Málsókn á hendur Magnúsi Thoroddsen
Miðvikudaginn 29. nóvember 1989


     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Afstaða hæstv. forseta til synjunar á að fyrirspurn þessi verði leyfð sýnist byggð á því að óeðlilegt sé að stofna til umræðna á Alþingi um mál sem beint eða óbeint tengist dómsmáli sem er nú til meðferðar fyrir Hæstarétti. Að minni hyggju er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að Alþingi ræði slík mál, slíkt hefur áður gerst. Nægir þar að minna á svonefnt Hafskipsmál.
    Það sem mér þykir hins vegar óeðlilegt er að hæstv. forseti sameinaðs þings virðist hér vera að taka afstöðu til málsins. Því sýnist mér rétt að leyfa fyrirspurnina þannig að hæstv. dómsmrh. fái tækifæri til þess að svara því sem um er spurt. Ég segi já.