Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands. Þetta frv. er tiltölulega einfalt. Það felst eingöngu í því að bæta einu ráðuneytinu við með því að setja inn í 1. mgr. 4. gr. á eftir orðinu ,,sjávarútvegsráðuneyti``: umhverfisráðuneyti. Það má því segja að þetta frv. láti lítið yfir sér og menn gætu haldið að það þyrfti ekki langar umræður um svo einfalt mál sem þetta. En þegar skyggnst er á bak við tjöldin, aðdragandi málsins skoðaður, kemur í ljós að þetta er mál sem auðvitað þarf að ræða rækilega hér á hinu háa Alþingi og mun ég taka þátt í þeim umræðum þótt ég hafi ekki hugsað mér að flytja hér mjög langt mál.
    Á undanförnum árum og áratugum hefur skilningur vaxið á umhverfisvernd og mengunarvörnum og ég held að óhætt sé að fullyrða að allir stjórnmálaflokkar sem hér starfa hafi fullan skilning á þýðingu þessa mikilvæga málaflokks. Á hinu háa Alþingi hafa oftsinnis farið fram umræður sem tengjast umhverfismálum og mengunarvörnum. Ég minni á það hér að á sínum tíma var rætt um ósonlagið og nú þegar hafa Íslendingar gerst aðilar að sáttmálum og bókunum er varða það mál en tildrögin voru þau að á vegum iðnrn. var á sínum tíma sett á laggirnar
nefnd til þess að kanna hvernig Íslendingar ættu að bregðast við því, sem öllum er ljóst orðið, að ósonhjúpurinn hefur verið að eyðast, a.m.k. á suðurhveli jarðar, jafnvel einnig að verulegu leyti yfir norðurhveli jarðar. Auðvitað liggur engin sönnun fyrir því af hverju þetta stafar en líkur benda til þess að ýmis efni sem mannkynið hefur tekið í sína þjónustu valdi því að ósonlagið eyðist. Ég fagna því að sjálfsögðu að íslenska ríkið hefur nú, með tilstuðlan Alþingis í formi þál., tekið af skarið fyrir Íslands hönd í þessu mjög svo veigamikla máli. Reyndar er það þannig að allt frá því snemma á síðasta áratug og jafnvel lengur hafa farið fram mælingar hér á landi á þykkt ósonlagsins. Úrvinnsla þeirra mælinga hefur ekki átt sér stað hér en Veðurstofan hefur haft samstarf við erlenda aðila, fyrst og fremst kanadíska. Þessi málaflokkur hefur verið ofarlega á baugi í Kanada og jafnframt í Bandaríkjunum en þar hafa umræður verið einna mestar um þetta og eins um annað atriði sem er kannski nátengt í umræðunni en það eru gróðurhúsaáhrifin svokölluð.
    Ég minni jafnframt á viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna og stjórnvalda varðandi hugmyndir sem uppi hafa verið um að stækka og breyta endurvinnslustöðinni í Dounreay. Íslensk stjórnvöld, þar á meðal hæstv. núv. ríkisstjórn, hafa brugðist hart við ákvörðunum um að stækka og endurreisa þá stöð. Sama gildir um fyrri ríkisstjórnir og ég minnist þess þegar ég starfaði í iðnrn. að hafa hitt að máli starfsbróður í breska iðnrn., Cecil Parkinson, og fært þetta í tal við hann. Lofaði hann á sínum tíma að koma þeim sjónarmiðum til skila til breskra stjórnvalda annarra. Ég minnti þá á frumkvæði

Íslendinga, þá einkum þáverandi samgrh. Matthíasar Bjarnasonar, sem í Cardiff stuðlaði að því að fá samþykkta tillögu um bann við því að úrgangsefni frá slíkum landstöðvum rynnu til sjávar. Fundurinn í Cardiff byggðist á svokölluðu Parísarsamkomulagi sem menn kannast við. Ýmislegt fleira
mætti tína til, svo sem endurvinnslu á ýmiss konar úrgangsefnum sem mikið hefur verið til umræðu, notkun á einnota umbúðum í okkar umbúðaþjóðfélagi og fleira í þeim dúr. Öll þessi mál hafa verið til umræðu hér á hinu háa Alþingi og ég held að engum blandist hugur um að það er mikill áhugi á þessum málum, vaxandi áhugi, þótt auðvitað megi ávallt gera betur.
