Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tilgangur þessa frv. er að leggja til breytingar á gildandi lögum í samræmi við þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið varðandi framkvæmd virðisaukaskattsins frá og með næstu áramótum.
    Í þessu sambandi er rétt að rifja það upp að í nefndarálitum fjh.- og viðskn. beggja deilda þingsins um virðisaukaskattsfrv. þegar það var upphaflega samþykkt kom fram að löggjöf um virðisaukaskatt hlyti að vera viðamikil og flókin og nauðsynlegt væri að skoða nánar ýmsa þætti í löggjöfinni og framkvæmd hennar. Af þeim sökum skipaði þáv. ríkisstjórn sérstaka nefnd embættismanna og fulltrúa þáv. stjórnarflokka til að fylgjast með undirbúningi og taka til umfjöllunar þau áhorfsmál sem upp kynnu að koma. Þessi nefnd starfaði undir forustu Kjartans Jóhannssonar og lauk hún störfum í septembermánuði 1988 og skilaði skýrslu sem var á ábyrgð nefndarformannsins, þáv. þm. Kjartans Jóhannssonar.
    Síðastliðið vor skipaði ég síðan samráðsnefnd með fulltrúum allra þingflokka til að gefa fulltrúum þingflokkanna tækifæri til þess að ræða við embættismenn og aðra um þau álitamál sem nauðsynlegt var að fjalla um sem og taka til skoðunar ýmsa aðra þætti málsins.
    Í því frv. sem ég mæli fyrir nú hefur í mörgum efnum verið tekið tillit til þess starfs sem fram hefur farið í báðum þessum nefndum og frv. mótast raunar einnig, og kannski ekki síður, af þeirri víðtæku umræðu sem farið hefur fram um virðisaukaskattinn og um skattamál almennt, sérstaklega á síðustu mánuðum en reyndar einnig á undanförnum árum.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frv. varða sérstaklega skattahlutfall annars vegar og þar með áhrif þess á matvælaverð í landinu og hins vegar rýmri undanþágur, sérstaklega á sviði mennta og menningar, heldur en gert var ráð fyrir í gildandi virðisaukaskattslögum. Auk þess eru í þessu frv. ýmsar aðrar tillögur um breytingar sem fyrst og fremst eru í eðli sínu skattatæknilegar og miða að því að tryggja betur framkvæmd virðisaukaskattsins.
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir að skattahlutfallið verði 24,5% eða 0,5% lægra en er í gildandi lögum um söluskatt og 1,5% lægra en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. og 2,5% hærra en gert er ráð fyrir í gildandi virðisaukaskattslögum.
    Í frv. er einnig sú breyting að nokkrar helstu tegundir innlendra matvæla, svo sem nýmjólk, dilkakjöt, fiskur og grænmeti, bera ígildi 14% virðisaukaskatts með sérstakri endurgreiðslu sem fest verður inn í virðisaukaskattslögin sjálf og heldur þannig gildi sínu hvað svo sem gerist varðandi niðurgreiðslur eða aðrar aðgerðir stjórnvalda til að hafa áhrif á verð þessara vara. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að undirstrika það að þessi breyting, ígildi 14% virðisaukaskattsþreps á þessar helstu tegundir innlendra matvæla, verður hluti af

virðisaukaskattslögunum og framkvæmd þeirra og mun halda gildi sínu og hafa varanleg áhrif þar til lögunum verður breytt hér á Alþingi, en er ekki hluti af tímabundnum ákvörðunum stjórnvalda hvað snertir breytingar á niðurgreiðslum eða öðrum slíkum þáttum.
    Virðulegi forseti. Það hlutfall sem hér er lagt til, 24,5% virðisaukaskattur, er nokkuð sögulegt vegna þess að það er í fyrsta sinn síðan söluskattskerfið var mótað hér á Íslandi að skatthlutfall í almennum neysluskatti er lækkað. Það hefur ekki áður gerst í sögu óbeinna verðlagsskatta á Íslandi að stjórnvöld beiti sér fyrir því hvað framkvæmdina snertir að lækka hlutfallið. ( HBl: Af hverju hafið þið ekki skattprósentuna bara óbreytta?) Einfaldlega vegna þess, eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi, að það hefur verið nokkuð breið samstaða flokka um það að óraunhæft væri að fara með hlutfallið niður í 22%, enda hefur hv. þm. sjálfur, Halldór Blöndal, kynnt á opinberum vettvangi þá hugmynd Sjálfstfl. að efra þrepið verði 25% um leið og Sjálfstfl. beitir sér fyrir því að lægra þrep verði einnig. (Gripið fram í.) Það er von mín að sú lækkun á framkvæmd skattanna sem hér er boðuð verði fyrirboði frekari breytingar á samsetningu skatta á Íslandi.
