Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Sú saga hefur flogið fyrir að það hafi verið braskað með málefni loðdýrabænda í þessari ríkisstjórn. Nú skal ég ekki fullyrða um að sú saga sé rétt en hún flaug, að hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. hefðu gert með sér það samkomulag að landbrh. sætti sig við ófullnægjandi aðgerðir vegna loðdýrabænda en á hinn bóginn féllist utanrrh. á að falla frá fyrri hugmyndum um það að gefa út leyfi fyrir því að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins yrði gefin heimild til að kanna hvar hagstæðast væri að leggja varaflugvöll hér á landi.
    Nú fer mér ekki eins og hæstv. forsrh. að trúa öllu sem mér er sagt en með hliðsjón af þeim kulda sem gætti í ræðu síðasta ræðumanns til loðdýrabænda er greinilegt að landbrh. hefur verið aðframkominn í viðskiptum sínum við Alþfl. vegna þessarar atvinnugreinar. Á hinn bóginn væri fróðlegt að fá um það upplýsingar frá hæstv. landbrh. hvort eitthvað kunni að vera til í þessari sögu sem ýmsir loðdýrabændur hafa skotið að mér. ( Landbrh.: Það er nei.) Landbrh. segir að svarið sé nei og er ánægjulegt til þess að vita ef honum hefur kannski snúist hugur í sambandi við Mannvirkjasjóðinn og þá er það upplýst mál, en ég vænti þess að hæstv. utanrrh. muni þá standa við orð sín um það að Mannvirkjasjóðnum verði gefin heimild til þess að kanna hvar rétt sé að gera hagkvæmnisathugun á varaflugvelli hér á landi og hlýt því að líta svo á að sú yfirlýsing utanrrh. standi sem er út af fyrir sig ánægjulegt. ( Landbrh.: Telur þingmaðurinn málið skilið?) Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort það sé frágengið mál í ríkisstjórn að við afgreiðslu fjárlaga nú og við afgreiðslu þessa máls í landbn. verði látið við það sitja, sem fram kemur í því frv. sem hér er til umræðu og sem fram kemur í fskj. 1 með þessu frv., að á fjárlögum verði ekki gert ráð fyrir því að hærra framlag en 25 millj. kr. renni til Byggðastofnunar til að greiða jöfnunargjald á loðdýrafóðri. Ég held að þetta hljóti að vera sú grundvallarspurning sem menn standa frammi fyrir nú og alveg ljóst að eftir því verða viðbrögð annarra úti í þjóðfélaginu, hvernig Alþingi tekur á þessu máli við afgreiðslu fjárlaga.
    Eins og þetta frv. hér horfir við --- ég veit ekki hvort ég á að gera athugasemd við það strax, en lánardrottinn er skrifað með erri. Þetta er gamalt eignarfall, til lánar, beygist eins og fé, féar og væri kannski æskilegt, hæstv. forseti, ef hægt væri að koma þeim upplýsingum um málið til prófarkalesara landbrn. hvernig þetta orð beygist, lánardrottinn. ( Gripið fram í: Þeim hefur a.m.k. tekist að beygja ,,bændur``.) Það er rétt, þeim hefur tekist að beygja bændur, bæði rétt og rangt og samtímis og er það nú allvel gert.
    Spurningin hlýtur að vera þessi í fyrsta lagi: Ber að líta svo á að engar hugmyndir séu uppi um það að koma til móts við þá bændur í greininni sem hyggjast leggja niður loðdýrabúskap nú á þessu hausti? Ég skil frv. svo að það sé afgerandi í þessum efnum og vil vísa í þeim efnum, hæstv. forseti, til 3. mgr. 1. gr.

frv., en þar stendur:
    ,,Sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs skal því aðeins veitt að með henni reynist unnt að koma rekstri viðkomandi bús í viðunandi horf eða forsendur séu fyrir hendi fyrir lántakanda að greiða af skuldum sínum með öðrum hætti.``
    Og í 2. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta, ,,enda skapi það samhliða öðrum ráðstöfunum viðkomandi aðila viðunandi rekstrarstöðu og hagsmunum Stofnlánadeildar landbúnaðarins verði talið betur borgið með þeim hætti.``
    Það er þess vegna að minni hyggju ljóst að þessar ráðstafanir miðast við það að viðkomandi bændur haldi áfram sínum búrekstri, haldi loðdýraræktinni áfram. Ef hugsun ráðherra hefur verið önnur er nauðsynlegt að hann komi þeim skýringum á framfæri við þá nefnd sem hefur málið til umfjöllunar.
