en ekki beinum tilskipunum. Ég held að ástæða sé til þess að lesa hér eina málsgrein sem

sýnir nokkurn hluta af þessu sem hér kemur fram, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir Sveinbjörn Dagfinnsson svo:
    ,,Það tekur tíma að breyta aldagömlum venjum þjóðar án átaka og yrði vart talinn góður kostur að valda illdeilum og ófriði meðal manna fyrir það að friða land. Landgræðsla ríkisins hefur í gróðurverndar- og uppgræðslustarfi náð góðum árangri og miklir áfangar eru í sjónmáli. Mjög hefur hjálpað í þessu starfi að stofnunin hefur sterk tengsl við landbúnaðinn og bændur landsins almennt. Þann trúnað væri óráð að rjúfa nú.``
    Ég gæti lesið margt fleira um þessi mál, en það hnígur allt í sömu átt. Það hnígur allt í þá átt að við þurfum að starfa áfram að fræðslu um þessi mál án öfga. Við þurfum að stuðla að samstarfi þeirra aðila sem mesta reynslu hafa í verndun og nýtingu og við þurfum að efla þá þætti í starfi landbrn., að því er lýtur að landbúnaðinum, samstarfi við þær stofnanir sem undir ráðuneytið heyra og við samtök bænda og bændur landsins almennt. Þetta samstarf fer sívaxandi og það er í sífellu að skila meiri árangri.
    Ég held að enn sé ástæða til þess að vekja á því athygli að um leið og það frv. sem hér liggur fyrir leggur til að rofin sé yfirstjórn að því er varðar hagnýtingu annars vegar, eftirlit og verndun hins vegar, á náttúruauðlindum landsins er þetta sjónarmið ekki ráðandi varðandi frv. að því er varðar hagnýtingu auðlinda hafsins. Það er vel. En það er þó ekkert samræmi og ætti að sjálfsögðu að láta þá reglu gilda, sem hér gildir um auðlindir hafsins, einnig um auðlindir landsins.
    Nú er svo komið í Noregi að þrátt fyrir þann mikla mannafla sem dreginn hefur verið þar að umhverfisráðuneytinu og undirstofnunum þess, sem ég sagði hér áðan að væri á þriðja þúsund manns, þá hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að umhverfismálum sé einnig sinnt af öðrum ráðuneytum og öðrum aðilum en umhverfisráðuneytinu. Á þessu ári eru, skv. fjárlögum norska ríkisins, greidd framlög til 16 ráðuneyta í þágu umhverfismála auk umhverfisráðuneytisins. Heildarfjárveiting í Noregi til þessara mála er nú um 6,5 milljarðar norskra kr. En af þeirri tölu greiðast þó ekki nema 1,7 milljarðar norskra kr. til umhverfisráðuneytisins. Yfirgnæfandi meiri hluti fjárveitinga norska ríkisins til umhverfismála fer um hendur annarra ráðuneyta. Þrátt fyrir það sem hér hefur verið kallaður óskapnaður í umsögnum ýmissa aðila, hversu umhverfisráðuneyti í Noregi og Danmörku og sumum öðrum löndum hafa þanist út, þá sést að þessi ráðuneyti valda ekki verkefni sínu og ná ekki út yfir sviðið þannig að þau eyða auðvitað bróðurpartinum af því fé sem til þeirra rennur í það að viðhalda sjálfum sér, þ.e. þeim mannafla sem í þeim starfar, en stærsti hlutinn af því fé sem gengur til þessa málaflokks, umhverfismála í Noregi, fer um hendur annarra ráðuneyta. Þetta þætti nú hæstv. hagstofuráðherra líklega ekki góð vísindi. Hann mundi kjósa, ef hann væri nú orðinn umhverfisráðherra á

Íslandi, að allt þetta fé færi um hans eigin hendur. Þá mundi honum væntanlega líða vel eftir því sem maður hefur heyrt sagt frá ræðuhöldum þessa hæstv. ráðherra með ýmsum hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu. En ég endurtek að í Noregi ganga 6,5 milljarðar norskra kr. til umhverfismála, þar af þó einungis 1,7 milljarðar til umhverfisráðuneytisins.