    Það er ljóst að óbeinir skattar, verðlagsskattar, eru hér miklu hærri miðað við beina skatta en í öllum viðskiptalöndum okkar og hefur margsinnis verið á það bent, sérstaklega af erlendum sérfræðingum á vegum alþjóðlegra efnahagsstofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD, að það væri mjög óheppilegt frá sjónarmiði almennrar hagstjórnar og nauðsynjar þess að hafa stöðugleika í efnahagslífinu að hlutfallið milli verðlagsskatta annars vegar og beinna skatta hins vegar væri í jafnríkum mæli bundið við algjöran forgang verðlagsskattanna. Þetta sjónarmið hinna alþjóðlegu sérfræðistofnana fer reyndar saman við almennar hugmyndir jafnaðarmanna um að hlutverk og eiginleiki skattkerfisins eigi að vera í ríkum mæli tæki til tekjujöfnunar. Það fer þess vegna saman bæði það sjónarmið jafnaðar að beita skattkerfinu til aukins jöfnuðar í þjóðfélaginu og ráðleggingar hinna erlendu og innlendu fagmanna að nauðsynlegt sé að draga úr verðlagssköttunum en auka í sama
hlutfalli beinu skattana.
    Í fjárlagafrv. fyrir árið 1990 var áætlað að innheimtar tekjur af virðisaukaskatti yrðu 40,5 milljarðar kr. Þar var gengið út frá eins og áður greinir að skatthlutfallið yrði 26%. Með því að lækka hlutfallið er áætlað að innheimtar tekjur af sölu- og virðisaukaskatti verði 38,6 milljarðar á næsta ári eða tæpum 2 milljörðum kr. lægri en áður var reiknað með. Áhrif þeirra breytinga sem felast í þessu frv. á tekjur ríkissjóðs eru þrenns konar:
    1. Áætlaður kostnaður við endurgreiðslur á virðisaukaskatti af matvælum er tæplega 1 milljarður kr. miðað við heilt ár. Á næsta ári er hins vegar áætlað að um 900 millj. kr. komi til greiðslu í þessari framkvæmd.
    2. Undanþágur frá virðisaukaskattinum eru

rýmkaðar. Þar vega innlendar bækur þyngst en þó er lagt til að sú breyting komi ekki til framkvæmda fyrr en 16. nóv. á næsta ári, á síðasta tímabili virðisaukaskattsins, og hefur breytingin þess vegna ekki áhrif á fjármál ríkisins á komandi ári, en mun gera það á árinu 1991. Samanlagt má segja að rýmkunarákvæðin í heild sinni kosti ríkissjóð um hálfan milljarð kr. á heilu ári.
    3. Lækkun skatthlutfallsins felur það í sér að meðalskatthlutfall í virðisaukaskatti samanborið við söluskatt lækkar úr 24,3% í 23,8% þegar tillit hefur verið tekið til endurgreiðslu vegna matvæla.
    Þær breytingar sem felast í fyrirliggjandi frv. hafa það í för með sér að skattstofn virðisaukaskattsins er orðinn rúmlega 5 milljörðum kr. lægri en söluskattsstofninn. Sama skatthlutfall og í söluskatti mundi því skila minni tekjum en söluskatturinn gerir og til viðbótar kemur sú lækkun meðalskatthlutfallsins sem ég gat um áðan.
