Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Þegar Þorsteinn Pálsson og Sjálfstfl., sem skildu eftir sig mesta efnahagslega stórslys á þjóðbraut okkar Íslendinga, flytja nú vantraust á þessa ríkisstjórn, sem staðið hefur með miklum árangri í björgunarstarfinu miðju, þá er einna helst hægt að líkja því við það þegar brennuvargarnir sjálfir kjósa að flytja vantraust á slökkviliðið. Sjálfstfl. lét eld hinnar hörðu peningahyggju fara um íslenskt efnahagslíf. Hann skapaði hér brennu vaxta í íslenskum atvinnufyrirtækjum. Hann skapaði hér bál hugsanlegs atvinnuleysis og slíka byggðaröskun að íbúar landsbyggðarinnar líktu því helst við það að landið væri að sporðreisast.
    Fyrir rösku ári síðan voru allir forustumenn atvinnulífsins á Íslandi sammála um þann dóm að atvinnulíf Íslendinga væri að stöðvast, að fjöldaatvinnuleysi 10--20 þúsund landsmanna blasti við, að gjaldþrot væri það sem fram undan væri í flestum atvinnugreinum okkar Íslendinga. Þetta var dómur forustumanna atvinnulífsins, þess kjarna sem Sjálfstfl. hefur helst byggt tilveru sína á. Og nú, rösku ári síðar, koma þessir sömu menn hingað í þennan sal og flytja vantraust á ríkisstjórnina, sem hefur snúið þessari þróun við, og segja við þjóðina: Er ekki tími til kominn að við fáum á nýjan leik að fara eldi um efnahagslíf Íslendinga? Brennuvargarnir vilja fá að taka við af slökkviliðinu þegar okkur hefur tekist að slökkva þeirra elda, hreinsa til í rústunum og flytja nýtt timbur á brunastaðinn til að reisa þar annað og traustara hús.
    Við skulum aðeins víkja að því fáeinum orðum hver er munurinn á því sem við blasti og því sem blasir við í dag. Í stað þess fjöldagjaldþrots sem blasti við sjávarútvegi og fiskvinnslu á Íslandi eru nú allir forsvarsmenn sjávarútvegsins í landinu sammála um að það hafi tekist að snúa þróuninni við. Í fyrsta skipti í langan tíma sýnir fiskvinnslan hagnað og atvinnurekendur í sjávarútvegi, fólkið í sjávarplássunum getur treyst því að fyrirtækin gangi á næstu mánuðum og árum. Vaxtabálið sem geisaði með 15--20% raunvöxtum á gráa markaðnum hefur verið slökkt. Vextirnir á gráa markaðnum hafa hrunið, raunvextirnir í bankakerfinu eru 4--5% lægri en þeir voru þegar stjórnin tók við. Þensluæðið í hagkerfinu öllu hefur verið slökkt og í staðinn er kominn nýr stöðugleiki sem birtist í jafnvægi á peningamarkaðnum, betri stöðu í bankakerfinu en um langan tíma og þeirri umtalsverðu staðreynd að vöruskiptajöfnuður okkar Íslendinga verður í ár í fyrsta skipti síðan 1986 hagstæður, jákvæður um hvorki meira né minna en 5--8 milljarða kr. Við flytjum nú í fyrsta skipti í þrjú ár meira út en við flytjum inn. Í stað eyðslustefnunnar er komin sóknarstefna í atvinnulífi og útflutningi.
    Það mætti lengi fara yfir þetta svið. Það mætti lengi telja fram þær umtalsverðu breytingar sem nú eru að skapa þau þáttaskil að í reynd stöndum við Íslendingar í dag í þeim sporum að í fyrsta skipti á

þessum áratug getum við sagt með sanni að það hafi tekist að skapa hér raungengisstöðu sem gæti staðist á næsta ári með óbreyttu raungengi, stöðugleika í verðlagi, lítilli verðbólgu, 5--6% verðbólgu, jákvæðum viðskiptum við útlönd, lágum vöxtum í samræmi við það sem tíðkast í viðskiptalöndum okkar, jafnvægi í hagkerfinu í heild. Þann möguleika höfum við nú, rösku ári eftir að við tókum við mesta efnahagslega stórslysi í hagstjórn Íslendinga í langan tíma.
    Verk þessarar ríkisstjórnar tala því sínu máli. Hún getur óhrædd lagt þau undir dóm hverra sem er, hvar sem er. En verkin eru rétt byrjuð. Nú blasir við okkur það að hefja víðtæka endurreisn í íslensku efnahagslífi á hinum nýja grunni sem ríkisstjórnin hefur lagt. Og það er mjög mikilvægt að við þau þáttaskil skuli við næstu áramót verða framkvæmd hér víðtækasta skattkerfisbreyting sem Íslendingar hafa upplifað um langan tíma þegar virðisaukaskatturinn leysir söluskattinn af hólmi. Virðisaukaskatturinn mun styrkja útflutningsgreinar Íslendinga, sjávarútveginn sérstaklega og samkeppnisiðnaðinn allan. Hann mun hafa í för með sér lækkun á verðlagi vegna þess að skatturinn hefur þann innbyggða eðliseiginleika að leiða jafnt og þétt til lækkandi vöruverðs.
