Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Frv. sem hér liggja fyrir til umræðu um breytingu á lögum nr. 73 28. maí 1959, um Stjórnarráð Íslands, og fylgilög með því varðandi umhverfismálaráðuneyti eru stór og mikill málaflokkur.
    Í umræðum hér í dag og fyrir nokkrum dögum hefur verið varpað fram allmörgum spurningum varðandi þessi mál og það er ekki að ástæðulausu að umræður hafa teygst á langinn.
    Nú er það svo að umhverfismál eru tískumál álfunnar, tískumál heimsins í dag. Menn hafa gert sér grein fyrir þeirri þörf að saman fari umhverfi sem er sem allra minnst mengað og hvar sem er á hnettinum því að þetta er ekki bundið við eitt þjóðland. Þó nokkuð margar ráðstefnur hafa verið haldnar um þessi mál undanfarin ár. Hér hefur verið vitnað allmjög til skýrslu Brundtland. En það eru fleiri aðilar sem hafa fjallað um þetta, m.a. Norðurlandaráð og Evrópuráðið, og hafa gert viðamiklar skýrslur um þessi mál. Það sem fyrst og fremst vefst hér fyrir mönnum er með hvaða hætti á að skipa þessum málum. Í fyrsta lagi hvort í rauninni sé þörf á umhverfismálaráðuneyti. Við frjálslyndir hægrimenn teljum að svo sé ekki og teljum að besta skipan þessara mála sé þannig að umhverfismálin verði samræmd og falli undir þau ráðuneyti þar sem eðlilegt má telja að þau séu. Ég nefni sem dæmi hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sem sannarlega eiga best heima undir heilbrrn. Um fleiri málaflokka hefur verið rætt hér þegar og vil ég ekki lengja mál mitt með því sérstaklega. En það eru þessi atriði sem er ágreiningur um. Menn eru ekki sammála um að í rauninni þurfi sérstakt ráðuneyti til að fara með þessa málaflokka.
    Við höfum þegar fengið að sjá fyrstu tölur um kostnað við ráðuneytið. Ég vil þakka hæstv. hagstofuráðherra og jafnframt hæstv. forsrh. fyrir það að láta fylgja með kostnaðaráætlum, því það er auðvitað til mikilla bóta. Þar kemur fram að fyrstu drög að þessu ráðuneyti kosta tæpar 30 millj. kr. En þetta ráðuneyti hefur ekki orðið að lögum enn þá og áður en svo er hafa okkur borist fregnir af því að í morgun hafi verið lögð fram umsókn um aðrar 30 millj. kr. til samnorræns verkefnis á þessu sviði eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. kom hér inn á fyrr í dag og skýrði þingheimi frá að komið hefði fram í fjvn.
    Það er þá auðsætt að þetta er þegar komið í 60 milljónir. Við erum ekki stór þjóð og þjóðartekjur hafa dregist saman, ráðstöfunartekjur fólksins hafa dregist saman. Á sama tíma hafa útgjöld ríkisins vaxið stig af stigi með þeim ógnarhraða að þau eru nánast orðinn hryllingur. Það er því ekki á bætandi þegar menn ætla að fara að bæta hér við einu bákninu í viðbót.
    Ég nefndi hér áðan að allmargir aðilar hafa fjallað um þessa málaflokka.
Fyrir skömmu síðan hélt Norðurlandaráð ráðstefnu um mengun sjávar. Sú ráðstefna var sótt af þingmönnum héðan. Þeir stóðu þar að samþykktum --- nú hefði verið nauðsynlegt að fá þessa þingmenn hér til

umræðu um þessi málefni, m.a. hv. 1. þm. Norðurl. v., hv. 2. þm. Austurl. og einhverjir fleiri munu hafa verið þar sem stóðu að þessum ályktunum.
    Nú er það svo að þessar ályktanir og þetta lokaskjal sem var samþykkt á ráðstefnu Norðurlanda eru ekki bindandi fyrir þjóðþing. Þrátt fyrir það sýnir það ákveðinn vilja. Þeir þingmenn sem voru á þessari ráðstefnu voru frá Belgíu, Kanada, Tékkóslóvakíu, Danmörku, Vestur-Þýskalandi, Finnlandi, Austur-Þýskalandi, Írlandi, Hollandi, Noregi, Póllandi, Svíþjóð, Sviss, Sovétríkjunum, Bretlandi, Færeyjum, Grænlandi, Álandseyjum auk Íslendinga. Lokaskjal ráðstefnunnar er alllangt og ber þess glögg merki að þessir hv. þingmenn hafa mikinn áhuga á þessum málaflokki. Þess vegna vekur það furðu að hv. þingmenn sem sátu þessa ráðstefnu eru löngu farnir úr þingsal, horfnir til heima sinna og hafa ekki meiri áhuga á þessum málaflokki en svo að þeir sýna ekki stjórnarandstöðunni þá virðingu að hlusta á hana.
    Á þessari ráðstefnu voru lagðar fram mjög merkar skýrslur. Þar má t.d. minna á sérstakt skjal sem hét ,,Mengun af völdum landbúnaðar``. Það hefði því verið býsna fróðlegt að fá hér hv. 1. þm. Norðurl. v. til að segja þingheimi hvað stendur í þessu skjali sem hann hefur, eftir því sem manni skilst, tekið gott og gilt. Þar er rætt mjög ítarlega um mengun af völdum landbúnaðar, svo sem af völdum tilbúins áburðar og ýmsar hliðarverkanir af völdum hans og sýnt fram á hvernig tilbúinn áburður berst til sjávar með ánum, hvernig efni eins og bæði fosfór og nítrogen berst til sjávar og í vötn og hefur þau áhrif á lífríkið að það er stór hætta af því.