    Að öllu samanlögðu er því niðurstaðan sú að virðisaukaskatturinn mun skila 2 milljörðum kr. minna í ríkissjóð en söluskatturinn gerir í dag eða 37,8 milljörðum kr. Það er nauðsynlegt að vekja sérstaka athygli á þessari breytingu vegna þess að hún felur í sér þá raunverulegu framkvæmd stefnunnar að tekjur ríkissjóðs af verðlagssköttum verða 2 milljörðum kr. minni á næsta ári en í ár eða hefðu orðið að óbreyttu. Hins vegar er rétt að hafa nokkurn fyrirvara á öllum áætlunum um áhrif virðisaukaskattsins þar sem umfang skattkerfisbreytingarinnar skapar óhjákvæmilega talsverða óvissu á flestum sviðum áætlanagerðarinnar. Þetta á bæði við um heildaráhrifin á tekjur ríkissjóðs og ekki síður innheimtuþróunina innan ársins, enda blandast inn í hana mismunandi uppgjörstímabil, áhrif endurgreiðslu og margt annað.
    Upptaka virðisaukaskatts hér á landi um næstu áramót hefur margvísleg áhrif á almennt verðlag í landinu. Samkvæmt áætlunum fjmrn. mun gildistaka virðisaukaskattsins ein og sér leiða til 0,5--1% lækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar. Þessi lækkun ætti að mestu leyti að skila sér í janúarmánuði á næsta ári en eitthvað gæti flust yfir á febrúarmánuð. Samkvæmt fyrirliggjandi verðlagsspám mundi framfærsluvísitalan þá hækka um 1--1,5% í janúar í stað þess að hækka um 2% eins og hún mundi gera að óbreyttu. Þessi verðlækkun stafar bæði af beinni verðlækkun ýmissa matvæla, svo sem nýmjólkur, dilkakjöts og annarra slíkra um allt að 8,5%, en einnig vegur 20% lækkun bílatrygginga þungt í þessu mati. Þá ber einnig að hafa í huga að skatthlutfallið verður lægra en í söluskattinum og á þess vegna að skila sér í verðlækkunum. Matvælaliðurinn í heild gæti þess vegna orðið um 2% lægri en hann yrði ella. Nánar tiltekið eru áhrifin eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi til lækkunar eru áhrif lægra skatthlutfalls í virðisaukaskatti en í söluskatti. Á móti vegur það hins vegar að í einstaka tilvikum hækkar skatthlutfallið úr 12% eða jafnvel 0% upp í 24,5%, sérstaklega á ýmsum þjónustusviðum sérfræðinga.
    Í öðru lagi er lækkun til áhrifa vegna þess að

vörur og þjónusta sem í dag bera fullan söluskatt verða undanþegnar í virðisaukaskattskerfinu. Þar ber auðvitað hæst tryggingagjöldin.
    Í þriðja lagi er lækkun vegna áhrifa sérstakra endurgreiðslna á virðisaukaskatti af ýmsum nauðsynjavörum sem ég gat um áðan.
    Í fjórða lagi er lækkun óbein vegna þess að virðisaukaskatturinn er í eðli sínu öðruvísi en söluskatturinn þannig að uppsöfnun söluskattsins í framleiðslukostnaði og þar með í vöruverði verður úr sögunni.
    Ég tel mjög mikilvægt að gera hv. alþm. grein fyrir þessum þáttum því að það frv. sem hér er mælt fyrir mun þess vegna í sjálfu sér verða verulegt framlag til verðlækkunar á framfærslukostnaði heimilanna á nýju ári. Það felur þess vegna eitt og sér í sér töluverðar kjarabætur fyrir launafólk í landinu, sérstaklega láglaunafólk og barnmargar fjölskyldur þar sem matarkostnaðurinn er hlutfallslega stærsti liðurinn í heimilisútgjöldunum.
    Auk þess er rétt að minna á það að þegar fram í sækir er metið að hin óbeinu áhrif af auknu hagræði vegna upptöku virðisaukaskattsins skili sér jafnt og þétt í lægra vöruverði og þessi áhrif geti haft í för með sér 1--1,5% lækkun til viðbótar þeirri lækkun sem ég rakti hér á undan.
    Áhrifin á vísitölu byggingarkostnaðar eru óhagstæðari fyrst í stað þar sem breikkun á skattstofninum mun að öllum líkindum valda um 1,5% hækkun á fyrstu
mánuðunum.
