Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hef undirritað þetta nál. með fyrirvara og mun gera stutta grein fyrir honum.
    Frv. þetta virðist tilkomið vegna tiltekins máls sem höfðað hefur verið fyrir sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum. Löggjafanum er ætlað að setja almenn lög um dómstólaskipun og dómsköp en naumast er eðlilegt að efnt sé til lagasetningar í tilefni af einstökum dómsmálum.
    Lög nr. 74/1974 gera ráð fyrir að þrír sakadómarar geti skipað dóm í sakadómi Reykjavíkur ef sérstaklega stendur á, sbr. 3. mgr. 5. gr. Utan Reykjavíkur er eigi um samsvarandi heimild að ræða að því er opinber mál varðar og sama mun eiga við um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum sem skipaður er einungis einum dómara. Ef rétt þykir að breyta þessu fyrirkomulagi er eigi minni ástæða til að breytingin taki einnig til dómstóla utan Reykjavíkur. Benda má á að sakadómari í ávana- og fíkniefnamálum getur eins og aðrir dómarar kvatt til sérfróða meðdómendur, einn eða tvo, ef hann telur sérkunnáttu þörf, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 74/1974. Þá er enn heimild í 2. mgr. sömu greinar til þess að skipa umboðsdómara ef mál þykir ofvaxið hinum reglulega dómara.
    Löggjöf um meðferð opinberra mála er nú í heildarendurskoðun, enda verða ný lög að hafa verið sett og taka gildi um leið og breyting verður á dómstólaskipuninni 1. júlí 1992. Meðan á undirbúningi löggjafar þessarar stendur er tæpast nauðsynlegt að fást við einstakar breytingar á núgildandi reglum.
    Þessar athugasemdir vildi ég láta koma hér fram en mun að öðru leyti styðja frv. svo að það nái sem fyrst fram að ganga til að tefja ekki fyrir nauðsynlegri málsrannsókn.