Málsókn á hendur Magnúsi Thoroddsen
Miðvikudaginn 29. nóvember 1989


     Ragnar Arnalds:
    Ég vil fyrst minna á að sá sem leyfir fyrirspurn er ekki með því á nokkurn hátt að taka undir þau sjónarmið sem fram koma í fyrirspurninni. Hann er einungis að leyfa viðkomandi þm. að koma máli sínu á framfæri. Alþingismenn hafa stjórnarskrárbundinn rétt, rétt skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar, til að bera upp erindi við ráðherra og óska svara við þeim. Og þessi réttur er staðfestur í 31. gr. þingskapa, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.``
    Það er viðurkennt að þessar fyrirspurnir heyra undir viðkomandi ráðherra. Ég sé því ekki betur en fyrirspurnin uppfylli öll þau skilyrði sem lög setja. Ég held að það þurfi æðiþung rök til þess að meina alþm. að bera upp fyrirspurn á Alþingi og ég segi því já.