    Í þessu sambandi er rétt að benda á að í þessum áætlunum hefur verið reiknað með sérstakri endurgreiðslu af álögðum virðisaukaskatti á vinnu manna við íbúðarbyggingar. Með þessari endurgreiðslu verður áhrifum skattsins á
vinnuþáttinn, sem er aðalhækkunarvaldurinn, mætt að fullu en annars hefði það leitt til 9% breytingar á byggingarvísitölunni. Hins vegar er rétt að árétta það að líkt og í framfærsluvísitölunni munu töluverð óbein áhrif til lækkunar á verði í byggingarstarfsemi hafa áhrif á byggingarvísitöluna á fyrstu einum til tveimur missirunum eftir að skatturinn tekur gildi. Það er mat sérfræðinga að þessi óbeinu áhrif muni fela í sér 1--1,5% lækkun þannig að heildaráhrifin á byggingarvísitöluna yfir t.d. hálfs árs tímabil væru engin, skattbreytingin sem slík hefði ekki áhrif til hækkunar á byggingarvísitöluna.
    Að öllu samanlögðu má meta áhrif virðisaukaskattsins á verðlag á þann hátt að hann stuðli að töluverðri lækkun á vísitölu framfærslukostnaðar þegar allt er talið með en lítils háttar hækkun fyrst í stað á byggingarvísitölu sem síðan mun jafnast út þegar líður á árið.
    Á hinn bóginn er rétt að vekja athygli á því að verðlagsáhrifin hljóta einnig að verulegu leyti að ráðast af rekstrar- og samkeppnisstöðu einstakra atvinnugreina. Í sumum tilvikum gætu þau skilað sér út í verðlagið fljótlega hvort sem er til lækkunar eða hækkunar. Í öðrum tilvikum kæmu þau fram í bættri

rekstrarstöðu fyrirtækjanna sjálfra. Þetta er óhjákvæmilegur þáttur í eðli þess markaðskerfis sem við búum við þar sem einstaklingar og fyrirtæki í rekstrinum taka sjálf ákvarðanir um það hvernig þau verðleggja sína vöru og hvort þau kjósa að hækka eða lækka verðið eftir mati þeirra á hvort slíkar hækkanir koma til með að veikja eða styrkja rekstrarstöðu fyrirtækjanna.
    Ljóst er hins vegar að þau verðlagsáhrif sem allur almenningur verður fyrst var við þegar frv. verður samþykkt og tekur gildi um næstu áramót er sú verðlækkun á algengum innlendum matvælum sem felst í frv. sjálfu.
    Ég tel rétt eins og ég gerði hér áðan að vekja enn á ný athygli á því að það er eðlismunur á þeirri endurgreiðslu varðandi innlendu matvælin sem lagt er til að verði bundin hér í lögunum um virðisaukaskatt og hinum hefðbundnu niðurgreiðslum á búvörum sem hér hafa tíðkast um langan tíma. Ýmsum hefur sést yfir þennan mun í umræðum á undanförnum vikum og er þess vegna nauðsynlegt að árétta hann sérstaklega. Reynslan sýnir að niðurgreiðslur, sem eru ákveðnar af ríkisstjórn frá einum tíma til annars og taka oft breytingum frá einu þriggja mánaða tímabili til annars og stundum frá einum mánuði til annars, geta verið með ýmsum hætti og geta falið í sér margvíslegar breytingar milli hinna einstöku vörutegunda. Endurgreiðslurnar eru hins vegar bundnar í virðisaukaskattslögunum sjálfum og þær halda sínu gildi óbreyttar þar til á Alþingi myndast meirihlutavilji til þess að breyta lögunum um virðisaukaskatt. Hér er þess vegna með þessum tillögum verið að leggja til varanlegan grunn að verðlækkunum á þeim vörum sem um ræðir: nýmjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti. Með þessu frv. er þess vegna komið til móts við þá miklu almennu kröfu í okkar samfélagi að ná fram verðlækkun nauðsynlegustu matvæla.
