Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Hlutverk stjórnarandstöðu í lýðræðisríki er að veita ríkisstjórninni aðhald og koma með ábendingar um önnur úrræði en ríkisstjórnin leggur til eða framkvæmir í mikilvægum málum. Núverandi stjórnarandstaða hefur gersamlega brugðist þessu hlutverki. Hún flytur ekki rökstuddar tillögur um framfaramál heldur stundar hún helst ómerkileg upphlaup hér í þinginu og loddarabrögð til að ná athygli fjölmiðla og slá ryki í augu fólks. Hún virðist í alvöru álíta að hlutverk stjórnarandstöðu sé að mótmæla öllu en mæla ekki fyrir neinu. Þetta á við um alla stjórnarandstöðuna en þó sérstaklega forustumenn Sjálfstfl. Það hefur verið dapurlegt að hlýða á mál þeirra hér í kvöld við þessa umræðu um vantrauststillögu á ríkisstjórnina.
    Lítum aðeins á rökstuðning þeirra fyrir vantraustinu. Í fyrsta lagi hafa þeir haldið því fram að ríkisstjórnin og sérstaklega utanrrh. hafi vanrækt mikilvægustu hagsmuni Íslendinga í viðræðum við Evrópubandalagið undanfarna mánuði og að ekki sé samstaða innan ríkisstjórnarinnar um framhaldsaðild Íslendinga að Evrópuviðræðunum sem fyrir dyrum standa. Í öðru lagi hafa þeir haldið því fram að engin samstaða sé um það í ríkisstjórninni hvernig standa eigi að framkvæmd virðisaukaskatts nú um áramótin. Í þriðja lagi hafa þeir haldið því fram að ríkisstjórninni hafi mistekist stjórn efnahagsmála. Þetta er allt saman fjarstæða. Lítum aðeins á þessi þrjú atriði í öfugri röð.
    Hefur ríkisstjórninni mistekist hagstjórnin? Svarið er nei. Sannleikurinn er sá að tekist hefur óvenjulega vel að bregðast við þeim vanda sem steðjað hefur að þjóðarbúinu. Tekist hefur að bæta afkomu atvinnuvega og þar á meðal treysta atvinnuöryggi um allt land þrátt fyrir versnandi árferði. Einnig hefur tekist á þessu ári að draga úr erlendri skuldasöfnun og halda aftur af verðbólgu. Þá hafa raunvextir að jafnaði lækkað verulega frá því sem þeir voru í fyrra. Þetta er túlkun Seðlabankans sjálfs hvað sem líður fullyrðingum hv. 1. þm. Suðurl. Allt þetta hefði einhvern tíma þótt tíðindum sæta við slíkar aðstæður. Og það er mikilvægt að menn átti sig á því að þessi árangur hefur náðst einmitt af því að ríkisstjórnin hafnaði strax þeirri gengisfellingarkollsteypu sem Sjálfstfl. hefur boðað. Markviss stefna stjórnarinnar hefur skilað þeim árangri að taprekstri fiskvinnslunnar hefur verið snúið í afgang og auk þess hefur verið lagður grundvöllur að nýrri framfarasókn, m.a. með eflingu iðnaðar á grundvelli orkulindanna við hlið sjávarútvegsins. Þá er hafið sérstakt átak á vegum iðnaðarráðuneytisins til þess að rétta við hag skipaiðnaðarins. Samkeppnisiðnaður hefur fengið bættan hag. Ullariðnaðurinn hefur verið endurskipulagður. En auðvitað hefur kaupmátturinn rýrnað að undanförnu. Því hefur ekki verið mótmælt. Það er hins vegar fullkomið ábyrgðarleysi og lýðskrum að halda því fram að kaupmátturinn gæti

verið eitthvað meiri einungis ef önnur ríkisstjórn sæti hér að völdum. Ég bið áheyrendur að hugleiða hver kaupmáttur þeirra væri ef kollsteypuleið Sjálfstfl. hefði verið farin. Svarið liggur í augum uppi. Hann væri mun minni.
    Þá kem ég að því hvort óeining sé í ríkisstjórninni um framkvæmd virðisaukaskattsins. Svarið er aftur nei. Eins og forsrh. greindi hér frá fyrr við þessa umræðu er samstaða um það meðal stjórnarflokkanna að virðisaukaskattur verði tekinn upp um áramótin. Hann verður í einu þrepi með 24,5% skatthlutfalli, en til þess að ná fram verðlækkun á helstu matvælum, sem er mikilvægt markmið stjórnarinnar, verður tæpur helmingur hans endurgreiddur af nokkrum tegundum matvara sem þýðir lækkun matarverðs í byrjun næsta árs.
