Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til l. sem hér liggur fyrir um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1989 er að sönnu góð nýjung og rétt að leggja hér fram. En þetta frv. er jafnframt sönnun á því að svipta ætti þessa ríkisstjórn fjárræði. Og jafnframt sýnir frv. að nafn það sem þessari ríkisstjórn hefur verið gefið, Getuleysisbandalagið, er rétt. Hér er verið að leggja fram frv. þar sem óskað er eftir 7 milljörðum í aukið lánsfé. Hvað þýða þessi lög? Þau þýða að að halli ríkissjóðs er a.m.k. 12 milljarðar á þessu ári. Þau þýða að hæstv. fjmrh. hefur sannað að fjármálastjórn hans hefur brugðist og hefði hann nú heldur betur tekið upp í sig hefði hann verið hér í stjórnarandstöðu, eins og hann gerði á því fyrsta þingi sem ég sat.
    En hvað þýða þessi lög jafnframt? Hv. 17. þm. Reykv. hefur haldið langa tölu um ríkisvíxla og komið hefur fram hver áhrif ríkisvíxla eru á þann markað sem kallaður er fjármagnsmarkaður. Hann hefur líka upplýst að vextir á ríkisvíxlum eru um 13% raunvextir. Þegar maður lítur til þess að ríkissjóður býður bréf sín auk þess eignarskattsfrjálst sem þýðir 3--3,5% vaxtahækkun í raunvöxtum þá erum við að tala um 16--17% raunvexti sem eru dágóðir vextir fyrir það eitt að lána peninga. Þessi lög þýða líka að enn er verið að auka skuldasöfnun ríkissjóðs.
    Þessi skuldasöfnun fer fram í samkeppni við atvinnuvegina og einstaklingana í landinu sem þegar greiða allt of háa skatta og sem þegar greiða allt of háa vexti. Þetta þýðir auðvitað að rekstrarstaða heimilanna og fyrirtækjanna verður verri. Maður getur leyft sér að spyrja hver staða unga fólksins sé. En það er einmitt unga fólkið sem kemur til með að greiða þennan halla ríkissjóðs í framtíðinni. Og það greiðir hann með versnandi lífskjörum, lægri tekjum, hærri sköttum og jafnvel meiri dýrtíð.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur komið hér upp í ræðustól margoft og leikið
tveimur skjöldum. Þegar hann talar úr þessum ræðustól gæti manni dottið í hug að hann væri víxlari í skriftastól og segði nú prestinum sínum iðrandi frá því hvað hann hefði verið vondur. Því að þá eru vextirnir af hinu illa. En svo fer hv. 6. þm. Norðurl. e. niður í Búnaðarbanka og alla sjóðina sína. Þá er allt í lagi með vextina. Svo fer hann og lætur bankann sinn kaupa ríkisvíxlana og þar með á bankinn hans ekki peninga til að lána fyrirtækjunum vegna þess að þeir taka það auðvitað fram yfir í bankanum að kaupa víxla með 16--17% vöxtum, en lána ekki út með 7--9% vöxtum. Ég skil það vel. En svona geta menn leikið tveimur skjöldum. Og það verður fróðlegt að sjá framhaldið af þessu.
    Það er mjög fróðlegt að lesa skýrslu þá sem kom hér um ríkisvíxlana. Hún segir að bankarnir hafi notað töluvert af fé sínu til að kaupa víxlana eins og ég kom hér inn á áðan sem þýðir að í stað þess að lána peningana á lægri vöxtum á almennum markaði eru þeir að fjárfesta í tapi ríkissjóðs sem þeir fá miklu

meira fyrir. Þetta stjórnleysi í ríkisfjármálum hefur alvarlegar afleiðingar og hæstv. fjmrh. ætti að vita það best.
    Og það er annað sem þetta hefur áhrif á. Núna eru um 1900 menn víða um land atvinnulausir. Það má leiða líkur að því að ef ríksstjórnin hefði staðið sig í rekstri ríkisfjármála, lagt á lægri skatta og rekið ríkissjóð hallalausan, án þess að taka lán og með því þanið upp vaxtamarkaðinn, þá væru allir þessir menn í vinnu. Haldi ríkisstjórnin áfram að verðlauna sjálfa sig með skattaívilnunum á eigið fjármagn þá fer illa. Þá fer eins fyrir okkur og bandamönnum hæstv. fjmrh. fyrir austan járntjald. Atvinnuvegir hafa þá ekkert fjármagn og geta ekki framkvæmt það sem þarf að gera og fólkið verður á lágum launum og atvinnulaust.
    Það verður að snúa þessu dæmi við. Það verður að snúa frá þessari stefnu. Við hljótum að taka mark á því sem nú er að gerast í heiminum þar sem menn eru að snúa til vestræns hagkerfis. En fjmrh. veit ekki hvað það er, hann hefur eitthvað misskilið það sem hann boðaði hér í ræðu fyrir skömmu á Alþingi, hvað það þýðir en það þýðir ekki aukna skatta. Svíar sem hafa verið þó nokkuð seigir á þessu sviði eru að snúa af þessari braut. Og það hefur þegar haft áhrif í Svíþjóð. Þar er nú í fyrsta skipti í fjölda ára næga vinnu að fá og það þýðir jafnframt að hjól atvinnulífsins snúast þar hraðar og það þýðir betri afkomu fyrir fólkið. Þess vegna er þetta litla frv., sem lítur sakleysislega út, staðfesting á að þessi ríkisstjórn á ekki að hafa fjárráð.