Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ríkissjónvarpið efndi til kynningar á virðisaukaskatti 22. nóv. þar sem hæstv. fjmrh. sat fyrir svörum. Þar sagði hann að sjálfstæðismenn hefðu samþykkt að virðisaukaskattur skyldi vera ein flöt prósenta, 25%. Hæstv. fjmrh. sagði í þingræðu hinn 24. nóv. sl. af þessu tilefni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Varðandi afstöðu Sjálfstfl. þá minnist ég þess, en vildi gjarnan fá að fletta því upp og hafa til þess nánari tíma, að í sumar eða haust hafi þingflokkur Sjálfstfl. gert þá samþykkt að hann vildi virðisaukaskatt með 25% efra þrepi og 15% lægra á matvælum. Þetta las ég nú í blöðum hér síðla sumars eða haust. Sé þetta rangminni hjá mér, þá er ég alveg tilbúinn að leiðrétta það, en við skulum bara fletta því upp og skoða það, ef Sjálfstfl. vill ekki nú kannast við þessa afstöðu.``
    Ég las þá upp þá samþykkt sem Sjálfstfl. gerði um þessi mál á sl. hausti. Þar kom fram að Sjálfstfl. gerði samþykkt um það að þrepin í virðisaukaskatti skyldu verða tvö.
    Síðan gerðist það að maður frá Pressunni hringdi í mig og spurði mig um einstök atriði í sambandi við þessi mál og hafði eftir mér ,,þau ummæli`` að Sjálfstfl. hefði samþykkt að þrep í virðisaukaskatti skyldu vera tvö, 25% og 15%. Hæstv. fjmrh. sagði í útvarpsumræðum sl. fimmtudag að hann hefði haft rétt fyrir sér í sjónvarpi og ítrekaði þar að ég hefði sagt í þessu viðtali að Sjálfstfl. hefði samþykkt að virðisaukaskatturinn yrði 25%. Hann lét þess að engu getið að í þessu viðtali var talað um að þrepin væru tvö.
    Ég hafði samband við fjmrh. eftir að hann sagði þetta í sjónvarpinu og greindi honum frá því að þetta væru ósannindi. Jafnvel þótt rétt væri haft eftir í Pressunni, þá væru ósannindi að segja að Sjálfstfl. hefði samþykkt 25% virðisaukaskatt. Það var talað um tvö þrep í Pressunni. ,,Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi.`` Aftur fór hæstv. fjmrh. viljandi rangt með.
    Ég talaði við þennan blaðamann og spurði hann að því hvort hann hefði tekið þetta viðtal upp á segulband og ef svo væri, þá bað ég hann um að við hlustuðum á það saman. En blaðamaðurinn hafði ekki fyrir því, bað mig hins vegar afsökunar á því að hafa farið rangt með og bauð mér að birta leiðréttingu í Helgarpóstinum á þeim ummælum sem voru rangt höfð eftir. ( KP: Helgarpóstinum?) Pressan eða Helgarpósturinn, það er nú sama tóbakið. (Gripið fram í.) Ég bið þingmann Vestf. afsökunar á því, það heitir Pressan núna, það er aukablað Alþýðublaðsins, er gefið út á ábyrgð Alþfl. og með ríkisstyrk.
    Ég sagði fjmrh. frá þessu í einkasamtali þannig að honum var fullkunnugt um það áðan, þegar hann vék enn einu sinni að þessu, að þessi ummæli í Pressunni voru röng. Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Er hann reiðubúinn að taka það opinberlega til baka að Sjálfstfl. hafi samþykkt 25% virðisaukaskatt? Það nægir að segja já, hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Ég er ekki

tilbúinn til þess vegna þess að það var vitnað í þig alveg skýrt í einu helsta blaði þjóðarinnar þar sem þú viðurkennir það að Sjálfstfl. hafi lagt til 25% efra þrep.) Ráðherrann sagði ekki 25% efra þrep í sjónvarpsumræðunum. Hann er svo ofurlítið farinn að hopa? En af hverju vill hæstv. fjmrh. ekki segja satt? ( Fjmrh.: Af því að ég trúi Halldóri Blöndal þegar ég les eftir hann úr Morgunblaðinu ...) Ég er búinn að segja ráðherranum að þetta hafi verið rangt haft eftir. Og af hverju vill ekki ráðherrann trúa því? ( F jmrh.: Þú hefur bara verið skammaður af flokksforustunni og þér hefur verið skipað að terrorísera blaðamanninn.) (Gripið fram í.) Finnst hæstv. ráðherra að þetta sé sómasamlegt fyrir mann í hans stöðu? ( Gripið fram í: Nei, það er það ekki.) Finnst þingheimi þetta vera sómasamlegt? Af hverju var ráðherrann að bjóðast til þess í sinni ræðu að taka til baka ósannindin ef hann hefur ekki verið tilbúinn til þess nú? ( Fjmrh.: Vegna þess að það kom í ljós að þetta var satt.) Það er sami hringlandinn í sannleiksást þessa hæstv. ráðherra eins og í því hversu hátt þrepið í virðisaukaskattinum á að vera. ( Fjmrh.: Þetta er náttúrlega þjóðhagslegt viðkvæmt mál fyrir Sjálfstfl.) (Gripið fram í.) Auðvitað má segja að ráðherrann sé orðinn ruglaður í þessu öllu saman því að ég man ekki betur en að hann sé eini maðurinn á Íslandi sem hefur séð til þess að lýsa því yfir opinberlega eftir að Berlínarmúrinn var brotinn niður að hann væri ekki sósíalisti. ( Gripið fram í: Hann er ekki sósíalisti.) Nú kannast hann ekki við það lengur? Nú þykist hann vera jafnaðarmaður, markaðshyggjujafnaðarmaður. ( Gripið fram í: Nei, markaðshyggjusósíalisti.) En gistivinir hæstv. forsrh. verða nú að sætta sig við það núna þarna fyrir austan að láta af völdunum vegna þeirra ósanninda sem þeir hafa haft uppi og kúgunar og eins og þeir hafa hagað sér. Það verður líka skammt í það að þessi hæstv. ráðherra, sem menn treysta ekki, verði líka að láta af embætti og með þeim mun meiri sneypu en hinir sem maðurinn ( Menntmrh.: Er virðisaukaskattur þarna fyrir austan?) Ja, mér þykir nú vænt um að hæstv. menntmrh. skuli taka til máls og hlakka til að sjá hann greiða atkvæði með virðisaukaskattinum. Það má segja að það sé svolítið skemmtilegt fyrir okkur sjálfstæðismenn að upplifa það nú á þessu
kjörtímabili að knýja fyrst formann Alþfl. til þess að vera í sæti fjmrh. þegar virðisaukaskatturinn var lögfestur. Þessi formaður Alþfl. hafði lýst yfir andstöðu sinni við virðisaukaskattinn í prinsippi þegar við sjálfstæðismenn bárum það frv. fram hér fyrr í þinginu. Og nú skuli það koma í hlut formanns Alþb. í sæti fjmrh. að hrinda virðisaukaskattinum í framkvæmd. Auðvitað ferst honum það klaufalega, auðvitað er það illa undirbúið og auðvitað var það rétt hjá ráðherra að taka það fram áðan að virðisaukaskattur yrði mikil bót fyrir efnahagslífið ef framkvæmdin yrði góð. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. fjmrh. En við því er ekki að búast.
    Jafnmikil ósannindi og það voru hjá fjmrh. sem hann viðhafði áðan í sambandi við samþykktir

Sjálfstfl. og mín ummæli eru hin ósannindin sem hann sagði hér í þessari ræðu sinni að undirbúningur hefði gengið samkvæmt áætlun í sambandi við virðisaukaskattinn. Í fréttatilkynningu sem við þingmenn fengum í dag stendur að a.m.k. fjórar reglugerðir bíði þess að Alþingi afgreiði stjfrv. um breytingar á lögunum um virðisaukaskatt. A.m.k. fjórar reglugerðir. Þetta er dagsett 4. des. Ráðherranum er enn ekki ljóst hvort það eru fjórar eða fimm eða sex eða sjö. A.m.k. fjórar. Ekki er nú áætlun fjmrh. nákvæmari um þetta atriði og það sem er kannski ömurlegast af þessu öllu er að sú reglugerð sem bíður þess að vera samin er reglugerð um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts af matvöru, en það er vitaskuld óhjákvæmilegt að sú reglugerð liggi fyrir nú vel fyrir afgreiðslu fjárlaga og ætti raunar löngu að vera komin fram vegna þess að það er hreint fjárlagaatriði hversu miklar niðurgreiðslurnar verða á næsta ári eins og ég mun víkja að síðar.
    Í öðru lagi minni ég á að reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarbyggingar liggur ekki fyrir, er ekki tilbúin. Hæstv. fjmrh. sagði hér í ræðu áðan að þessir menn úti í þjóðlífinu sem ættu að vinna samkvæmt þessum lögum um virðisaukaskatt strax um áramót væru kunnugir því í hverju skattkerfisbreytingin er fólgin og það var svo að heyra á honum að þeir væru bara vel inni í þessu og menn væru bara ánægðir með undirbúning ráðherrans. En það er eins um þetta og sannleikskorn ráðherrans hér áður. Annaðhvort hafa atvinnurekendur, t.d. byggingariðnaðarmenn ekki haft uppburði í sér til að tala við ráðherrann eða þá að þeir vita að það er vitaþýðingarlaust að tala við ráðherrann eða þá hitt að ráðherrann segir enn einu sinni ósatt því að ekki trúi ég því að allir þeir menn sem hafa haft samband við mig, t.d. í morgun, segi ósatt en ráðherrann segi satt.
    Ég talaði líka við menn í fiskvinnslunni og spurði þá um viss framkvæmdaratriði. Ráðherrann hafði heldur ekki látið þeim í té upplýsingar um hvernig þeim yrði háttað svo að óyggjandi sé. En það má kannski líka vera að þeir hafi sagt mér ósatt og að ráðherrann segi satt.
    Þetta er svona álíka meðhöndlun á málefnum eins og maður gæti búist við af formanni Alþfl. og má kannski segja að þeir draga dám hvor af öðrum eftir hina dæmalausu hringferð sem þeir áttu um landið sem var auðvitað þess eðlis að traust þessara manna meðal þjóðarinnar hefur farið dagminnkandi æ síðan.
    Herra forseti. Hér voru í hólfi mínu í morgun tvær fréttatilkynningar. Ég veit ekki hvort fréttatilkynning um virðisaukaskattslög hafði borist okkur þingmönnum fyrr og ég ekki athugað að gá í hólfið, en þessar tvær fréttatilkynningar fjmrn. komu mér fyrir augu nú fyrst dag. Önnur fréttatilkynningin fjallar um frv. um breytingu á virðisaukaskattslögum og kjarninn í þessari breytingu er sá að þar er lagt til að hækka virðisaukaskatt úr 22% í 22,4%. Hin fréttatilkynningin fjallar um breytingar á tekju- og eignarsköttum og hún fjallar um það að hækka tekjuskatt um 4% frá