    Þá kem ég að þriðju spurningunni. Hefur ríkisstjórnin með utanrrh. í fyrirsvari vanrækt að gæta hagsmuna sjávarútvegs í viðræðum við Evrópubandalagið eða er ríkisstjórnin sundruð í Evrópumálinu? Svarið er enn og aftur nei. Utanrrh. hefur fyrir hönd Íslands veitt EFTA-ríkjunum öfluga forustu í viðræðum við Evrópubandalagið undanfarna mánuði. Áður hafði hann ásamt forsrh. knúið það fram að ákveðin væri fríverslun með fisk og fiskafurðir á öllu EFTA-svæðinu frá og með miðju næsta ári og, sem mikilvægt er, að fríverslun með þessar helstu útflutningsvörur Íslendinga yrði meginkrafa EFTA-ríkjanna í sameiginlegum viðræðum þeirra við Evrópubandalagið. Samruni Vestur-Evrópu í eitt markaðs- og efnahagssvæði varðar lífshagsmuni okkar allra. Þetta er líka menningarmál því Ísland er hluti af hinni evrópsku menningarhefð. Sameiginlegar viðræður EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins eru nú og verða á næstunni helsti vettvangur samninga milli Íslands og Evrópubandalagsins. Við þurfum og eigum að taka þátt í þessum viðræðum.
    Sjálfstfl. hefur haldið því fram að þessar sameiginlegu viðræður skipti litlu máli og að við ættum heldur að leita eftir formlegum tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið til að tryggja sjávarútveginum aðgang að mikilvægustu mörkuðum hans. Utanrrh. hefur rækilega um þetta fjallað. Hér eru sannarlega höfð endaskipti á staðreyndum, endaskipti á hlutunum, hjá stjórnarandstöðunni.
    Í fyrsta lagi er ólíklegt að Evrópubandalagið ljái að svo stöddu máls á tvíhliða samningaviðræðum af þessu tagi. Í öðru lagi er um fleira að tefla í
þessu máli en hagsmuni sjávarútvegsins sem auðvitað eru ríkir. Það er í raun umhugsunarefni fyrir forustumenn fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum og allan almenning hverra erinda Sjálfstfl. gengur í þessu máli. Sú langa leiksýning sem Sjálfstfl. hefur sett á svið um þetta mál getur ekki orðið til neins annars en að spilla málstað okkar meðal samstarfsríkjanna í EFTA og Evrópubandalaginu. Þeir skyldu hugleiða það.
    Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið og málefni sjávarútvegsins sérstaklega hafa hins vegar alls ekki verið vanrækt. Mikið hefur verið unnið

að því að skapa skilning meðal forustumanna í Evrópubandalaginu á sérstöðu Íslendinga. Ég nefni að utanrrh. hefur að undanförnu hitt að máli flesta forustumenn Evrópubandalagsins. Forsrh. hefur verið óþreytandi að kynna málstað Íslendinga erlendis og sjútvrh. hefur náð mjög góðu sambandi við starfsbræður sína í ýmsum Evrópubandalagsríkjum. Sú leið sem ríkisstjórnin hefur orðið sammála um að fara í þessu máli á eftir að gagnast íslenskum hagsmunum vel í framtíðinni, enda er mikið í húfi. Málatilbúnaður sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu skiptir hins vegar í besta falli engu máli en í versta falli hefur hann skaðlegar afleiðingar fyrir okkar hagsmuni.
    Virðulegi forseti. Allt ber þetta að sama brunni. Vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar er fálm í myrkri og málflutningur hennar er í öfugmælastíl. Vantrauststillaga sjálfstæðismanna minnir svo sannarlega, eins og utanrrh. komst hér að orði áðan, á kastvopn frumbyggja Ástralíu, ,,boomerang``, í höndum kunnáttulausra kastara. Þegar vopnið hæfir ekki það sem því er að skotið snýr það við og getur lemstrað þann sem skaut því. Sjálfstæðismenn hafa hér flutt tillögu sem hittir engan nema þá sjálfa. Hér á eftir verður samþykkt traustsyfirlýsing á ríkisstjórnina en aftur á móti vantraust á Sjálfstfl. og allan hans málatilbúnað. Aldrei hefur nokkur forusta Sjálfstfl. átt vantraustið fremur skilið en þessi.
    Góðir áheyrendur. Ég heiti á ykkur að hafna hinum neikvæða málflutningi stjórnarandstöðunnar. Ríkisstjórnin vinnur nú að mikilvægum framfaramálum sem varða framtíð allra Íslendinga. Hún veit að hún á ykkar stuðning vísan til þeirra verka.