    Ég varð ekki undrandi á því að hv. 3. þm. Vesturl. skyldi vera hornóttur í garð loðdýrabænda hér í deildinni. Þeir kratar eru svona til skiptis, eftir því sem þeir telja sér betur henta, vinsamlegir eða fjandsamlegir bændum. Fyrir síðustu kosningar til að mynda var það áberandi í þeim sveitakjördæmum þar sem þeir bjuggust kannski við því að einstaka bændur kysu sig að þeir röðuðu einhverjum manni í annað sætið sem þeir teldu kannski að gæti villt um fyrir bændum, villt þeim sýn, talað elskulega við þá eins og Alþfl. þættist vera sá flokkur hér á landi sem helst bæri landbúnaðinn fyrir brjósti. Og má kannski segja að það hafi verið smekklegt af Alþfl. að sá maður skyldi heita Dýrfjörð sem það var látinn gera í Norðurl. v. En það var líka smekklegt hjá Alþfl. í Norðurl. e. að kalla til einhvern fremsta leikara norðan fjalls til þess að fara með þetta hlutverk fyrir Alþfl. og verður að segja að honum fórst það vel úr hendi eins og að leysa önnur þau skrípahlutverk sem honum hafa verið falin.
    Hv. þm. ræddi hér um það að við sjálfstæðismen værum að klifa á því að hækka útgjöld fjárlaga en vildum ekki lækka skatta. ( EG: Vilduð lækka skatta.) Vildum lækka skatta, ég bið afsökunar á þessum mismælum, en vildum lækka skatta. Þetta er gömul klisja hjá þessum hv. þm. Ég man eftir honum og
leikbræðrum hans þegar þeir komu hér inn á þing til að byrja með og hömpuðu mjög tillögu sem fyrrv. formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, hafði flutt um það að nauðsynlegt væri að afnema tekjuskatta í þessu þjóðfélagi og yfirbuðu nú Sjálfstfl. mjög myndarlega með tekjuskattinum. Ef maður mundi tala í stíl Alþfl., þá mundi maður kannski spyrja með hliðsjón af því frv. um tekjuskatt, sem nú er verið að leggja fram á þinginu í dag væntanlega, hvernig þingmenn Alþfl. haldi að þessum fyrrv. formanni þeirra, Gylfa Þ. Gíslasyni, lítist nú á þegar hann sér arftaka sína hér á Alþingi velta því fyrir sér svona hvernig fyrrv. forustumönnum Alþfl. lítist nú á þetta, hvernig fyrrv. forustumönnnum Alþfl. lítist á það að Alþfl. er að reyna að ná hagstjórn hér á landi, annars vegar með því að stilla atvinnureksturinn inn á verulegan taprekstur og hins vegar með því að efna viljandi til

meira atvinnuleysis en við höfum þekkt um árabil. Skyldi nú þetta vera í anda fyrrv. formanns Alþfl.? Skyldi Gautlendingurinn Haraldur Guðmundsson hafa gert stefnu af þessu tagi að sérstöku baráttumáli sínu? Gæti verið að það hafi verið orsökin fyrir því að Hannibal Valdimarsson sagði sig úr Alþfl. að Alþfl. á þeim tíma vildi kannski berjast fyrir atvinnuleysi?
    En það er auðvitað öldungis rétt og kom fram í ræðu hv. þm. að það kostar ríkissjóð nokkur útgjöld nú að reyna að tryggja það að rekstrargrundvöllur þessarar atvinnugreinar geti haldist á næsta ári. Og það er auðvitað rétt hjá þessum hv. þm. að ef það verður ekki gert verður í staðinn nauðsynlegt að veita auknu fjármagni til þess sem hefur verið kallað félagslegar þarfir fyrir allt það fólk sem af þeim sökum missir atvinnu sína, hverfur allslaust frá sínum búum og verður með einhverjum hætti eftir félagslegum leiðum að hjálpa til að ná fótfestu á nýjan leik þar sem það vill setjast að annars staðar á landinu.