núgildandi lögum.
    Það sýnir svo aftur siðferði fjmrh. að hann skuli birta hér töflu sem á að sýna þær breytingar sem verða á tekjuskatti einstaklinga 1990 samkvæmt lögunum og samkvæmt þeirri breytingu sem frv. felur í sér. Þar er hins vegar hvergi vikið að því einu orði að hækkun tekjuskattsins á næsta ári verður helmingi meiri en hér segir því að í þeim lögum sem nú gilda um tekjuskatt var það ákveðið að hin sérstaka tekjuskattshækkun sem lögfest var um síðustu áramót skyldi einungis gilda þetta eina ár. Það er kannski dæmigert fyrir þá ringulreið sem var í herbúðum krata sl. fimmtudag að þeir ekki aðeins féllust þá á að hækka tekjuskattinn um 2%, hafa hann óbreyttan á næsta ári frá því sem nú er, með lögum, heldur féllust þeir á að tvöfalda hækkun virðisaukaskattsins frá næstu áramótum. Þó munum við það að formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hafði stór orð um það að slík hækkun tekjuskatts kæmi ekki til greina. Ég man að vísu ekki hvort hv. þm. Karvel Pálmason, 3. þm. Vestf., hefur verið sérstakur talsmaður skattahækkana hér á Alþingi, en það vakti á hinn bóginn athygli, þegar vantraustið var til umræðu í Sþ. sl. fimmtudag og þegar ríkisstjórnin hafði þann eina boðskap að flytja þjóð sinni að virðisaukaskattur skyldi vera í einu þrepi og matvæli ekki lækka í verði, að þessi hv. þm. skyldi sjá ástæðu til þess að greiða atkvæði á móti vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Gildir auðvitað engu þótt þessi hv. þm. hafi það eins og frægur þingmaður Framsfl. á 7. áratugnum að þykjast alltaf
hafa sjálfstæðar skoðanir þegar ekki skiptir máli, þegar um smáatriði er að ræða, en hanga svo aftan í stjórnarmeirihlutanum í hvert skipti sem ríður á hver hans afstaða sé. Ég hygg að það verði alveg augljóst að þegar þetta mál
kemur til afgreiðslu hér í deildinni, til atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga, þá mun þessi hv. þm. greiða atkvæði á móti því að virðisaukaskatturinn verði í tveim þrepum og mun standa fullkomlega á bak við þá miklu skattheimtu sem frumvörp ríkisstjórnarinnar fela í sér. Auðvitað er það öldungis ljóst að þau almennu mótmæli sem verkalýðshreyfingin hefur látið í ljós vegna þeirra skattafyrirætlana sem ríkisstjórnin hafði uppi með 26% virðisaukaskatti og tekjuskatti eins og þá var hugsað af fjmrh., hann hækkaði um 2% --- auðvitað mun verkalýðshreyfingin standa jafnfast á móti þessum breytingum nú vegna þess að þær fela ekki í sér neina lagfæringu á þeirri lífskjaraskerðingu sem ákveðin var og boðuð í ræðu fjmrh. við 1. umr. fjárlaga. Það liggur fyrir, það er deginum ljósara, að lífskjör fara mjög versnandi. Það liggur jafnframt fyrir að þungavigtarmaður ríkisstjórnarinnar hefur lýst því yfir að nýjar launahækkanir á næsta ári muni tafarlaust kalla fram gengisfellingu.
    Það liggur fyrir að ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að kaupgjaldið megi ekki hækka á næsta ári. Í þeirri þjóðhagsáætlun sem liggur fyrir er gert ráð fyrir að kjararýrnunin verði 4,5% á næsta ári borið saman við

árið í ár og vita menn þó hvernig lífskjörin eru núna og hversu erfitt er að ná endum saman. Það liggur þess vegna auðvitað alveg á borðinu að frv. sem hér liggja fyrir eru staðfesting á þeirri miklu og ranglátu skattastefnu sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir.
    Það er líka eftirtektarvert að í þeim fræga sjónvarpsþætti þar sem hæstv. fjmrh. þóttist vera að kynna virðisaukaskatt upp á 26% hélt hann því fram að þetta væri í raun skattalækkunarskattur. Það væri ekki hægt að tala um að þessi skattur fæli í sér þyngingu borið saman við þann söluskatt sem áður var. Nú er smátt og smátt að koma í ljós, þegar virðisaukaskatturinn er lækkaður í 24,5%, að það sem hann hefur fyrr gefið í skyn en aldrei fengist til að staðfesta með útreikningi er rétt. Fullyrðing okkar sjálfstæðismanna var rétt, að þessi hæstv. fjmrh. ætlaði að misnota skattkerfisbreytinguna til þess að ná í ríkissjóð tveimur milljörðum a.m.k., sumir segja þremur, umfram það sem verið hefði ef söluskattskerfið hefði verið áfram í gildi. Og eins og ég mun færa rök fyrir síðar er ósvífni hæstv. fjmrh. slík að um leið og hann lætur sér ekki duga að hækka virðisaukaskattinn um 2,5% boðar hann eða flytur ýmis frv. önnur sem fela í sér þá skattheimtu sem munar 1 1 / 2 þrepi í virðisaukaskatti.
    Ég verð að segja, herra forseti, að það er mikil vinna fram undan í fjárhags- og viðskiptanefndum, en það er ekki að sjá að fulltrúar meiri hl. í fjh.- og viðskn. telji sér nauðsynlegt að vera viðstaddir þessa umræðu.
    Ég vil vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. talaði um að það væri í anda jafnaðarstefnunnar að hafa tekjuskatta sem hæsta. Sá maður núlifandi sem með mestri sannfæringu hefur skýrt jafnaðarstefnuna og skrifaði um hana heila bók, Gylfi Þ. Gíslason prófessor, flutti um það þingmál á sínum tíma --- ég hygg að það hafi verið þáltill. --- að tekjuskattur af almennum launatekjum yrði felldur niður. Og hann sýndi það í verki á meðan hann var í samvinnu við okkur sjálfstæðismenn á viðreisnarárum að hann var þessarar sömu skoðunar því að um leið og sú stjórn var mynduð fólst m.a. í þeim efnahagsráðstöfunum sem þá voru gerðar að fella tekjuskatt niður af almennum launatekjum. Hins vegar hafa margir aðrir formenn Alþb. verið þessarar sömu skoðunar, að tekjuskatturinn væri jöfnunarskattur. Við munum eftir því þegar hv. þm. Ragnar Arnalds var fjmrh., og má mikið vera ef hann var ekki formaður Alþb. þá líka, a.m.k. fyrrv. formaður Alþb., sendi hann út frá skattaframtölum láglaunabætur um allt land til þess að þeir sem verst væru settir gætu fengið láglaunabæturnar og varð að athlægi um allt land vegna þess að við vitum að skattskýrslur eru ekki óyggjandi mælikvarði á lífskjör manna.
    Við getum t.d. bara tekið hæstv. fjmrh. Auðvitað eru það ekki sérstakar launatekjur þegar hann fer til útlanda. Samt sem áður er það svo að hann fær greidda sérstaka dagpeninga og þó allan kostnað líka. Hæstv. fjmrh. hefur t.d. sérstakan bíl sér til ráðstöfunar og einkabílstjóra ef hann vill. Mér er ekki

kunnugt um að sú breyting hafi verið gerð á tekjuskattslögunum á síðasta þingi að einkabíll ráðherrans væri talinn honum til tekna og þótt til þess væri ætlast af mönnum í einkarekstri að þeir teldu slík hlunnindi til tekna. Það eru auðvitað margvísleg hlunnindi önnur sem maður eins og ráðherra hefur sem auðvitað drýgja tekjur hans. Og það eru auðvitað ýmsir aðrir menn í þessu þjóðfélagi sem hafa margvíslegar tekjur og geta haft aðstöðu til þess að láta fyrirtæki eða stofnanir greiða fyrir sig margvísleg útgjöld sem falla með fullum þunga á hinn almenna launamann í landinu.
    Það er þess vegna fullkomlega rangt, fullkomlega út í hött, að halda því fram að tekjuskattur í þjóðfélagi eins og við búum í núna sé einhver sérstakur launajöfnunarskattur, algjörlega út í hött. Enginn maður hefur gert gleggri
grein fyrir þessu en Ólafur Björnsson prófessor sem skrifaði um það mjög, ég vil segja skemmtilegar greinar í Morgunblaðið á sínum tíma þar sem hann vakti athygli á þessari litlu spurningu: Eigum við að bera saman þær tekjuskattsgreiðslur sem einstaklingarnir hafa og eigum við svo að athuga hverjir það eru sem fara í sólarlandaferðir? Og skyldi það nú vera svo að algjört samræmi sé að þessu leyti milli þeirra ráðstöfunartekna sem viðkomandi menn hafa og þeirra beinu launa sem talað er um? Auðvitað er það ekki svo. Auðvitað liggur það ljóst fyrir að þessi háa skattheimta, sem ekki síst felst í hækkun tekjuskattsins, kemur mjög illa niður og kannski ekki hvað síst á því unga fólki sem er að berjast við að koma undir sig fótunum vegna þess að það er ekki nóg með að nú eigi að hækka skattprósentuna heldur stendur hugur hæstv. fjmrh. til þess að takmarka vaxtafrádrátt með þeim hætti að þeim sem vilja leggja á sig mikla vinnu til þess að eignast þak yfir höfuðið á að refsa. Venjulegri fjölskyldu hér á landi, þessu millistéttarfólki --- því á að refsa. Í því felst hin nýja skattastefna þessarar ríkisstjórnar. Það er þetta sem við horfum fram á og það er þetta sem við horfum framan í þegar við sitjum andspænis ráðherrastólunum og horfum upp á þá þarna.
    Í almennum athugasemdum við þetta lagafrv. stendur að síðan lögin voru samþykkt hafi starfað tvær nefndir, skipaðar fulltrúum þingflokkanna, við undirbúning virðisaukaskatts. Fyrri nefndin hafi starfað undir forustu Kjartans Jóhannssonar og hætt störfum í september 1988. Síðari nefndin hefur starfað undir forustu fjmrh., stendur hér. Það ætti með réttu lagi að segja: hætti að starfa undir forustu fjmrh., ef hann vildi vera nákvæmur því að þessi nefnd hefur ekki verið kölluð saman svo vikum skiptir. Það er meira að segja þvílík ósvífni sem þessi hæstv. fjmrh. sýnir að þegar drög að virðisaukaskattsfrv. lágu fyrir hér á dögunum sendi hann upplýsingar m.a. upp í Verslunarráð og gaf fjölmiðlum margvíslegar upplýsingar, birtist í sjónvarpi, en honum datt ekki í hug að senda þeim þingmönnum sem voru í þessari undirbúningsnefnd undir hans forustu upplýsingar af neinu tagi, engu tagi. Og svo var þessi maður hér að