    Ríkisstjórnin hefur í dag tekið þá mikilvægu ákvörðun að virðisaukaskatturinn mun taka gildi um næstu áramót og verða 24,5% eða lægri en sá söluskattur sem hér hefur verið við lýði um langan tíma. Þessi ákvörðun ein og sér mun hafa það í för með sér að frá og með næstu áramótum lækkar allt matvöruverð í landinu um rúmlega 2% en verð á algengum innlendum matvælum lækkar sérstaklega, um 8--9% vegna þess að ígildi 14% lægra þreps verður á hinum algengu matvælum okkar Íslendinga. Þessi breyting verður þess vegna mikilvægt framlag til þess að stíga það skref að um leið og hinn efnahagslegi stöðugleiki heldur innreið sína, þá verði lækkandi vöruverð á öllum matvælum í landinu.
    En ríkisstjórnin hefur um leið ákveðið mikilvægt skref til tekjujöfnunar í okkar landi vegna þess að hún hefur ákveðið í dag að fjármagna þessa breytingu með því að breyta tekjuskattinum á þann hátt að hækka prósentuna en breyta um
leið barnabótum og skattfrelsismörkum og persónufrádrætti á þann veg að skattbyrði lágtekju- og miðlungstekjufólks mun ýmist léttast eða standa óbreytt, en skattbyrði hátekjufólks mun aukast. Eða með öðrum orðum: Það eru fyrst og fremst þeir sem betur eru settir í þjóðfélaginu sem munu bera þessar byrðar, en barnmargar fjölskyldur, lágtekjufólk, þeir sem búa við heimili þar sem maturinn er ríkur þáttur í heimilisútgjöldunum, munu styrkja sína efnahagslegu stöðu. Þannig sýnir þessi ríkisstjórn í verki að hún er tekjujöfnunarstjórn, hún er stjórn sem beitir skattkerfinu til þess að styrkja hag almennings í landinu á sama tíma og hún stígur fyrstu skrefin í að flytja áherslurnar frá hinu allt of háa hlutfalli óbeinna verðlagsskatta hér á Íslandi yfir í sanngjarnara og skynsamlegra hlutfall beinna skatta, en það er breyting sem allir helstu efnahagsráðgjafar, sem um eðli

íslenska hagkerfisins hafa fjallað, hafa eindregið ráðlagt íslenskum stjórnvöldum í langan tíma að framkvæma.
    Sjálfstfl. hefur á undanförnum vikum leikið mikinn skollaleik í kringum þennan virðisaukaskatt. Sjálfstfl. stóð hér í þingsalnum fyrir nokkrum dögum síðan og sagði það rangt hjá mér að Sjálfstfl. hefði gert tillögu um 25% virðisaukaskatt. Og Halldór Blöndal, sem hér fór upp fyrr í kvöld, krafðist þess utan dagskrár á Alþingi að ég bæðist opinberlega afsökunar á því að leyfa mér að fara með þá rangfærslu, sem hann kallaði svo og formaður Sjálfstfl. kom síðan í kjölfarið, að Sjálfstfl. hefði gert tillögu um 25% virðisaukaskatt. En viti menn, í dagblaðinu Pressunni í dag viðurkennir þessi sami Halldór Blöndal að það hafi verið rétt hjá mér að Sjálfstfl. flutti á haustdögum tillögu um 25% virðisaukaskatt eða með öðrum orðum: Sjálfstfl. hefur flutt þá stefnu að hafa hér hærri virðisaukaskatt en ríkisstjórnin mun leggja til í því frv. sem ég flyt hér á Alþingi eftir helgina. Það er því stefna Sjálfstfl. að hafa hér á Íslandi það sem þeir hafa kallað sjálfir hæsta virðisaukaskatt í veröldinni.
    Það er okkar hlutverk hins vegar að lækka söluskattinn með lægri virðisaukaskatti, stuðla að lækkun vöruverðs með skattkerfisbreytingu og flytja skattbyrðarnar yfir á herðar þeirra sem hæstar hafa tekjurnar og meira bera úr býtum í okkar þjóðfélagi. Þannig sýnir þessi stjórn í verki að hún er jöfnunarstjórn. Þannig sýnir hún í verki að hún er félagshyggjustjórn. Þannig sýnir hún í verki að henni er treystandi fyrir efnahagslegum stöðugleika. Þannig sýnir hún í verki að hún getur ráðið við eitthvert mesta erfiðleikatímabil í efnahags- og atvinnusögu Íslendinga. Og þannig sýnir hún í verki að hún ein getur endurreist atvinnulíf Íslendinga á nýjan veg og skapað grundvöll fyrir bættum lífskjörum í okkar landi.
    Það á ekki að hleypa brennivörgunum aftur að. Það á ekki að lofa þeim að fara á ný með eldfærin um íslenskt efnahagslíf. Þess vegna er þessi ríkisstjórn aðeins rétt að byrja sitt verk. Hún á lengi eftir að halda áfram að bæta kjör fólksins í landinu og treysta stoðir okkar efnahagslega sjálfstæðis. --- Góða nótt.