Málsókn á hendur Magnúsi Thoroddsen
Miðvikudaginn 29. nóvember 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseta hefur borist fyrirspurn sú frá hv. 6. þm. Norðurl. e. sem prentuð er á þskj. 205. Forseti vill vekja athygli hv. þm. á því að í gær óskaði hv. fyrirspyrjandi eftir því að fyrirspurnin yrði prentuð upp með þeirri breytingu einni að í stað þess að í fyrri tölul. fyrirspurnarinnar var áður vísað í 2. mgr. 11. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er nú vísað í 8. gr. þeirra laga. Fyrirspurnin hljóðar svo eftir endurprentunina:
    ,,1. Hvað veldur því að mál Magnúsar Thoroddsens hefur ekki verið rannsakað að hætti opinberra mála eins og boðið er í 8. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og full tilefni virðast hafa verið til ef marka má kvartanir lögmanns Magnúsar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl.?
    2. Hvað veldur því að aðeins er höfðað mál á hendur Magnúsi Thoroddsen vegna áfengiskaupa hans sem einum af handhöfum forsetavalds vegna fjarveru forseta, en ekkert gert í áfengiskaupum annarra sem virðast þó sambærileg að verulegu leyti?``
    Forseti hefur efasemdir um að fsp. þessi sé í anda þeirra reglna sem þingið hefur sett sér og starfað eftir varðandi fyrirspurnir til ráðherra. Forseti óskaði því eftir því við hv. fyrirspyrjanda þegar hann lagði fsp. fram að hann félli frá henni en hann varð ekki við því. Þess vegna kaus forseti að vísa málinu til hv. þingheims og verður fyrirspurnin nú borin undir atkvæði umræðulaust skv. 2. mgr. 31. gr. þingskapa, en þar segir:
    ,,Forseti ákveður samdægurs hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki. Ef vafi er getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkvæði á næsta fundi í sameinuðu þingi.``