    Í aðdraganda þess að virðisaukaskatturinn taki gildi hafa verið töluverðar umræður um það hvort virðisaukaskatturinn ætti að vera í einu eða tveimur þrepum. Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar að leggja til það frv. sem hér er mælt fyrir og athuga síðan á næsta ári kosti og galla þess að vera með virðisaukaskattskerfi í tveimur þrepum og hins vegar virðisaukaskattskerfi í einu þrepi á víðtækari grunni en lægra hlutfalli.
    Virðulegi forseti. Þegar núgildandi lög voru samþykkt var ljóst að taka þyrfti til gagngerrar athugunar og gera breytingar á ýmsum þáttum þeirra í samræmi við þróun efnahagsmála og pólitískar aðstæður. Einnig var ljóst að fram að gildistöku laganna yrði að athuga vel fjölmörg atriði sem varða skattskylduna sjálfa. Eins og ég sagði í upphafi ber frv. merki þessarar athugunar og þessarar umræðu sem fram hefur farið, bæði innan þeirra nefnda sem ég rakti í upphafi að hefðu starfað og eins í þjóðfélaginu í heild.
    Ýmis menningarstarfsemi er í gildandi lögum skattskyld. En samkvæmt frv. verður

menningarstarfsemi ýmist undanþegin virðisaukaskatti, með núllskatti skv. 12. gr. eða utan skattkerfisins skv. 2. gr. Gert er ráð fyrir að leikhús hvers konar og tónleikastarfsemi falli undir 2. gr. laganna á sama hátt og t.d. heilbrigðisstarfsemi, söfn og félagslegar stofnanir. Einnig er lagt til að útgáfa tímarita verði undanþegin skv. 12. gr. á sama hátt og dagblöð og héraðsfréttablöð.
    Það er ljóst að sú ákvörðun þingsins á sínum tíma að setja tímarit í 2. gr. frv. féll ekki vel að þeim tilgangi sem þeirri breytingu var ætlað að þjóna og þess vegna er hér lagt til að flytja útgáfu tímaritanna yfir í 12. gr. Þá er í frv. einnig lagt til að útgáfa íslenskra bóka, hvort heldur frumsaminna íslenskra verka eða bóka þýddra á íslensku, beri ekki virðisaukaskatt frá og með 16. nóv. á næsta ári.
    Eftir þá ítarlegu umræðu um varðveislu íslenskrar menningar sem fram hefur
farið í okkar þjóðfélagi á undanförnum mánuðum og missirum tel ég óþarfa að rekja hér hin ítarlegu menningarlegu og þjóðernislegu rök fyrir því að leggja til þessar breytingar á virðisaukaskattslögunum. Ég vil þó vekja sérstaka athygli á því að verði frv. samþykkt þá yrði lokið þeirri skattalegu mismunun sem lengi hefur tíðkast gagnvart prentuðu máli á Íslandi. Með samþykkt frv. yrði þess vegna lokið því skeiði að skattalög bókaþjóðarinnar geri ráð fyrir fullri skattlagningu á bækur á meðan dagblöð, fréttablöð af ýmsu tagi, vikurit og nær öll tímarit væru sérstaklega undanþegin. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að allt prentað mál á íslensku sitji við sama borð.
    Með því að afnema neysluskatta á bókaútgáfu er verið að styðja við grundvallarþátt íslenskrar þjóðmenningar á tímum þegar fjölbreytt og lifandi útgáfa bóka á íslensku er frumforsenda þess að við getum varðveitt og eflt sjálfstæði okkar og þjóðernisvitund í heimi þeirra miklu breytinga sem við lifum nú. Smáþjóð á ætíð undir högg að sækja þegar alþjóðleg fjölmiðlun geysar yfir með þeim ofurkrafti sem hún hefur gert á undanförnum árum og mun halda áfram að gera. Við þau skilyrði er mikilvægt að styrkja grundvöll þess sem íslensk menning hvílir fyrst og fremst á sem er þjóðtunga okkar, skáldskaparrit, fræðirit og aðrar bókmenntir á íslenska tungu.
    Virðulegi forseti. Það meginsjónarmið að beinar undanþágur frá virðisaukaskatti eigi að vera sem allra fæstar er vissulega mikið og mikilvægt sjónarmið varðandi virðisaukaskattinn. Það er staðreynd að ýmsar undanþágur, og reyndar aðrar undanþágur en þær sem virðisaukaskattskerfið gerir beinlínis ráð fyrir, geta valdið miklum og auknum erfiðleikum við skattaeftirlit og skattaskil. Þess vegna hefur verið leitast við það varðandi þær breytingar sem hér eru lagðar til að þær hafi ekki í för með sér aukna erfiðleika hvað varðar skattaeftirlit eða skattaskil.
