Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Þetta frv. er um breytingu á lánsfjárlögum fyrir þetta ár og gerir ráð fyrir að hækka heimild ríkissjóðs til erlendrar lántöku á þessu ári, að hún verði aukin um 900 millj., og jafnframt að innlend lántökuheimild verði aukin um 6 milljarða. Það er jafnframt gert ráð fyrir því að af þeirri erlendu lántöku, viðbótarlántöku sem frv. gerir ráð fyrir, verði lánað Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, en aftur aukin lántaka innan lands til þess að jafna hallann á ríkissjóði á þessu ári. Út af fyrir sig má flytja hér langt mál um af hverju þetta er og hvað hefur gerst. Ég dreg ekki í efa þörf Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina fyrir þessa upphæð en manni verður á að spyrja: Var þörf á því að atvinnulífið og útflutningsatvinnuvegirnir færu svo langt niður sem raun ber vitni að til þessa hefði þurft að koma? En það er annað mál. Ég geri ekki á nokkurn hátt lítið úr þeim lánveitingum sem Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina hefur afgreitt og er að afgreiða. Það hefur verið fullkomin þörf fyrir þá afgreiðslu á þessu tímabili.
    Ég tel til góðs að flytja frv. sem þetta til að afla heimildar til aukinnar lántöku á því ári sem lántakan á að eiga sér stað. Það ber að þakka og meta að slík breyting er gerð og vildi ég gjarnan að sá háttur verði almennt í heiðri hafður. Ed. Alþingis gerði brtt. við þetta frv. þess efnis að Byggðasjóði væri heimiluð erlend lántaka upp á 350 millj. kr. Byggðasjóður hafði farið fram á að auka lántökuheimild um 550 millj. kr. Það sem hér ber á milli í þeirri samþykkt sem ríkisstjórnin gerði og þeirri samþykkt sem stjórn Byggðastofnunar gerði eru 200 millj. til smábátalána, en Byggðastofnun tók að sér úthlutun á því fjármagni að tilhlutan og beiðni ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin veitti þá heimild fyrir 100 millj. kr. erlendri lántöku í þessu skyni. Byggðastofnun benti á að þetta mundi engan veginn nægja ef fara ætti út í þessar lánveitingar á annað borð. Enda kom það á daginn við afgreiðslu þessara mála að sú tala sem Byggðastofnun benti á að mundi þurfa var mjög nærri lagi miðað við þær reglur sem voru í gildi við úthlutun þessara lána. Það má því segja að ríkisstjórnin hafi skorið þessa upphæð niður, sem hún hafði þó forustu um að óska eftir við Byggðastofnun að veitt yrði. Mér finnst miður að til þessa hafi ekki verið tekið fullt tillit, en einhvern veginn verður þetta að bjargast út þetta ár, enda er lítið eftir af árinu og Byggðastofnun verður því að sætta sig við að þessi 350 millj. kr. hækkun verði framkvæmd.
    Ég tel brýna nauðsyn bera til þess að hraða afgreiðslu þessa frv. og mun ekki láta mitt eftir liggja að svo verði. Menn spyrja: Ja, hvað hefur gerst, af hverju þarf stofnun eins og Byggðastofnun á þessari aukningu að halda? Ég hef þegar nefnt smábátalánin sem var farið í eftir fyrirmælum og óskum ríkisstjórnarinnar. Þar við bætist að innheimta er lélegri af lánum, gjaldþrot eru mjög tíð og mikill kostnaður við kaup á eignum til að bjarga því sem

bjargað verður í hagsmunum stofnunarinnar. Stofnunin hefur tekið þátt í kaupum á hlutdeildarskírteinum bæði A- og B-lána sem kosta mikið. Fiskeldislánin hafa hér aukist töluvert og vanskil í þeim. Allt hefur þetta orðið til þess að stofnunin hefur þurft á meira fjármagni að halda. Þrátt fyrir það hefur hún orðið fyrir áfalli því að eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar lækkaði á sl. ári úr 30% í 24% í lok júní, og heldur hefur það lækkað síðan og hafa menn eðlilega áhyggjur af því. Það verður aldrei verulega myndarleg stofnun sem lætur eigið fé sitt brenna upp í tapi, þá á hún ekki framtíð vísa. Því ber auðvitað að líta á að eftir því sem áhætta lána verður meiri, eftir því sem atvinnulífinu gengur verr, sérstaklega útflutningsatvinnuvegunum sem þessi stofnun hefur lánað mest til, hefur þessi hætta aukist verulega.
    Það er full ástæða til þess að ræða hér ríkisfjármálin í heild og þá væntanlega fjárlagaafgreiðslu en ég sé ekki ástæðu til að eyða tíma í það hér við afgreiðslu og meðferð þessa frv. um breytingu á lánsfjárlögum fyrir þetta ár. Það gefst tækifæri til þess bæði við afgreiðslu fjárlaga og eins við afgreiðslu og umræðu um lánsfjáráætlun fyrir árið 1990.
    Ég vil aðeins endurtaka og láta koma hér skýrt fram að ég vil standa að því að greiða fyrir afgreiðslu þessa frv., sér í lagi vegna þess ástands sem er núna hjá Byggðastofnun. Þar er raunar gjörsamleg stöðvun á afgreiðslu lána og því er nauðsynlegt að þetta verði að veruleika þannig að hægt verði að ganga frá erlendri lántöku, í síðasta lagi í næstu viku og afgreiðsla verði með eðlilegum hætti það sem eftir er af þessu ári. Ég vil því gera mitt besta til þess að hraða afgreiðslu þessa máls.