    Fyrir þessu Alþingi, og reyndar einnig á síðasta þingi, var frv. sem sjálfstæðismenn hafa flutt og í því frv. koma fram hugmyndir sjálfstæðismanna um það hvernig eigi að samhæfa og mynda samstarfsgrundvöll fyrir þau málefni sem við teljum eðlilegt að um sé rætt þegar til samræmdra aðgerða þarf að grípa í umhverfisvernd og mengunarvörnum.
    Allt þetta rifja ég upp hér til þess að það blandist engum hugur um það að allir stjórnmálaflokkar, hvort sem þeir styðja að hér verði sett á laggirnar umhverfisráðuneyti eða stjórnkerfið bregðist öðruvísi við, allir þessir flokkar eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þess að við náum betri tökum á þessum málum en áður.
    Það sem skyggir hins vegar nokkuð á er að það frv. sem hér er til umræðu, og reyndar það frv. sem er næsta mál á dagskrá, er undirbúið í tengslum við mál allt, allt annars eðlis en það sem snertir umhverfismál og mengunarmál. Það er ljóst að frv. er lagt fram í miklum flýti, fyrst og fremst til þess að bjarga núverandi hæstv. ríkisstjórn sem, áður en Borgfl. kom til liðs við ríkisstjórnina, hafði ekki haldbæran meiri hluta á Alþingi.
    Það er raunar ákaflega merkilegt að rifja upp þá sögu þegar núv. hæstv. ríkisstjórn var að fara á fjörurnar við Borgfl., rifja það upp að til stóð að Alþfl. og Alþb. létu af hendi eitt ráðuneyti hvor flokkur, til þess að geta innlimað Borgfl. í núverandi stjórnarsamstarf. Það sýnir kannski heilindi þessara flokka að hvorugur flokkurinn vildi leggja neitt af mörkum. Alþb. neitaði að leggja til samgrn., sem lá þó beint við, og Alþfl. neitaði að
leggja til iðnrn. eða viðskrn. eins og farið hafði verið fram á. Hins vegar brást Framsfl. öðruvísi við, lét af hendi dómsmálin og síðan var annar af fulltrúum Borgfl., hæstv. ráðherra Júlíus Sólnes, dubbaður upp og gerður að hagstofuráðherra en það er nýmæli í íslenskri stjórnmálasögu að einn ráðherra fari með það ráðuneyti eitt.
    Ástæðan fyrir því að nú á að húrra þessu máli sem hér er til umræðu í gegnum þingið er auðvitað engin önnur en sú að þegar núv. ríkisstjórn var mynduð fyrr í haust var því lofað að hæstv. ráðherra Júlíus Sólnes fengi umhverfisráðuneyti. Og það lá svo mikið á að breyta heiti hæstv. ráðherra að því var lofað í þokkabót að nýtt umhverfismálaráðuneyti tæki til

starfa um næstu áramót, alveg burtséð frá því hvort undirbúningur málsins væri með eðlilegum hætti eða ekki.
    Það er þess vegna ljóst að þessi frv. sem hér er verið að ræða eru táknræn fyrir þá hugmynd hæstv. ríkisstjórnar að nauðsynlegt sé að hún haldi lífi, að nauðsynlegt sé að fresta kosningum eins lengi og hægt er. Í raun má segja að óttinn við kosningar haldi þessari ríkisstjórn saman og óttinn við kosningar hefur gert það að verkum að Borgfl. hefur gengið til liðs við þá stjórnarflokka sem sátu í fyrri ríkisstjórn hæstv. forsrh. sem hann myndaði fyrir rúmu ári síðan.
    Þetta þarf að koma fram, ítrekað og aftur, í þessum umræðum til þess að öllum sé ljóst að það er ekki áhugi á umhverfismálum sem slíkum sem er ástæðan fyrir því að þetta mál er hér til umræðu, heldur er fyrst og fremst verið að finna leið til þess að festa Borgfl. í sessi með þeim hætti sem talið er mannsæmandi fyrir slíkan flokk, þannig að hæstv. ráðherra Júlíus Sólnes þurfi ekki að sitja uppi með það að vera einungis hagstofuráðherra það sem eftir lifir af lífstímabili hæstv. ríkisstjórnar.
