Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að ítreka þá ósk sem hér hefur verið fram borin, fyrst af hv. 5. þm. Vesturl., að fundum verði frestað. Ég hygg að það sé svo augljóst að það er ekki hægt að halda áfram fundum í sameinuðu þingi þar sem verið er að fjalla um mikilvægustu samninga sem Ísland stendur frammi fyrir síðan Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið á meðan hv. utanrmn. er að fjalla um það mál. Ég varpa þessu bara hér fram: Hverjum dytti í hug að halda áfram umræðum í sameinuðu þingi um fjárlög ef fjvn. og fjmrh. sætu á fundi? Engum lifandi manni. Og nákvæmlega sama á við hér. Þess vegna ítreka ég enn spurningu mína, frú forseti: Er ekki unnt að fallast nú þegar á að þingfundum verði frestað þar til utanrmn. hefur lokið störfum eða þingfundi eftir atvikum slitið með því að ekki er efnislega unnt að halda þingfundi áfram meðan nefndin er að störfum?