Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ágætu áheyrendur. Sá maður sem var að víkja hér úr pontu, Stefán Valgeirsson, vitnaði þannig til framtíðarstefnu Sjálfstfl. að maður gæti haldið að hann hefði ekki lengur mann á launum til að lesa fyrir sig skjöl, svo ranglega fór hann með tilvitnun í það plagg sem hann kallar aldamótaplagg.
    Á síðustu dögum hefur sífellt betur komið í ljós að ríkisstjórnin veldur ekki verkefnum sínum. Sundurþykkja stjórnarflokkanna og hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar hafa leitt til óvissu og upplausnar í þjóðfélaginu.
    Aðeins einum mánuði áður en lögin um virðisaukaskattinn eiga að taka gildi hafa stjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um framkvæmd málsins. Forsrh. og aðrir ráðherrar hafa að vísu gefið það út nú að þeir hafi komið sér saman um 24,5% í virðisaukaskatt, það eigi að hækka tekjuskattinn en enginn veit um framkvæmdina enn. Og nú á að kanna málin frá ýmsum hliðum.
    Misvísandi samþykktir stjórnarflokkanna valda því að enginn getur treyst því að ákvarðanir stjórnvalda standi nema stundarbil. Eitt er þó alveg víst: Skattkerfisbreytingin sem nú kemur til með að eiga sér stað um áramótin verður notuð til þess að hækka skattana.
    Glundroðinn á stjórnarheimilinu að undanförnu hefur einnig leitt til þess að ríkisstjórnin þorir ekki að afla umboðs Alþingis til að geta tekið af fullri alvöru þátt í viðræðum við Evrópubandalagið. Í stað þess að leita víðtæks samstarfs á Alþingi og virða þannig þingræðið kaus ríkisstjórnin að þrengja umboð utanrrh. með fyrirvarabókun Alþb. í ríkisstjórninni. Þessi deila snýst um eðlilegt samráð. Hún snýst ekki um lögfræði eins og forsrh. hélt fram í sinni ræðu hér áðan.
    Það var nokkuð dapurlegt að horfa á utanrrh. setja sig í hlutverk hálfgrátandi píslarvotts og kenna Sjálfstfl. um það að hann hefði ekki komist til útlanda til að sinna skyldustörfum sínum. Nú vita allir, ekki einungis þingmenn, heldur fjölmargir aðrir, að ástæðan fyrir því og eina ástæðan fyrir því að Jón Baldvin Hannibalsson er staddur hér á landi í dag er sú að hann og ríkisstjórnin höfðu ekki komið sér saman um það hvernig þeir ætluðu að leggja á virðisaukaskattinn um áramótin. Það voru fundir í gær í ríkisstjórn og þingflokkum, það voru aftur fundir í dag, það voru fundir í nótt og a.m.k. tveir ríkisstjórnarfundir í dag. Það er af þessum ástæðum og þessum ástæðum einum sem hann er hér staddur í dag en ekki af þeim sem hann sjálfur hefur verið að reyna að halda fram. Þessu til staðfestingar má líta hér á DV í dag. Þar er mynd af tveimur herrum sem hafa verið að funda, síðast í morgun, til þess að reyna að ná saman um virðisaukaskattinn. Þessi með hattinn er Jón Baldvin Hannibalsson, þessi með skattinn er fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson. Svo kemur þessi maður hér upp og heldur því fram hálfgrátandi að það sé Sjálfstfl. að kenna að hann komist ekki úr landi.
    Nú gæti einhver sagt: Já, en aumingja maðurinn

verður að vera hérna til að verja sig. Hann verður að koma hingað til að greiða atkvæði. Er það svo? Nei, það er ekki einu sinni svo vegna þess að fyrir tveimur dögum síðan tók hann inn varamann hér á Alþingi, Jón Braga Bjarnason, sem hefur atkvæðisréttinn og þið komið til með að sjá það, áheyrendur góðir, þegar þið sjáið atkvæðagreiðsluna hér á eftir, að það verður ekki Jón Baldvin Hannibalsson sem verður spurður álits á tillögunni heldur Jón Bragi Bjarnason. Það hlýtur að vera alvarlegt, virðulegur forseti, þegar menn seilast til skröksins til að bjarga eigin skinni frá því sem þeir hafa sjálfir kallað yfir sig.
    Það er fróðlegt að skoða loforðalista ríkisstjórnarinnar og bera loforð saman við efndirnar. Þegar ríkisstjórnin tók við völdum lofaði hún að treysta atvinnuöryggi í landinu. Hver er niðurstaðan? Hún er mesta atvinnuleysi í tvo áratugi. Ríkisstjórnin sagðist mundu verja kjör hinna lægst launuðu. Niðurstaðan er mesta kjaraskerðing sem hér hefur orðið um árabil. Ríkisstjórnin ætlaði að stuðla að stöðugleika í gengismálum. Niðurstaðan er stöðugt gengissig og sífelldar gengislækkanir. Ríkisstjórnin setti sér það mark að afgreiða fjárlög yfirstandandi árs með tekjuafgangi. Hvernig gekk það eftir? Jú, niðurstaðan er 5 milljarða kr. halli. Og nú á að afgreiða fjárlög næsta árs með meiri halla en áður hefur þekkst. Svo kemur fjmrh. hér í ræðustól, ber sér á brjóst og talar um árangur. Hver trúir þessum manni eftir að hafa fylgst með því hvernig hann hefur staðið sig í fjármálum ríkisins?