    Að áliti Sjálfstfl. hefði verið nær að taka fyrsta skrefið í þessum efnum með þeim hætti að samræma aðgerðir í umhverfismálum með því að setja upp stjórnardeild í einu af þeim ráðuneytum sem nú starfa og láta síðan tímann leiða í ljós hvort nýtt ráðuneyti sé heppilegt eða hvort áfram yrði haldið á þeirri braut að samhæfing og samstarf ætti sér stað í einu ráðuneyti en ábyrgðin yrði á vegum margra ráðuneyta. Slíkt hefði auðvitað verið miklu nærtækara ef menn hefðu viljað dreifa valdinu í þessum efnum og koma í veg fyrir miðstýringu. Fyrri ræðumenn hafa gert grein fyrir því hvers vegna Sjálfstfl. er á móti þessu frv. og hvers vegna hann kýs ekki að styðja þær miðstýringarhugmyndir sem koma fram í þessu frv. og því frv. sem er til umræðu næst á dagskránni.
    Það skiptir mjög miklu máli að átta sig á því að grundvöllur stefnu Sjálfstfl. er sá að hann telur að það þurfi að gæta þess að ábyrgðin á þessum málum sé sem allra víðast. Það er álit Sjálfstfl. að það sé óheppilegt, málefnisins vegna, að slíta ábyrgðina af umhverfisspjöllum frá þeirri starfsemi sem hugsanlega getur spillt umhverfinu. Við höfum sýnt fram á með ærnum rökum að erlendis þar sem umhverfisráðuneyti hafa verið sett á laggirnar hafi það orðið til þess að árekstrar hafi orðið á milli umhverfisráðuneytisins annars vegar og hins vegar annarra ráðuneyta sem hafa yfir ýmissi starfsemi að segja sem eðli máls samkvæmt getur mengað og spillt umhverfinu. Við sjálfstæðismenn teljum að það sé afar nauðsynlegt að ábyrgðin og starfsemin fari saman en skiljum það til hlítar að til þess að ná skjótvirkum árangri þegar á þarf að halda og til þess að móta framtíðarstefnu sé eðlilegt að slíkt gerist í einu af starfandi ráðuneytunum og þá séu til kallaðir þeir aðilar sem hafa með ábyrgð á starfseminni að gera í öðrum ráðuneytum.
    Það hefur verið rakið mjög rækilega í þessum umræðum að skilningur á þessu virðist vera mjög

mikill, t.d. hjá þeim sem sömdu Brundtland-skýrsluna, en þótt auðvitað megi deila um hvernig túlka eigi heildarniðurstöðu hennar er ljóst að í henni kemur fram það sjónarmið, og gengur í gegnum skýrsluna eins og rauður þráður, að efnahagsmál og umhverfismál megi aldrei aðskilja.
    Það er einmitt þessi grundvöllur sem er jafnframt grundvöllur stefnu Sjálfstfl., að þeir sem fara með efnahagsstarfsemina, fara með atvinnustarfsemina, eigi að bera ábyrgð á sínum gjörðum og það sé einungis til bölvunar að taka þessi mál, umhverfismálin, ábyrgðina á mengunarvörnum og umhverfisspjöllum frá þeim sem stunda viðkomandi starfsemi í landinu.
    Við viljum þess vegna að það sé fyrst og fremst samræming og samstarf sem eigi sér stað og það eigi að koma í stað stofnunar sérstaks ráðuneytis. Og við höfum bent á frv. sem liggur í nefnd og var flutt af hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen og öllum öðrum þm. Sjálfstfl. í neðri deild.
    Við teljum jafnframt að það hefði verið nær fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn að beina kröftum sínum að því að breyta stjórnarráðslögunum með þeim hætti að fækka ráðuneytum. Ég vil til að mynda benda á að það hefði verið lag nú að sameina iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í eitt ráðuneyti, ekki síst vegna þess að sami maðurinn fer með bæði ráðuneytin. Ég tel, og tel mig hafa nokkra reynslu af starfi í öðru ráðuneytinu, að það sé mjög heppilegt að steypa þessum ráðuneytum saman, ekki síst með tilliti til þess að iðnaðar- og
viðskiptastefna eru samofnar og starfsemi þessara ráðuneyta er nokkuð með öðrum hætti en starfsemi annars vegar landbrn. og hins vegar sjútvrn. þar sem opinber afskipti eru mun meiri en í verslun og iðnaði.
