Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar. Þetta er 194. mál á þskj. 219.
    Erfiðleikar loðdýraræktarinnar eru flestum hv. þm. ugglaust vel kunnir og þarf ekki að fjölyrða um þá hér. Mönnum er væntanlega einnig kunnugt að undangengið ár og sl. tvö ár hafa stjórnvöld gripið til margvíslegra ráðstafana til að reyna að draga úr þeim miklu erfiðleikum sem að loðdýrabændum hafa steðjað af ýmsum ástæðum nú sl. tvö til þrjú ár. Kemur þar margt til, einkum það að greinin er ung og hefur verið í uppbyggingu og er rétt í þann veginn að komast í framleiðslu þegar mikið verðfall á afurðum hélt innreið sína sem helst enn. Þetta, samhliða miklum fjármagnskostnaði, óhagstæðri gengisskráningu fyrir útflutningsgreinar og fleira, hefur allt saman borið að sama brunni að gera aðstæður þessarar búgreinar næsta erfiðar og nánast vonlitlar hefðu sérstakar ráðstafanir ekki komið til.
    Áður en ég mæli sérstaklega fyrir efni frv. vil ég gera lauslega grein fyrir því sem gert hefur verið í því skyni að reyna að styðja við greinina á undanförnum árum og tek þá sérstaklega til áranna 1988 og ársins í ár. Ég nefni það helsta.
    1. Á árinu 1988 var í fyrsta lagi ákveðin frestun afborgana stofnlána. Óskað var eftir því við Stofnlánadeild landbúnaðarins að hún frestaði í nokkrum tilvikum afborgunum stofnlána fóðurstöðva af lánum einstakra bænda. Þá var á sama ári ákveðið að afskrifa 30% af áhvílandi búralánum hjá refabændum. Samtals munu þessar ráðstafanir hafa numið um 30 millj. kr. hvað snertir léttari greiðslubyrði á árinu.
    2. Stofnlánadeild samþykkti að lána refabændum til skuldbreytinga lausaskulda vegna refaræktar. Þessi lán voru veitt gegn veði í jörðum viðkomandi bænda og gátu þar af leiðandi einungis nýst þeim sem veð höfðu. Um 100 millj. kr. munu hafa verið veittar til þessara skuldbreytinga.
    3. Framleiðnisjóður landbúnaðarins ákvað að veita refabændum óverðtryggð og vaxtalaus lán til 6 ára vegna framleiðslu refaskinna, 550 kr. á hvern hvolp. Námu þessar hagstæðu lánveitingar Framleiðnisjóðs vegna þessa verkefnis tæpum 47 millj. kr. á árinu.
    4. Í kjölfar þess áhuga sem fram kom á aðalfundi Sambands ísl. loðdýraræktenda á árinu 1988 á að breyta búskap loðdýrabænda úr refarækt yfir í minkarækt ákvað stjón Framleiðnisjóðs að aðstoða við þessa búháttabreytingu og verja til þess allt að 60 millj. kr.
    Þessari framkvæmd eða þessum búháttabreytingum lauk að mestu á árinu 1988 og að einhverju leyti á árinu 1989. En tekið hefur þó fyrir þær að mestu núna upp á síðkastið að ég hygg af skiljanlegum ástæðum þar sem erfiðleikar minkaræktar hafa reynst miklu minni en hinum megin.
    5. Stjórn Byggðastofnunar heimilaði að verja allt

að 50 millj. kr. á árinu 1988 til að leggja fram sem hlutafé við fjárhagslega endurskipulagningu reksturs fóðurstöðva. Veitti stofnunin þá lán til hlutafjárkaupa. Byggðastofnun hefur með þeim hætti tekið þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu a.m.k. þriggja fóðurstöðva og átt einhverja aðild að málum fleiri stöðva.
    Á árinu 1989 má nefna eftirfarandi aðgerðir:
    1. Frestun afborgana stofnlána og lengingu lána. Stofnlánadeild landbúnaðarins samþykkti að fresta afborgunum stofnlána fóðurstöðva og einstakra bænda um allt að tvö ár. Jafnframt var ákveðið í Stofnlánadeild að lengja búralán úr átta ára lánum í tólf.
