Leyfi frá störfum vegna umönnunar barna
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustól til að lýsa stuðningi mínum við frv. Þetta er gott mál og það þarf að samþykkjast. Ég minni á að verkalýðshreyfingin hefur lagt á það mikla áherslu að konur fái frí til að annast sjúk börn sín. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, að það hefur gengið hægt í því. Þó hafa unnist nokkur skref og ég hef samið um svona frí fyrir starfshópa. Það eru reyndar allt karlmenn sem eru í þeim starfshópum en það eru að ég held sex mánaða frí á vissu árabili. Það stóð nokkuð í mönnum að semja um þetta í upphafi en síðan kom í ljós að þetta reyndist alveg prýðilega, og ég held að hægt sé að koma þessu við með góðum skilningi, góðum vilja. Reyndar á ég von á því að varðandi þann þátt í 1. gr. sem fjallar um tvö ár komi e.t.v. til einhverra erfiðleika í framkvæmdinni. Þetta er það langur tími og líklegt er að þær konur sem fyrir eru og eru búnar að starfa í tvö ár í ákveðnu starfi verði ekkert ánægðar með það að vera síðan vikið til hliðar af þeim sem í fríi voru. Þetta eru vandkvæði sem ég á von á að komi upp ef þetta yrði svona. En auðvitað fylgja breytingum alltaf einhverjir erfiðleikar og einhvers staðar verða mörkin að vera.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þessi mál, en ég ítreka það að ég tek undir það sem hv. fyrri flm. sagði, að kynhlutverk kvenna er erfiðara en margan grunar. Álagið er meira og við verðum að finna leiðir til þess að jafna þarna til.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er ein tilraunin til þess að gera svo. Vænti ég þess að frv. fái góða meðferð í nefnd og samþykki í deildum.