    Stefna Sjálfstfl. byggist jafnframt á því sem við getum kallað sérstöðu Íslands. Við bendum á að við lifum hér á sjávarfangi. Við höfum bent á að eyðing gróðurs og landkosta sé helsta umhverfisvandamál þjóðarinnar. Við höfum bent á, sem allir vita, að hér á landi er loftslag kalt og öll endurnýjun í náttúrunni tekur miklu lengri tíma en í öðrum löndum. Þess vegna þurfum við að beina spjótum okkar að þessum málum umfram það sem aðrar þjóðir þurfa að gera. Og loks höfum við bent á að lega landsins, fjarri helstu iðnríkjum, veitir okkur nokkra sérstöðu í þessu máli.
    Aðalatriðið fyrir okkur, sem lifum fyrst og fremst á sjávarfangi, er að snúa okkur að hafinu í kringum landið og sjá til þess í samningum við aðrar þjóðir að sjórinn verði ekki mengaður og þess gætt að þessi auðlind Íslendinga verði sem allra hreinust á komandi árum.
    Við höfum jafnframt bent á, og það er okkar skoðun, að það hefði verið nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að leggja áherslu á aðgerðir í umhverfismálum fremur en yfirbygginguna utan um þennan málaflokk. Það hefði kannski mátt nota þá fjármuni, sem nú eiga að fara í að steypa saman nokkrum stofnunum undir umhverfisráðuneyti, til þess að endurheimta landgæði á næstu árum og spara þannig fé og nýta það til

umhverfismálanna sjálfra og aðgerða í þeim fremur en að byggja upp nýtt ráðuneyti.
    Við höfum gagnrýnt það í þessum umræðum, ásamt fulltrúum Frjálslynda hægriflokksins, að þegar undirbúningur þessa frv. átti sér stað var einungis leitað til tveggja þáverandi stjórnarandstöðuflokka, annars vegar Borgfl. og hins vegar Kvennalista og skiljum ekki hvers vegna ekki var leitað til annarra stjórnmálaflokka ef það hefur verið hugmynd hæstv. ríkisstjórnar að ná þessu máli fram á tiltölulega skömmum tíma á yfirstandandi þingi. Mér er nær að halda að menn hafi ætlað sér að taka nokkurn tíma í málið en eftir að Borgfl. tengdist ríkisstjórninni hafi verið sett í þriðja gír til þess að þvinga málið fram af stjórnmálalegum ástæðum en ekki umhverfislegum ástæðum.
    Ég bendi á að í grg. frv. kemur skýrt fram að ekki var samstaða í nefndinni og kemur það sérstaklega fram af hálfu Bjarna Guðleifssonar náttúrufræðings sem hefur fyrirvara um vissa þætti málsins. Segir það auðvitað sína sögu um að um málið eru miklar deilur og þær deilur ná auðvitað inn í raðir stjórnarflokkanna sem eðlilegt er.
    Í frv. eru boðaðar tilfærslur á mörgum stofnunum og málaflokkum. Það mál verður auðvitað hv. allshn. að skoða mjög rækilega. Sérstaklega þarf að skoða vel hvar þeirri starfsemi sem í hlut á sé best fyrir komið í stjórnkerfinu og það hlýtur að vera meginreglan að meiri tengsl og stærri hluti starfsemi ráði staðsetningu fremur en að senda heilar stofnanir eða málaflokka til umhverfisráðuneytisins þótt lítið brot af því sem stofnunin fer með heyri undir umhverfisráðuneytið verði frv. að lögum.
    Þá virðist ekki vera gætt samræmis í meðferð málefna í hliðstæðum ráðuneytum og kemur það fram í greinargerðinni enda myndaðist ekki samstaða í hópnum sem undirbjó frv. Samkvæmt frv. er t.d. starfsemi sjútvrn. undanþegin en hluti af starfi landbrn. færður til umhverfisráðuneytis. Ég hygg að það hafi fyrst og fremst verið ráðherra sjávarútvegsmála sem hafi ráðið því að ekki var snert við Hafrannsóknastofnun. Hins vegar hafi hæstv. landbrh. talið að hann --- fyrst hann ekki gat látið af hendi og séð á eftir samgrn. --- gæti séð á eftir nokkrum málaflokkum sem nú heyra undir landbrn. til umhverfismálaráðuneytis eða þá að hann hafi gert það í trausti þess að ýmsir aðrir þingmenn úr stjórnarherbúðunum mundu koma í veg fyrir að það gerðist, enda er ljóst að ýmsir af þingmönnum t.d. Framsfl. hafa lýst því yfir að þeir telji að farið sé rangt að þegar verið er að skipta landbrn. upp og senda vissan hluta af þeirri starfsemi sem heyrt hefur undir það ráðuneyti yfir í umhverfisráðuneytið.
