Málsókn á hendur Magnúsi Thoroddsen
Miðvikudaginn 29. nóvember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér er komið fram að mjög nauðsynlegt er að þingmenn hafi víðtæka heimild til að bera fram fyrirspurnir. Hins vegar tel ég afar óeðlilegt að hér séu rædd mál sem eru á viðkvæmu stigi fyrir dómstólum og hefði verið æskilegra að svona fyrirspurn væri rædd eftir að Hæstiréttur kveður upp sinn úrskurð. Aftur á móti hefur hæstv. dómsmrh. sagt að hann sé reiðubúinn að svara fyrirspurninni og því ætla ég ekki að greiða atkvæði.