tala um það áðan að mark hafi verið tekið á nefndinni. Þessi maður var meira að segja svo ósvífinn í Alþingi á dögunum að segja að ég hefði í einkasamtali óskað eftir því að nefndin hætti störfum. Þetta var auðvitað rangt haft eftir og billegt. Það er mjög billegt, þegar ráðherra er að afsaka sig, að vitna í einkasamtal sem enginn heyrir og það er auðvitað fullkominn útúrsnúningur þó svo að ég hafi fallist á það með ráðherra að það væri til lítils að vera að ónáða okkur á nefndarfundi þegar ríkisstjórnin vissi ekki sitt rjúkandi ráð, hefði ekkert fram að leggja, vissi ekki hvað hún ætlaði að gera. Þá sagði ég auðvitað við ráðherrann: Ég nenni ekki að vera að fara þarna upp eftir bara til að gapa framan í embættismenn.
    Það sem við áttum að gera í þessari nefnd var það að við áttum að fá upplýsingar um það hvernig undirbúningurinn gengi og við áttum að fá upplýsingar um það á hvaða stigi málið væri á hverjum tíma hjá ríkisstjórninni. Og það átti að gefa okkur kost á því að og koma að okkar athugasemdum. Það er auðvitað eðlilegt að ráðherrann segi núna þegar kominn er 6. des.: Ja, ég er nú loksins kominn með frv. mitt. Það eru a.m.k. fjórar reglugerðir sem þarf að gefa út til viðbótar, ég veit ekki hve margar. En samt sem áður getið þið nú afgreitt þetta fyrir mig fyrir jólin --- kannski án þess að þessar reglugerðir liggi fyrir, kannski án þess að maður fái nokkra hugmynd um það hvernig þetta eigi að vera. En auðvitað lætur hann sér það í léttu rúmi liggja. Hann lýsti því yfir þessi ágæti maður, þegar hann settist fyrst í þessa ríkisstjórn og var spurður um það hvert hlutverk hann teldi sig hafa í ríkisstjórninni, að hann hefði fyrst og fremst það hlutverk að breyta atvinnulífinu hér í landinu, umskapa atvinnulífið, og honum hefur sannarlega tekist það því að meiri samdráttur hefur ekki verið hér um langan tíma en einmitt núna og svo vesælt er ástandið orðið að því er spáð að fjárfesting í atvinnurekstri verði um þriðjungi minni en hún hefur verið að meðaltali undanfarin ár, verði ekki nema 18%, verði orðin svo hættulega lítil að óhjákvæmilegt er að það mun fyrsta kastið valda því að við munum sitja eftir í okkar fyrirtækjum. Vöruþróun mun sitja eftir. Fyrirtækin hafa ekki sömu burði og áður til þess að undirbúa markaðsátök, hvað þá að fyrirtækin hafi burði til þess nú að búa sig undir betri framleiðsluhætti. Má vera að nauðsynlegt sé að víkja að þessum þætti málsins síðar því að eins og kom fram í máli ráðherrans: Skatturinn er búinn að kynna sér þetta mál lengi og þá er undirbúningnum lokið. Hitt skiptir engu máli hvað þeim líður sem eiga að vinna eftir lögunum, sem eiga að innheimta skattinn í gegnum sín viðskipti.
    Í 2. gr. laga um virðisaukaskatt er fjallað um skattskyldusvið laganna og felur frv. í sér nokkra breytingu á lögunum. Ég er sáttur við sumt af því. Það er auðvitað rétt að hæstv. utanrrh. var of þröngsýnn í þessum efnum á meðan hann var fjmrh. og af þeim sökum urðu þingnefndir að bregða á það ráð að skrifa minnislista um ýmis þau atriði sem yrði

að ákveða nánar og taka ákvörðun um áður en virðisaukaskatturinn kæmi til framkvæmda. Þess vegna er ég sammála sumu sem þar kemur fram en annars sakna ég. Sérstaklega hlýt ég þó að
vekja athygli á þeirri breytingu sem hér er lagt til að gerð verði við 3. tölul. 3. mgr. Þar er talað um að rekstur skóla og menntastofnana skuli undanþeginn útskatti og bætt við: ,,svo og ökukennsla.`` Ég er alveg sáttur við að ökukennsla sé undanþegin virðisaukaskatti. En á hinn bóginn hlýt ég að spyrja hæstv. fjmrh. hvað valdi því að flugkennsla var ekki tekin með og óska eftir að hann færi fyrir því rök að hann sleppir henni hér í þessari upptalningu.
    Hæstv. iðnrh. bar einmitt þetta mál mjög fyrir brjósti og ég vil líka skýra frá því að ég spurði sérstaklega um þetta atriði á þeim fundum sem voru haldnir í undirbúningsnefndinni og þá var mér lofað að þetta atriði yrði tekið til sérstakrar athugunar. Ég minnist þess á hinn bóginn ekki að ég hafi fengið neinar upplýsingar um hvernig virðisaukaskatti yrði háttað í sambandi við flugkennslu, hef ekki haft tíma til að lesa allar þær reglugerðir sem ég fékk sendar úr fjmrn. nú skömmu fyrir þennan fund. Má vera að flugkennsla sé annaðhvort samkvæmt 2. eða 12. gr. undanþegin virðisaukaskatti og væri þá mjög gagnlegt að fá um það upplýsingar.
    Ég vil líka vekja athygli á því að ég talaði í undirbúningsnefndinni um að rétt væri að lögfræðiþjónusta félli undir 2. gr., væri undanþegin útskatti í virðisaukaskatti. Fyrir því eru mjög skýr rök. Ef lögfræðiþjónusta er unnin fyrir fyrirtæki, þá fellur sjálfkrafa á hana virðisaukaskattur þó svo að lögfræðiþjónustan yrði undanþegin skv. 2. gr., það er augljóst mál. En þá er spurningin, af hverju tel ég að ekki eigi að falla útskattur á lögfræðiþjónustu? Hæstv. fjmrh. eru kunnug mín sjónarmið þannig að ég er ekki að segja hér neitt nýtt. Ég er einungis að skýra frá því að hæstv. fjmrh. hefur hafnað þeim sjónarmiðum sem ég lagði þessari skoðun minni til grundvallar.
    Við Íslendingar búum í réttarríki og þeir sem leita lögfræðiþjónustu, þeir einstaklingar sem ekki hafa atvinnurekstur með höndum en leita lögfræðiþjónustu, gera það í höfuðdráttum af tveim sökum. Annars vegar vegna þess að þeir eru að leita réttar síns eða verja rétt sinn og hins vegar vegna þess að þeir hafa lent í greiðsluerfiðleikum og þurfa af þeim sökum að greiða háan innheimtukostnað sem er auðvitað mjög --- ég veit ekki hvort ég á að segja sársaukafullur eða sem mikið finnst fyrir hjá því fólki sem hvort sem er getur ekki staðið í skilum. Og þá er auðvitað mjög hæpið, finnst mér, að ríkið geti haft erfiðleika þessa fólks af féþúfu. Ef maðurinn er í atvinnurekstri, þá kemur virðisaukaskatturinn af lögfræðiþjónustunni hvort eð er til frádráttar, þannig að sá maður greiðir ekki virðisaukaskatt af lögfræðiþjónustunni. Við getum tekið t.d. fyrirtæki sem er gjaldþrota eða á í greiðsluerfiðleikum eða fyrirtæki sem þarf á ráðgefandi lögfræðingi að halda. Skiptir engu máli hvers eðlis sú lögfræðiþjónusta er. Það fyrirtæki fær endurgreiddan lögfræðikostnaðinn af þessari þjónustu