    Ég skal, herra forseti, víkja að því frv. sem hér liggur fyrir. Ég sagði í upphafi máls míns að það væri ekki mikið að vöxtum, það er tvær lagagreinar, önnur er ein lína en hin hálf. Síðan er ákvæði til bráðabirgða. Ég skal ekki
fara yfir þetta frv. í öllum atriðum. Það hefur verið gert hér í ýmsum
greinum. Ég vil þó segja að það hefur auðvitað valdið mjög sterkri andstöðu í þjóðfélaginu og hörðum mótmælum svo sem fram hefur komið í þeim umsögnum sem hér hefur verið vitnað til, hvernig á að leika ýmsar stofnanir Stjórnarráðsins, kljúfa þær sundur ellegar taka í heilu lagi og færa yfir til umhverfisráðuneytis, ýmist til óþurftar eða, að því er séð verður, í tilgangsleysi og hefur þá ekki annað í för með sér, ef um tilgangsleysi er að ræða, en að auka kostnað.
    En áður en þetta frv. var lagt fram bárust af því fréttir að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hefði flutt ræðu á kjördæmisþingi framsóknarmanna á Suðurlandi. Þar lýsti hann því yfir skýrt og skorinort að tvær af stofnunum landbúnaðarins sem fram til þess tíma hafði verið ætlað að fella undir umhverfisráðuneytið yrðu áfram undir landbrn., þ.e. bæði Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins. Hann lýsti því þar skorinort og skýrt yfir að þessar stofnanir yrðu áfram undir umsjá landbrn. Og kjördæmisþing framsóknarmanna á Suðurlandi gerði ályktun þar sem því var lýst yfir að þetta væri stefna framsóknarmanna á Suðurlandi og það þurfti ekki að efast um að mælt væri af heilum hug. Ég hlýt að segja það hér að ég gladdist að heyra þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. og ég hygg að það hafi verið allmargir í þjóðfélaginu sem vörpuðu öndinni léttara að hann skyldi nú átta sig á því að það var glapræði, eins og Sigurður Blöndal segir, að taka þessar stofnanir undan landbrn., kljúfa þær í herðar niður og færa þær að meginhluta undir umhverfisráðuneyti. Ég varp öndinni léttara satt að segja og það gerðu fjölmargir aðrir landsmenn. Og ég var tilbúinn að standa hér upp á Alþingi til þess að færa hæstv. forsrh. þakkir fyrir það að hann skyldi á þennan hátt skipta um skoðun.
    En tveimur eða þremur dögum seinna var þetta frv. lagt fram hér á hinu háa Alþingi. Þá kom í ljós að hæstv. ráðherra hafði sagt ósatt á kjördæmisþingi Framsfl. á Suðurlandi, ellegar að hann hefði aftur skipt um skoðun á tveimur eða þremur dögum eftir að hann gaf sína yfirlýsingu meðal flokksbræðra sinna á Suðurlandi og þangað til frv. var prentað og því útbýtt hér á hinu háa Alþingi. Ég veit ekki hvort heldur er, en mér er sama hvort er. Frv. sýnir sig. Í þessu frv. segir m.a. að við endurskoðun laga um landgræðslu og skógrækt skuli eftirtalin málefni verða á verksviði

umhverfisráðuneytis:
    1. Gróðureftirlit og gróðurrannsóknir.
    2. Gróðurvernd, þar á meðal hvers konar varnir gegn gróðureyðingu án þess að búist verði við að á móti komi arður eða efnahagslegar nytjar.
    Á verksviði landbrn. verði eftirtalin málefni:
    1. Ræktun ógróins eða lítt gróins lands með það í huga að fá af því beinar nytjar, t.d. að rækta beitilönd og tún.
    2. Breytingar á landi til að bæta gróðurfar þess í atvinnuskyni og renna þannig fleiri stoðum undir landbúnaðinn, t.d. með ræktun nytjaskóga.
