Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem hafa komið fram hjá ræðumönnum að lýsa vilja sínum til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins hér í þinginu. Það er rétt sem hefur komið fram að það er nýjung að leggja fram frv. um breytingu á lánsfjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Það er einn þátturinn af þeim breytingum á meðferð ríkisfjármála sem ég hef ákveðið að beita mér fyrir. Hinn þátturinn er það frv. um fjáraukalög sem væntanlega kemur til afgreiðslu hér í þinginu síðar í þessari viku eða í byrjun þeirrar næstu.
    Vegna fsp. sem komu fram hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni vil ég taka það fram að í framsöguræðu minni fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989, rakti ég nokkuð ítarlega flesta þá efnisþætti sem hann vék að hér í sínu máli. Þar kom m.a. fram að ekki eru horfur á að halli ríkissjóðs verði meiri í ár en áætlað var fyrir nokkrum mánuðum síðan, eða á bilinu 4,5--5 milljarðar kr. Það eina sem gæti hugsanlega skekkt þessa tölu er innheimta á söluskatti á síðustu vikum þessa árs vegna þess að skilaaðilar í söluskatti hafa ekki gert sér nægilega vel grein fyrir því að í nóvembermánuði er reiknað með að farið verði með skilin öðruvísi en aðra mánuði ársins. Þar er hins vegar ekki um raunverulegt tekjutap að ræða heldur hugsanlega frestun einhverra greiðslna um fáeinar vikur en þó ætla ég ekki að svo verði.
    Hér hefur nokkuð komið til umræðu, bæði í fsp. frá hv. þm. Friðriki Sophussyni og eins í ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde, þróun spariskírteinamarkaðarins og ríkisvíxlamarkaðarins á þessu ári. Vissulega væri tilefni til að fara yfir þau mál ítarlega. Ég vil þó vekja athygli á því að skömmu eftir að ég tók við embætti fjmrh. sögðu viðskiptabankarnir upp því samkomulagi sem fyrirrennari minn hafði gert varðandi sölu viðskiptabankanna á spariskírteinum ríkissjóðs. En sölukerfið hafði verið í höndum
viðskiptabankanna eingöngu og ríkissjóður hafði um nokkuð langa hríð verið tiltölulega afskiptalítill á þeim markaði. Við í fjmrn. stóðum þess vegna frammi fyrir því í upphafi þessa árs að þurfa að þróa að nýju markað fyrir spariskírteini ríkissjóðs í samkeppni við viðskiptabankana og ýmsar aðrar fjármálastofnanir. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að geta lýst því nú við lok ársins að þessi markaðsþróun fjmrn. hefur tekist mjög vel og það fólk sem unnið hefur að henni, og þá sérstaklega forstöðumaður hinnar nýju söluskrifstofu spariskírteina ríkissjóðs, hefur skilað mjög góðum árangri. Það er hins vegar ljóst að þegar ríkissjóður fer að beita sér á þessum markaði hlýtur hann að taka upp ýmsar aðferðir sem nauðsynlegar eru til að tryggja sölu spariskírteina á hverjum tíma í samræmi við þá samkeppni og þá stöðu sem er á peninga- og verðbréfamarkaðinum hverju sinni. Ég bið menn nú að gagnrýna ekki ríkissjóð fyrir það því mér finnst það þvert á móti sýna að ríkissjóður hefur sveigjanleika til að laga sig að markaðnum og beita ýmsum þeim viðurkenndu aðferðum á markaðnum sem

nauðsynlegar eru. Þess vegna er staðan sú við lok ársins að við höfum hér miklu sterkari og þróaðri markað fyrir spariskírteini ríkissjóðs og ríkisvíxla en við höfðum í upphafi ársins. Og peningakerfið í landinu í heild sinni hefur vanist því og að mínum dómi er tiltölulega ánægt með þá markaðssveigju sem ríkissjóður hefur sýnt í þeim efnum. Ég get hins vegar vel skilið að það komi mönnum dálítið á óvart að fjmrh. Alþb. skuli hafa haft forustu um þessa markaðsþróun á verðbréfapappírum ríkisins en það er ekki neitt feimnismál af minni hálfu nema síður sé. Ég tel það satt að segja eitt af því sem ánægjulegast er í meðferð ríkisfjármála á þessu ári hvað vel hefur tekist að þróa þennan markað fyrir innlenda lánsfjáröflun.
