Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Sú vantrauststillaga sem hér liggur fyrir verður varla tekin alvarlega af þeim sem þekkja til vinnubragða hv. stjórnarandstöðu á þessu þingi. En áður en ég ræði það hverf ég til sumarsins 1987 þegar ríkisstjórn var mynduð undir forsæti formanns Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteins Pálssonar.
    Sú stjórn tók við völdum eftir mikið góðæri. Góðæri, sem gekk þó fram hjá mörgu vinnandi fólki en blómstraði á borðum braskaranna eftir að fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins gáfu vextina frjálsa. Þetta vaxtafrelsi frjálshyggjunnar leiddi af sér hrun atvinnuveganna og ómældar þjáningar einstaklinga og fjölskyldna sem misstu eigur og æru. Þó allir ættu að sjá hvert stefndi ýtti Þorsteinn Pálsson vandanum frá og þegar allt var komið í strand sigldi hann líka í strand og gaf allt frá sér.
    Við þessar erfiðu aðstæður var fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar mynduð, án þess að hafa meiri hluta í báðum deildum. Hún byrjaði, eins og kunnugt er, með að reyna að rétta við undirstöðuatvinnugreinarnar og forða með því alvarlegri byggðaröskun og stórfelldu atvinnuleysi. Þetta tókst með aðstoð Borgfl. Seinni ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem mynduð var í haust með þátttöku Borgfl. byggir á svipuðum grunni en með auknum liðstyrk.
    En hvað hefur stjórnarandstaðan lagt fram í atvinnu- og efnahagsmálunum? Ekkert. Hreint út sagt ekkert. Stærsti stjórnmálaflokkurinn á þingi leggur ekkert fram. Sá flokkur, sem hefur hælt sér af því að vera í nánustu sambandi við atvinnuvegina, hefur eiginlega ekkert að segja nú í efnahags- og atvinnumálum. Að þvælast fyrir málum með endalausum uppákomum, utandagskrárumræðum um allt og ekkert, og ef það tekst ekki nógu vel er eins og hálfur þingheimur sé á puttaferðalagi, talandi um þingsköp í tíma og ótíma, að því er virðist oftast í þeim tilgangi að tefja afgreiðslu mála. Þetta er þeirra tillegg til þjóðfélagsmála.
    Er þetta nú til að auka virðingu Alþingis? Voru þingmenn kosnir til þessara verka? Og um hvað vilja þeir kjósa? Má maður spyrja um úrræðin? Ef leggja á í kosningar nú glatast sá árangur sem orðið hefur. Öryggisleysið eykst og verðbólgan leikur lausum hala. Ef svo fer eftir þann slag á frjálshyggjan leikinn. Þá verður þröngt fyrir dyrum hjá alþýðu manna.
    Nú fara í hönd erfiðir kjarasamningar. Það veltur mikið á hvernig þeir eru leiddir á báðar hliðar. Launabilið í landinu er orðið að þjóðarböli. Það er rétt sem haft er eftir Þórarni í Vinnuveitendasambandinu: Vinnuveitendur hafa aldrei litið á það sem hlutverk sitt að jafna launamisréttið. Það er hlutverk launþegasamtakanna. Enn hefur þó mikið vantað á að þau væru nógu samstillt og það hefur orðið æ meira áberandi að hver vill skara eld að sinni köku.
    Verkalýðshreyfingin virðist nú vera að ná betur saman. Nú þarf að halda dampinum: Vinna að

lækkandi kostnaði heimilanna, auknum félagslegum umbótum og lækkun vaxta sem eru að sliga heimili unga fólksins ekki síður en atvinnuvegina.
    Sú stjórn sem nú situr er líklegri til að taka þeim málum vel en sú sem e.t.v. tæki við undir forsæti Þorsteins Pálssonar. Berum við ekki gæfu til þess að vinna saman nú getur verið langt í annað tækifæri.
    Íslenska þjóðin er þrautseig og vinnufús. Hún hefur unnið sig út úr verri erfiðleikum en nú blasa við. Ég hlýt því að trúa að það takist einnig nú. Með þeim orðum kveð ég ykkur, góðir hlustendur, og býð góða nótt.