Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég hefði talið rétt að hæstv. utanrrh. væri viðstaddur vegna ábendingar sem ég ætla að gefa hér um þingsköp. ( Forseti: Ég skal sjá til þess. Hér kemur hann í salinn.)
    Ég tel rétt, virðulegur forseti, vegna þessarar umræðu sem hér stendur yfir að benda á að blöð sem hingað hafa borist frá Norðurlöndum og það er raunar sennilega VG, Verdens Gang hið norska sem ég hef handa á milli hér frá miðvikudeginum 29. nóv. 1989. Þar er greint frá því á tveimur síðum að í umræðum í norska Stórþinginu og í utanrmn. þingsins hafi verið bent á það að ákveðið málsgagn sem snertir viðræður milli EFTA og Evrópubandalagsins hafi ekki fengist fram lagt fyrir þingið í umræðunum. Um er að ræða málsgagn frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins sem hafði ekki fengist opinberað og sem leiði í ljós að af hálfu Evrópubandalagsins sé gengið út frá allt öðrum forsendum varðandi viðræðurnar og málsmeðferð 19. des. og framvegis heldur en fram hefur komið. Ég vil inna hæstv. ráðherra, án þess að fara að rekja hér frekar það sem þarna kemur fram, eftir því hvort hann hafi þessa skýrslu handa á milli. Ég kannast ekki við að slík skýrsla hafi komið fram í utanrmn. nú síðustu vikurnar frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins og tel það furðu sæta ef það getur gerst, sem ég vil ekki fullyrða án þess að málið sé athugað frekar, að slíku málsgagni sé skotið undan. Og síðan er annað mál það hvort halda eigi slíkum gögnum utan við seilingu þingsins þegar jafnmikilvægt utanríkismál og það sem hér er um að ræða er til umræðu.
    Ég hef ekki, virðulegur forseti, kannað þetta mál sjálfstætt utan það sem fram kemur í þessum blaðafréttum frá hinum Norðurlöndunum, en taldi rétt áður en lengra er komið í umræðunni að fá þetta upplýst og skýrt.