    Ég tel sjálfsagt að í nefndinni eða við 2. umr. verði veittar nýjustu upplýsingar til að svara spurningum hv. þm. Friðriks Sophussonar nákvæmlega um sölu spariskírteina nú á þessum síðustu vikum. Ég tel einnig að sú aðferð sem ríkissjóður ákvað að beita fyrir skömmu þegar nokkuð stór hluti spariskírteina kom til innlausnar, að bjóða eigendum þeirra spariskírteina hagstæðari kjör ef þeir keyptu ný, vera eðlilega aðferð á markaðinum og ég er viss um að henni verður beitt til frambúðar vegna þess að hún sýnir vilja ríkissjóðs til að koma sérstaklega til móts við, eða verðlauna ef menn vilja kalla það svo, þá einstaklinga eða stofnanir sem hafa tekið þátt í sparnaðarkerfi ríkisins, spariskírteinunum um langt árabil, og eru reiðubúnir að gera það áfram. Mér finnst þess vegna fullkomlega eðlilegt að bjóða slíkum einstaklingum, sjóðum eða fyrirtækjum betri kjör en almennt eru boðin, líkt og fyrirtæki telja það réttlætanlegt að bjóða traustum viðskiptavinum betri kjör en almennt eru boðin.
    Það er hins vegar rétt að hafa það í huga að þar er eingöngu um að ræða mjög afmarkaðan hluta þessa markaðar og felur ekki í sér fordæmi um almenna vaxtahækkun. Staðreyndin er þvert á móti sú að spariskírteini ríkissjóðs hafa verið leiðandi í vaxtalækkuninni allt þetta ár. Ávallt hafa spariskírteini ríkissjóðs verið á undan þegar vaxtalækkunarskref hafa verið stigin og það er mjög merkileg staðreynd að það hefur ekki haft áhrif í neikvæða átt á sölu
spariskírteina ríkissjóðs. Þvert á móti hefur það styrkt markaðinn.
    Mér finnst það líka sýna að það hefur verið rétt mat að markaðurinn þyldi þessa lágu vexti, þetta vaxtagólf, að ekkert bendir til þess nú við lok ársins að hækka þurfi vexti á spariskírteinum ríkissjóðs. Það lá alls ekki ljóst fyrir á miðju ári, hvað þá heldur í upphafi árs, og að þessu leyti er dómur markaðarins á þessu vaxtastigi sem boðið var á þann veg að það hafi verið rétt og eðlilegt.
    Það er nú þess vegna með nokkru stolti, ef ég má segja það hér, að ég sem fjmrh. og starfsmenn fjmrn. líta yfir þennan farna veg og að markaðsmat okkar hafi reynst jafnfarsælt eins og þessar tölur sýna. Hins vegar er nokkuð ljóst að það eru ekki miklir möguleikar á að fara með þessa vexti mikið neðar eða

í jafnstórum stökkum og gert var á þessu ári. (Gripið fram í.) Ég ætlaði nú að koma að því, hv. þm., en ég vék að því hér áðan áður en þm. kom í salinn að fyrir þeim þætti málsins hef ég gert mjög ítarlega grein í framsöguræðu minni fyrir frv. til fjáraukalaga sem ég mælti fyrir fyrir nokkrum vikum síðan og kemur aftur til umræðu hér á Alþingi væntanlega eftir fáeina daga. Ég gat þess þá, hv. þm., að ekkert benti til þess að hallinn yrði meiri í ár en þeir 4,5--5 milljarðar sem ég taldi fyrir nokkrum mánuðum síðan að hann mundi verða.
    Ég var þar staddur í máli mínu að lýsa þeirri skoðun að ekki væru fram undan möguleikar til þess að stíga jafnstór skref til vaxtalækkunar eins og gert var á þessu ári, m.a. vegna þess að þeir raunvextir sem boðnir eru á spariskírteinunum og mynda hið eðlilega vaxtagólf í peningakerfi landsins eru senn orðnir og reyndar eru nú þegar orðnir sambærilegir við það sem tíðkast í helstu viðskiptalöndum okkar og óraunhæft er að ætla að vextir á slíkum verðbréfum séu til lengdar öðruvísi en samkeppnisvextir í helstu viðskiptalöndum okkar. Einkum og sér í lagi ef menn ætla að opna fyrir aukið fjármagnsstreymi milli Íslands og þessara landa verða menn auðvitað að taka nokkuð mið af því í vaxtaákvörðunum á næstunni hvert er vaxtastigið í helstu viðskiptalöndum okkar og líkleg þróun þess á næstunni. Staðreyndin er sú að á sama tíma og vextir hafa lækkað hér á Íslandi hafa þeir farið hækkandi í helstu samkeppnislöndum okkar.