í gegnum sitt uppgjör við ríkissjóð. En hverjir eiga að bera hann, hæstv. fjmrh.? Það er þeir menn sem eru skuldum hlaðnir, geta ekki staðið í skilum og verða af þeim sökum að bera ekki aðeins þessa háu dráttarvexti sem menn verða að bera nú um stundir, heldur líka 24,5% virðisaukaskatt af lögfræðiþjónustunni.
    Hins vegar maður sem er að leita réttar síns. Hugsum okkur t.d. ekkju, sem ég veit dæmi um, sem á þrjú börn. Ég hef séð hennar skattframtal. Tekjur hennar eru rúm 900 þús. og henni er gert að greiða rúmlega 300 þús. kr. í skatta. Segjum að vegna þeirra miklu skattahækkana sem hæstv. fjmrh. lét koma fram á þessu ári hafi þessi kona ástæðu til að ætla að hún geti vefengt þessa miklu skattheimtu fjmrh. og leitað réttar síns. Á hún þá að borga líka ofan í kaupið virðisaukaskatt af þeirri viðleitni sinni til þess hins sama ráðherra? Ég vil vænta þess að þeir menn sem eiga sæti með mér í fjh.- og viðskn. skilji sanngirni þessa máls. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að Margaret Thatcher leggur ekki virðisaukaskatt á lögfræðiþjónustu og auðvitað viljum við hafa hana sem víðast til fyrirmyndar og þessi þjónusta sömuleiðis. Af þeim ástæðum að þarna er verið að skattleggja eymdina annars vegar og hins vegar verið að skattleggja það í réttarríkinu að maður geti leitað réttar síns. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, hæstv. fjmrh., hversu miklar tekjur hann telur sig muni hafa t.d. af því fólki sem er að missa heimili sín. Það verður fróðlegt að sjá það.
    Í 11. gr. þessa frv. er ákvæði þess efnis að það eigi að hækka um helming, um 100% svo að maður sé skýr, tvöfalda þá prósentu sem þar um ræðir.
    Þá vil ég gera 12. gr. laganna að umræðuefni. Ég vil fyrst vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir því í 5. tölul. 12. gr. sem ég hygg að sé best að ég lesi yfir til að skiljist sem best, með leyfi hæstv. forseta: ,,... vistir, eldsneyti, tæki og annar búnaður sem afhentur er til nota um borð í millilandaförum svo og sú þjónusta sem veitt er slíkum förum. Undanþága þessi nær þó ekki til skemmtibáta og einkaloftfara.`` Það sem ég geri hér fyrst að umræðuefni er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fullur virðisaukaskattur skuli leggjast á flugsamgöngur hér innan lands, að eldsneyti af flugvélum í innanlandsflugi skuli bera virðisaukaskatt. Ég veit að þetta er réttlætt með
því að farþegaflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti skv. 2. gr. sem þýðir að ekki er greiddur útskattur af slíkum atvinnurekstri en á hinn bóginn er greiddur fullvirðisskattur. Ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég tel nauðsynlegt að þetta komi til endurskoðunar er sú að eftir því sem vegir hafa batnað hér á landi, ég tala nú ekki um ef skipt yrði um ríkisstjórn, þá mundu frekari framfarir ganga fljótt fyrir sig. Samt sem áður þykjumst við sjá fram á það á næstu árum að t.d. verði komið bundið slitlag og búið að byggja upp leiðina Reykjavík-Akureyri sem er fjölfarnasta leiðin hér innan lands þannig að 40--45% þeirra farþega sem koma á Reykjavíkurflugvöll fljúga til Akureyrar. Auðvitað gefur það auga leið að eftir

því sem vegir batna freistast fleiri til þess að fara landleiðina, aka á milli, ef flugfargjöld verða óeðlilega há. Þau eru nú milli Reykjavíkur og Akureyrar milli 10 og 11 þús. kr. Ef við tökum þá sem fjær búa, tökum t.d. fólk á Vopnafirði, Þórshöfn, Raufarhöfn, þá hækkar þessi kostnaður enn um 5--6 þús. kr. ef þetta fólk þarf að bregða sér til Reykjavíkur. Þetta eru auðvitað umtalsverðir fjármunir og veruleg hætta á því, ef við komum ekki til móts við þarfir í innanlandsflugi með því að undanþiggja reksturinn skv. 12. gr., að þessar flugleiðir verði óhagkvæmari vegna þess að fólk reynir að forðast, koma sér hjá því, hliðra sér við því að fara á milli í flugvélum. Í þessu er hættan fólgin. Meðan vegasamgöngur voru mjög erfiðar urðu menn auðvitað að grípa til flugvélarinnar. Nú sjáum við fram á það með bættum vegasamgöngum að hlutfallslega verður flugið dýrara og dýrara, en það dregur á hinn bóginn ekki úr nauðsyn þess að fólk geti farið milli landsfjórðunga í einkaerindum. En það gildir hið sama um þetta og lögfræðikostnaðinn. Auðvitað verða fyrirtækin að greiða virðisaukaskatt af allri sinni veltu þannig að það sem við erum að tala um hér er fyrst og fremst spurningin um það hvort við eigum að koma til móts við einstaklingana sem búa á fjarlægustu stöðunum. Þetta kemur ekki mikið við Reykvíkinga eða Reyknesinga. Þetta varðar þá ekki sérstaklega miklu sem búa á Akranesi eða í Flóanum. En ef við hugsum til Vestmannaeyja, Ísafjarðar, Akureyrar, Raufarhafnar, Egilsstaða, þá fer þetta að skipta verulegu máli fyrir þá einstaklinga sem þar búa. Hæstv. fjmrh. var líka kunnugt um viðhorf mitt í þessu máli og ég sé á frv. eins og það liggur fyrir að hann hefur ekki samúð með þessum sjónarmiðum mínum.
    Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig farið sé með virðisaukaskatt í sambandi við ferjuloftför, flugvélar sem eru ferjaðar milli landa. Með hvaða kjörum geta þær fengið eldsneyti hér á landi og hversu verður því háttað ef skemmtibátur eða einkaloftfar þarf á þjónustu að halda, viðgerðarþjónustu af einhverju tagi eða ef íslensk skipasmíðastöð t.d. næði samningum um að ráðast í verulegt verkefni á einhverri skemmtisnekkju, má þá búast við því að slík starfsemi verði undanþegin virðisaukaskatti?
    Ég læt í ljós ánægju yfir því að í þessum brtt. er gert ráð fyrir því að sala tímarita, dagblaða og sambærilegra landsmála- og héraðsfréttablaða svo og afnotagjöld útvarpsstöðva skuli skv. 12. gr. undanþegin virðisaukaskatti. Ég hlýt líka að láta í ljós ánægju yfir því að sala bóka á íslenskri tungu skuli undanþegin virðisaukaskatti eftir 1. nóv. En ég minni á annað. Hvaða bókamarkaður er það sem verið er að hlaupa þarna yfir? Hverjir eru það sem einkum kaupa bækur í byrjun september og byrjun október? Hvaða fólk skyldi það vera? ( Gripið fram í: Námsfólk.) Af hverju er ekki miðað við 1. sept.? Í hvaða peninga er verið að ná? Það skyldi þó ekki vera að hæstv. fjmrh. væri að ná í sumarhýruna hjá þessu fólki sem er í framhaldsskólunum ef fólkið fær þá nokkra vinnu á

næsta sumri, ef atvinnuleysið verður ekki orðið þvílíkt. Auðvitað er það siðlaust með öllu að miða niðurfellingu virðisaukaskatts við þann tíma að öruggt sé að börnin séu búin að kosta til öllu því sem þau þurfa í sambandi við skólastarfið. Og auðvitað er það óhjákvæmilegt, ef það er einhver snefill af samvisku í þeirri fjh.- og viðskn. sem var kosin hér í þessari deild á sl. hausti að þessi undantekning verði látin ná til unglinganna, til skólabarnanna. Og við sjálfstæðismenn munum beita okkur fyrir því af alefli í nefndinni að börnin sleppi við virðisaukaskattinn á næsta hausti. (Gripið fram í.)
    Svo þýðir lítið fyrir þennan hæstv. ráðherra að koma hér upp og tala menningarlega. Hvað er menning? Er hún eitthvað sem tekur við eftir tvítugt? Er menning jólagjafir? Ætli menningin sé kannski ekki m.a. fólgin í því að létta sem mest róðurinn fyrir þá sem vilja reyna að mennta sig í skólum landsins? Eigum við þá ekki að reyna að koma til móts við þá og ætli ríkissjóður hafi ekki efni á því að tapa þessum skildingum sem börnin greiða í virðisaukaskattinn á næsta hausti eins og frá frv. er gengið? Ætli ráðherrann verði ekki að finna sér eitthvað annað til að spara? Hann ætti að afnema ríkisskattana á þessum sneplum eins og Þjóðviljanum og láta börnin í friði. Ég held að það væri meiri menning yfir því. ( Fjmrh.: Hvernig var þetta hjá Þorsteini Pálssyni?) Hjá Þorsteini Pálssyni var það þannig, hæstv. ráðherra, að virðisaukaskatturinn er eins og hér liggur fyrir og við náðum fram, 22%, og það liggur fyrir. ( Fjmrh.: Alla skattana?) Eitthvað er nú ráðherrann órólegur,
eitthvað finnur nú ráðherrann til. Er ráðherrann að reyna að gefa það í skyn að þetta hafi verið handvömm, að hann hafi ætlað að skrifa 1. sept.? ( Fjmrh.: Nei.) En ég er búinn að heyra það margar ræður frá honum að ég veit að það er alls ekki svo. Ég veit að þetta er af ásetningi, þetta er af vilja sem þessi gjalddagi miðast við 1. nóv. og það var skýrt tekið fram í þeim greinargerðum sem ráðherrann hefur látið frá sér fara í fjölmiðlum og víðar að ríkissjóður hefði ekki efni á því að tapa peningunum. ( Fjmrh.: Hafðu þetta nú rétt.) Ráðherrann er órólegur, ráðherrann finnur að hann gerði rangt. Hann er eins og vél sem er farin að hökta, alltaf það sama. En kannski það sé einhver veikleiki þarna hjá ráðherranum, kannski við getum snúið ofan af honum. Við skulum athuga gangverkið. Hann sagði í sjónvarpsviðtalinu að hann ætlaði að fínstilla eftir áramótin, fínstilla og mér heyrist það þurfa. Það er svolítil truflun í þessu. ( Fjmrh.: Ég var bara að leiðrétta rangfærslur ...) Svolítið farið að lagast, það er mildara svolítið, það er svolítið búið að smyrja ráðherrann. En ég er hræddur um að við verðum að hjálpa honum að fínstilla alveg, ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við verðum að hjálpa honum að fínstilla alveg. ( Fjmrh.: Þú ferð aldrei rétt með.) Fer ég ekki rétt með? Stendur það ekki hér fullum fetum að það eigi að leggja virðisaukaskattinn á skólabækurnar? Ætlar ráðherrann ekki að ná í það? Hvað skyldi það vera há upphæð, hæstv. fjmrh., sem

