Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég tel auðsætt eins og raunar kom fram í máli hæstv. ráðherra að mál þetta snertir það meginmál sem rætt er hér í sameinuðu þingi, hugsanlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið, þar sem um er að ræða mat gagnaðilans, Evrópubandalagsins, á samningsstöðu gagnvart EFTA. Og ef það er ekki málsgagn sem á að liggja fyrir til mats, ekki bara í nefndum þingsins, heldur væntanlega í ríkisstjórn landsins áður en vegið er og metið hvernig haldið skuli á máli, þá er ég nú ekki læs á eðlileg vinnubrögð.