    Því er spáð í þeirri þjóðhagsáætlun sem nú liggur fyrir að atvinnuleysi á tveim fyrstu mánuðum ársins 1990 leiki öðru hvoru megin við 6000 manns. Því er jafnframt spáð að þetta atvinnuleysi muni halda áfram, kannski ekki svo mikið, það mun kannski minnka yfir hávertíðina, en því er spáð að verulegt atvinnuleysi verði hér á landi fram á vordaga. Ég skal ekki segja hvort það vaxi jafnmikið frá ári til árs eins og frá árinu 1988 til 1989, að vöxturinn verði hlutfallslega sá sami frá 1989 til 1990, en hitt liggur ljóst fyrir eftir því frv. til lánsfjárlaga sem nú liggur fyrir og eftir þeim áætlunum sem uppi eru og komu síðast fram í morgun þegar forstjóri Þjóðhagsstofnunar gekk á okkar fund, að því er spáð að á næsta ári muni fjárfesting detta niður í 18% og atvinnustigið verða mjög lélegt. Raunar þekki ég ekki til þess eins og nú standa sakir hér á landi að nokkur maður, sem hefur velt fyrir sér ríkisfjármálum, geti látið sér detta í hug að ástæða sé til þess einmitt núna með aðgerðum í ríkisfjármálum að auka á erfiðleika í þeim atvinnugreinum sem fyrir eru.
    Hv. þm. talaði um það hér áðan að það hefði kostað okkur Íslendinga töluvert fé að hefja loðdýrarekstur hér á landi og mátti skilja ræðu hans á þann veg að hann væri undrandi á því að við hefðum átt við byrjunarörðugleika að etja og að þeir menn sem hófu loðdýraræktina skyldu ekki vera betur uppfræddir í þeirri atvinnugrein en raun bar vitni. En á móti kemur það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði hér áðan að allur obbinn af þessu fólki var vanur því að umgangast búskap, kunni að því leyti til verka, enda hygg ég að það sé rétt hjá hv. 4. þm. Austurl. að árangur íslenskra loðdýrabænda er síst minni en vænta mátti þegar ráðist var út í þessa atvinnugrein.
    Ég hef orðið var við það, hæstv. forseti, þegar stjórnarsinnar eru að réttlæta það að þeir vilji leggja á 500 millj. kr. jöfnunargjald á næsta ári, sem þeir höfðu þó lofað að leggja af á miðju þessu ári, að réttlæting þeirra er sú að við Íslendingar erum afskekkt þjóð og réttlæting þeirra er líka sú að hér eru

margar afskekktar byggðir þar sem verulegir erfiðleikar eru á því að reka atvinnurekstur að öllu leyti með sama árangri og þar sem allir hlutir eru eins jákvæðir og verða má í rekstrarlegu tilliti.
    Við Íslendingar höfum haft af því þungar áhyggjur með hvaða hætti við getum breikkað þann grundvöll sem er fyrir okkar útflutningsframleiðslu. Ég veit ekki hvort ástæða sé til að minna hv. 3. þm. Vesturl. á það að í Egilssögu er minnst á góðbóndann Skallagrím og gerð rækileg grein fyrir því hversu víða hann sótti fanga í sínum búrekstri og lýkur þeirri lýsingu á þessum orðum: ,,Stóð þá mörgum fótum fjárafli Skallagríms.`` Eins hygg ég að sé um okkur sem erum að velta því fyrir okkur hvernig við getum treyst undirstöður okkar Íslendinga. Við erum að velta því fyrir okkur hvernig við getum treyst undirstöður okkar útflutningsframleiðslu. Það hlýtur auðvitað að vera mikilvægt verkefni fyrir þá þingmenn sem koma utan af landi ekki síst, en reynslan hefur kennt okkur að það er einkum í útflutningsframleiðslunni sem byggðin hefur blómstrað og byggst upp í þeim héruðum.
    Við stóðum frammi fyrir því, eins og rækilega hefur verið gerð grein fyrir í ítarlegri og góðri ræðu hv. 4. þm. Austurl., að vera komnir í sjálfheldu með okkar hefðbundna búskap og meðan verð á loðdýraskinnum voru viðunandi eða mjög
góð á hefðbundnum mörkuðum töldum við rétt að freista gæfunnar með því að efna hér til loðdýraræktar. Og ekki þarf lengi að skoða tölur um markaðsverð til að gera sér grein fyrir að við höfum nú verið í þvílíkum öldudal að óhætt er að fullyrða að enginn gat séð það fyrir. Á hinn bóginn bendir margt til þess að verð á mörkuðum kunni að hækka, kannski á næsta ári, kannski á þar næsta. Þá er spurningin: Höfum við úthaldið til þess að bíða þess að markaðsaðstæður fari batnandi?
    Ef ég mundi spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig hann leit á það haustið 1988 hvort það ætti að halda áfram að veiða hörpudisk og spreyta sig á því að koma honum í sæmilegt verð á erlendum mörkuðum hefði hann sagt á þeim tíma: Auðvitað eigum við að standa á bak við þessa framleiðslu. Eins er auðvitað um loðdýrin. Við hljótum að standa á bak við loðdýrabændur enn um skeið. Spurningin hlýtur á hinn bóginn að vera: Með hvaða hætti viljum við gera það? Hvaða markmið viljum við setja okkur með þeirri aðstoð? Og með hvaða hugarfari gengur hæstv. ríkisstjórn til verks þegar hún kynnir sínar tillögur?