Mál og menning selur skólabörnunum á ári? Hvað skyldu það vera háar upphæðir? Það væri nú fróðlegt að fá veltuna. Kannski við getum fengið í nefndinni veltuna á skólabókunum þannig að við sjáum hvaða peningar þetta eru. Við getum þá kannski sannfært ráðherrann um að þetta eru smáaurar í allri þessari skattpíningu sem hann er að leggja á okkur núna. Hvað er það mikið í þessum tveim fréttatilkynningum sem er umfram það sem er í gildandi lögum? Hvað er með tekjuskattana? Er það 2% eða 4%? Hvað eru þeir annars staðar? ( Fjmrh.: Við skulum tala um þetta ...) Við skulum tala um þetta, já. Við skulum sjá til, við skulum horfa --- til allrar hamingju hefur ráðherrann ekki atkvæðisrétt í þinginu þannig að það er kannski von til þess að við náum þessu fram með skólabækurnar, að þær verði undanþegnar virðisaukaskattinum. Við sjáum til. Það má vera.
    Mér þykir vænt um það, herra forseti, að svolítið hef ég hruggað við ráðherranum. En hvernig ætlar ráðherrann að fara með annað sem mér datt í hug, hvernig hugsaði ráðherrann sér t.d. kynningarbæklinga sem gefnir eru út? Þeir verða með virðisaukaskatti ef þeir eru á erlendri tungu þó að það séu íslenskir útgefendur. Er það ekki rétt skilið hjá mér? ( Fjmrh.: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu er það þannig já, ekki að spyrja að því. En það standa vonir til þess að ráðherrann hafi í sinni geðshræringu nú áðan áttað sig á því að nauðsynlegt sé að breyta þessu ákvæði og ég bendi honum á það, það er hægt að ná peningunum á móti bara með því að hætta að styrkja Þjóðviljann og Alþýðublaðið og Tímann og Dag og væri ekki vonum seinna. ( Fjmrh.: Og Sjálfstfl. Hvað fær Sjálfstfl. mikið í ríkisstyrk?) Ja, ætli Sjálfstfl. fái hlutfallslega jafnmikið og Alþb. Segðu mér, hæstv. fjmrh., ætli Sjálfstfl. eigi kost á því að láta greiða úr ríkissjóði svona fundaherferðir eins og ríkisstjórnin er nú að kosta um atvinnumálin um allt land, á Akranesi um daginn? Hver kostar þessar ferðir ríkisstjórnarinnar um atvinnumál núna? Fundarhöldin? Er það ríkissjóður? ( Fjmrh.: Sjálfstfl. ...) Er það ríkissjóður sem kostar þetta? Það væri nauðsynlegt að fá upplýsingar um það. En Sjálfstfl., þingflokkur Sjálfstfl. fær peninga, það er rétt, til að standa undir sinni starfsemi en hann fær ekki jafnmikið á hvern þm. og þm. Alþb. eða Alþfl. Og það er alveg rétt að Sjálfstfl. fær til útgáfustarfsemi fé af fjárlögum. Það er líka rétt að ég hef í hvert einasta skipti og margir sjálfstæðismenn, þorri þeirra, greitt atkvæði gegn þessum lið. Á hinn bóginn höfum við ekki gengið svo langt að skila peningunum og teljum að úr því að ríkið með þessum hætti styrkir vinstri flokkana, þá sé ekki óeðlilegt að Sjálfstfl. fái að njóta þess að nokkrum hluta. En ég er hins vegar alveg til viðræðu um að ræða þetta ofan í kjölinn við fjmrh. Við skulum hætta þessum styrkjum. Við skulum láta Alþýðublaðið klára sig sjálft. Við skulum láta
Þjóðviljann klára sig sjálfan. Við skulum láta Tímann klára sig sjálfan. Við skulum bara láta þá menn sem styðja stjórnmálaflokkana standa undir svona sneplum. En ef við erum á hinn bóginn að tala um góð blöð

eins og Morgunblaðið, þá þarf það enga styrki því að það ber sig og stendur undir sér, er heilbrigt, það er lesið með morgunkaffinu, það vilja allir fá inn á sitt heimili. Ég tala nú svo ekki um þá erfiðleika sem því eru samfara að reyna að fylgjast með því hvort maður fær með skilum þessi eintök af Alþýðublaði og Þjóðvilja sem Alþingi greiðir fyrir mann. Ég held að það sé upp og ofan og maður tekur nú satt að segja lítið eftir því og saknar þess ekki þó að þau berist ekki. ( Forseti: Ég þarf því miður að biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni þar sem komið er að þingflokksfundartímum. Er því fundi frestað til kl. 6, en við munum halda áfram milli 6 og 7, en síðan þá aftur að loknu matarhléi.)
    Herra forseti. Ég spurði hæstv. fjmrh. í ræðu minni hér fyrr í dag hversu
mikinn auglýsingakostnað hann hefði greitt fyrir stjórnarflokkana nú upp á síðkastið vegna fundahalda um atvinnumál sem kallast ,,Mótun atvinnustefnu`` af því gefna tilefni að hann hafði orð á því að Sjálfstfl. nyti mikilla ríkisstyrkja. Ég er hér fyrir framan mig með Alþýðublaðið frá 2. des. Hér er mjög skrautleg auglýsing í tveim litum um mótun atvinnustefnu í Alþýðublaðinu og tekur yfir hálfa síðu. Má kannski spyrja hæstv. ráðherra hvað hann haldi að séu margir kaupendur Alþýðublaðsins í Vesturlandskjördæmi því að það er auðvitað mikil spurning hversu margir menn í því ágæta kjördæmi fá nokkurn tíma að sjá þessa auglýsingu? Ég hygg að flestir séu sammála um að þetta sé ,,spandans``-kostnaður og hljóti að verða að líta á þetta sem styrk við Alþfl. og Alþýðublaðið.
    Það sem vekur athygli er að hér flytja ræður Júlíus Sólnes, ráðherra Hagstofu, Jón Sigurðsson, iðnrh. og viðskrh., Þorsteinn Ólafsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Auglýsing af þessu tagi var í öllum dagblöðum og eflaust víðar. Ég er ekki það góður auglýsingalesari eða hlustari að ég geri mér grein fyrir því hversu víða auglýst hefur verið en vegna þeirra þungu áhyggja sem hæstv. fjmrh. hefur af þeim peningum sem renna til þingflokks Sjálfstfl. væri ekki úr vegi að hann upplýsti hér við umræðuna hver borgi þessa auglýsingu. Er til í dæminu að ríkissjóður greiði þvílíkar auglýsingar sem þessar? Og ef svo er, eftir hvaða heimild á fjárlögum fara þá slíkar greiðslur fram? Það er auðvitað gjörsamlega út í hött að reyna að halda því fram að þetta sé eitthvað í samræmi við þá skiptingu á opinberum fjármunum sem eru á milli einstakra stjórnmálaflokka.
    Við erum hér að ræða um frv. til l. um hækkun á virðisaukaskatti um 2,5%. Ég var hér síðast að ræða um 12. gr. laganna og liggur þá beint fyrir að ræða næst um skatthlutfallið eða 14. gr. Hæstv. fjmrh. var svo --- ég vil segja ósmekkvís hér áðan að halda því fram að í því fælust sérstakar kjarabætur að flytja hér frv. um hækkun á virðisaukaskatti um 2,5% sem er skattþynging um 4 milljarða kr. eða eitthvað á því bili.
    Í því frv. sem hér liggur fyrir er lítil tafla á bls. 6 sem ber yfirskriftina: ,,Skattstofn söluskatts og virðisaukaskatts skv. frumvarpi`` og er látið í veðri

vaka að þessi tafla gefi einhverjar upplýsingar um samanburð á því hvað þessir tveir tekjupóstar gefi af sér, annars vegar söluskattur og hins vegar virðisaukaskattur.
    Nú er fyrst frá því að segja að það eru ósannindi sem hér stendur efst í töflunni að söluskatturinn núgildandi gefi af sér í tekjur fyrir ríkissjóð nettó 39,8 milljarða kr. og er náttúrlega makalaust að þau vinnubrögð skuli viðhöfð af hæstv. fjmrh. að gefa jafnrangar og villandi upplýsingar til þingdeildar og fjölmiðla, auðvitað algert siðleysi. Lágmarksnauðsynlegar leiðréttingar sem verður að gefa eru t.d. endurgreiddur söluskattur af fiski, sjávarútvegi, loðdýrum, fiskeldi o.s.frv. Þar erum við að tala um upphæð sem er einhvers staðar kringum 1,5 milljarðar kr. og við verðum auðvitað líka að taka tillit til þess að söluskatturinn hefur verið niðurgreiddur, skv. því kerfi sem nú er, um 4,1 milljarð kr. Niðurgreiðsla rafhitunar er 0,2 milljarðar kr. og jöfnunargjald nettó er 200 millj. kr. þannig að söluskatturinn skilar nettó um 34,3 milljörðum kr. Þetta er auðvitað sú tala sem ég hef ritað hér upp og fengið upplýsingar um. Ég er ekki að segja að öll kurl séu komin til grafar en hitt gefur auga leið að skekkjan eða þær villandi upplýsingar sem fjmrn. gefur nema um 5 milljörðum kr. og 500 millj. kr., eða hálfum milljarði, betur.
    Það má auðvitað spyrja sig að því úr því að Alþingi er að leggja verulegt fjármagn til þess að reka nýja deild sem heitir hagdeild fjmrn. hvort einhver ástæða sé til þess á fjárlögum að verja fé til deildarinnar ef hún á að vera einhvers konar svikamylla fjmrh., ætluð til þess að gefa þm. rangar upplýsingar. Það er auðvitað með öllu ólíðandi og getur ekki gengið upp.
    Ég skil á hinn bóginn að uppsetningin eins og hún er sett hér í þessari töflu, þegar talað er um að söluskatturinn hefði gefið af sér 39,8 milljarða og virðisaukaskatturinn 37,8, er með þeim hætti að sú niðurstaða er gefin fyrir fram að mismunurinn verði 2 milljarðar kr. í nettóinnkomu fyrir ríkissjóð og af þeim sökum þurfi að bæta ríkissjóði upp þessar tekjur. Þetta er formúla sem hæstv. fjmrh. var nauðsynlegt að finna upp af þeim ástæðum að hann hefur nú, með samþykki Alþfl. í óðagotinu sl. fimmtudag þegar Alþfl. var ekki með sjálfum sér, ákveðið og fengið Alþfl. til að skrifa upp á þrenns konar nýja skattlagningu, tekjuskatt upp á 1,4 milljarða, orkuskatt upp á 250 millj. og bílaskatt upp á 350 millj. Það eru einnig 2 milljarðar kr. Þetta er það sem blasir við.
    Annað sem blasir við er að hæstv. fjmrh. og talsmenn hans höfðu, meðan þeir voru uppi með hugmyndir um að hafa virðisaukaskattinn í einu þrepi, 26%, mjög við orð og létu í veðri vaka að skattkerfisbreytingin mundi ekki gefa af sér auknar tekjur í ríkissjóð. Hæstv. fjmrh. lét í veðri vaka að það væri alls ekki hugmyndin með skattkerfisbreytingunni að ná nýjum tekjum í ríkissjóð. Nú er á hinn bóginn komið í ljós að þetta hefur ekki reynst rétt vegna þess að

