Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að verða við þeim tilmælum að afgreiða þetta mál hratt og vel í gegnum hv. deild. Málið er þess eðlis að það er eðlilegt að leitað sé heimilda þingsins. Hins vegar verður auðvitað að leita upplýsinga hjá hæstv. fjmrh. og betra hefði verið ef hæstv. ráðherra hefði getað sagt nákvæmar frá stöðu málsins en hann kaus að gera í sinni ræðu. Það kemur í ljós í þessu frv. hve gífurlegur halli það er sem hefur orðið á fjárlögum yfirstandandi árs en það gerir að verkum að lánsfjárþörf ríkissjóðs er mun meiri en ætlast var til þegar samþykkt voru fjárlög og lánsfjárlög á sínum tíma.
    Í athugasemdum við þetta lagafrv. stendur að útlit sé fyrir að gjöld verði um 4,7 milljarðar umfram tekjur. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi tala standist nú nokkrum vikum eftir að frv. hefur verið lagt fram og einkum og sér í lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað kostaði sú ákvörðun sem tekin var í hæstv. ríkisstjórn nú ekki alls fyrir löngu vegna aukinna niðurgreiðslna og hvort sú tala rúmast innan þessa mismunar sem hér er nefndur eða hvort um hækkun sé að ræða? Jafnframt vildi ég gjarnan heyra hæstv. ráðherra segja hér við 1. umr. málsins frá því, ef hann hefur um það upplýsingar, hvað fleira gæti komið til en það sem þegar var ljóst þegar þetta frv. var lagt fram.
    Varðandi lántökur ríkissjóðs hér á landi er tvennt sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um. Annars vegar langar mig til þess að fá nákvæmari tölur um sölu spariskírteina. Við munum það að vextir af spariskírteinum ríkissjóðs voru lækkaðir á sínum tíma, þó þannig að áður en lækkunin átti sér stað auglýsti hæstv. ráðherra það mjög rækilega þannig að talsverður kippur kom í sölu bréfanna. Síðan datt salan að verulegu marki niður. Þá greip hæstv. ráðherra til þess ráðs að hækka vexti af bréfum fyrir þá sem keyptu bréf en voru að leysa inn sín bréf sem þeir áttu áður. Mig minnir að þeir fengju betri kjör sem nam um 1%. Mig langar til þess að heyra hæstv. ráðherra segja frá árangrinum af því og jafnframt að segja hér í hv. deild hvernig gengið hefur að selja spariskírteinin á öðrum kjörum en þarna buðust, þ.e. hvernig hefur sala spariskírteina ríkissjóðs gengið til annarra en þeirra sem eru fastir áskrifendur á gömlu kjörunum og til annarra en þeirra sem innleystu sín bréf en keyptu strax önnur bréf á betri vöxtum en aðrir geta fengið. Það hefur verulega þýðingu að átta sig á því hvernig hreyfing er á þessum bréfum.
    Þá langar mig til þess að fá upplýsingar um ríkisvíxlana. Hæstv. ráðherra vitnaði hér til skriflegs svars sem borist hefur vegna fsp. hv. 17. þm. Reykv., sem ég hygg að muni taka hér til máls nú á eftir. Ég fæ ekki betur séð, þó hef ég nú ekki alveg nýlega lesið það svar, en að í svari Seðlabankans komi það skýrt fram sem auðvitað skiptir öllu máli, og það er að hinn mikli halli sem er á ríkissjóði leiði til þess að vextir muni haldast uppi. Með öðrum orðum, og það

er kannski það sem er mikilvægast í þessu: Það er álit Seðlabankans eins og auðvitað allra hagfræðinga og þeirra sem hafa kynnt sér þessi mál náið að hinn mikli halli sem hefur orðið á ríkissjóði veldur því auðvitað að vextir á innlenda fjármagnsmarkaðnum eru hærri en ella. Það kemur að sjálfsögðu til af því að það er aukin samkeppni um það takmarkaða fjármagn sem í boði er á íslenska lánsfjármarkaðnum.
    Það er full ástæða til þess, virðulegur forseti, að rifja það upp að fyrir um það bil ári síðan stóð hæstv. fjmrh. hér í ræðustól á Alþingi og gaf nánast vikulega skýrslu um hinn mikla halla sem þá hafði myndast á ríkissjóði. Hann talaði um milljarða mistök og milljarða skatta sem hefði verið fráfarandi ríkisstjórn að kenna. Hæstv. ráðherra lagði síðan á nýja skatta. Þegar allt var talið kom mönnum saman um það að skattarnir sem lagðir voru á eða áformað var að leggja á hefðu verið um 7 milljarðar kr. á verðlagi yfirstandandi árs. Þrátt fyrir alla þessa nýju skatta hefur nú komið í ljós að ríkissjóður er rekinn með verulegum halla. Í þessu frv. er þess getið að það séu 4,7 milljarðar. Ég hef óskað eftir því að hæstv. ráðherra svaraði því hér og nú hvort það geti verið að hallinn verði enn meiri, m.a. vegna nýrra ákvarðana ríkisstjórnarinnar.
    Ég held að það sé full ástæða til þess að benda á að nú hefur hæstv. ráðherra ekki komið hér í ræðustól og talað um milljarða mistök í ríkisfjármálum og finnst manni það skjóta svolítið skökku við þegar hægt var að tala um milljarða mistök á sl. ári vegna verulegs halla. Síðan er fyllt upp í gatið með mjög mikilli skattaaukningu og enn koma fram um það bil 5 milljarðar í halla á yfirstandandi ári og maður spyr sjálfan sig að því: Ef hallinn í fyrra voru milljarða mistök, af hverju er þá hallinn í ár ekki milljarða mistök jafnframt?
    Að endingu vil ég segja þetta: Hæstv. ríkisstjórn sem leggur fram fjárlagafrv. með 3 milljarða halla eftir það sem á undan er gengið er að sjálfsögðu ríkisstjórn sem hefur gefist upp við verkefni sitt. Að það skuli geta gerst að ríkisstjórn skuli leggja fram fjárlagafrv. með þessum hætti og til viðbótar sé auðvelt að sýna fram á að hallinn verði mun meiri eins og jafnvel sjálfur formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hefur nefnt sýnir auðvitað að hæstv. ríkisstjórn veldur ekki þeim verkefnum sem henni hafa verið falin. Ég ætla ekki að hafa jafnstór orð um þetta eins og ég veit að hæstv. fjmrh. mundi hafa væri hann í stjórnarandstöðu. Það er óþarfi. Verkin munu auðvitað dæma hæstv. fjmrh. en það er full ástæða til þess við 1. umr. þessa máls, án þess að þetta mál sé tafið með nokkrum hætti, að benda á að þetta frv. er ein helsta sönnun fyrir þeim mistökum sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert á sínum stutta ferli.