    Hér fór fram mjög athyglisverð umræða um ríkisvíxla. Mér finnst niðurstaða Seðlabankans í því bréfi sem ég birti í svari við fsp. hv. þm. Geirs H. Haarde vera alveg skýr. Þar kemur fram að þótt ríkisvíxlar geti í sjálfu sér leitt til vaxtahækkunar hefur það ekki gerst á þessu ári heldur hafa ríkisvíxlarnir þvert á móti verið undir bankavöxtum og hækkað hægar en bankavextirnir þannig að ekki er hægt að leiða að því rök að ríkissjóður hafi í gegnum ríkisvíxlamarkaðinn haft áhrif til vaxtahækkunar á þessu ári.
    Það er hins vegar alveg ljóst þegar við lítum til baka að sveiflur á þessum markaði hafa verið með þeim hætti að stundum hafa verið neikvæðir raunvextir og stundum hafa þeir verið jákvæðir og einstaka sinnum mjög háir. Þetta er markaður sem í eðli sínu er spámarkaður og það er eðli slíks markaðar að þeir sem annaðhvort hafa heppnina með sér eða eru miklir kunnáttumenn í spádómum geta hagnast vel. Sá möguleiki er drifkraftur markaðarins, sú hagnaðarvon. Og það væri vonlaust að byggja hér upp öflugan ríkisvíxlamarkað ef ekki væru í eðli hans slíkir möguleikar á verulegum hagnaði ef menn hafa reynst spá rétt um þróun markaðarins.
    Hv. þm. Geir H. Haarde sagði að þeir sem hefðu verið glúrnir hefðu hagnast vel og það er rétt. Þeir sem voru hins vegar ekki eins skarpir töpuðu nokkru og það er einmitt eðli markaðarins og fram hjá því verður aldrei komist að sætta sig við slíkar sveiflur af því að þessi hagnaðarvon er, eins og ég sagði áðan, helsti drifkraftur markaðarins. Hins vegar finnst mér

ekki rétt að við hér og nú, sem höfum þróun ársins fyrir augunum, setjum okkur í þær stellingar að það hafi verið tiltölulega auðvelt verk að segja fyrir um það hvenær menn mundu hagnast og hvenær ekki. Það er hins vegar auðvelt að gera það í dag með tölur ársins fyrir framan sig en það var ekki eins auðvelt fyrr á árinu eða um miðbik ársins þegar menn þurftu að spá um framtíðina. ( Gripið fram í: Er það þá búið þetta að þeir tapa sem eiga?) Þeir tapa sem eiga? Nei, það er auðvitað ekki búið að þeir tapi sem eiga. Það er nú eðli markaðarins að einhvern tíma tapa þeir sem eiga og það þekkjum við vel hv. þm. Matthías Bjarnason og ég og það þekkir líka hv. þm. Friðrik Sophusson sem kynnst hefur þeim sjónarmiðum sem vestra eru talin góð og gild.
    Ég gæti sagt hér ýmislegt fleira um þetta mál en ég held ég hafi komið að flestum þeim efnisþáttum sem hér voru raktir. Kjarni málsins er sá að okkur hefur tekist á þessu ári að treysta mjög markað fyrir spariskírteini ríkissjóðs og ríkisvíxla. Það er kjarninn vegna þess að það mun auðvelda hagstjórn á næstu árum og eitt hið mikilvægasta er auðvitað sú mikla þátttaka almennings í áskriftarkerfi spariskírteina ríkissjóðs því það er mikilvæg traustsyfirlýsing sem almenningur í landinu hefur látið í té á markaðnum sjálfum þar sem enginn segir almenningi fyrir verkum. Þess vegna held ég að þeim sem meta mikils eðliskosti markaðarins hljóti að finnast þróun þessara mála á þessu ári mjög athyglisverð.
    Ég vil svo endurtaka þakkir mínar til þeirra þm. sem hafa lýst því yfir við þessa umræðu að þeir telji nauðsynlegt að greiða fyrir afgreiðslu málsins í þessari hv. deild. Við höfum síðan ýmis önnur tækifæri við mörg önnur mál sem hér eiga eftir að koma til umræðu fyrir jól að fara nánar yfir þau efnisatriði sem hér hafa verið rædd.