Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég ætlaði að vísu fyrst og fremst að ítreka ósk mína um að gert yrði hlé á fundum þingsins til þess að hv. utanrmn. geti komið saman. Mér sýnist af þeim yfirlýsingum sem hér hafa verið gefnar að nauðsynlegt sé að þingflokkar fái ráðrúm til þess að koma saman því að yfirlýsing hæstv. fjmrh. sýnir enn betur fram á að hér eru mál í svo mikilli óvissu og svo mikil óeining innan ríkisstjórnarinnar í raun og veru að ljóst er að enn sem komið er er enginn meiri hluti fyrir raunverulegri málsmeðferð af hálfu Íslands og þess vegna er nauðsynlegt að fá ráðrúm til þess að ræða þetta. Það kom til að mynda fram í ræðu hæstv. fjmrh. að Alþb. hefur ekki fallist á að Ísland gangist undir þátttöku í sameiginlegum og formlegum viðræðum svo sem fram kemur í inngangi að skýrslu utanrrh. að á að ákveða á ráðherrafundinum 19. des. nk. Þess vegna og enn fremur í ljósi ræðu hv. 2. þm. Austurl. er þetta mál komið í slíka upplausn að nauðsynlegt er að þingflokkar fái ráðrúm til að koma saman áður en fundur hefst í utanrmn. og ég vænti að forseti gefi svigrúm til þess.