Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Fyrir nokkru kvaddi ég mér hljóðs utan dagskrár hér í Alþingi vegna þess að hæstv. fjmrh. hafði farið með ósannindi í sjónvarpsþætti í sambandi við tillögusamþykktir okkar sjálfstæðismanna um virðisaukaskatt. Í vantraustsumræðum nú sl. fimmtudagskvöld endurtók hæstv. fjmrh. ósannindin með mjög ósmekklegum hætti og vitnaði í því sambandi til ummæla sem voru höfð eftir mér í Pressunni hinn 30. nóv. sl. Ummælin í Pressunni eru svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,"Ég álít að ummæli Ólafs Ragnars hafi verið hálfur sannleikur. Í sjónvarpinu sagði hann að Sjálfstfl. hefði lagt til flatan virðisaukaskatt upp á 25%. Okkar samþykkt var um virðisaukaskatt í tveimur þrepum, 15% og 25%. Á þessu tvennu er mikill munur,,, segir Halldór Blöndal.``
    Í þessu sjónvarpsviðtali ítrekaði hæstv. fjmrh. að við sjálfstæðismenn hefðum samþykkt að hér skyldi verða flatur skattur upp á 25% en gat þess í engu að í samþykktum okkar var talað um tvö þrep og engrar hlutfallstölu getið eins og ég tók fram hér í sölum Alþingis á sínum tíma. Ég hafði í morgun
samband við þann blaðamann sem skrifaði þessa grein, Pál Vilhjálmsson, og benti honum á að hann hefði farið rangt með ummæli mín og spurði hann að því hvort hann ætti þessi ummæli til á segulbandi þannig að við gætum hlustað á þau saman, en því miður hafði hann ekki haft svo mikið við. ( Forseti: Má ég benda hv. þm. á að hæstv. fjmrh. er ekki í salnum og forseti hefur efasemdir um að þessi athugasemd geti heyrt undir umræður um þingsköp.) Ég sé að það hefur tekið hæstv. forseta langan tíma að taka eftir því hvort fjmrh. sé í salnum eða ekki.
    Ég hafði samband við blaðamann í morgun og hann bauð mér að sjálfsögðu að leiðrétta þessi ummæli sem hér voru höfð eftir mér innan gæsalappa og þótti leiðinlegt að hafa farið rangt með þetta atriði.
    Ég tel nauðsynlegt, hæstv. forseti, að þetta komi fram um leið og ég bíð eftir því að hæstv. fjmrh. biðjist afsökunar hér í þessum stóli fyrir það að hann hefur farið tvívegis með ósannindi um þessi mál. Og það sem verra er, í bæði skiptin í beinni sjónvarpsútsendingu þannig að greinilegt er að fjöldi manns, sá hluti þjóðarinnar --- sem er að vísu ekki stór --- sem trúir orðum hæstv. fjmrh., stendur í þeirri meiningu að samþykktir Sjálfstfl. séu eins og hann hefur sagt.
    Ég vil líka nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, til að taka það fram að ég hafði tekið rangt eftir í sambandi við eitt lítið orð í ræðu hæstv. forsrh. í síðustu viku þegar mér heyrðist hann nota orðið ,,rabba``, en athugun hefur leitt í ljós að hann notaði orðið ,,að fjalla`` sem er auðvitað miklu betra og ég bið hann hér með velvirðingar á því að hafa farið rangt með hans ummæli og vænti þess og mun koma því persónulega til skila þegar hann kemur til landsins.