Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Þessi tillaga sem hér er til umræðu um vantraust á ríkisstjórnina er auðvitað ekkert annað en frumhlaup og getur ekki gert neitt annað en að skaða okkur út í frá. Þetta hlutu flm. að vita fyrir fram. Þeim hefur ekki dottið í hug að hún yrði samþykkt. Það getur ekki verið. Flm. tillögunnar virðast sammála um eitt, að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sé sú lakasta ríkisstjórn sem hefur setið að völdum. Þeir eru sammála um þetta.
    En við hverju tók þessi ríkisstjórn? Hún tók við strönduðu skipi. Áhöfnin hljóp í land. Fjármagnskostnaðurinn tvöfaldaðist eða meira en tvöfaldaðist á fyrstu mánuðum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og það segir enn til sín.
    Það er dálítið undarlegt að hlusta á þennan málflutning sem hér er. Hvar eru tillögurnar til úrbóta? Það er ekki það að allt sé í lagi, það er langt í frá. En það er rétt að sjávarútvegurinn, a.m.k. þeir sem verst eru settir þurfa ekki að borga í fjármagnskostnað nema sennilega, ja, ekki helming á við það sem áður var, þeir sem hafa fengið aðstoð í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina. En aðrir vextir eru nú nefndir lægri í þjóðfélaginu heldur en þeir eru í raun og veru. Það er eitt sem þarf að taka á og það er leyfi Seðlabankans við bankana að leggja 2% til viðbótar þegar skuldbreytt er. Þarna verður ríkisstjórnin að taka á.
    Menn verða líka að athuga að það er víða verið að gefast upp. Það eru víða gjaldþrot. Það er afleiðingin af þeirri vaxtastefnu sem var í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og hefur því ekki enn tekist að lækka þessa vexti eins og þarf. Og það eru líka minni tekjur sem fólk hefur því að yfirvinnan hefur brostið þannig að þeir sem gerðu áætlanir fyrir tveimur til þremur árum um sína greiðslugetu sjá að þær hafa ekki staðist. En það þarf enginn að halda það að þingmenn muni samþykkja þessa tillögu.
    Það má minna á það að á landsfundi Sjálfstfl. fyrir skömmu var lögð fram skýrsla frá svokallaðri aldamótanefnd Sjálfstfl. Þar var lagt til að stefnt yrði að fullri aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Á þessum sama fundi var varaformaður flokksins kosinn einmitt sá sem stjórnaði þessu verki, stjórnaði þessari skýrslu, þessum tillögum.
    Ég held að það sé ekki vilji meiri hluta þjóðarinnar að gerast aðili að Efanahagsbandalagi Evrópu og ég sakna þess mjög í þeim fyrirvörum sem eru á minnismiða frá hæstv. utanrrh. að það er enginn fyrirvari um einn liðinn, þ.e. vöruinnflutninginn. Það er ekki hægt að sjá á þessum fyrirvörum að það eigi að hindra innflutning t.d. á landbúnaðarvörum og þeir sem þekkja til í þessu þjóðfélagi vita hvað það þýðir fyrir landsbyggðina í heild ef svo fer. Hins vegar er það líka vitað að þetta eru viðræður EFTA við Efnahagsbandalagið, þetta eru könnunarviðræður. Og það verður ekki fyrr en 1992 sem gengið verður formlega frá þeim samningi þannig að það verður

búið að kjósa til Alþingis áður en slíkur samningur verður gerður. Það er því nægur tími til þess að fylgjast með hæstv. utanrrh. ef það er svo að stjórnarandstaðan treystir honum ekki til þess að standa fyrir þeim samningum og halda áfram þar sínu verki.
    Það var í viðtali við Stefán Jón Hafstein, einn af okkar bestu útvarpsmönnum, að þegar talið barst að fjölmiðlafárinu sem beint er að stjórnmálaflokkum og einstaklingum og minnst á gróusögurnar, níðið og skáldskapargerðina, sem æðioft fela í sér ærumeiðingar, þá spurði Stefán Jón viðmælanda sinn: ,,Er þetta ekki bara pólitík?`` Er það tilfellið að fjölmiðlafólk og e.t.v. einhver hluti almennings sé farinn að trúa því að slík skrif, slíkur málflutningur sé bara pólitík? Gerir fólk sér ekki grein fyrir því hvað er átt við með orðinu pólitík? Ég hef skilið það orð svo að þeir sem eru pólitískir hafi mótaðar skoðanir á því hvernig eigi að breyta og bæta þjóðlífið, leggja grunninn að atvinnuuppbyggingu, minnka launamun, jafna lífsaðstöðu. Við sem viljum styrkja einstaklinginn og fjölskylduna með öllum tiltækum ráðum vitum hvað pólitík er. Það sem hér hefur verið upp talið eru áhersluatriði þeirra samtaka sem ég er fulltrúi fyrir. Margir hafa aðrar skoðanir og sumir hafa gagnstæðar skoðanir og auðvitað er það líka pólitík.
