Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Við þingmenn Frjálslynda hægriflokksins viljum með vantrausti freista þess að koma þessari alræmdu nýfélagshyggjustjórn frá völdum, getuleysisbandalaginu eins og hún er nefnd. Hver einasti maður sem hittir mig að máli segir: Er þessi ríkisstjórn ekki að fara frá? Eða: Hvenær fer þessi ríkisstjórn frá völdum? Þetta er vilji þjóðarinnar, þetta er vilji almennings. Fólk þráir frjálslynda hægristjórn.
    Í Austur-Evrópu fellur hver ríkisstjórnin á fætur annarri. Þar skilja menn nú að vilji almennings verður ekki sniðgenginn til lengdar. Jafnvel ofbeldið dugar ekki. Hér hímir hnípin ríkisstjórn, getu- og ráðalaus. Aðeins óttinn við kosningar heldur henni saman. Ágreiningur er um öll helstu mál. Meðferð virðisaukaskattsins er dæmigerð fyrir þessa ríkisstjórn.
    Framsfl. og Alþfl. slitu stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. þegar þeir lögðu fram tillögu um tvö söluskattsþrep og kölluðu það að stinga rýtingi í bakið á sér. En hvað gerist nú? Framsfl. segir: Ekki ég. Alþfl. segir: Ekki ég. Borgaraflokkurinn segist ánægður með grófa brauðið góða. Alþb. segist vilja eitt þrep, enda hafi það lagt til tvö þrep í stjórnarandstöðu. Formaður þess flokks, hv. varaþm. og nú hæstv. fjmrh., sagðist vilja konu sem varaformann í flokki sínum nýlega en fékk hæstv. landbrh. í staðinn. Og þegar hæstv. fjmrh. lék karlinn á kassanum í Miklagarði forðum og taldi núv. hæstv. utanrrh. óalandi og óferjandi fékk hann embættið í staðinn. Nú biður þjóðin hæstv. fjmrh. um að óska ekki eftir meiru því að hún er búin að fá meira en nóg.
    Hæstv. forseti. Ég rakst á athyglisverða grein í Morgunblaðinu föstudaginn 24. nóv. sl. sem skrifuð er af Ólafi M. Jóhannessyni og fjallar hún m.a. um atvinnuleysisvofuna. En í greininni segir, með leyfi forseta:
    ,,Atvinnuleysisvofan er komin á stjá. Guðni Jónsson er rekur samnefnda ráðningarstofu lýsir vofunni í athyglisverðu viðtali er birtist í nýjasta Viðskipta- og atvinnulífsblaði Mbl. en þar segir Guðni m.a.: ,,... í þessum sameiningum og endurskipulagningu fyrirtækja þá er það gjarnan fólk með mikla og langa starfsreynslu sem missir atvinnuna og það fólk lendir iðulega í vandræðum. Oft er þetta fólk með 20--25 ára starfsreynslu, t.d. í bókhalds-, sölu- og skrifstofustörfum og það er auðvitað mikið áfall fyrir sjálfstraust þess þegar það verður þess skyndilega áskynja að vinnuveitandinn metur ekki langa reynslu og ræður fremur yngra fólk með minni starfsreynslu en e.t.v. meiri menntun.``
    Hvernig stendur annars á því að ekki er efnt til samverustunda í sjónvarpssal þar sem menn ræða um atvinnuleysisvofuna? Það hafa verið smíðaðir þættir um ýmsa óværu samfélagsins en það er eins og atvinnuleysið sé feimnismál. Fullfrískt fólk sem hefur unnið hörðum höndum fær skyndilega uppsagnarbréf. Þetta fólk á bágt því það er fórnarlamb pólitísks

afturhalds er þumbast gegn því að opna landið fyrir ferskum straumum erlends hugvits og fjármagns. Eins og það sé eitthvað verra að vinna í frystihúsi sem er í eigu alþjóðlegrar fiskvinnslukeðju en fiskvinnslustöð sem er rekin af jólasveini sem setur allt á hausinn? Sumir menn líta á land okkar sem óspillta jómfrú er skal varðveita meyjarblómann hvað sem það kostar. Þessir menn ganga ekki atvinnulausir um götur. Það á enginn maður að þurfa að skammast sín fyrir að vera atvinnulaus svo fremi sem hann leitar sér að vinnu.``
    Þetta greinarkorn Ólafs M. Jóhannessonar á erindi til þeirra sem stjórna landinu. Það á erindi til allra landsmanna. Atvinnuleysi hvers og eins einstaklings er alvarlegur hlutur og það er jafnalvarlegt hvar sem hann býr á landinu. Í síðasta mánuði voru um 1900 menn taldir vera atvinnulausir og líkur eru á að sú tala sé þegar mun hærri. Þetta þýðir að 1,4% af vinnufærum mönnum eru atvinnulaus og svo gæti farið að sú tala hækkaði upp í 2% áður en þessi vetur er allur sem væri þá álíka mikið vandamál og Norðmenn hafa verið að glíma við á undanförnum mánuðum.
