Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Rösklega ár er síðan 1. flm. þeirrar vantrauststillögu sem hér er til umræðu baðst lausnar sem forsrh. fyrir sig og ráðuneyti sitt. Öllum þingheimi og raunar þjóðinni allri er í fersku minni hvernig sá viðskilnaður var. Sjaldan eða aldrei hefur ríkisstjórn hvellsprungið með jafnhrikalega stöðu atvinnulífsins um gjörvalla landsbyggðina. Rekstrarstöðvun blasti hvarvetna við og ástæðan var öllum sem vita vildu fullkomlega ljós. Hún lá í augum uppi. Mistök í ríkisstjórn, mistök í verkstjórn, mistök við það sem mestu skipti: Að búa atvinnulífinu lífvænleg skilyrði.
    Flutningur þessarar þáltill. sem hér er til umræðu er álíka stjórnviska.
    Eftir þrotlaust viðreisnarstarf allt sl. ár er árangurinn greinilegastur í rekstrarstöðu margra sjávarútvegsfyrirtækja. Sem dæmi má nefna að sjö fyrirtæki í útvegsbæ á landsbyggðinni, sem voru með nálega 460 millj. kr. tap 1988, skila tæplega 200 millj. kr. hagnaði miðað við milliuppgjör nú síðsumars. Breyting til batnaðar um 660 millj. kr. Hver maður getur sagt sér sjálfur hvaða áhrif til batnaðar slík breyting hefur í þeim bæ.
    Annað dæmi: Um 32 fyrirtæki sem voru með 1260 millj. kr. tap árið 1988 en skila nú 160 millj. í hagnað í milliuppgjöri. Batinn er 1 milljarður og 460 millj. kr.
    Vitaskuld eru hér margar samverkandi ástæður en ein þó sýnu þýðingarmest: Breytt stjórnarstefna. Og þegar svo tekst til um undirstöðuatvinnuveginn lætur árangurinn á öðrum vígstöðvum ekki á sér standa. Vöruskiptajöfnuður við útlönd hefur snarbatnað. Við flytjum nú meira út en inn í landið sem nemur 6800 millj. kr. fyrstu níu mánuði þessa árs. Staðan í þessu efni í fyrra var aðeins 100 millj. kr. Batinn er því 6 milljarðar og 700 millj. kr.
    Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun er botnfiskvinnslan nú rekin með 2,4% hagnaði en var með 4,8% tapi árið 1988. Flest bendir til þess að við séum að ná því jafnvægi í efnahagsmálum sem öllu skiptir fyrir atvinnulíf þjóðarinnar á næstu missirum. Sá árangur, sem þegar hefur náðst, er nánast undraverður og mjög óvenjulegur þegar tillit er tekið til þess óhjákvæmilega samdráttar sem hefur orðið í þjóðartekjum vegna minnkandi afla. Álíka árangur hefur líklega aldrei fyrr náðst hér á samdráttarskeiði og það án þess að verðbólga hafi aukist meira en raun ber vitni.
    Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru hér nýlega á ferð og luku lofsorði á þann árangur sem hér hefur náðst. En þýðingarmest er þó í þessu sambandi að þessi árangur, ásamt miklu betri stöðu atvinnumála almennt en spáð var, hefur náðst fyrst og fremst vegna samstöðu stjórnvalda um meginmarkmið. Og einmitt þess vegna geta menn á ýmsum sviðum horft til bjartari framtíðar og umfram allt betri vígstöðu til þess að takast á við margháttuð vandamál sem auðvitað eru í sjónmáli eins og oftast áður. Samstaða

um meginmark þar sem hagsmunir hinna fáu þoka fyrir hagsmunum heildarinnar er það leiðarljós sem áfram þarf eftir að sigla. Og þegar það svo við bætist að flm. þessarar till. til þál. sem hér er til umræðu eiga ekkert eða a.m.k. fátt annað sameiginlegt en niðurrifs- og sundrungaráhugann, þá er augljóst hvaða tilgangi flutningur hennar þjónar.
    Hvergi örlar á samstöðu um úrræði meðal stjórnarandstöðunnar í þeim þýðingarmiklu málum sem nú brenna á þingi og þjóð. Engan grunar á þessari stundu hvílíkt óhappaverk það yrði atvinnulífinu og þar með þjóðarheildinni ef þessi þáltill. um þingrof yrði samþykkt. Hér er um svo mikið alvörumál að ræða að jafnvel flm. sjálfir hefðu trúlega aldrei borið hana fram ef nokkur von til samþykkis hefði verið fyrir hendi. Trúa mín er því sú að þá hefði á annan veg verið á málum haldið.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og býð góða nótt.