    Í frv. er einnig lögð fram sú tillaga að undanþága verði frá virðisaukaskatti hvað varðar hitun íbúðarhúsnæðis hvort heldur er með vatni, rafmagni eða olíu, en um þetta eru engin ákvæði í gildandi lögum. Það kom vissulega til greina að endurgreiða

virðisaukaskattinn af kostnaði við upphitun íbúðarhúsnæðis á reikningunum sjálfum en talið var einfaldara að undanþiggja hitunarkostnaðinn í heild sinni.
    Af öðrum breytingartillögum sem skattskylduna varða má nefna undanþágu vegna ökukennslu. Sú undanþága á sér bæði skattatæknilegar forsendur og einnig félagslegar. Þá er undanþágugreinin vegna íþrótta rýmri í frv. en í gildandi lögum og þar með tekið tillit til þess að þær breytingar hafa orðið á íþróttastarfsemi hérlendis að hún hefur í allnokkrum mæli flust til sérstakra íþróttastöðva, heilsuræktarstöðva eða til húsnæðis sem rekið er af öðrum en íþróttafélögum eða sveitarfélögum. Það var þess vegna talið rétt að öll íþróttaiðkun sæti við sama borð hver svo sem rekstraraðilinn væri.
    Í frv. eru, eins og ég gat um áðan, ákvæði um heimild til að endurgreiða íbúðarbyggjendum virðisaukaskatt af vinnu á byggingarstað. Um þetta hefur verið rætt frá upphafi, enda var ekki ætlun stjórnvalda að íþyngja húsbyggjendum með skattbreytingunni eða stórhækka byggingar- eða lánskjaravísitölu þegar lögin tækju gildi. Í þessu frv. eru tekin af öll tvímæli í þessum efnum og verður sett sérstök reglugerð um endurgreiðsluna þar sem miðað verður við að kostnaðurinn verði endurgreiddur í samræmi við reikninga og eins oft á ári og unnt er, alla vega ekki sjaldnar en ársfjórðungslega.
    Í þessu sambandi hefur verið haft samráð við fjölmarga aðila, bæði fyrirtæki og rekstraraðila í byggingariðnaði og enn fremur stjórnstofnanir eins og Hagstofu Íslands. Í ljósi þeirra viðræðna er gert ráð fyrir því að endurgreiðslureglurnar verði sem hér segir:
    1. Endurgreiða skal húsbyggjendum sem byggja íbúðarhúsnæði á eigin kostnað þann virðisaukaskatt sem þeir greiða vegna vinnu manna á byggingarstað við íbúðarbygginguna.
    2. Endurgreiðslan skal ná jafnt til þeirra sem byggja íbúðarhúsnæði til eigin nota og þeirra sem byggja íbúðarhúsnæði til útleigu eða sölu.
    3. Endurgreiðslan fari fram a.m.k. ársfjórðungslega. Skýrslu og sundurliðun á vinnureikningum skal skila í hvert sinn. Í árslok komi síðan byggingarskýrsla ásamt afriti af launamiðum. Hækka skal endurgreiðslu með hliðsjón af hækkun byggingarvísitölu miðað við endurgreiðslumánuð og annan mánuð uppgjörstímabilsins. ( HBl: Hvað er ráðherrann að lesa upp?)
    4. Á reikningum frá byggingarverktökum skal vinnuþáttur tilgreindur sérstaklega. ( HBl: Hvar er ráðherrann að lesa upp?) ( Gripið fram í: Bls. 9.) --- Til upplýsingar fyrir þingmanninn skal ég endurtaka það sem ég sagði áðan. ( Gripið fram í: Hvaða þingmann?) Hv. þm. Halldór Blöndal sem ég met mikils og er mikill kunnáttumaður um virðisaukaskatt og mikil synd að hann skyldi missa af því að fá nákvæma lýsingu á því hvað það væri sem hér væri verið að lesa upp og skal það hér þess vegna endurtekið að það voru þær meginreglur sem

endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað mun miðast við. En það er viðfangsefni sem hv. þm. er nokkuð kunnugt vegna starfa hans í
tveimur nefndum sem um þetta hafa fjallað. Fyrst nefnd sem sett var upp af ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og síðan nefnd sem sett var upp af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. En hv. þm. hefur starfað dyggilega í báðum nefndunum. Er það ekki skýrt? ( Gripið fram í: Það hlýtur að vera.)