    2. Framleiðnisjóði landbúnaðarins var falið að lána loðdýrabændum til lausaskuldbreytinga allt að 60 millj. kr. Skilyrði þessara lánveitinga voru undangengin könnun á afkomu bænda og var sérstakri nefnd falið að framkvæma þá könnun. Hún skilaði sjóðnum áliti í byrjun júní. En minna hefur orðið úr að þessar heimildir nýttust en skyldi, fyrst og fremst vegna þess að þær ráðstafanir hafa strandað á því að loðdýrabændur hafa almennt ekki veð til að tryggja slíkar skuldbreytingar.
    3. Tvívegis á árinu 1989 hefur verið ákveðið að greiða jöfnunargjald til að lækka fóðurkostnað í loðdýrarækt. Í lok janúarmánaðar var samþykkt að greiða 3 kr. á hvert kíló fóðurs vegna framleiðslu ársins 1989. Í kjölfar þeirrar könnunar á afkomu loðdýrabænda sem ég áðan nefndi var skilað áliti í júnímánuði og ákveðið að hækka þetta jöfnunargjald í um 2,50 kr. frá og með 1. ágúst og út árið. Er samtals ætlað að þessar greiðslur á jöfnunargjaldi fóðurs verði tæpar 90 millj. kr. eða 89,5 millj. kr. á árinu. Byggðastofnun samþykkti jafnframt að greiða sérstaka rekstrarstyrki til fóðurframleiðenda, samtals 20 millj. kr. á mánuðunum ágúst til október.
    5. Sérstaklega hefur verið hraðað greiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til loðdýraræktarinnar vegna fyrri ára og yfirstandandi árs. Þannig háttaði til í þessu tilviki að endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts í loðdýrarækt hafði fallið niður um nokkurt árabil eða frá og með árinu 1986 að telja ef ég man
rétt og hafði því myndast allverulegur hali. Núverandi og síðasta ríkisstjórn ákváðu að reyna að greiða hann upp með tilliti til erfiðleika greinarinnar og þrátt fyrir þær aðstæður sem eru í okkar ríkisfjármálum og hefur á síðustu mánuðum fyrra árs og á þessu ári verið varið samtals 58,3 millj. kr. til þessa verkefnis.
    6. Ákveðið hefur verið í samráði við Búnaðarfélag Íslands að veita loðdýrabændum sérstakan forgang hvað varðar uppgjör jarðræktarstyrkja vegna framkvæmda sem þeir hafa ráðist í á undanförnum árum. Fengu loðdýrabændur þannig einir gerðar upp þær framkvæmdir ársins 1988 sem þeir höfðu ekki fengið greiddar og var greiðslum á tæpum 12 millj. kr. flýtt sérstaklega í þessu skyni. Það má því segja að samtals hafi runnið úr ríkissjóði, aðallega í formi aukafjárveitinga, á síðustu mánuðum ársins 1988 og það sem af er árinu 1989 rétt tæpar 160 millj. kr. til

loðdýraræktarinnar. Má þar greina á milli annars vegar þeirra endurgreiðslna á uppsöfnuðum söluskatti og jarðræktarframlögum sem loðdýrabændur áttu að sjálfsögðu inni eða áttu að fá greiddar frá ríkissjóði en fengu nokkurn forgang til og hins vegar þeirra jöfnunargjalda á fóður eða lækkunar á fóðurverði upp á tæpar 90 millj. kr. sem ég hef þegar gert grein fyrir.