    Þetta segir í athugasemdum með frv. Enn segir í frv. til l. um breytingu á lögum um náttúruvernd, um Siglingastofnun o.s.frv.:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði laga um landgræðslu, nr. 17 24. apríl 1965, og laga um skógrækt, nr. 3 6. mars 1955, með síðari breytingum, getur umhverfisráðherra að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs fyrirskipað sérstakar friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar skv. 4. og 5. mgr.``
    Í þessum þingskjölum er það alveg ljóst að meginhluti af allri starfsemi Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins fer skv. þessu undir umhverfismálaráðuneyti þvert ofan í orð hæstv. forsrh. með flokksbræðrum sínum á Suðurlandi. Það segir að á verksviði landbrn. verði ræktun ógróins eða lítt gróins lands, t.d. að rækta beitilönd og tún. Ræktun túna og hagarækt hefur aldrei verið á verksviði Landgræðslu ríkisins utan það sem Landgræðslan hefur ræktað tún heima hjá sér í Gunnarsholti. Þannig að þessar setningar gefa til kynna að Landgræðslan fari í heild undir umhverfisráðuneytið. Sömu sögu er í raun að segja um Skógræktina þó að það sé gefið í skyn að skógrækt, það sem í lögum er kallað nytjaskógar á bújörðum, verði áfram hjá landbrn. Með þessum hætti eru þessar stofnanir færðar að meginhluta til yfir til umhverfisráðuneytis en að miklu leyti klofnar í herðar niður. Ég veit ekki hvort heldur er hjá hæstv. forsrh. að tilhneiging hans til að tala á hverjum stað það sem þeir sem þar eru vilja heyra er svo rík að hann gerir sér ekki grein fyrir því hvað stendur í lagafrv. sem hann sjálfur flytur, ellegar það að hann skiptir svo ört um skoðun að það tekur ekki nema 2--3 daga frá því að hann er á kjördæmisþingi með framsóknarmönnum á Suðurlandi og þangað til hann flytur frv. hér á Alþingi að skoðun hans hefur snúist við. Ég veit ekki hvort heldur er. En hvort tveggja er jafnaumkunarvert. Ég segi, það er aumkunarvert að þannig skuli ástatt með forsrh. landsins, hvað þá um hinar veigameiri ákvarðanir þegar svo er um mál eins og þessi, sem sannarlega eru þó veigamikil.
    Ég held það hljóti að vera að þeim mönnum sem sóttu kjördæmisþing Framsfl. á Suðurlandi hafi brugðið í brún þegar þeir komust að hinu sanna. Og ég held að það hljóti að vera að þeim mætu mönnum sem þar hafa setið á þingi með hæstv. forsrh. verði hugsað til orða manna eins og Sigurðar Blöndals, Sveins Runólfssonar, Jónasar Jónssonar

búnaðarmálastjóra og Sveinbjarnar
Dagfinnssonar, ráðuneytisstjóra í landbrn., og annarra þeirra sem vara sterklega við og lýsa andstöðu sinni við þessa meðferð mála. Andstöðu sem byggist á meginreglu sem á sér stoð í ítarlegu alþjóðlegu samstarfi um stefnumótun. Ofan í allt þetta kemur svo þessi hæstv. forsrh., ofan í sínar eigin yfirlýsingar tveimur eða þremur dögum áður en frv. er flutt og flytur þetta frv. hér þvert ofan í yfirlýsingar allra þessara manna, gegn reynslu, þekkingu um áratuga skeið hjá þeim mönnum sem best hafa unnið að þessum málum fyrir íslenska þjóð. Hæstv. ráðherra kemur svo hér og situr hér og hristir hausinn ( Forsrh.: Já, það er ekki hægt annað.) og gerir lítið úr þeim mönnum sem að þessum málum hafa starfað á undanförnum árum og áratugum og kallar þá íhaldsmenn. ( Forsrh.: Nei, ég er ekki að líkja hv. þm. ...) Í mínum augum er orðið íhaldsmaður ekki skammaryrði, en ég þykist vita að það hafi verið köpuryrði eða hæðiyrði í munni hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar. ( Forsrh.: Sumir eru ágætir íhaldsmenn en aðrir ekki.) Og hæstv. forsrh. sem hér er nú að gera tilraun til að hefja við mig samtal til þess að reyna að sleikja úr orðum sínum hér fyrr undir minni ræðu bregður vitaskuld ekki þeim háttum sínum að tala í hvert sinn svo sem hann heldur að hver vilji heyra. Það er ömurleg niðurstaða með þennan mæta mann sem nú gegnir þessu starfi að hann skuli hafa fallið í þessa gryfju að láta það ganga fyrir öðru að haga svo málum eins og hér hefur verið lýst. ( Forsrh. : Mætur maður ... Ég átti ekki von á að heyra það.)