    Í mínu ungdæmi var misferli kallað misferli en ekki hrossakaup eins og nú er. Þá var líka talið að skattsvik væru ekki undanskot eins og nú er. Þá var líka talað um okur en ekki markaðsvexti. Þessar áherslubreytingar verða til þess viljandi eða óviljandi að menn gera sér ekki grein fyrir hvað er verið að tala um í raun og veru. Í þá daga var það talið drengskaparbrot ef það ekki stóð sem menn lofuðu enda var þá sagt: Orð skulu standa. Nú er víst þetta liðin tíð.
    Það sem hefur verið að gerast á milli austurs og vesturs er að það er verið að brjóta niður múrana. Á sama hátt verður okkar þjóð að brjóta múrana í sambandi við það að fjármagnið deili og drottni eins og nú er. Í grein í Morgunblaðinu sem Ólafur M. Jóhannesson skrifaði fyrir skömmu segir m.a.: ,,Maður, líttu þér nær, stendur skrifað og er nú komið að því að Íslendingar geri upp við flokksvaldið sem hefur ráðskast hér með flesta hluti í skjóli
þeirrar kenningar að öll þjóðin sé innan vébanda flokkanna sem er svipuð lygi og að þjóðir Austur-Evrópu hafi gengið af fúsum vilja undir kommúnismann.``
    Þetta stendur í Morgunblaðinu eftir Ólaf M. Jóhannesson. Ég vil vekja athygli á þessum orðum vegna þess að í okkar þjóðlífi, okkar gamla flokkakerfi er það þannig að flokkarnir þykjast eiga fólkið og stjórna samkvæmt því. En fólkið finnur yfirleitt ekki til þess að það eigi flokkana. Þess vegna er ekki um neitt að ræða fyrir fólkið annað en láta hlusta á sig og ef það ekki gengur, þá verða þeir að velja aðra forustu en hefur verið valin fram að þessu.
    Það eru mörg mál sem þyrfti að ræða í svona umræðu. Ég er á þeirri skoðun að það sé ekki hægt

að komast út úr verðbólgunni nema með því móti að fella niður lánskjaravísitöluna. Það sé blátt áfram ekki hægt. Þess vegna verða stjórnarflokkarnir að skoða það mál niður í kjölinn. Ég stend líka í þeirri trú að kvótafyrirkomulagið í sjávarútvegi standist ekki öðruvísi en að byggðirnar fái einhvern hluta af þessum kvóta og þetta verður að skoða. Það verður líka að íhuga það vel og nákvæmlega hvernig á að fara að því að breyta grundvellinum í þjóðfélaginu á þann veg að þeir geti greitt eðlilega vexti. Það er ekki í dag. Vextirnir mega aldrei vera hærri en það sem atvinnureksturinn þolir á hverjum tíma og ef til þess er ætlast að þessir vextir séu greiddir, þá verður að breyta öllum grundvellinum.
    Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að launamunurinn er ógnvekjandi og það verður að taka á þeim málum á annan veg en hefur verið gert fram að þessu. Það er ekki hægt að líða það að hátekjustéttirnar geti komið í kjölfar kjarasamninga og fengið prósentvís í sumum tilvikum það sama og lágtekjustéttirnar. Það verður að fara að stjórna þessu þjóðfélagi. Það verður að líta á það að stjórna meira af réttlæti en gert hefur verið.
    Ég fagna þessari breytingu með tekjuskattinn. Þeir sem eru með hærri tekjur eru ekkert of góðir til þess að borga hærri skatt. En mér líst ekkert á þetta eina þrep í virðisaukaskattinum. Ég vantreysti því að sumir af þeim sem styðja þessa ríkisstjórn verði tilbúnir að lækka hann. Sannleikurinn er sá að það ætti ekki að vera neinn virðisaukaskattur eða skattur á brýnustu nauðþurftum þegnanna. Lágtekjufólkið þolir það ekki og það verður að taka tillit til þess. --- Góða nótt.