Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Þið hafið nú heyrt hér í kvöld sýnishorn af málflutningi Sjálfstfl. og stjórnarandstöðunnar og ég verð að segja það að þó að ekki kæmi annað til held ég að þessar vantraustsumræður hafi þjónað tilgangi sínum með því að sýna í gegnum málflutning Sjálfstfl. og stjórnarandstöðunnar það einstaka hugmynda- og úrræðaleysi þeirra sem fyrir þeirra hönd hafa talað hér í kvöld.
    Það hefur ekki farið mikið fyrir tillögum Sjálfstfl. hér í kvöld og það er rétt að menn hafi það í huga að hér hafa talað fyrir Sjálfstfl. þeir hinir sömu menn og stóðu svo gott sem á rústum íslensks atvinnulífs í fyrrahaust fyrir rétt rúmu ári. Hér talaði sá hinn sami formaður Sjálfstfl. og þá sprengdi sína eigin ríkisstjórn í tætlur. Nú þykjast þessir menn hins vegar hafa ráð undir rifi hverju. Reyndar vil ég taka það fram að ég tel að það hafi verið ein mjög sérstök undantekning á málflutningi Sjálfstfl. hér í kvöld. Tvímælalaust besta ræðan sem af þeirra hálfu var flutt var ræða Halldórs Blöndals af þeim sökum að hann fór með talsvert af kveðskap eftir aðra en sjálfan sig og tókst sá flutningur nokkuð vel. Það er nefnilega þannig að þeir standa fyrir sínu, Steinn Steinarr og Jóhannes úr Kötlum, og það er enginn vafi á því og kom glöggt fram hér í kvöld að ekki geta þeir sjálfstæðismenn varið ræðutíma sínum betur en að fara með verk þeirra. Því meira, því betra.
    En hitt verð ég að segja að málflutningur Sjálfstfl. í Evrópumálinu bæði hér í kvöld og undanfarna daga er auðvitað forkastanlegur og hneyksli. Vissulega er hér á ferðinni vandasamt mál og vissulega er öll meðferð þessa máls ábyrgðarhlutverk. Á hverju stigi og dag frá degi verður að vaka hér yfir íslenskum hagsmunum og það er einmitt grundvöllur afstöðu þingflokks Alþb. hvað næstu skref málsins varðar. En að kjósa að meðhöndla þetta viðkvæma hagsmunamál íslensku þjóðarinnar af því ábyrgðarleysi og með þeim loddaraskap sem forusta Sjálfstfl. hefur gert er til skammar. Ég held að það væri skynsamlegt fyrir þá talsmenn Sjálfstfl., einkum og sér í lagi formanninn, að leyfa gleymskunni að hylja betur hans eigin spor í forustu fyrir stjórn landsins áður en hann upphefur sig með slíkum málflutningi og gorgeir sem gert var hér í kvöld.
    Nú býður formaður Sjálfstfl. á báðar hendur launafólki hærra kaup en sjávarútveginum samtímis lægra gengi. Og maður spyr sig að því: Skyldi þetta nýtilkomna örlæti Sjálfstfl. vera í einhverjum tengslum við þá staðreynd að flokkurinn er kominn í stjórnarandstöðu, gæti það rétt hugsast?
    Sú ríkisstjórn sem tók við völdum haustið 1988 tók sannarlega við erfiðu búi og fékk í hendur snúið verkefni. Um það er óþarft að fjölyrða og segja má að framhaldið hafi mjög markast af því erfiða endurreisnarstarfi og þeim björgunaraðgerðum sem fóru í hönd og hafa meira og minna varðað

framhaldið fram til þessa dags. Til viðbótar því hafa áframhaldandi erfiðleikar bjátað á í formi versnandi ytri skilyrða og hefur það gert starfið að mörgu leyti harðsóttara en ella. Einmitt í þessu ljósi er rétt að skoða aðstæður nú á haustmánuðum og í byrjun vetrar. Og það er ástæða til að gleyma ekki þeirri ánægjulegu staðreynd sem stjórnarandstöðunni af einhverjum ástæðum yfirsást hér í kvöld að nú loksins eru fyrstu jákvæðu afkomutölur, til að mynda í okkar höfuðútflutningsatvinnuvegi, sjávarútveginum, að líta dagsins ljós. Fiskvinnslan er í fyrsta sinn um margra missira skeið rekin með hagnaði og horfur allsæmilegar hvað framhaldið snertir. Ýmsar aðrar stærðir í okkar efnahagsmálum og ýmis önnur hlutföll hafa og breyst til hins betra og ber þar hæst þann árangur sem náðst hefur í glímunni við viðskiptahallann en það sem af er þessu ári hefur vöruútflutningur landsmanna verið 6--7 milljörðum kr. meiri en vöruinnflutningurinn og er það mikil breyting til hins betra frá því sem áður var. Við erum sem sagt enn þá, góðir áheyrendur, að róa okkur út úr erfiðleikunum. Sá róður hefur kostað fórnir. Fyrst og fremst hefur almennt launafólk í landinu orðið að sætta sig við lakari kjör þótt reynt hafi verið að verja kaupmátt hinna lægst launuðu.
    Fjölmargar breytingar í skattakerfinu sem ýmist eru fram komnar eða í undirbúningi ganga til réttrar áttar með því að lækka óbeina skatta á brýnustu lífsnauðsynjar, matvæli og menningu. Ég er þeirrar skoðunar að verði þeim breytingum síðan fylgt eftir og þær festar í sessi með upptöku lægra þreps í virðisaukaskatti á öll mikilvægustu matvæli sé stór sigur unninn í baráttunni fyrir því að hlífa mikilvægustu nauðsynjum almennings við háum óbeinum sköttum.
    Í landbúnaði er við ýmis vandamál að etja. Þar hefur borið hæst í umræðum að undanförnu erfiðleika nýrra búgreina, loðdýraræktar og fiskeldis. Og þrátt fyrir margvíslegar ráðstafanir og mikla vinnu að vandamálum þeirra á undanförnum mánuðum sér ekki enn fyrir endann á þeirri glímu. Í hinum hefðbundnu greinum er það fyrst og fremst staða sauðfjárræktarinnar sem er alvarlegust og áhrifa hins mikla samdráttar sem þar hefur orðið á undanförnum árum og nálgast 35--40% gætir víða í byggðum landsins. Fram undan eru og mikilvæg verkefni í íslenskum landbúnaði, skipulagsmálum og rekstri öllum. Þar
ber hæst að leita verður allra tiltækra ráða til að lækka á öllum stigum framleiðslu-, vinnslu- og dreifingarkostnað búvara með það að markmiði að lækka þær í verði og auka þannig samkeppnishæfni þeirra við aðrar vörur og gera þær aðgengilegri og ódýrari fyrir neytendur. Ég held að stór hluti af þeirri vinnu hljóti óumdeilanlega að vera gagnger endurskoðun á öllu verðmyndunar- og verðlagningarkerfi búvaranna og tenging þeirra hluta við aðra þætti í stjórnun búvöruframleiðslunnar. Þá er og mikilvægt að ekki verði
lengur látið sitja við orðin tóm hvað snertir ýmis