    Ég held, herra forseti, að það sé ástæða til að gera grein fyrir þessum ráðstöfunum áður en ég mæli efnislega fyrir því frv. sem hér er svo að síðustu til meðferðar og kynni þær ráðstafanir og ákvarðanir aðrar sem ríkisstjórnin hefur núna fyrir nokkrum dögum ákveðið í tengslum við þetta mál. Ég vil geta þess líka að tvær nefndir hafa starfað að þessu máli á árinu og unnið mjög mikið og mjög gott verk að mínu mati. Hin fyrri var skipuð í febrúarmánuði sl.
og lauk störfum í júní. Hana skipuðu Magnús B. Jónsson, kennari á Hvanneyri, sem var formaður, Jón G. Guðbjörnsson, starfsmaður Framleiðnisjóðs, og Leifur Kr. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar. Það var m.a. í kjölfar starfs þeirra að ákvarðanir voru teknar um viðbótarráðstafanir á sl. sumri.
    Síðari nefndin var svo skipuð í haust í framhaldi af umræðum um málið í ríkisstjórn. Hana skipaði Magnús ásamt fulltrúum Þjóðhagsstofnunar og Byggðastofnunar, þeim Eyjólfi Sverrissyni og Guðmundi Guðmundssyni. Þessum nefndum báðum hafa verið til aðstoðar og ráðuneytis fulltrúar þingflokka stjórnarliðsins. Ég kann þessum mönnum öllum sem þarna hafa lagt hönd á plóginn hinar bestu þakkir fyrir þeirra störf. Ég held að hvað sem öðru líður hafi þær upplýsingar sem þarna hefur verið safnað saman og liggja fyrir, og eru auðvitað grunnforsenda þess að unnt sé að taka á málum með einhverjum hætti, verið mikilvægar og nauðsynlegt í öllu falli að menn geri sér grein fyrir því hvernig aðstæðurnar eru. Það held ég að þessi vinna hafi leitt mjög rækilega fram í dagsljósið og betur en áður lá fyrir.
    Ég vil svo, herra forseti, rekja meginefni þessa frv. sem hér er til umræðu og er nú ekki langt en jafnframt kynna í tengslum við það þá samþykkt sem ríkisstjórnin gerði og er í raun hluti af þessum ráðstöfunum eða fylgifiskur frv. og er fskj. 1 með þessu frv., birtist á bls. 3 því að lengra er nú frv. ekki.
    Frv. felur í sér í fyrsta lagi heimild til ríkisstjórnarinnar til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem loðdýrabændur taki hjá sínum lánardrottnum í stað lausaskulda sem myndast hafa vegna loðdýrabúskapar þeirra á árunum 1986--1989. Samtals má ábyrgð þessi nema allt að 280 millj. kr. Síðan er nánar í 1. gr. fjallað um lánsskilmálana og þar er m.a. kveðið á um að lánin megi ná til allt að 60% af lausaskuldum hvers bónda sem uppfyllir skilyrði 1. mgr., þ.e. að þau séu vegna loðdýrabúskaparins, enda breyti þá viðkomandi lánardrottnar því sem eftir stendur af nefndum lausaskuldum í lán til a.m.k. 8 ára. Jafnframt er vikið

að því að Framleiðnisjóður landbúnaðarins skuli hafa á hendi umsjón með þessum skuldbreytingum og nánar á um þær kveðið í reglugerð.
