Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Þegar þetta mál var hér síðast til umræðu í deildinni var umræðu frestað vegna óska um að hv. utanrmn. kæmi saman til fundar til að ræða með hvaða hætti Ísland ætlaði að taka þátt í samningaviðræðum á grundvelli þeirrar skýrslu sem fyrir liggur og í ljósi íslenskra hagsmuna. Það var orðið við þessari beiðni og hv. utanrmn. kom saman til fundar. Það liggur fyrir að hér í umræðunum hafa komið fram þrjár meginhugmyndir um það hvernig standa skuli að framhaldi viðræðna af Íslands hálfu. Engin ein þessara hugmynda sýnist hafa öruggan meiri hluta hér í þinginu. Það hefur á hinn bóginn komið fram að talsmenn fjögurra þingflokka með 34 þm. hafa lýst því yfir að þeir telji eðlilegt og nauðsynlegt að hafnar verði formlegar tvíhliða viðræður til að gæta íslenskra hagsmuna sem fyrst og fremst snúast um sölu á sjávarafurðum á markaði Evrópubandalagsins. Svo virðist því sem þingmeirihluti sé fyrir þessu þó að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hafi ekki fallist á slíka málsmeðferð í umræðunum.
    Mér er ekki kunnugt um að hv. utanrmn. hafi lokið störfum eða að þar hafi komið fram einhver niðurstaða um það hvernig tillaga eigi að vera um áframhald viðræðna, um umboð og stefnumörkun í viðræðunum af Íslands hálfu. Ég tel nauðsynlegt að þessari vinnu hv. utanrmn. ljúki. Ég tel að með því að fallist var á fund í hv. nefnd hafi hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn í hv. utanrmn. fallist á að nauðsynlegt væri að sú umræða færi fram og þar fengist einhver niðurstaða. Ég óska því eindregið eftir því að hv. utanrmn. fái tækifæri til þess að ljúka sínum störfum og skila einhverri niðurstöðu áður en þessari umræðu verður haldið áfram.
    Ég tek einnig eftir því að hæstv. utanrrh. er ekki hér í þingsalnum og þegar af þeirri ástæðu sé ég ekki að unnt sé að halda umræðunni áfram að svo stöddu. En aðalatriðið er að nauðsynlegt er að hv. utanrmn. fái lokið sinni umfjöllun og sínu starfi. Ég óska eftir að umræðunni verði frestað þar til niðurstaða af nefndarstarfinu liggur fyrir.