skipulagsbundin atriði landbúnaðarins og mér er þar efst í huga svæðaskipting framleiðslunnar, þar sem meira tillit verði tekið til landkosta og aðstæðna en áður hefur verið gert.
    Það gefur auga leið að svigrúm til framkvæmda í samgöngumálum markast nokkuð af þeim ytri aðstæðum í efnahags- og atvinnulífi sem hér ríkja og hafa margoft komið til umræðu í kvöld og er því þrengra en ákjósanlegt væri. Engu að síður eru á sviði samgöngumála á ferðinni ýmis stórátök og önnur í undirbúningi. Nægir að nefna þar að fljótlega upp úr áramótum verða þau tímamót að jarðgangamenn í Ólafsfjarðarmúla ná endum saman og opnast þá lengstu veggöng á Íslandi. Sú framkvæmd hefur gengið vel og lofar góðu um þær framkvæmdir sem vonandi hefjast í framhaldinu við stórátök á sviði jarðgangagerðar á Vestfjörðum og Austurlandi.
    Sú hugmynd hefur komið fram að gera tíunda áratuginn að áratugi samgangna og fjarskipta á Íslandi með það að markmiði að um aldamót búi Íslendingar hvar sem er á landinu við þær allra bestu samgöngur og fjarskipti sem efnahagslega er framast kostur.
    Góðir áheyrendur. Tíminn leyfir ekki ítarlegri umfjöllun um málefni þessara greina, en ég hef leyft mér að fara um þessi verkefni nokkrum orðum til að það gleymist ekki með öllu í því hanaati og því moldviðri sem hér er þyrlað upp um ekki neitt af hálfu stjórnarandstöðunnar að samtímis er unnið að ýmsum mikilvægum verkefnum og eins þótt ýmsir erfiðleikar gangi yfir er verið að þoka áfram brýnum hagsmunamálum vinnandi fólks til sjávar og sveita.
    Góðir áheyrendur. Þessi vantrauststillaga sem hér er borin fram undir forustu Sjálfstfl. og með fylgispekt Samtaka um kvennalista og hins tvíeina þingflokks Frjálslyndra hægrimanna er vindhögg. Hér er á ferðinni enn eitt máttvana upphlaup af hálfu forustu Sjálfstfl. sem er jafnófær um það nú, þrátt fyrir allar sínar aldamótanefndir, og hún var í fyrrahaust að leiða landsstjórnina þegar ríkisstjórn undir forustu Þorsteins Pálssonar hrökklaðist frá, leystist upp í beinni útsendingu og beið hörmulegri dauðdaga en flestar aðrar ríkisstjórnir Íslandssögunnar hafa gert.
    Sú ríkisstjórn sem tók við völdum þá um haustið 1988 tók, eins og ég sagði, við erfiðu búi. Það lætur nærri að segja megi að skipið hafi verið hálffullt af sjó og það má enn fremur til sanns vegar færa að enn sé róið á móti nokkrum straumi. En það er róið samt. Það er mín trú að nú dragi senn að fallaskiptum í efnahags- og atvinnulífi okkar Íslendinga og þegar kemur fram á útmánuði og daginn tekur að lengja muni birta til. Þá muni mestu erfiðleikarnir að baki og senn ljúka því langvinna samdráttarskeiði sem við höfum búið við. Þá eru til þess allar forsendur, og raunar betri forsendur en oft áður vegna þess jafnvægis sem hægt og bítandi hefur verið að skapast í okkar efnahagsmálum og vegna bættra rekstrarskilyrða okkar höfuðatvinnugreina, að við getum sótt fram á við til traustara atvinnulífs og betri lífskjara en við höfum mátt búa við um skeið. Ég

þakka þeim sem hlýddu.