Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það hefur verið gert ráð fyrir því að þessari umræðu ljúki án þess að utanrrh. sé hér viðstaddur, einfaldlega vegna þess að utanrrh. þarf að sinna skyldum sínum út af þessu máli nú á næstunni og kemur ekki til starfa aftur fyrr en eftir miðjan desember.
    Ég tel enga ástæðu til að bíða þess að hæstv. utanrrh. komi hér heim. Ég vænti þess að aðrir ráðherrar séu fullfærir að svara þeim fyrirspurnum sem koma upp og sinna þeim skyldum sem utanrrh. hefur hér gagnvart þinginu. Það er mjög mikilvægt að hann sinni þessum störfum sínum nú á næstunni og hafi til þess gott ráðrúm. Það er að vísu eðlilegt að hér sé spurt af hv. 1. þm. Suðurl. vegna þess að komið hefur fram að stjórnarandstaðan er þeirrar skoðunar að afgreiða eigi formlegt umboð frá Alþingi en skoðun ríkisstjórnarinnar er hins vegar að slíkt beri ekki að gera. Málið sé ekki enn á því stigi að það sé rétt að afgreiða málið hér með þeim hætti. Það hefur m.a. verið vitnað hér til afgreiðslu mála í Finnlandi en eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur ekkert verið afgreitt enn þá í finnska þinginu og jafnframt uppi þar skiptar skoðanir á sama hátt og hér eru á Alþingi um það hvort slíkt skuli gert. Þannig að það mun ekki vera rétt að finnska þingið hafi afgreitt þáltill. með þeim hætti sem hér hefur verið haldið fram.
    En spurningunni svara ég þannig, að það hefur ekki verið ætlunin að hæstv. utanrrh. væri frekar viðstaddur þessa umræðu en við aðrir ráðherrar munum gegna skyldum hans hér gagnvart Alþingi í þessari umræðu.