    2. gr. frv. fjallar síðan um að þrátt fyrir ákvæði um tryggingar og fleiri skilmála lána í lögum nr. 45 frá 16. apríl 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, sé Stofnlánadeildinni ótvírætt heimilt að fella niður allt að 40% höfuðstóls veðskulda fóðurstöðva og einstakra loðdýrabænda, enda, eins og segir þar, ,,skapi það samhliða öðrum ráðstöfunum viðkomandi aðila viðunandi rekstrarstöðu og hagsmunum Stofnlánadeildar landbúnaðarins verði talið betur borgið með þeim hætti.``
    Síðan segir í greinargerð eða athugasemdum að frv. þetta sé samið með hliðsjón af skýrslu vinnuhóps sem ég gerði grein fyrir áðan og skipaður var hinn 6. sept. og skilaði áliti sínu í nóvember. Ég hygg að hv. alþm. hafi allir fengið þá skýrslu senda fyrir nokkrum dögum síðan og þeim er þá það efni væntanlega nokkuð kunnugt. Einnig er lögð til grundvallar samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 28. nóv. Sú samþykkt, eins og hún er birt í fskj. 1, er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    1. Ríkisstjórnin samþykkir að fela Byggðastofnun að greiða jöfnunargjald á loðdýrafóður á árinu 1990 og fái hún til þess fyrst um sinn 25 millj. kr. framlag. Síðan segir: ,,Haldi það mörg loðdýrabú áfram rekstri að útgjöld verði
meiri en 25 millj. kr. skal tekið á því sérstaklega og Byggðastofnun útvegað viðbótarfjármagn. Loðdýrabændur verða að sækja um að fá greitt jöfnunargjald og skal Byggðastofnun í samráði við landbrn. leggja mat á umsóknir og ákveða hverjir fái slíkar greiðslur. Verði við það mat tekið mið af aðstæðum á hverju fóðurstöðvarsvæði auk rekstrarmöguleika viðkomandi bús.``
    2. Lagt er til að Framleiðnisjóður taki þátt í þessari fjárhagslegu endurskipulagningu eða skuldbreytingu hjá þeim sem hafa stundað loðdýrarækt og verji til þess eftirstöðvum þeirra 60 millj. kr. sem teknar voru frá í sambærilegu skyni hjá sjóðnum sl. vetur eða sl. vor. Jafnframt geti Framleiðnisjóður ráðstafað allt að 20 millj. kr. til viðbótar þeirri fjárhæð ef þörf krefur og lætur þá nærri að 60--65 millj. kr. ættu að geta verið til ráðstöfunar í þessu skyni.
    3. Jarðeignum ríkisins verði gert kleift að aðstoða loðdýrabændur með yfirtöku eigna ábúenda á ríkisjörðum þar sem slíkt getur komið í veg fyrir að búseta leggist af á viðkomandi jörðum. Eins og kunnugt er búa nokkrir loðdýrabændur á ríkisjörðum og ákvæði laga eru þannig að láti þeir af búskap sínum kemur til kasta Jarðeigna ríkisins hvort sem er að gera upp við þá og yfirtaka eignir þeirra og skuldir á jörðunum. Einnig verði Jarðasjóði gert mögulegt að kaupa jarðir í sambærilegum tilvikum. Þau útgjöld sem af þessu kunna að stafa, fyrst og fremst í fyllingu tímans með greiðslu af lánum sem yfirtekin væru, verði síðan sérstaklega metin og tekin inn við afgreiðslu fjárlaga.
    4. Ríkisstjórnin samþykkti, sem sjálfsagt má vera,

framlagningu þessa frv. sem hér er nú mælt fyrir og gerð grein fyrir.
    Nokkuð hefur verið um það rætt síðan þessar ráðstafanir litu dagsins ljós eða sú samþykkt ríkisstjórnarinnar sem ég hef hér kynnt sem og þetta frv. að þessar ráðstafanir gengju of skammt og væru ónógar. Að hluta til hygg ég að það hafi byggst á þeim misskilningi að sú 25 millj. kr. tala sem nefnd er sem fyrsta framlag til Byggðastofnunar sé endanleg og óumbreytanleg. En eins og orðanna hljóðan er þá er svo ekki, heldur er ætlunin að það verði metið í framhaldi af því hver áhugi manna er á því að halda áfram loðdýrarækt, bæði hversu margir vilja í raun, á grundvelli umsókna um slíka fyrirgreiðslu, halda áfram og jafnframt verði það á grundvelli mats á aðstæðum og þá liggur það í orðanna hljóðan að stjórnvöld áskilji sér rétt til að meta hvort skynsamlegt sé í hverju tilviki að veita slíka aðstoð.