þegar búið er að taka tillit til hinna ýmsu liða inn og út í sambandi við virðisaukaskatt og í sambandi við söluskatt virðist vera sem virðisaukaskatturinn, jafnvel enn þann dag í dag, gefi eilítið meira af sér en 25% söluskattur hefði gefið. Ég skal ekki fullyrða hvort við séum þar að tala um 200 millj. kr., kannski 700 millj. Þetta fer eftir því hvernig dæmið er reiknað, en það er náttúrlega augljóst mál að fjh.- og viðskn. mun fara rækilega ofan í saumana á því og hagdeild fjmrn. verður krafin sagna um það hvernig hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að nettótekjur af óbreyttu söluskattskerfi hefðu verið 39,8 milljarðar fyrir ríkissjóð.
    Herra forseti. Þessi tafla á að vera til upplýsingar. Hér er látið eins og ekki hafi verið um neinn uppsafnaðan endurgreiddan söluskatt að ræða. Þetta eru fjórar tölur sem eiga að gefa heildarmynd af því hvernig tekjum af þessum tveimur ólíku sköttum sé háttað, engin útfærsla, engar skýringar. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að hæstv. fjmrh. kærir sig ekki um að leggja spilin á borðið. Kannski er mesta falsið í því sem fjmrh. segir sú uppsetning hans að matvæli muni á næsta ári lækka mjög verulega. Hann talaði um 10% einhvern tíma. Ég man ekki hvort hann er kominn niður í 8% núna. Óhjákvæmilegt er að lesa úr fréttatilkynningu dags. 5. des. þar sem vikið er að þessu atriði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skatturinn er í einu þrepi að því er varðar smásölu og allan útreikning. Helstu tegundir innlendra matvæla munu þó vegna endurgreiðslunnar lækka við skattkerfisbreytinguna um áramót um 8--9%. Þess er vænst að almennt vöruverð lækki sem nemur um 1%, bæði vegna þessarar matvælalækkunar, vegna þess að skatthlutfallið lækkar frá söluskattinum, og vegna almennra lækkunaráhrifa nýja kerfisins.``
    Ég hef flett því upp í fjárlagafrv. hversu miklar niðurgreiðslur hafi verið á þessu ári og þær eru um 4,1 milljarður kr. Í greinargerð stendur að niðurgreiðslur á þessu ári séu um 4,1 milljarður kr. Sama talan er síðan í fjárlagafrv. fyrir næsta ár til niðurgreiðslu. Niðurgreiðsla á vöruverði: 4 milljarðar 53 millj. Hækkun 0%. Ég hygg að öllum hv. þdm. sé kunnugt að fjmrh. er óheimilt að verja frekari fjárhæðum til niðurgreiðslu en gert er ráð fyrir í fjárlögum.
    Síðan segir í þessari fréttatilkynningu: ,,Vert er að vekja athygli á því að eðlismunur er á þeirri endurgreiðslu sem hér er lögð til og hefðbundnum niðurgreiðslum á búvörum. Niðurgreiðslur hafa á hverjum tíma verið ákveðnar af ríkisstjórninni, í fjárlögum og með sérstökum hætti, og hafa þær verið mjög breytilegar á milli ára og árstíða. Endurgreiðslurnar yrðu hins vegar bundnar í virðisaukaskattslögunum sjálfum og allar breytingar á þeim eru háðar meirihlutavilja Alþingis.``
    Hér lýsir fjmrh. því yfir í yfirlýsingu sem hann sendir fjölmiðlum að kveðið sé skýrt á um það í lagafrv. að niðurgreiðslan sé á hverjum tíma bundin í lögunum um virðisaukaskatt. Ef hins vegar texti lagafrv. er skoðaður kemur í ljós að þetta er uppspuni,

hreinn uppspuni, og auðvitað mjög alvarlegur hlutur þegar embættismenn fjmrn., á ábyrgð fjmrh., senda frá sér plögg af þessu tagi. Nú skal ég lesa upp þann texta, með leyfi hæstv. forseta, sem fjallar um þetta atriði, en hann hljóðar svo:
    ,,Endurgreiða skal hluta virðisaukaskatts af neyslumjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti þannig að skattgreiðslur samtals af þessari matvöru, að teknu tilliti til endurgreiðslunnar, verði sem næst 14% í stað 24,5%. Fjmrh. ákveður með reglugerð nánar hvaða matvara fellur undir þessa málsgrein, svo og um framkvæmd endurgreiðslunnar.``
    Nú vill svo til að Ríkisendurskoðun er ekki lengur undir fjmrh., heldur vinnur Ríkisendurskoðun á ábyrgð Alþingis og ég mun að sjálfsögðu, til þess að tryggja það að sú niðurgreiðsla á þessum matvörum nái fram að ganga sem er vilji ríkisstjórnarinnar, óska eftir því að Ríkisendurskoðun komi á fund fjh.- og viðskn. og svari þessari beinu spurningu: Hvort er ráðandi sú fjárhæð sem Alþingi samþykkir til niðurgreiðslu á búvörum eða óljóst orðalag af þessu tagi: sem verði sem næst 14% í stað 24%? Ég hef margsinnis komið að löggjöf í fjh.- og viðskn. og hef setið í þeirri nefnd um margra ára bil og var um skeið formaður þeirrar nefndar. Ég fullyrði að lagatúlkun af þessu tagi, að almenn viljayfirlýsing í sérlögum sé ráðandi um fjárútlát Alþingis, er röng. Hún er röng. Og það er auðvitað siðlaust af hæstv. fjmrh. að gefa annað í skyn í fréttatilkynningu til fjölmiðla. Á hinn bóginn liggur það alveg ljóst fyrir og við sjálfstæðismenn getum hjálpað honum að orða þá tillögu, og hún er einfaldlega þannig að virðisaukaskatturinn verði tvö þrep. Annað þrepið sé 14% og hitt þrepið sé 25%. Það er sá eini rétti texti sem hægt er að hafa í skattalögum til þess að tryggja að framkvæmdin sé með þeim hætti sem hér hefur verið talað um.
    Ég vil sérstaklega spyrja hv. 5. þm. Norðurl. e. sem sæti á í fjh.- og viðskn. hvort hann sé ekki opinn fyrir því að við reynum að ná því orðalagi til þess að ná þessum markmiðum sem tryggi tilganginn, að við leitum eftir því við Ríkisendurskoðun hvort þetta sé fullnægjandi orðalag, spyrjum hana ef hún
telur að svo sé ekki hvaða breytingar þurfi að gera á lögunum til að ná þessu fram. Ég veit auðvitað svarið hjá þessum hv. þm. Hann kom hingað inn í þingið ungur og óreyndur og tók þátt í umræðum utan dagskrár og var þá að reyna að standa uppi í hárinu á hæstv. fjmrh. og segja: Við í Framsfl. viljum tvö þrep. Ég er búinn að sjá í gegnum þetta og þetta eru allt saman blekkingar. Eins og þetta mál er lagt upp af hæstv. fjmrh. lækka matvörur ekki um eina einustu krónu. Þetta voru ummæli hans hér í Sþ. þegar hann gætti ekki að því að spyrja þá reyndari þingmenn Framsfl. um það hvað hann mætti segja. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fumið og fátið kom á ríkisstjórnina á fimmtudaginn var, kratar urðu vitlausir, og nú liggur það fyrir að það er búið að setja handjárn á þennan ágæta þingmann að norðan. Og hann mun vitanlega ekki treysta sér til þess að standa með okkur sjálfstæðismönnum og Kvennalista um það