    Ríkisstjórnin sagðist mundu lækka vexti verulega. Niðurstaðan er sú að vextir fara hækkandi miðað við lánskjaravísitölu vegna ríkissjóðshallans sem hefur myndast, þrátt fyrir stóraukna skatta. Þetta er afleiðing handstýringar í vaxtamálum.
    Ríkisstjórnin boðaði jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Niðurstaðan er sú að erlendar skuldir hafa aldrei verið meiri og fara enn vaxandi.
    Ríkisstjórnin sagðist ætla að fækka ráðuneytum til að gera stjórnkerfið einfaldara. Niðurstaðan er sú að nú á að stofna nýtt ráðuneyti fyrir Borgfl. sem var keyptur til fylgilags við ríkisstjórnina.
    Þannig hefur ríkisstjórnin svikið flest þau loforð sem hún gaf í upphafi. Hún hefur nú setið í 14 mánuði og getur ekki lengur kennt neinum öðrum um. Sannleikurinn er sá að ríkisstjórnin hefur gefist upp.
    Í lok þessarar umræðu fer fram atkvæðagreiðsla um þá tillögu hvort rjúfa skuli þing og efna til kosninga sem fyrst. Það verður athygli vert fyrir ykkur, áheyrendur góðir, að fylgjast með atkvæðagreiðslunni í ljósi yfirlýsinga þeirra stjórnarþingmanna sem hafa lýst yfir andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum málum.
    Árni Gunnarsson sagði í haust að stjórnin væri ekki á vetur setjandi ef matarverð og fjármagnskostnaður lækkaði ekki. Nú stefnir í hærra matarverð og aukinn fjármagnskostnað. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig þingmaðurinn greiðir atkvæði hér á eftir.
    Karvel Pálmason hefur marglýst yfir andstöðu sinni

við ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hvað skyldi hann gera?
    Hjörleifur Guttormsson hefur talað digurbarkalega um alla þá fyrirvara sem hann hefur í stjórnarsamstarfinu. Þorir hann að segja álit sitt í atkvæðagreiðslunni?
    Skúli Alexandersson var á móti núverandi stjórnarsamstarfi í upphafi. Ætlar hann að standa við það álit sitt þegar hann fær tækifæri til þess með atkvæði sínu?
    Ólafur Þ. Þórðarson hefur í skeleggri ræðu staðhæft að ríkisstjórnin fótum troði mannréttindi. Styður hann ríkisstjórnina þrátt fyrir það?
    Guðmundur G. Þórarinsson, Alexander Stefánsson og Stefán Guðmundsson hafa allir lýst óánægju með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum og lagt fram frjálslyndar tillögur sem ganga þvert á stjórnarstefnuna. Það verður fróðlegt að sjá hvorum megin hryggjar þeir liggja hér á eftir.
    Það er auðvitað ósköp auðvelt að firra sig ábyrgð á óvinsælum verkum ríkisstjórnarinnar í ræðu og riti. Það þarf hins vegar kjark og þor til að standa við orð sín þegar það skiptir máli. Þess vegna hljótum við að fylgjast vel með því hvernig þessir þingmenn greiða atkvæði í lok umræðunnar. Þeir hafa nú tækifæri til að fylgja sannfæringu sinni. Kjósi þeir hins vegar að verja stjórnina og koma í veg fyrir kosningar er ljóst að þeir bera fulla ábyrgð á ríkisstjórninni og geta ekki þvegið hendur sínar af gerðum hennar.
    Góðir áheyrendur. Á hverjum einasta degi erum við minnt á það í fréttum hvernig aðrar þjóðir auka einstaklingsfrelsi, athafnafrelsi og viðskiptafrelsi til að öðlast betri lífskjör, meiri farsæld og lífshamingju. Á meðan þessir atburðir eiga sér stað situr hér á landi ríkisstjórn sem skilur ekki kall tímans. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er óvinsælasta ríkisstjórn sem hefur verið við völd frá því að mælingar hófust. Ríkisstjórnin situr í óþökk þorra þjóðarinnar og getur ekki veitt þá forustu sem nauðsynleg er ef við viljum njóta vinda frjálsræðisins sem nú leika um norðurálfu. Það sem heldur stjórninni saman er óttinn við frelsið og óttinn við kosningar. Það eina sem sameinar ríkisstjórnina er því óttinn við þjóðina sem vill kosningar og frjálslyndari ríkisstjórn.
    Forsenda þess að hægt sé að takast á við þau mikilvægu verkefni sem við blasa er að losa þjóðina við ríkisstjórnina. Það er kominn tími til að efla með þjóðinni þá bjartsýni og þann framtaksþrótt sem í henni býr. Til þess að svo geti orðið verður stjórnin víkja og kosningar að verða sem allra fyrst. --- Góðar stundir.