    Ég hef síðan fengið hér í hendur, reyndar nú fyrir fáeinum mínútum síðan og ég hygg að það sé væntanlegt á borð hv. þm., niðurstöður úr könnun sem Samband ísl. loðdýraræktenda hefur fengið búnaðarsamböndin til að gera. Þar var aflað fyrstu upplýsinga meðal loðdýrabænda um áformaðan ásetning þeirra á árinu 1990 og áhuga á að halda áfram loðdýrarækt ef þeim stæði til boða jöfnunargjald á fóður af tiltekinni upphæð sem þar var 5,50 kr. á kg fóðurs og þá væntanlega miðað við allt árið. Það væri þá nokkru hærri upphæð en ráðstafað hefur verið í þessu skyni á þessu ári þar sem fyrri hluta ársins voru greiddar 3 kr. en síðari hluta ársins 5,50. Mér sýnist þessi bráðabirgðakönnun, sem auðvitað jafngildir ekki endanlegum niðurstöðum eða endanlegum umsóknum sjálfkrafa um aðstoð, gefa til kynna að fullir 3 / 4 hlutar loðdýrabænda í landinu hefðu hug á því að halda áfram stæði þeim slík aðstoð til boða.
    Ég hef síðan rætt við forstjóra Byggðastofnunar og ég geri ráð fyrir að þar verði á allra næstu dögum unnið að því að móta viðbrögð og vinnureglur Byggðastofnunar í þessu sambandi samhliða því að frv. þetta verður til afgreiðslu. Ég bind miklar vonir við að þessar ráðstafanir geti þjónað þeim tvíþætta tilgangi annars vegar að auðvelda þeim sem stundað hafa loðdýrarækt á undanförnum árum að koma fjárhag sínum í betra horf, koma einhverjum böndum á sínar lausaskuldir frekar en verið hefur, í raun burtséð frá því hvert verður síðan framhald á þeirra búskap, en í öðru lagi megi þetta verða til þess að styðja við bakið á þeim sem vilja sjálfir reyna að halda áfram loðdýrarækt og taka þannig þátt í því að koma í veg fyrir að þessi tilraun með nýja búgrein hér í landinu leggist af. Ég held að flestir eigi að geta samþykkt að það væri mikill skellur og mikið tjón eftir allt sem á undan er gengið og allt það sem búið er að leggja í þessa uppbyggingu, bæði efnislega, þ.e. í formi fjárfestinga og vinnu, en þó ekki síður allt það sem viðkomandi einstaklingar hafa á sig lagt í þessu sambandi. Deilan stendur kannski um það og mismunandi skoðanir eru aðallega uppi um hvað sé

raunhæft og hvað ekki í þessum efnum, hversu mikið sé skynsamlegt að rifa seglin við þessar aðstæður og í ljósi þeirra erfiðleika sem loðdýraræktin hefur gengið í gegnum og standa yfir og ekki er kannski með einföldum hætti hægt að segja fyrir um hversu lengi standi enn.
    Ég held þá, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara um þetta mikið fleiri orðum. Það væri vissulega hægt og mætti hafa um alla þessa sögu nokkuð langt mál. Ég hef stundum sagt það á undanförnum dögum að ég hafi varla kynnst öðru máli þar sem jafnmargir hafa orðið jafnmikið vitrir eftir á eins og í þessu tilviki. Nú þykjast allir sjá að hér hafi verið óskynsamlega að málum staðið
og ógætilega fram gengið. Því var ekki að heilsa fyrir nokkrum árum þegar nánast allir stjórnmálamenn sem tóku til máls um aðstæður í sveitum, búháttabreytingar og annað slíkt, hvöttu til þess að bændur sneru sér að loðdýrarækt. Sama gerði gervöll forusta bænda, leiðbeiningaþjónustan og aðrir sem hlut áttu að máli. Ég held að ræðuhöld sem ganga út á það að vera vitur eftir á í þessu tilviki þjóni ekki miklum tilgangi. Hitt þjónar tilgangi að ræða þá stöðu sem uppi er og það sem fram undan er og þær ráðstafanir sem menn geta vonandi sameinast um að grípa til til þess að reyna að leysa a.m.k. að einverju leyti úr þessum bráða vanda.
    Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. landbn. Ég veit að hv. landbn. Ed. vinnur vel og treysti því að hún vinni rösklega að málinu því að það liggur nokkuð við að framgangur þess megi verða sem greiðastur í gegnum hv. Alþingi vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru og þess tíma sem fyrir hendi er í þessu skyni í loðdýraræktinni.