að hafa þrepin í virðisaukaskattinum tvö, að tryggja það að verð á þessum matvörum sem hér um ræðir verði í samræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið og í samræmi við þær yfirlýsingar sem hafa komið frá verkalýðshreyfingunni.
    Ég get ekki skilið --- að vísu ber að játa það að í þeirri ágætu grg. sem fylgir fjárlagafrv. er svona einhver ógreinilegur orðavaðall um niðurgreiðslur sem enginn maður skilur og allra síst hæstv. fjmrh. En þessum ógreinilega orðavaðli er ætlað að gefa það í skyn að niðurgreiðslurnar á næsta ári verði 5 milljarðar í staðinn fyrir 4 eins og mér er sagt að eigi að skilja hin undarlegu ummæli í reglugerðinni. Eftir sem áður liggur það fyrir vegna þess að það er talað um það í áætlun ríkisstjórnarinnar sjálfrar, þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem við vitum að auðvitað stenst ekki --- auðvitað verður verðbólgan meiri en þar er talað um --- að verðbólguvöxturinn núna á milli ára sé í kringum 24%, frá 1989--1990. Ég mun að sjálfsögðu biðja um það í fjh.- og viðskn. að fjmrn. stilli nú upp dæmi, láti okkur þingmenn í stjórnarandstöðunni fá upplýsingar um það hvernig þetta er hugsað, hversu mikið af þessari fjárhæð á að falla til á fyrsta ársfjórðungi, hversu mikið á öðrum ársfjórðungi, hversu mikið á þriðja ársfjórðungi, hversu mikið á fjórða. Einmitt þetta atriði stendur hér í þessari ágætu yfirlýsingu sem er mjög merkilegt: ,,Reglugerð um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts á matvöru, en drög að henni verða lögð fyrir þingnefndir samhliða afgreiðslu frv.`` Og nú reynir á þetta hjá hæstv. ráðherra: ætlar hann að standa við þetta? ( Fjmrh.: Að sjálfsögðu.) Ætlar hann að gera okkur grein fyrir þessu? ( Fjmrh.: Að sjálfsögðu.) Og þá reynir á það hjá t.d. þingmanni Norðlendinga sem álpast að styðja Framsfl. hvort hann muni ekki standa að þessu með mér að við fáum fullnægjandi skýringu á þessu máli. ( JGS: Því miður, Halldór, sit ég ekki í þeirri nefnd með þér sem þú ert margbúinn að brýna mig á.) Nú, ég bið afsökunar á því, en Valgerður sat þar. Já, það er þingmaður Suðurnesja. Ég vona að hv. þm. geti haft áhrif á Suðurnesjamanninn þó að það sé rétt að því hafi fæstir spáð síðan hann frelsaðist þar.
    En ég vil um leið, af því að við erum hér að ræða sérstaklega um þessar a.m.k. fjórar reglugerðir sem bíða þess að Alþingi afgreiði stjórnarfrv., geta þess við fjmrh. að ég tek hann alvarlega þegar hann segir að þetta hafi allt saman gengið eftir áætlun, allur undirbúningurinn, og ég tek hæstv. fjmrh. alvarlega þegar hann segir að það hafi verið í áætlunum hans í maímánuði sl. að hann mundi ekki vita 6. sept. hvort hann væri alveg búinn að gera upp við sig hversu margar reglugerðir yrði að gefa út fyrir áramót. Auðvitað veit ég að ráðherra ætlaði í vor að geyma svo afdrifaríkar ákvarðanir til aðfangadags. Duglegur á aðfangadag, hæstv. ráðherra, þó að ég segi nú kannski ekki að jólaljósið sé í kringum hann. En ég held að nauðsynlegt sé að þessi hæstv. ráðherra láti okkur fá, bara núna fyrir helgina --- það væri ágætt, það verður að vísu fundur í fjh.- og viðskn. bæði í fyrramálið og sennilega á föstudagsmorgun og ég

kvarta ekkert undan því þó að við fáum ekki þær reglugerðir sem eru óútkomnar fyrr en á föstudaginn, en það er nauðsynlegt að við fáum allar þessar reglugerðir í nefndina og það er nauðsynlegt að við fáum nákvæman útreikning á því hvað virðisaukaskatturinn gefur af sér, hvernig þetta er hugsað og líka að við förum alveg yfir það hvort þetta sé rétt mat sem fjmrn. hefur þarna sett fram um nettótekjur söluskattsins því að ef það skyldi nú vera svo að söluskatturinn gefi minna af sér en sagt er hér í þessari áætlun fjmrn. þykist ég vita að hæstv. fjmrh. muni reiðubúinn til þess að lækka virðisaukaskattinn sem því nemur og þá gæti þar orðið um 1--2 þrep að ræða.
    Það er auðvitað alveg ljóst að útgjöld úr ríkissjóði, niðurgreiðsluútgjöld úr ríkissjóði, eru óheimil nema Alþingi samþykki í fjárlögum. Það eiga menn að vita þó að þeir séu ekki prófessorar í stjórnmálafræði.
    Í 26. gr. laganna, í þeim kafla sem fjallar um uppgjörstímabil gjalda o.fl., er í frv. gerð tillaga um að umorða 3. mgr. Þar er gert ráð fyrir að hin nýja grein hljóði svo:
    ,,Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu.`` Það er
náttúrlega slíkt ofríki sem felst í þessari mgr. að mér dettur ekki eitt andartak í hug að þetta fái meirihlutafylgi þingmanna. Ég held raunar að þingmenn stjórnarinnar hafi ekki áttað sig á því hvað hér er um að ræða og heldur ekki því sem stendur í 11. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að sú breyting verði gerð á 27. gr. að álag skuli vera 2% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga og þó ekki hærri en 20%. Mér dettur ekki í hug eitt andartak að hæstv. fjmrh. hafi sýnt stjórnarþingmönnum þessi ströngu ákvæði sem ganga svo nærri atvinnurekstrinum að engu tali tekur og þá allra síst af fjmrh. sem hefur svo mismunað fyrirtækjum að sum fyrirtæki hafa fengið víkjandi lán hjá þessum sama fjmrh. til þess að greiða sínar skuldbindingar. (Gripið fram í.) Og ég spyr: Ef við trúum þeim verðbólgumarkmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér, dettur þá einhverjum í hug að hægt sé vera með 2% dráttarvexti á dag, að á 10 dögum sé hægt að taka 20% dráttarvexti af virðisaukaskatti? Hvað haldið þið að yrði sagt um annað eins og þetta í nálægum löndum? Menn geta rétt ímyndað sér það. Annars vegar segir ríkið að það megi skuldajafna hvaða skatti sem er á móti virðisaukaskattinum, endurkröfunni, og hins vegar segir fjmrh.: Við ætlum að taka okkur 2% á dag í refsivexti --- 2% á dag. Ríkisstjórn sem er enn að þyngja skattbyrðina og ræðst að fólki bókstaflega hvarvetna. Auðvitað er það með öllu óhugsandi að stjórnarþingmenn hafi gengið inn á þetta. Það ber á hinn bóginn vott um hugsunarhátt þessa ágæta ráðherra, sem við þekktum best þegar hann skrifaði mest í Þjóðviljann, að geta aldrei þolað að neinn atvinnurekstur sé í sæmilegu lagi, sé rekinn með hagnaði, og stendur á móti því að eðlileg rekstrarskilyrði séu í fyrirtækjum hér á landi.

    Hann var að tala um mikilvægi markaðarins í Evrópubandalaginu hér áðan í lok ræðu sinnar, og hann var að tala um að virðisaukaskatturinn væri mikilsvert þrep til þess að jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja ef framkvæmdin gengi vel. ( GHG: Þeir töluðu ekki svona á sínum tíma þegar þeir voru á móti virðisaukaskattinum.) Ég var búinn að minna hann á það. Ég er búinn að minna formann Alþb. á að það sé ánægjulegt fyrir okkur sjálfstæðismenn að sjá að þeir verða að framkvæma það sem við réðum að var lögfest þó að við á hinn bóginn höfum lýst því yfir að við berum kvíðboga fyrir framkvæmdinni vegna þess að hann skattleggur of mikið og vegna þess að undirbúningurinn er í molum. Og þetta er einmitt eitt dæmið um það lögregluríki sem þennan mann fýsir að stofna hér á Íslandi og ágætir menn eins og Bolvíkingar eru að reyna að standa á bak við. En alltaf er nú Bolvíkingurinn órólegur þegar maður minnir hann á það, ekki getur hann orða bundist og tautar með sjálfum sér: Hvernig í ósköpunum stendur á þessu?
    Þessi refsiákvæði eru fráleit og út úr öllum hlutföllum og geta auðvitað ekki gengið upp.
    Í X. kafla laganna er fjallað sérstaklega um landbúnað. Mér er ókunnugt um hvort einhver reglugerð hefur komið út um það atriði. Ég vil hins vegar spyrja
hæstv. fjmrh. að því tilefni hvenær hann hugsi sér að virðisaukaskatturinn falli í gjalddaga. Nú er það svo að bændur leggja dilka sína inn í septembermánuði, inn í sláturhúsið til sláturleyfishafa. Það þýðir að endurgreiðsla ríkissjóðs á virðisaukaskatti á sláturafurðum fellur í gjalddaga 5. des. vegna þess að virðisaukaskatturinn fellur allur í gjalddaga af sauðfjárafurðum um leið og dilkarnir eru leiddir í sláturhúsið. Og ég vil spyrja hann að því hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að endurgreiðslan á virðisaukanum til sláturleyfishafanna fari fram þennan dag. Ég vil jafnframt spyrja hann að því hvenær hann ætlist til þess að bændur skili þeim virðisaukaskatti sem þeir fá í hendur.
    Nú vitum við að t.d. á þessu ári hefur dregist að bændur fái sömu skil og vant er vegna þess að hæstv. fjmrh. stóð ekki í skilum með niðurgreiðslur eins og honum bar að gera og spurningin hlýtur þá að vera sú: Hvenær ætlast hann til að sauðfjárbændur skili ríkissjóði þessum virðisaukaskatti?
    Sláturleyfishafar eru mjög misjafnlega settir. Sumir eru fjárhagslega sterkir, aðrir ekki. Ætlar hann að halda uppi virðisaukaskattskröfunni á sauðfjárbóndann þó svo að fyrir liggi að hann hafi ekki fengið nema lítinn hluta dilkverðsins greiddan?
    Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. geri þessu máli rækileg skil hér á eftir. Það mundi mjög flýta fyrir vinnu í fjh.- og viðskn. en það hittist svo á að við höfum einmitt beðið Stéttarsamband bænda um að hitta okkur í fyrramálið og þá væri gagnlegt ef hæstv. ráðherra sýndi nú lit og kæmi til móts við nefndina og gæfi skýringu á þessu.
    Í sambandi við 34. gr. vil ég aðeins segja að þar