    Ég er alveg tilbúinn að segja það að ég hef haft þekkileg kynni af hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni. Ég hef átt við hann samstarf og hann er lipurlegur maður í umgengni og persónulegum samskiptum. En það sem hér hefur verið rakið um yfirlýsingu hans á kjördæmisþingi sinna flokksmanna örfáum dögum áður en þetta frv. er flutt, þar sem hann lýsir því yfir skýrt og skorinort að þær stofnanir landbúnaðarins, Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins, verði áfram undir yfirstjórn landbrn. og flytja svo tveimur eða þremur dögum seinna, frv. sem sannar hið gagnstæða, það er ómerkilegt. ( Forsrh.: Var hv. þm. þarna?) Nei, ég var þar ekki. En ég á ekki von á því að þeir fréttamenn sem fluttu fregnir af þessu kjördæmisþingi, þar á meðal lásu gallharðar yfirlýsingar og ályktanir flokksþingsins, hafi farið með rangt mál. Kannski kemur hæstv. ráðherra hér í ræðustólinn á eftir og segir að fréttir fjölmiðla hafi verið rangar. Ekki skal ég um það segja, hvernig hann hyggst smeygja sér út úr þessu máli. En hitt skiptir þó enn meira máli, hvernig að þessu máli öllu er staðið, fyrst í undirbúningi þar sem kvaddir eru til reynslulitlir menn, pólitískir menn án atbeina fulltrúa stjórnarandstöðunnar, án atbeina þeirra sem hafa reynslu af starfsemi Stjórnarráðsins, reynslu af starfsemi íslenska stjórnkerfisins og reynslu í þeim málaflokkum sem um er fjallað og ganga þar þvert á meginsjónarmið sem viðurkennd eru, ekki einungis í

örfáum löndum hér í nágrenni við okkur, heldur af aðilum sem starfað hafa á vegum Sameinuðu þjóðanna. Gegn þessum sjónarmiðum gengur hæstv. forsrh. og hæstv. hagstofuráðherra og íslenska ríkisstjórnin. ( Hagstofuráðherra: Hefur þm. lesið skýrsluna? Veit hann hvað hún heitir?) Ég hef lesið ýmislegt úr skýrslunni. ( Hagstofuráðherra: Það seldust ekki nema þrjár bækur hérna á Íslandi.) Það er nóg. Það þarf ekki fleiri til þess að komast yfir þessa skýrslu. En sjálfsagt eru þær ekki fleiri en það að hæstv. hagstofuráðherra hefur ekki lesið og sennilega ekki heyrt um það.
    Ég hefði svo sem gjarnan viljað minnast hér á fleiri atriði þó að ég hafi komið að þeim meginmálum sem mér þykja máli skipta við þennan hluta í fyrstu umræðu um málið. Vel má vera að ástæða verði til síðar í þessari umræðu og við síðari umræður málsins. Ég get t.d. tekið undir það sem fram kom afar glöggt hjá hv. þm. Inga Birni Albertssyni að það er harla einkennilegt, sem þeir aðilar sem reynslu hafa af málum hafa auðvitað lýst andstöðu við, að flytja heilbrigðiseftirlit, t.d. matvælaeftirlit, undir yfirstjórn einhvers umhverfisráðuneytis. Og það er harla einkennilegt að flytja Veðurstofu Íslands undir umhverfisráðuneyti. Forstöðumaður þeirrar stofnunar lýsti andstöðu við þá ráðstöfun, bæði á fundi þar sem ég var staddur með honum í dag og það kom glöggt fram í þeim umsögnum sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson vitnaði til hér áðan. Svo að ég nefni fleiri atriði í sambandi við landbúnaðinn, þá er það harla einkennilegt að taka t.d. embætti veiðistjóra og setja það undir umhverfisráðuneyti. Embætti veiðistjóra hefur með höndum að halda dýrum í skefjum sem vinna ella tjón á starfsemi er varðar atvinnurekstur landsmanna í landbúnaðinum, ekki einungis ref og mink heldur einnig vargfugli. Þetta varðar veiði, búfénað og aðra þætti í náttúrufari sem beint kemur við þessum atvinnuvegi landsmanna og á þess vegna skilyrðislaust að heyra undir það ráðuneyti sem fer með málefni atvinnuvegarins. Og það kemur hér alveg eins og skollinn úr sauðarleggnum eins og ýmislegt fleira í þessum málum að fara að troða þessu embætti og þessari starfsemi undir eitthvert umhverfisráðuneyti.