    Hér í þinginu eru miklu hæfari menn til þess að fjalla um þetta, menn sem hafa í mörg ár sérhæft sig á þessum sviðum, en eru nú fjarri góðu gamni og hafa lítið talað um þessar skýrslur sem eru lagðar þarna fram. Hefði verið fróðlegt að fá að heyra hvað þeir segja um þær.
    Það kemur m.a. fram í skýrslu um mengun af landbúnaði að það er mikil mengun í ánum sem falla í Norður-Atlantshafið, í Ermarsundið og þar að auki verður töluverð loftmengun af völdum landbúnaðarins. Þessi skýrsla er þó fyrst og fremst miðuð við Norðursjó. En eins og við vitum og komið hefur fram á þessu
þingi berst mengun um hafsvæðin frá Skagerrak, Kattegat og þeim hafsvæðum, hingað út á Atlantshafið. Straumarnir taka hana og bera hingað til Íslands. Þess vegna er það mjög mikilsvert að við fengjum svör við nokkrum spurningum um það. Ég þykist vita að umræddir þingmenn hafi kynnt sér þessar skýrslur sem eru mjög fróðlegar og gætu svarað spurningum okkar um það hvernig þeir hygðust stemma stigu við þessari mengun.
    Mengun og náttúruvernd er einn stærsti málaflokkurinn á Íslandi í dag. Almenningur hefur gríðarlegan áhuga á þessum málum og þar sem mest bjátar á hjá okkur er vissulega í landvernd og gróðurvernd. Hér hafa farið fram margháttaðar tilraunir og rannsóknir á gróðurlendi og hvernig við

eigum að vinna okkar gróðurlendi til baka. Með þeim hætti sem það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að búta þessa starfsemi í sundur, er gengið skref aftur á bak. Það er gengið í átt að því að gera þessa starfsemi óvirkari. Gera hana með þeim hætti að fjármagn sem rennur til slíkra mála nýtist ekki.
    Ég vil sérstaklega minnast á þetta og þá ekki síður á það að ef þetta frv. um umhverfismálaráðuneyti nær fram að ganga tel ég að það sé verr af stað farið en heima setið. Það er vafalaust svo að skipan þessara mála var á sumum sviðum orðin allgóð. Ég minni á ráðstefnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem var haldin fyrir skömmu, þar sem var flutt erindi um þetta. Þar var bent á það með mjög sterkum rökum að það frv. sem lægi hér frammi væri ekki til bóta, það væri verra að láta það ná fram að ganga á mörgum sviðum. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji ekki að það sé rétt að betra sé að skipa málum þannig að árangur náist en að vera að byggja upp bákn til að koma hagstofuráðherranum í ráðuneyti.
    Ég tel að þær tillögur sem hér liggja fyrir stefni alveg augljóslega í þá átt að kerfið muni verða óskilvirkara, verra, það muni verða togstreita milli ráðuneyta um málaflokka sem eðlilega ættu að heyra undir önnur ráðuneyti. Nær hefði verið að ráða einn starfsmann, eitt stöðugildi hjá forsrn., sem hefði séð um að samræma störf á þessu sviði og séð um að það væru haldnir reglulegir fundir með ráðuneytum um þessi mál og samráð væri haft milli ráðuneyta. Það er t.d. alveg ljóst að varnir gegn mengun sjávar verða hvergi betur komnar en undir Siglingamálastofnun ríkisins. Þær heyra að sjálfsögðu ekki undir annað og þyrftu að vera í samhengi við sjávarútveginn sem væri miklu nær en að skipta þessu enn upp á nýtt.
    Í áðurnefndri ályktun frá ráðstefnu sem var haldin á Norðurlöndunum segir að ráðstefnan samþykki skilgreiningu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjávarmengun. Að menn setji beint eða óbeint í hafrými, m.a. árósa, efni eða orku þannig að líklegt sé að það hafi skaðvænleg áhrif, skaði t.d. lífrænar auðlindir og sjávarlíf, stofni heilsu manna í hættu, hindri starfsemi á sjó, m.a. veiðar og önnur lögmæt not hafsins, spilli vatnsgæðum sjávar með tilliti til notkunar og fækki þokkafullum svæðum.
    Þessi ályktun ber það með sér að við verðum að taka mun fastara á þessum málum og með öðrum hætti. Eins og ég kom hér inn á áðan var á þessari ráðstefnu skjal um mengun frá landbúnaði t.d., og það hefði verið eðlilegra að þau mál heyrðu undir landbrn. og síðan væru samræmd sjónarmið á þessu sviði. Ég verð að segja það eins og er að þegar maður sér hvernig þessum ráðuneytum er skipt upp þá vakna þær spurningar sem hefur verið spurt hér reyndar í þessum umræðum áður. ( Forseti: Mig langar að spyrja hv. 11. þm. Reykn., hvort hann geti lokið ræðu sinni á næstu 2--3 mínútum, eða hvort hann kýs að fresta henni til næsta fundar þegar sama mál verður tekið á dagskrá?) Hæstv. forseti. Ég kýs heldur að fresta ræðunni.