    Í frv. er gert ráð fyrir að umhverfisráðuneytið sé mjög víðtækt, það taki til margra málaflokka, og á sumum sviðum er jafnvel gengið lengra en meðal okkar nágrannaþjóða, eins og t.d. hjá Dönum og Norðmönnum þótt þar séu mjög stór umhverfismálaráðuneyti. Dæmi um starfssvið sem gert er ráð fyrir að flytjist til umhverfisráðuneytisins en eru

ekki í þessum löndum eru t.d. geislavarnir, heilbrigðiseftirlit og matvælaeftirlit, enda hafa komið fram mótmæli af hálfu þeirra sem starfa við þessa málaflokka og þessi starfssvið þegar rætt hefur verið um frv. og umsagnir gefnar, bæði óumbeðnar og umbeðnar.
    Við höfum lagt á það mikla áherslu, og enn á ný hlýt ég að koma að því, að frv. boðar aukna miðstýringu í stað valddreifingar. Við höfum bent á að tilfærslur á heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga úr heilbrmrn. í
umhverfisráðuneyti hlýtur að þýða það að leita verður samþykkis og samkomulags við sveitarfélögin í landinu enda snertir þetta mál verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Það er þess vegna eðlilegt að þessi mál þurfi að skoða mjög vel. Það er eðlilegt að þeir sem ekki hafa fengið tækifæri til þess að fjalla um málið á
undirbúningsstigi vilji nú við 1. umr. málsins leggja mikla áherslu á þessa þætti sem ég hef nefnt.
    Ef litið er á greinargerð með fyrirliggjandi frv. má benda á, sem ég hef áður gert, að það er nokkuð sérkennilegt að sumum stjórnarandstöðuflokkum hafi verið boðin þátttaka við undirbúninginn en ekki öðrum. Slíkur undirbúningur flýtir að sjálfsögðu ekki fyrir máli eins og þessu. Í öðru lagi má benda á að í nefndinni sem vann að undirbúningnum varð ágreiningur eins og rækilega er lýst á bls. 10 og reyndar á bls. 2 einnig. Það er hins vegar kannski merkilegast að lesa kafla á bls. 5 í grg. með þessu frv. sem heitir: Helstu röksemdir fyrir stofnun sjálfstæðs umhverfisráðuneytis. Þar kemur nefnilega glöggt í ljós á hve veikum grunni frv. er flutt hér í sali Alþingis.
    Í fyrsta lagi segir, með leyfi forseta: ,,Með því að sameina helstu þætti umhverfismála undir eitt ráðuneyti ætti afgreiðsla, og stefnumótun, að ganga greiðar en ella. Mál lenda síður í ágreiningi milli ráðuneyta eða sérstofnana þeirra.`` Þetta er auðvitað alrangt. Það mætti vel hugsa sér að samhæfing og samræming í einu af starfandi ráðuneytum næðu sama markmiði, og hvað varðar síðari þáttinn, um það að mál lendi síður í ágreiningi milli ráðuneyta og sérstofnana þeirra, hefur það komið í ljós og er þekkt í umræðu erlendis að hið gagnstæða hefur gerst. Þarf ég ekki annað en að minna á ræðu síðasta hv. ræðumanns og þær áhyggjur sem koma fram m.a. í Brundtland-skýrslunni þegar menn reyna að einangra umhverfisvernd og mengunarvarnir í sérstökum hólfum, sérstökum skápum og kirnum eða ráðuneytum, og ræna þannig menn sem starfa við hluti, sem auðvitað gætu mengað, þeirri ábyrgð sem hlýtur að vera hjá þeim aðilum. Það má þess vegna miklu fremur halda því fram að með því að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti sé verið að opna leið fyrir því að ágreiningur verði á milli ráðuneyta og sérstofnana.
