Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Sú bókun sem hæstv. forsrh. hefur gert hér grein fyrir um hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst taka á málinu er allsendis ófullnægjandi frá mínum bæjardyrum séð. Í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt að Alþingi álykti sjálft um hvernig halda eigi málinu áfram, en það verði ekki ákveðið með einhliða bókun í ríkisstjórn. Í öðru lagi tel ég efnisatriði vera allsendis ófullnægjandi. Ég tel ekki nægilega skýrt kveðið á um tvíhliða viðræður og tel það vera rangt og hættulegt fyrir íslenska hagsmuni að ætla að geyma þar til síðast samningana um mikilvægasta hagsmunamál Íslendinga ( Forseti: Forseti vill vekja athygli á því að hér fer fram efnisleg umræða um þetta mál.) og í þriðja lagi tel ég að hér verði að fara fram umræða um ályktun af þessu tagi og Alþingi sjálft að taka hér ákvörðun.
    Ég fagna því svo að hv. utanrmn. gefst tækifæri til þess að fjalla um þessa ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar og ég vænti þess að þar myndist meiri hluti fyrir því að annar háttur verði hafður á þannig að Alþingi sjálft fái tækifæri til að fjalla um málið og taka ákvarðanir og það mál komi til meðferðar í hv. utanrmn. en fagna því að hæstv. forsrh. hefur á það fallist að umræðunni verði frestað og hv. utanrmn. komi saman.