Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu um þessi mál þó að þau séu stór og viðamikil og miklu máli skipti hvernig til tekst. Það hefur verið talin pþlitísk nauðsyn á að setja á stofn umhverfisráðuneyti og það af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi að það sé önnur staða hjá íslenskri ríkisstjórn að sá maður sem fer með slík mál í samskiptum erlendis sé ráðherra, umhverfisráðherra. Auðvitað má deila um þetta eins og annað. En það er ekki þar með sagt að hann geti ekki haft fleiri ráðuneyti en þetta eina ráðuneyti, enda mun svo verða.
    Í öðru lagi hefur verið talin og er pólitísk nauðsyn að halda þessu máli fram vegna þess samkomulags sem varð þegar mynduð var síðari ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. En þó ég segi þetta, þá er margt hér eða töluvert sem ég hef athugasemdir við.
    Hér er ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. sem er hér til umræðu. Þau eru að vísu tvö og hafa aðrir rætt það þannig. Það er frv. til l. um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og frv. til l. um breytingu á lögum um náttúruvernd o.s.frv. Það sem ég nem staðar við eru fyrst og fremst ákvæðin til bráðabirgða. Með leyfi forseta stendur hér:
    ,,Eftir gildistöku laga þessara skipar umhverfisráðherra nefnd til þess að semja frv. til l. um umhverfisvernd.``
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hagstofuráðherra, að því hvort þetta verði embættismannanefnd eða hvort þetta verði pólitísk nefnd þannig að það sé hægt að reyna að hafa áhrif á það hvernig þessi lög verða. Enn fremur er sagt í 2. tölul. ákvæða til bráðabirgða:
    ,,Fyrir 1. nóvember 1990 skal umhverfisráðherra í samráði við viðkomandi ráðuneyti beita sér fyrir endurskoðun á lögum um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986, Landgræðslu ríkisins, nr. 17/1965, og Skógrækt ríkisins, nr. 3/1955, með síðari breytingum, svo og öðrum lögum og reglum sem tengjast verksviði umhverfisráðuneytis.``
    Það er auðvitað mjög mikið mál hvernig frá þessu verður gengið. Í umræðum sem urðu um þetta málefni utan dagskrár hér á dögunum spurði ég hæstv. ráðherra, vegna þess að samtök sem ég er fulltrúi hér fyrir gerðu miklar athugasemdir við vissa liði þessa umhverfismálafrv., sérstaklega í sambandi við náttúruvernd, landgræðslu og skógrækt, ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort ekki væri rétt skilið hjá mér að það væri aðeins eftirlitsþátturinn sem heyrði undir umhverfismálaráðuneyti, hitt allt mundi heyra undir landbrn. Okkar stefna hefur verið sú og ég hef skilið ráðherrann þannig að hann vildi skoða það að það yrðu náttúruverndar- eða umhverfismálanefndir úti í kjördæmunum og það væri fyrst og fremst þeirra mál og landbrn. að fylgjast með þessum málum, eftir verði aðeins eftirlitsþátturinn. Þetta er aðalatriði í mínum huga.
    En þá rekur maður sig á annað í frv. til l. um breytingu á lögum um náttúruvernd o.s.frv. Þá stendur hér í 1. gr., þ.e. síðasta mgr., með leyfi forseta:

    ,,Þrátt fyrir ákvæði laga um landgræðslu, nr. 17 24. apríl 1965, og laga um skógrækt nr. 3 6. mars 1955, með síðari breytingum, getur umhverfisráðherra að fengum tillögum Náttúruverndarráðs fyrirskipað sérstakar friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar skv. 4. og 5. mgr.``
    Hér er um verulega breytingu að ræða miðað við það sem við höfum talað um og fulltrúi okkar, dr. Bjarni Guðleifsson, taldi sig hafa fengið þegar hann ákvað að samþykkja að Landgræðslan og Skógræktin væru undir eftirliti umhverfisráðuneytisins og að standa að því að þetta frv. yrði lögfest. Það væri hægt að lesa upp úr greinargerðinni máli mínu til staðfestingar þar sem er bókað eftir Bjarna Guðleifssyni, en það ætla ég ekki að gera. Ég vil eindregið óska eftir að hæstv. hagstofuráðherra svari þessum spurningum.
    Eitt er það líka sem er svolítið undarlegt og ég hef tekið undir með síðasta hv. ræðumanni. Það er að þarna eigi að færa yfirstjórn mála er falla undir lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81 23. ágúst 1988, frá heilbr.- og trmrn. til umhverfisráðuneytis. Ég skil eiginlega ekki þessa breytingu, ég bara skil hana ekki. Og ég vil einnig fá tækifæri til að ræða um þetta efni við ráðherrann.
    Sem sagt, ég ætla að láta þetta nægja til að tefja ekki þetta mál. En ég óska eindregið eftir því að það komi fram hjá hæstv. hagstofuráðherra hér á eftir hvort minn skilningur sé ekki réttur á þessum atriðum. Og þegar verður farið að fjalla um að semja þessi frumvörp, bæði frv. til laga um umhverfisvernd og þau sem ég talaði um og eru nefnd hér í ákvæðum til bráðabirgða, hvort það verði ekki hægt að koma að því á einhvern hátt til þess að reyna að hafa áhrif á það hvernig þessi lög verða úr garði gerð.