    Í öðru lagi, og það er önnur röksemdin sem kemur fram, segir: ,,Ýmis áætlanagerð um umhverfismál yrði hægari í höndum aðila sem horft gæti óhlutdrægt á

sjónarmið mismunandi hagsmunahópa. Ábendingar ættu að koma fyrr fram þegar ábyrgð á afgreiðslu skyldra mála er í meginatriðum á einni hendi.`` Í fyrsta lagi er út í bláinn að tala um óhlutdrægni því að auðvitað er það hlutdrægt þegar menn horfa á þessi mál úr væntanlegu umhverfisráðuneyti, en þó er ekki verið að halda því fram að það sé verri afstaða en önnur. Hún er hlutdræg af því að horft er á málin frá fyrst og fremst einum sjónarhóli. En látum það vera. Ef menn hefðu ætlað að ná þessum markmiðum fram hefði verið auðvelt að gera það í ráðuneyti sem hefði með samræmingu þessara málaflokka að gera.
    Í þriðja lagi, og það er þriðji þátturinn í röksemdunum í grg. frv. fyrir því að setja á stofn sérstakt ráðuneyti, segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Dregið yrði úr þeim hagsmunaárekstrum sem fylgja því að atvinnuvegasjónarmið og tengd friðunar- og verndunarsjónarmið heyra undir sama ráðuneytið eins og nú er algengast.`` Þetta er auðvitað alrangt eins og margoft hefur verið sýnt fram á. Það er verið að búa til ný vandamál, vandamál þess efnis að slagsmál geti orðið á milli ráðuneyta og það er auðvitað grundvallaratriði að ábyrgðin á mismunandi starfsemi sé hjá þeim sem stunda slíka starfsemi. Það er hins vegar augljóslega til bóta ef samræmingin á aðgerðunum heyrði til einu ráðuneyti. Af þessum ástæðum er hægt að hafna þeim rökum sem koma fram í þessum þriðja lið.
    Í fjórða lagi segir svo, með leyfi forseta, þegar verið er að rökstyðja það að setja þessi mál í sérstakt ráðuneyti: ,,Á alþjóðavettvangi er afar mikilvægt að ímynd Íslands sé hreint og óspillt land, m.a. með hliðsjón af útflutningi á matvælum og vaxandi ferðamannaþjónustu. Sterkar líkur eru á að í vaxandi mæli verði lögð áhersla á hin samofnu tengsl umhverfisverndar og auðlindanotkunar og jákvætt samhengi umhverfisverndar og hagvaxtar þegar til lengri tíma er litið. Umhverfisráðuneyti, sem markaði stefnu á þessu sviði og hefði nauðsynlega yfirsýn, er líklegra til árangurs en mörg ráðuneyti hvert á sínu sviði.`` Hafi einhvern tíma verið seilst langt í röksemdafærslu er það gert í þessum 4. lið. Það hlýtur að vera í verkahring hæstv. forsrh., forsrn., en forsrh. hæstv. er mikill áhugamaður um þetta atriði, að ímynd Íslands sé hreint og óspillt land. Það hlýtur að vera í verkahring hæstv. ríkisstjórnar allrar að móta stefnu í þessum málum, og það er meiri hætta á því að til árekstra komi ef umhverfismálin eru sett í eitt ráðuneyti en ef hæstv. forsrh. og forsrn. tækju þetta mál að sér og samræmdu þannig átak í þessum efnum sem næði til allra ráðuneyta en það væri ekki einungis horft á þessi mál með augum umhverfisráðuneytis. Það má því segja að þessi 4. liður sé fremur röksemd gegn frv. en ekki.
    Loks er í fimmta lagi, virðulegur forseti, sagt til þess að rökstyðja það að það eigi að setja á laggirnar nýtt ráðuneyti, orðrétt: ,,Nauðsynlegt er að einn aðili hafi yfirumsjón með vaxandi erlendum samskiptum á sviði umhverfismála.`` Ég spyr: Gæti ekki starfandi ráðuneyti, sem hefði sérstaka stjórnardeild eða

samræmdi aðgerðir á þessu sviði, sinnt erlendum samskiptum alveg eins og sérstakt ráðuneyti? Að sjálfsögðu liggur svarið í augum uppi: Það er mjög
auðvelt og þetta þekkist í stjórnkerfinu mjög víða. Auðvitað heyra margir málaflokkar undir hin og þessi ráðuneyti. Ég vil t.a.m. benda á mengun í hafinu sem heyrir undir Siglingamálastofnun, Siglingamálastofnun heyrir undir samgrn. og ég veit ekki betur en að það hafi verið leyst með ágætum hætti, að hæstv. samgönguráðherrar á hverjum tíma hafi beitt sér fyrir aðgerðum á þessu sviði og sinnt erlendum samskiptum þannig að til fyrirmyndar hefur verið. Nýtt ráðuneyti breytir engu í því sambandi.