    Ég hef átt marga fundi um erfiðleika loðdýrabænda. Á vissu skeiði lá það í loftinu t.d. að ríkið mundi verja verulegum fjármunum til þess að kaupa jarðir af loðdýrabændum og með þeim hætti létta á skuldastöðu þeirra eins og dæmi eru um að gert hefur verið, einkanlega þó gagnvart sauðfjárbændum en einnig þeim bændum sem hafa verið í mjólkurframleiðslu. Mér er ekki kunnugt um hvernig það mál stendur, en fróðlegt væri að fá upplýsingar um það frá hæstv. landbrh. hvort það sé víða sem slíkar umsóknir liggja fyrir. Raunar er gert ráð fyrir því hér í tölul. 3 á fskj. 1 að Jarðeignum

ríkisins verði gert kleift að aðstoða loðdýrabændur að þessu leyti. Ég verð að biðja hæstv. landbrh. afsökunar á því að ég hafði vegna annars fundar ekki tök á að hlusta á hans frumræðu en ef þessa er getið þar, þá get ég auðvitað kynnt mér það í þingtíðindum. ( Landbrh.: Spyr þingmaðurinn um fjölda umsókna í þessu sambandi?) Um fjölda umsókna og hversu miklu fé er talið að þurfi að verja til þess arna. Ég held að það sé mjög fróðlegt að fá um það upplýsingar.
    Ég hlýt líka að minna á það að margir þeir menn sem fóru út í loðdýraræktun hættu sauðfjárbúskap þó svo að þeir ættu samkvæmt sínum fullvirðisrétti rétt á að halda honum áfram sem hefði vitaskuld kostað þjóðarbúið útgjöld, bæði við framleiðslu þessara kjötvara og einnig vegna þeirra háu útflutningsuppbóta sem eru á sauðfjárafurðir. Það er þess vegna venjulegur krataútúrsnúningur þegar því er haldið fram að þeir styrkir sem farið hafa til loðdýraræktar hafi verið til viðbótar við það sem eytt hefur verið til landbúnaðar. Að sumu leyti kom það í staðinn fyrir það. Ég vil líka minna á það að á sínum tíma þegar framleiðsluráðslögin voru sett hér á Alþingi voru gerðir sérstakir samningar um það að úr Framleiðnisjóði yrði varið verulegum fjármunum einmitt til nýbúgreina eins og loðdýraræktar og fiskeldis.
    En nú er spurningin: Skyldi það nú vera rétt hjá þingmanni Alþfl., hv. 3. þm. Vesturl., að sjálfstæðismenn vilji fremur en kratar seilast djúpt í vasa skattborgara? Skyldi það vera svo? Skyldi hafa staðið á sjálfstæðismönnum eftir að Alþfl. kom inn í ríkisstjórn að tryggja sjávarútveginum þá rekstrarstöðu sem nauðsynleg var? Eða skyldi það nú vera svo að þeir erfiðleikar sem þar eru og hafa komið víða út í þjóðfélagið eigi rætur að rekja til þingflokksherbergis Alþfl.? Og gæti verið að það sé rétt þegar litið er yfir þróun t.d. í sjávarútvegi á sl. ári að erfiðleikarnir hafi orðið mestir á síðasta ársfjórðungi ársins eins og upplýst var í fjh.- og viðskn. Ed. af Gunnari Hilmarssyni, formanni Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina? Það skyldi nú ekki vera. Og það skyldi nú ekki vera svo einnig að þingmönnum Alþfl. þyki ekki nóg um og hafi það fyrir sérstakt markmið nú á þessari jólaföstu að haga svo stjórn landsmála að sú kjaraskerðing sem orðin er í landinu haldi áfram? Og það skyldi ekki vera að hv. þm. Alþfl., hv. 4. þm. Reykn., beiti sér sérstaklega fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að hún sæki ekki þær kjarabætur sem nauðsynlegar verða að teljast til þess að fólk geti haft fyrir helstu nauðþurftum nú á vetri komanda?
    En hæstv. forseti, kjarninn í því sem ég er að segja er þessi: Bar að skilja ræðu formanns þingflokks Alþfl. svo að stjórnarflokkarnir séu búnir að gera um það bindandi samkomulag að aðstoð við loðdýrabændur verði ekki meiri en lýst er í þskj. 219? Ætla stjórnarþingmennirnir að ríghalda sér við þær tölur sem þar eru og megum við búast við því, hæstv. landbrh., að það sé rétt að á fjárlögum sjáum við ekki

hærri tölu en 25 millj. kr. vegna jöfnunargjalds á loðdýrafóður?