    Jafnframt atvinnuleysi hefur kaupmáttur farið dvínandi í vaxandi dýrtíð. Samkvæmt frétt í Politiken 19. nóv. sl. þar sem kvartað er undan lágu tímakaupi danskra iðnaðarmanna í samanburði við margar aðrar þjóðir kemur fram að tímakaup hér á landi er miklu lægra eða 65% lægra en í Vestur-Þýskalandi, 63% lægra en í Noregi, 46% lægra en í Svíþjóð og 36% lægra en í Danmörku og samt bera fyrirtækin sig ekki. Það skyldi þó ekki vera svo að jólasveinninn sé í stjórn í allt of mörgum fyrirtækjum hér á landi?
    Almenningi eru kynntar tölur um gjaldþrot eins og um væri að ræða einn pott af mjólk. Einn milljarður hér og annar milljarður þar. Og jólasveinninn heimtar bara meiri opinbera styrki úr nýfélagshyggjusjóðum þessarar ríkisstjórnar. Hvað á þetta að ganga lengi? Er enginn þessara manna ábyrgur? Hvað skyldi til að mynda efnahagsráðgjafi hæstv. forsrh. segja honum og ráðleggja? Á þeim bæ ætti ekki að vanta ráð. Jólasveinarnir eru nefnilega víða á ferðinni og alltaf skulu þeir fá fullar hendur fjár úr nýfélagshyggjusjóðunum. Svo eru vandaðir, starfsamir og glöggir menn með áralangan glæsilegan starfsferil látnir róa sinn sjó. Það er m.a. þetta sem er
að fara með atvinnulífið í mestu góðærum Íslandssögunnar.
    Þá verður að minna á gífurlega skattheimtu þessarar ríkisstjórnar sem hefur dregið fjármagnið til ríkisins í allt of miklum mæli. Eignarskattar á íbúðarhúsnæði eru þeir hæstu sem sögur fara af og sérstaklega þegar um einhleyping er að ræða. Á Norðurlöndunum mundi líða jafnvel yfir jafnaðarmenn ef þeir vissu um eignaupptöku þá sem fer fram undir handleiðslu þessarar ríkisstjórnar. Í svari við fyrirspurnum mínum um þessi mál hér á þinginu kemur þetta glöggt fram. Eftir því sem ég kemst næst mundi þorri þeirra sem nú greiða eignarskatta vera skattfrjálsir á Norðurlöndunum. Í Danmörku byrja

menn að greiða eignarskatta af eignum umfram 11 millj. 781 þús. Í Finnlandi greiða menn 7396 kr. af fyrstu 14 millj. 781 þús. kr., með ýmsum frádráttarliðum. Í Noregi og Svíþjóð er eignarskatturinn nokkuð hærri en of flókið að skýra það hér. Þá er á það að líta að fasteignaskrár eru ekki endurmetnar jafnhratt og með sama hætti og hér og í byrjun hvíla allt að 80--90% lána til langs tíma á eignunum. Það er því meginniðurstaðan að skattar af íbúðarhúsnæði á Norðurlöndunum eru nær engir. Og nú ætlar þessi ríkisstjórn að þyngja tekjuskattinn. Það er eins og ríkisstjórnin sé nú með 40 stiga hita og óráð.
    Frjálslyndir hægrimenn taka undir kröfu fólksins um að þessi ríkisstjórn fari strax frá völdum. Hún fari og komi aldrei aftur.
    Góðir áheyrendur. Við þingmenn Frjálslynda hægriflokksins þökkum áheyrnina. Guð geymi ykkur öll. Ég óska ykkur góðrar nætur.