    Til viðbótar skal ég geta þess að það er einnig gert ráð fyrir því, sem er nokkur nýjung, að endurgreiðslan taki til endurbóta á húsnæði eða viðgerða og viðhalds, enda séu slíkar endurbætur viðamiklar í samræmi við ákveðnar meginreglur sem settar verða. Sú verður helst að við slíkar endurbætur og viðhald skal miða við að heildarkostnaður við framkvæmdir á einu almanaksári nemi a.m.k. 7% af fasteignamati húseignarinnar eins og það er í byrjun þess árs sem um ræðir. Með þessu ákvæði er tryggt að ekki verði mismunun milli þeirra sem kjósa að hefjast handa við nýbyggingar og hinna sem kjósa að gera við sitt eigið húsnæði eða annað eldra húsnæði. Gert er ráð fyrir að þessar endurgreiðslur taki einnig til verksmiðjuframleidds íbúðarhúsnæðis þannig að endurgreiddur verði virðisaukaskattur vegna þeirrar verksmiðjuvinnu sem unnin hefur verið á byggingarstað við smíði hússins á hefðbundinn hátt.
    Í frv. er lagt til að fjmrh. hafi heimild til að ákveða með reglugerð að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna kaupa á skattskyldri vöru eða þjónustu af atvinnufyrirtækjum.
    Ljóst er að samkvæmt gildandi lögum um virðisaukaskatt munu sveitarfélögin greiða neysluskatta af mun breiðari stofni en í dag vegna þess m.a. að vinna manna á byggingarstað verður skattskyld eftir áramót.
    Í nýútgefinni reglugerð, nr. 561 1989, um greiðslu virðisaukaskatts af skattskyldri starfsemi sveitarfélaga og annarra opinberra aðila, eru settar reglur um að sveitarfélög, fyrirtæki þeirra og stofnanir skuli greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni. Eins og kunnugt er gera lögin um virðisaukaskatt ráð fyrir því að skattlagning samkvæmt þeim raski ekki samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eiga viðskipti við sveitarfélög eða aðra óskráða aðila er geta sjálfir veitt sér þessa þjónustu. Þessi ákvæði varðandi sveitarfélögin eru þess vegna mikilvæg í því skyni að tryggja jafnrétti í samkeppnisstöðu bæði milli sveitarfélaga og eins milli ýmissa atvinnufyrirtækja annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Því er nauðsynlegt að skattleggja eigin not óskráðra aðila og/eða endurgreiða þeim þann skatt sem þeir greiða við kaup af öðrum. Gert er ráð fyrir því að báðar þessar leiðir verði farnar eftir atvikum.
    Ég tel, virðulegi forseti, að ekki sé ástæða til að rekja hér í mikið lengra máli ýmsar af þeim breytingum sem í þessu frv. felast, m.a. vegna þess að sumar þeirra, eins og ég gat um áðan, stafa fyrst og fremst af skatttæknilegum ástæðum og e.t.v. er skynsamlegra að fara nánar yfir það þegar hv. nefnd

deildarinnar hefur haft tækifæri til þess að skoða bæði frumvarpið og eins þær reglugerðir sem hafa verið gefnar út og kynnast þeim reglugerðum sem ætlunin er að gefa út á næstu dögum.