    Ég held að það sé ástæða fyrir hæstv. ráðherra að hugsa aðeins sitt ráð. Ég er þó vonlítill um að það beri einhvern árangur að hann hugsi sitt ráð í þessum efnum. Það er annað en eðlilegar starfsaðferðir sem ráða þar ríkjum og
það er annað en skynsamleg markmið og skynsamleg sjónarmið sem ráða ríkjum hjá hæstv. forsrh. Það er allt annað. Það eru pólitísk markmið, það eru þau markmið að halda ríkisstjórn við völd, veikri ríkisstjórn, sundurlausri
ríkisstjórn sem hæstv. ráðherra er í forsvari fyrir. Breytingar á Stjórnarráði Íslands eiga ekki að mótast af slíkum markmiðum. Breytingar á Stjórnarráði Íslands eru ópólitískar í sjálfu sér og eiga ekki að hafa stundarpólitísk markmið að leiðarljósi. Það er í raun óhæfa að standa á þann veg að málum og gersamlega í andstöðu við það sem áður hefur verið

gert. Ég nefndi hér áður tvo af fyrri forustumönnum þjóðarinnar og raunar þrjá, Bjarna heitinn Benediktsson, Ólaf Jóhannesson og Hermann Jónasson sem allir voru forsætisráðherrar þessarar þjóðar og fóru að með allt öðrum hætti en sá sem nú gegnir þessu embætti.
    Ég skal stytta mál mitt, hæstv. forseti, þó mér sé enn mikið í hug um þetta mál. Ég held að ekki verði hjá því komist að þessi mál verði rædd allítarlega, ekki einungis í dag heldur fleiri daga hér á hinu háa Alþingi ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að leitast við að troða þessu máli í gegnum Alþingi nú fyrir jól. Og ég held að það sé ástæða fyrir þá sem mundu eiga undir högg að sækja eftir að þetta frv. væri orðið að lögum að snúast til varnar með enn skipulegri og ríkulegri hætti en gert hefur verið þó vasklega sé að verki staðið hjá þeim ýmsum. Þetta er slíkt óþurftarmál að það þarf án efa að grípa til þeirra ráða, þeirra röksemda sem tiltækar eru í þessu máli til þess að koma í veg fyrir að það verði samþykkt. Ég hlýt að skora á ýmsa af þeim sem kallast vera stjórnarsinnar hér á Alþingi, að þeir skoði hug sinn áður en þeir ganga í það óþurftarverk með hæstv. forsrh. og hæstv. hagstofuráðherra að samþykkja þetta frv. Ég beini máli mínu til þeirra, þótt þeir séu ekki hér viðstaddir í salnum, að þeir athugi vel sinn gang því það mun verða tekið eftir hver afstaða þeirra verður.
    Ég ætla svo að ljúka máli mínu með því að vitna til þess, sem ég gerði í upphafi, að stefnumál okkar sjálfstæðismanna eru þau að við viljum auka starfsemi á sviði umhverfismála. Við viljum gæta enn betur en verið hefur að verndun og eftirliti með náttúruauðlindum landsins, bæði á landi og í sjó. Við viljum kosta kapps um að koma í veg fyrir mengun og þar er okkur allra nauðsynlegast að gæta að hafinu í kringum landið og á nálægum hafsvæðum þar sem við eigum meira undir og meira í húfi en nokkur önnur þjóð hér á norðurslóð. En við viljum ekki gera það með því að setja á laggir nýtt ráðuneyti af þessum toga. Við viljum gera það með því að ein stjórnarráðsdeild annist samræmingu á starfi þeirra ráðuneyta ýmissa og þeirra félagasamtaka og einstaklinga sem að þessum málum vinna. Við viljum fara að í samræmi við þá meginreglu sem mótuð hefur verið á alþjóðavettvangi góðu heilli og við teljum að á þann veg einn megi meðferð þessara mála vera í farsælum farvegi. Nái sú stefna fram að ganga sem hæstv. ríkisstjórn er hér að beita sér fyrir, er að líkum, eins og fram kemur í sumum umsögnum þeirra mætu manna sem hér hefur verið vitnað til, verið að efna til ófriðar, óeindrægni og skaða í þessum málum. Glapræði, segir Sigurður Blöndal. Á þann hátt skulum við ekki standa að verki, heldur fara með friði en ekki ófriði.