    Að öllu samanlögðu, virðulegur forseti, sýnist mér vera augljóst að þau rök sem hér eru sett á borð séu falsrök. Það er lítill vandi að sýna fram á það að í raun og veru mætti með sömu rökum og hér eru dregin upp komast að þeirri niðurstöðu að óheppilegt væri að setja sérstakt ráðuneyti upp um umhverfismálin.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, hvetja þá hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar til þess að kanna það og skoða mjög rækilega. Ég tel, vegna þess hvernig að þessu máli hefur verið staðið, nauðsynlegt að þingnefndin sjálf vinni þá vinnu sem undirbúningsnefndin gerði ekki. Það er mikið starf fyrir höndum hjá hv. nefnd. Það þarf að kalla til fjölda aðila og ræða þetta mál með opnum hætti og það má allra síst villa nefndarmönnum sýn. Sú röksemd að það þurfi að keyra þetta mál fram fyrir áramót til þess að bjarga hæstv. ríkisstjórn: Í raun og veru þá má færa rök fyrir því, og það er afar einfalt, að það besta sem gæti komið fyrir væri að hæstv. ríkisstjórn færi frá. En nú er það svo að hæstv. ráðherrar og stuðningslið þeirra hér á hv. Alþingi ætla sér að sitja áfram hvað sem það kostar. Óttinn við þjóðina, óttinn við kosningar er svo mikill að það er nánast alveg sama hvað skeður, ríkisstjórnin ætlar sér að sitja.
    Hæstv. ríkisstjórn sem leggur fram fjárlagafrv., eins og þessi ríkisstjórn hefur gert, ríkisstjórn sem kaupir til liðs við sig flokk sem þorir ekki að ganga til kosninga vegna fylgisleysis; sú ríkisstjórn ætlar sér að sitja hvað sem tautar og raular. Það er þess vegna engin hætta á því þótt frv. verði ekki að lögum fyrir áramót að upp úr slitni milli hæstv. ráðherra eða milli stjórnarflokkanna. Það er alveg ljóst --- og það er kannski ágætt að spyrja hæstv. hagstofuráðherra að því hvort það sé ekki alveg ljóst, til þess að firra hæstv. forsrh. áhyggjum, að Borgfl. mun ekki fara úr hæstv. ríkisstjórn þótt frv. verði ekki að lögum í næsta mánuði.
    Ég skil vel áhyggjur hæstv. forsrh. að hann þori ekki annað en að reyna að efna þau loforð sem gefin voru við upphaf stjórnarsamstarfsins. Ég teldi það hins vegar vera mjög gott ef hæstv. hagstofuráðherra gæti staðfest það í þessum umræðum að í raun og veru sé þetta hégómamál, að setja upp sérstakt ráðuneyti, það sé ekki svo mikilvægt, að auðvitað muni ekki hæstv. hagstofuráðherra segja sig úr ríkisstjórninni eða

Borgfl. segja sig úr lögum við ríkisstjórnina þótt málið yrði skoðað með þeim hætti sem eðlilegt er.
    Ég tel, virðulegur forseti, ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég hef reyndar verið mjög stuttorður um frv. Ég hefði getað flutt hér miklu lengra mál og komið að miklu fleiri þáttum sem snerta frv. en hef kosið, þar sem nú er orðið nokkuð framorðið, að ljúka hér ræðu minni og gefa hæstv. ráðherrum þannig tækifæri til að svara þeim fyrirspurnum sem til þeirra hefur verið beint og tækifæri til að svara þeirri röksemdafærslu sem hér hefur komið fram í dag frá öllum þeim ræðumönnum sem hafa gagnrýnt frv. og undanskil ég þá ekki þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. og telst hann þó víst enn í liði stjórnarsinna.