    Ég tel þó rétt að víkja að því í lokin að undirbúningur skattkerfisbreytingarinnar hefur gengið samkvæmt áætlun og starfsmenn hjá ríkisskattstjóra og á skattstofum allt í kringum landið eiga miklar þakkir skildar fyrir að hafa unnið það stórvirki sem það er í reynd fyrir fámennt starfslið íslenska skattkerfisins að hrinda svo viðamikilli breytingu í framkvæmd. Það er nú ekki aðhlátursefni, hv. þm. Halldór Blöndal, vegna þess m.a. að þegar hv. þm. átti aðild að ríkisstjórnarmeirihluta, þá veigraði hann sér við því að tryggja nægilega starfskrafta í skattkerfinu til þess að það
væri fært um að sinna þessu verkefni. Það er einnig ljóst að sú samvinna sem ríkisskattstjóraembættið hefur átt við fjölmörg samtök í atvinnulífinu hefur verið mjög góð og það kynningarstarf sem unnið hefur verið í fyrirtækjunum sjálfum hefur borið mikinn árangur. Gefið hefur verið út vandað kynningarrit í um 40 þús. eintökum og von er á fleiri slíkum kynningarritum sem og að þær reglugerðir um bókhald og annað sem gefnar hafa verið út hafa verið kynntar sérstaklega sem og þau tölvuforrit sem fyrirtækin munu beita við uppgjör sín í hinu nýja kerfi. Um það bil 70--80 kynningarfundir hafa verið haldnir með starfsmönnum fyrirtækja og hafa um það bil 4000 manns sótt þessa kynningarfundi. Auk þess hefur verið efnt til umræðna og kynningar víða úti um land þar sem haldnir hafa verið smærri fundir eða fyrirtæki heimsótt án þess að tölu væri á það komið hverjir hafi beinlínis tekið þátt í því kynningarstarfi.
    Virðulegi forseti. Efnislegar forsendur þeirrar skattkerfisbreytingar sem hér um ræðir eru á þann veg að ég vænti að um þær eigi að geta tekist, a.m.k. flestar, víðtæk pólitísk samstaða. Þeir kostir sem virðisaukaskattskerfið hefur fram yfir söluskattinn eru verulegir ef vel tekst til, þótt auðvitað beri að vara við því, sem stundum ber kannski nokkuð á, að með því að taka upp virðisaukaskatt séu menn búnir að leysa öll helstu vandamál í íslensku efnahagslífi. Það er hins vegar mikilvægt að árétta hér að við höfum um rúmt ár unnið að því að reyna að styrkja grundvöll atvinnulífsins í landinu og gildistaka virðisaukaskattsins um næstu áramót verður auðvitað mikilvægt
framlag til þess að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsgreina og íslenskra iðnfyrirtækja í samkeppni við erlenda framleiðslu.
    Skattkerfisbreytingin frá söluskatti til virðisaukaskatts er einhver umfangsmesta breyting sem gerð hefur verið á íslenska skattkerfinu í mjög langan tíma. Á undanförnum árum hafa verið gerðar aðrar breytingar sem í eðli sínu eru þættir í markvissri áætlun sem miðar að því að breyta íslenska skattkerfinu til samræmis við þau skattkerfi sem gilda í helstu viðsiptalöndum okkar. Staðgreiðslan var á sínum tíma mikilvægt skref í þessa átt.

Virðisaukaskatturinn er annað slíkt skref og breytingar á skattlagningu fjármagnstekna, á skattlagningu hlutafjár og atvinnufyrirtækja, sem unnið verður að á næsta ári, eru næstu skrefin á þessu sviði.
    Það er von mín, virðulegi forseti, að þessi breyting muni ásamt þeim sem þegar hafa verið gerðar og öðrum sem væntanlegar eru á næsta ári verða mikilvægt framlag til þess að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og bæta þar með um leið lífskjörin í landinu í heimi harðnandi alþjóðlegrar samkeppni þar sem við þurfum að búa svo um hnútana að íslensk framleiðsla geti skapað þjóðinni vænleg lífskjör til frambúðar.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, setja fram þá ósk að þetta frv. fái góða og örugga meðferð í hv. nefnd og þingheimur geti sameinast um að afgreiða það fyrir hátíðar. Það er alveg ljóst að á undanförnum árum hafa mjög margir komið að þessu verki. Það eru margar ríkisstjórnir sem hafa tekið þátt í því að móta og undirbúa þessa breytingu þó að það komi í hlut núv. ríkisstjórnar að hrinda henni í framkvæmd.
    Ég mælist svo til þess að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.