    Ef þetta er tilfellið, ef ríkisstjórnin er búin að setja handjárn á allt liðið sem veitti henni traustsyfirlýsinguna núna um daginn og ef ekkert þýðir að tala við þingmenn stjórnarandstöðunnar um þessi mál skiptir í sjálfu sér engu höfuðmáli hvort þetta frv. verður samþykkt eða ekki. Þetta frv. er ,,resept`` upp á svik. Ef ríkisstjórnin ætlar ekki að gera meira en þetta hefði henni verið nær að gera loðdýrabændum grein fyrir því fyrir einu ári að hugur hennar stæði ekki til þess að koma fótunum undir þessa búgrein.
    Ég veit satt að segja ekki hvaða bakhryggur er í hæstv. landbrh. Ég veit
ekki hvort hann getur ráðið við kratana í þessu máli. Ég veit ekki einu sinni hvort hann er sammála þeim. Það má vel vera að þetta frv. sé nákvæmlega eins og landbrh. vill, að hann vilji ekki ganga lengra til móts við þessa bændur en felst í þessu frv. Hugur hans standi ekki til annars. Það má vel vera. En það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að 2. gr. þessa frv. skiptir í augnablikinu engu máli fyrir þá rekstrarerfiðleika sem loðdýrabændur standa í vegna þess að Stofnlánadeildin hefur ekki verið að innheimta árgjöld sín af lánum til loðdýrabænda þannig að það er auðvitað málinu til frambúðar og framtíðar hvernig staðið verður að þeim þætti málsins. Hitt skiptir höfuðmáli: Er hæstv. landbrh. reiðubúinn til að hækka ábyrgðarheimild ríkissjóðs sem getið er í 1. gr.? Og er hæstv. landbrh. reiðubúinn til að sjá um það að sú fjárhæð sem getið er um í fskj. 1, 25 millj. kr., verði þrefölduð í fjárlögum? Eða mundi kannski vera vegur að hæstv. landbrh. léti það
afskiptalaust ef þeir stjórnarþingmenn, sem þrátt fyrir allt skilja þá erfiðleika sem þessi búgrein stendur í, fá heimild til þess einu sinni að ráða atkvæði sínu sjálfir og geta þá sýnt hvaða hug þeir beri til þessa atvinnurekstrar?
    Það var auðvitað rétt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði hér áðan í mjög gagnorðri ræðu að hagsmunir Stofnlánadeildar eru mjög verulegir í þessu máli og auðvitað miklar áhyggjur yfir því hvernig því reiðir af. Auðvitað hefur verðþróunin á mörkuðum erlendis valdið mönnum vonbrigðum nema kannski einum. Nema kannski hv. 3. þm. Vesturl. sem talaði hér áðan eins og hv. þm. Egill Jónsson hefði það í hendi sér hvernig verðlag þróaðist á erlendum mörkuðum. Auðvitað hljótum við í okkar áætlunum að miða við það verð á okkar afurðum sem verið hefur um eitthvert árabil og gera okkar áætlanir út frá því.
    Loks hlýt ég, hæstv. forseti, að minna á að það er víðar en á Íslandi sem einstakar útflutningsgreinar þurfa á nokkurri aðstoð að halda til að byrja með. Auðvitað gefur ræða hv. 3. þm. Vesturl. mér tilefni til að ræða hér allítarlega þau vettlingatök sem núverandi ríkisstjórn hefur t.d. á málefnum fiskeldis, svo dæmi sé tekið. Auðvitað væri rétt að fara almennt í þessi mál og auðvitað er líka rétt að minna á það að í löndum Evrópubandalagsins er um verulega styrki að

ræða, t.d. í sambandi við sjávarútveginn, sem gerir það m.a. óhjákvæmilegt, eins og ég veit að hæstv. sjútvrh. er mér sammála um, að teknar verði upp beinar samræður, formlegar samræður á pólitískum grundvelli um það hvernig við gætum bætt samkeppnisstöðu okkar í Evrópubandalaginu. Það er auðvitað hreint tollamál og auðvitað óhjákvæmilegt fyrir okkur að ræða um það. Ég mun aftur spyrja hæstv. sjútvrh. nánar út í þau mál, væntanlega á fimmtudaginn þegar áfram verður talað um málefni EFTA og Evrópubandalagsins í sameinuðu þingi, sem ég trúi ekki öðru en forseti þingsins sé áfram um að ljúki með sómasamlegum hætti.