Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég á ekki neitt sérstaklega mikið erindi hér upp í pontuna að þessu sinni. Ég vildi þó vekja athygli á nokkrum atriðum.
    Mér er þá nærtækast að snúa mér að orðum hæstv. landbrh. þar sem hann vildi vefengja það sem ég sagði í fyrri ræðu minni um glanslegar yfirlýsingar hans oft á tíðum um gildi loðdýrabúskapar og aðgerðir í þeim efnum. En nærtækast í þessum efnum er fréttatilkynning ríkisstjórnarinnar sem ég vitnaði til áður og það er hárrétt sem kom fram hjá ráðherranum að þær ákvarðanir sem voru teknar fyrripart sumars miðuðu að því að tryggja rekstur loðdýrabúskaparins fram á haust. Þetta er í tveimur fyrstu töluliðum fréttatilkynningarinnar. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hér þriðja og fjórða töluliðinn þar sem farið er að tala inn til framtíðarinnar. Þar segir:
    ,,Gerð verði á grundvelli þeirra upplýsinga sem loðdýranefndin og fleiri hafa dregið saman nákvæm úttekt á afkomumöguleikum greinarinnar og þeim hagræðingaraðgerðum sem unnt væri að grípa til, þar með talið hvernig samdrætti í greininni, sem óumflýjanlegur virðist að einhverju marki, verði best fyrir komið.``
    Og í fjórða lið segir enn fremur: ,,Allir helstu hagsmunaaðilar, sjóðir, bankar, stofnanir og samtök, verði boðaðir til fundar um framhald málsins og vinnu sem miði að því að létta greiðslubyrði (skuldabreyting, niðurfelling) og bæta starfsskilyrði þeirra sem halda áfram loðdýrarækt á næstu árum.``
    Skyldu nú ekki einhver fyrirheit felast í þessu orðalagi? Bankar, stofnanir, sjóðir eiga að koma saman til þess að finna ráð til þess að létta greiðslubyrði þeirra sem ætla að halda áfram í þessari grein, með niðurfellingu eða skuldbreytingu, og bæta rekstrarskilyrði þeirra sem halda áfram loðdýrarækt á næstu árum.
    Ég get ekki séð annað en að þarna hafi verið með afar ótvíræðum hætti gefið í skyn hvað verða mundi og ég fullyrði að það sem fyrir liggur núna er ekkert í samræmi við það sem hér kemur fram.
    Það er ekki til þess að deila um hvort það hafi verið fyrst í tíð núv. ríkisstjórnar sem söluskattur til loðdýragreinarinnar hafi verið endurgreiddur. Mitt minni stefnir nú til þess að svo hafi verið. Ef rangt er með farið bið ég landbrh. fyrir fram afsökunar. (Gripið fram í.) Hvort sem það er eftir langt eða skammt hlé. Það er ekki heldur þar með sagt að allt hafi verið dans á rósum í þeirri ríkisstjórn. Ég hafði það ekki á orði, og ég hygg að það hafi ekki dugað t.d., ekki í öllum tilvikum, þótt þingflokkarnir hafi komist að samkomulagi. Ég hygg að það megi finna rök fyrir því að það hafi þá strandað uppi í fjmrn. Þannig er það, að það er engu treystandi í þeim efnum, ekki orðum né yfirlýsingum, og ég bara undirstrika það sem ég sagði í fyrri ræðu minni um þau efni. Ég trúi því að það séu fleiri en stjórnarandstöðuþingmenn sem eru hvekktir á slíkum yfirlýsingum.

    Hér hefur verið vikið nokkuð að fortíðinni í þessum efnum. Hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur svarað því og það er óþarfi að tefja þessa umræðu við slíka þætti í liðnum tíma, en vegna þess sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar, þar sem hann gerði að umtalsefni áætlun sem ég vann líklega árið 1986 og er reyndar þakklátur honum fyrir að hafa vakið athygli á, hygg ég að þar sé um að ræða hófsamari framsetningu en oftast var um þessi efni, í þessu dæmi. Reyndar var þetta nú dæmi en ekki áætlun til þess að skýra ákveðnar breytingar í landbúnaði. Þá var miðað við að á ákveðnu árabili yrðu byggð upp 450 loðdýrabú, þ.e. að um 10% af bændum landsins mundu stunda loðdýrabúskap í lok þessa áratugar. Og ég held að það hafi verið mjög hóflega gert því að enn þá eru það um 5% bænda sem stunda þessa búgrein. Eins og hér hefur komið fram var skinnaverð þrefalt hærra en það er núna þegar þessi áætlun var gerð og hafði raunar verið enn hærra sum árin þar á undan. Hér var hóflegu dæmi stillt upp sem sýndi með ótvíræðum hætti að með því að byggja upp þessa grein eins og aðstæður voru þá væri hægt að komast út úr vandamálum í öðrum greinum landbúnaðarins og þá sérstaklega sauðfjárræktinni. Menn verða auðvitað að muna vel eftir því þegar fjallað er um þessi mál núna, eins og reyndar kom fram hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, að þær ákvarðanir sem voru teknar í sambandi við loðdýrabúskapinn voru í fullum tengslum við aðrar ákvarðanir sem teknar voru í landbúnaði og þá sérstaklega að leggja af framleiðslu í sauðfjárafurðum umfram það sem innlendur markaður gæti tekið á móti. Ég hygg að það muni ekki auðvelda þau áform, sem ég geri ráð fyrir að menn séu nú nokkuð sammála um, ef loðdýrabúskapur leggst af í landinu eins og verða mun ef ekki verður gripið til frekari ráða en frv. landbrh. um þessi efni gerir ráð fyrir.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar og ég get sagt það strax að ég verð ekki til þess að tefja framgang þessa máls í landbn. Ed. Það liggja fyrir skýrar og ótvíræðar upplýsingar þannig að það er afar aðgengilegt að taka ákvarðanir um þetta mál. Þar af leiðandi get ég lofað formanni landbn. því að þess vegna er hægt að ganga rösklega til verka og afgreiða málið sem fyrst, enda held ég að á því sé mikil þörf. Það hefur grundvallarþýðingu fyrir þá bændur sem eru í þessari grein að fá vitneskju um hvort loðdýrabúskapnum verður með afgreiðslu frv. á Alþingi rétt náðarhöggið eða gefið líf áfram.