Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir og komið er til þessarar hv. deildar frá Ed. felur í sér breytingar á lánsfjárlögum fyrir árið 1989 sem fyrst og fremst miða að því að auka heimildir til innlendrar lántöku í því skyni að fjármagna halla ríkissjóðs á árinu 1989 að mestu eða öllu leyti hér innan lands. Auk þess er í frv. gert ráð fyrir því að heimildir til erlendrar lántöku verði auknar í því skyni að endurlána þá upphæð til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina í samræmi við þá skilmála og áform sem sjóðurinn starfar eftir.
    Áætlað er að 11,3 milljarða kr. innlend lánsfjárþörf á árinu 1989 verði uppfyllt þannig að spariskírteini verði seld fyrir 6 milljarða kr., að ríkisvíxlar verði seldir fyrir 3,8 milljarða umfram innlausn og að önnur innlend lántaka nemi um 1,5 milljörðum kr. Hvað síðasta þáttinn snertir kemur helst til álita sérstök lántaka hjá lífeyrissjóðunum en viðræður standa nú yfir við lífeyrissjóðina, m.a. um þátttöku þeirra í innlendri lánsfjáröflun ríkissjóðs.
    Í lok septembermánaðar höfðu spariskírteini verið seld fyrir 3,2 milljarða kr. en auk þessa hefur almenningur með mjög virkri þátttöku í hinu nýja áskriftarkerfi spariskírteina skráð sig fyrir nokkur hundruð millj. kr. fram til áramóta til viðbótar.
    Í byrjun október komu til lokainnlausnar spariskírteini sem með vöxtum og verðbótum námu 2,5 milljörðum kr. og það er mjög brýnt að ríkissjóði takist að selja ný spariskírteini í ríkum mæli á móti þessari innlausn og hefur það gengið nokkuð vel.
    Í lok september höfðu verið seldir ríkisvíxlar fyrir um 4,1 milljarð kr. umfram innlausn frá áramótum. Vil ég í því sambandi sérstaklega vekja athygli á svari við fsp. frá hv. þm. Geir Haarde sem ég vænti að sé komin á borð þingmanna en í því svari kemur fram að vextirnir á ríkisvíxlunum hafa verið lægri heldur en bankavextir á öllu þessu tímabili, jafnvel á ákveðnu tímabili hækkað minna og hægar heldur en bankavextirnir hækkuðu. Vek ég í því sambandi sérstaklega athygli á bréfi frá Seðlabankanum sem birt er með þessu svari.
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1989 eins og þau voru samþykkt í upphafi þessa árs var veitt heimild til innlendrar lántöku fyrir 5,3 milljarða kr. Enn fremur er almennt ákvæði í lögum um að heimilt sé að selja ríkisvíxla til endurgreiðslu áður útgefinna ríkisvíxla og til að bæta stöðu ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi í Seðlabankanum.
    Innlend lántaka ríkissjóðs er því um þessar mundir að fara fram úr þeim heimildum sem í lánsfjárlögum voru og þess vegna óhjákvæmilegt að leita eftir staðfestingu Alþingis um að geta aukið þessa innlendu lánsfjáröflun meira.
    Ég vænti þess að hv. Nd. muni líkt og hv. Ed. reyna að hraða afgreiðslu þessa máls þar eð brýnt er að hafa fullkomnar lagalegar heimildir fyrir þeirri innlendu lánsfjáröflun sem hér er fyrst og fremst farið fram á. Takist ekki að afla ríkissjóði þess lánsfjár á

innlendum markaði sem hér er stefnt að mun verða yfirdráttur á reikningum ríkissjóðs í Seðlabankanum í árslok. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt ákvæðum skuldabréfa ríkissjóðs í Seðlabankanum á ríkissjóður að greiða 900 millj. kr. til bankans í ár. Það er hins vegar rétt að vekja athygli á því að það er vissulega álitamál hvort rétt sé miðað við árferði í okkar þjóðarbúskap um þessar mundir að ríkissjóður sé að bæta stöðu sína í Seðlabankanum frá því sem áður var. Verði hins vegar yfirdráttur á reikningnum í lok ársins mun ríkissjóður eins og hv. þm. er kunnugt þurfa að greiða hann fyrir lok mars á næsta ári með innlendri eða erlendri lántöku.
    Að því er varðar Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina hefur verið ákveðið að hann hætti að taka við lánsumsóknum um áramót og er stefnt að því að hann ljúki afgreiðslu umsókna á fyrstu mánuðum næsta árs. Í framhaldi af því mun stjórn sjóðsins hætta störfum og sjóðnum verður komið til vörslu í starfandi banka eða lánastofnun. Á þann hátt verður staðið við það fyrirheit að starfsemi Atvinnutryggingarsjóðsins væri aðeins tímabundin ráðstöfun. Til að Atvinnutryggingarsjóðurinn geti lokið lánveitingum og skuldbreytingum er nauðsynlegt að honum verði tryggt sem fyrst viðbótarfjármagn en ekki þykir rétt að aukið verði við framlag ríkissjóðs frá því sem ákveðið var við stofnun sjóðsins þar sem starfsemi sjóðsins felst fyrst og fremst í lánveitingum og skuldbreytingum hjá atvinnufyrirtækjum. Ástæðan fyrir því að ríkissjóður er takandi þess láns sem hér um ræðir og endurlánar það til Atvinnutryggingarsjóðs er eingöngu sú að með þeim hætti er hægt að tryggja skjótari afgreiðslu og hagstæðari lánskjör á erlendum mörkuðum.
    Hvað varðar aukna lántökuheimild fyrir Byggðastofnun er þess að geta að sl. vor heimilaði ríkisstjórnin Byggðastofnun erlenda lántöku að fjárhæð 100 millj. kr. til að endurlána eigendum smábáta sem lent höfðu í greiðsluerfiðleikum. Hér er leitað staðfestingar Alþingis á þeirri heimild.
    Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að að lokinni þessari 1. umr. verði frv. vísað til fjh.- og viðskn. þar sem svör við spurningum sem nefndarmenn kynnu að bera fram verða að sjálfsögðu veitt í samræmi við meðferð málsins í Ed.