er gert ráð fyrir að fjmrh. geti gefið greiðslufrest á virðisaukaskatti á innflutning. Nú hef ég ástæðu til að ætla að hæstv. fjmrh. hafi ekki í hyggju að gefa þennan greiðslufrest og vil ég nú spyrja hann þeirrar spurningar hvort það sé rétt. Er það virkilega svo að hæstv. fjmrh. ætli ekki að gefa greiðslufrestinn? Ef hann gefur ekki greiðslufrestinn þá þýðir það að fjárbinding verslunarinnar mun leiða til hækkunar á vöruverði sem nemur 1--2% og auðvitað liggur það
ljóst fyrir ef innkaupsverð á smávöru, til að mynda, hækkar á einum degi um 26%, þá mun það valda samsvarandi hækkunum á þessari smávöru og gerðist þegar vinstri stjórn Gunnars Thoroddsens afnumdi núllin tvö og þessi hv. þm. barðist sem mest fyrir. Þá munum við eftir því að í janúarmánuði 1982 reið mikil hækkunaralda yfir þjóðfélagið og það sama mun auðvitað gerast núna ef það á að leggja 24,5% virðisaukaskatt á allan innflutning. Það mun verða mikil tilhneiging til að leggja prósentuhækkun á, sömu prósentuhækkun og núna, og auðvitað þarf meiri álagningu til að standa undir fjárbindingu sem hefur kostnað upp á 1--2% í för með sér. Spurningin er hins vegar, var það svo þegar fjmrn. var að reikna út lækkunina á framfærsluvísitölunni að þeir gleymdu að reikna með því að þetta þýddi útgjöld fyrir verslunina? Þess hefur oft orðið vart hjá ráðherranum að hann skilur ekki að ef ríkissjóður tekur peninga frá atvinnurekstrinum, þá þýðir það að atvinnureksturinn tapar því sama fé.
    Um þetta þurfum við að fá skýr svör, bæði vegna verslunarinnar og ekki síður vegna iðnaðarins.
    Þá vil ég aðeins minnast á reglugerð sem ég hef að vísu ekki kynnt mér nægilega til að ég þori að fara um hana mörgum orðum. Mér sýnist reglugerðarsmíðin út af fyrir sig vera í lagi, það er reglugerð um hversu farið skuli með sjávarafla. Í því kynningarviðtali sem hæstv. fjmrh. átti í sjónvarpinu fyrir viku kom fram að hann væri, þrátt fyrir sínar áætlanir, ekki undir það búinn og ríkissjóður væri ekki undir það búinn að endurgreiða fiskvinnslunni eftir þeim reglum sem hér er gert ráð fyrir, að þeir geti fengið endurgreiðslu á þeim virðisaukaskatti sem þeir greiða útgerðinni. Eftir viku, stendur í reglugerðinni, en ráðherra talaði um það í þessum sjónvarpsþætti að það mundi taka ríkissjóð hálft ár að aðlagast þessu nýja kerfi. Hann rökstuddi það með því að ríkissjóður hefði ekki ráð á því að taka þessar byrðar á sig. Nú spyr ég hann: Ef ríkissjóður sem hefur skattlagningarvaldið og beitir því ótæpilega hefur ekki ráð á því að taka byrðarnar á sig, heldur hann virkilega að fiskvinnslan í landinu hafi ráð á því? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra gefi skýr svör um það hvort endurgreiðslufyrirkomulagið varðandi fiskvinnsluna muni ganga í gildi strax um áramótin eða hvort hann gerir ráð fyrir því að það eigi að dankast svona eitthvað fram eftir ári. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, mín spurning er mjög skýr.
    Ég vil í sambandi við endurgreiðslur á virðisaukaskatti í byggingariðnaði taka tvennt fram: Annars vegar nær það náttúrlega engri átt að

jafnflókið kerfi og þetta skuli ekki þegar liggja fyrir, að reglugerð skuli ekki komin út. Það er nauðsynlegt að þetta kerfi sé skýrt og einfalt í framkvæmd, ekki aðeins vegna þeirra iðnaðarmanna sem vinna við byggingariðnaðinn heldur líka vegna þeirra einstaklinga sem eru með framkvæmdir og þurfa að greiða jafnharðan þann kostnað sem þeir leggja í.
    Hér er talað um að reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarbyggingar þurfi að bíða þess að Alþingi afgreiði stjfrv. Ég skil ekki alveg í hvaða samhengi það er. Er hæstv. ráðherra ekki búinn að jafna liðið? Stendur eitthvað til að einhverjir stjórnarsinnar fari að prjóna upp? Er ekki ráðherrann búinn að ákveða hvernig lögin eiga að líta út og hefur hann þá ekki allar forsendur til þess að senda frá sér reglugerðina undir eins? Eða dettur honum í hug að við í fjh.- og viðskn. sættum okkur við að okkur sé synjað um að fá fyllstu upplýsingar um þetta atriði?
    Það liggur þegar fyrir og það er viðurkennt í þessu frv. hér að breytingin mun hafa í för með sér 1% hækkun á byggingarkostnaði, sem er verulegt, að mati fjmrn. En hvað haldið þið að verði svo þegar til stykkisins kemur?
    Hitt er kannski enn þá verra, en þar var áður við formann Alþfl. að etja, þegar lögin voru sett, nú er það formaður Alþb., að hér er gert ráð fyrir því að til þess að virðisaukaskattur verði endurgreiddur við viðhald og endurbætur þurfi heildarkostnaður á einu almanaksári að vera a.m.k. 7% af fasteignamati. Það er verulegur kostnaður, mjög verulegur kostnaður. Af sæmilegri íbúð, góðri íbúð, sem kostar 10 millj., erum við að tala um 700 þús. Ef íbúðin kostar 5 millj. erum við að tala um 350 þús. Til þess að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan þarf að leggja í 350 þús. kr. fjárfestingu, sem skatturinn viðurkennir sem endurbætur. Það er alls ekki allt, öll viðgerðin er ekki viðurkennd sem endurbætur af skattinum þannig að heildarkostnaður yrði talsvert meiri. Við sjáum að þetta er í algjörum undantekningartilvikum sem um slíkt yrði að ræða. Auðvitað þýðir þetta ekki annað en það að svartur markaður í sambandi við viðhald og endurbætur á húsum mun aukast, auðvitað þýðir það það, ef núna á fara að láta fólkið, sem ekki fær viðhaldskostnaðinn frádráttarbæran við álagningu tekjuskatts ofan á aðra skattheimtu í landinu, borga 24,5% refsigjald af þeirri vinnu sem á að fara fram við það að halda húsunum sæmilega við, þegar einmitt ríður á að halda utan um þær eignir sem til eru í landinu og hið opinbera ætti frekar að reyna að stuðla að því að fólk héldi húsum sínum sæmilega við. Þetta atriði verður líka rætt rækilega í nefndinni og ég trúi ekki öðru en því að menn muni almennt fordæma svo
fáránlegt ákvæði sem þetta. Og að reyna að halda því fram að þetta stuðli að betri skattheimtu en ella er náttúrlega út í hött. Þetta þýðir einfaldlega að ríkið verður ekki aðeins af virðisaukaskattinum af vinnu þessa fólks sem vinnur við endurbæturnar, heldur líka tekjuskattinum. Það er óhjákvæmilegt. Menn borga

ekki svona þegjandi og hljóðalaust. Þetta er rangt.
    Það er auðvitað alveg rétt hjá ráðherranum að það hefur nokkra lækkun í för með sér að tryggingariðgjöld bera ekki virðisaukaskatt og kom heldur aldrei til greina. Fáránlegt hins vegar að leggja söluskatt á tryggingariðgjöld. En þetta er nú ekki neinn nettósparnaður fyrir fólkið í landinu vegna þess að ráðherrann ætlar um leið og hann gefur þarna --- ég ætla nú ekki að segja drottinn gaf og drottinn tók, því ég auðvitað líki þeim ekki saman --- en ráðherrann tekur og ráðherrann tekur og hann ætlar að gefa pínulítið eftir í sambandi við tryggingarnar en hann ætlar í staðinn að leggja 350 millj. á umferðina. Nú þýðir ekki fyrir hann að vísa til þeirra talna sem eru í fjárlagafrv. í sambandi við það sem tekjustofnar umferðarinnar gefa af sér, þeir renna í Vegasjóð, vegna þess að samgrh. er búinn að skýra frá því eða láta sína menn skýra frá því í fjvn. að það hafi aldrei staðið til að skera vegalögin niður um milljarð. Það hefur bara staðið til að skera vegalögin niður um 450 millj. Þannig að þar er ráðherrann með nýjan skatt í vasanum, 550 millj., sem hann ætlar að leggja á samkvæmt þeim heimildum sem hann hefur í þeim lögum en er að reyna að draga úr skattheimtunni núna með því að segja: Af því að ég ætla ekki að gera þetta þá verðið þið núna að borga 350 millj. í ríkissjóð af umferðinni, svo kemur hitt á eftir, í sambandi við vegáætlun.
    Þarna er því um hreina þyngingu að ræða ef eitthvað er að marka það sem varaformaður Alþb. segir að formaður Alþb. ætli að gera. Að vísu var það nú svo á fundinum að samkomulagið og trúnaðurinn var ekki allt of mikill milli þessara tveggja manna. Hæstv. fjmrh. er í svona pínulítilli fýlu yfir því að samgrh. skyldi verða varaformaður Alþb., pínulítilli fýlu. Og það getur vel verið að hann reyni þess vegna pínulítið að standa á móti því að samgrh. fái eðlilegar fjárveitingar. Það er búið að dusta og bursta landbrh., hann þorir nú varla að fara einsamall um sveitir landsins upp á síðkastið. En það getur vel verið að hann reyni að koma til móts við hann eitthvað í þessu. Þarna liggur sem sagt fyrir ákveðin skattheimta til viðbótar við það sem við höfum núna, upp á hálfan milljarð, 500--550 millj., þannig að ráðherra kemur ekki beint fram í þessu máli.
    Ef ég fer með rangt mál þá lýsir fjmrh. því náttúrlega yfir á eftir að það standi að vegalögin verða skorin niður um milljarð. En þá vorkenni ég nú samgrh. að fara út á land, ég held hann þori þá ekki að fara út á land sem samgrh. Ég held hann verði þá bara að vera í Reykjavík. Ég held það sé þá best fyrir hann að vera þar.
    Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að fara frekar í þessi mál. Ég hef gert hér grein fyrir því í stuttu máli að í þessu frv. er gert ráð fyrir að hækka virðisaukaskatt um 2,5%, það er fjárhæð sem leikur á fjórum milljörðum króna. Það liggur ekki fyrir og hefur ekki verið gerð nein grein fyrir því hvaða peninga eigi að nota til þess að lækka matarverðið en fjmrh. er alltaf að reyna að vera snjallari en hann

sjálfur og er alltaf jafnhissa eftir á þegar hann er það ekki. Hann er að reyna að lækka almennt vöruverð í landinu og almenna þjónustu með skatti sem í krónutölu gefur ívið meira af sér til ríkisins en sá skattur sem fyrir var. Auðvitað er ekki hægt að lækka almennt vöruverð í landinu og þjónustu í landinu ef það sem ríkið hefur út úr skattinum er það sama. Hver er það sem ber skattheimtuna? Er það ekki fólkið í landinu? Ef ráðherrann kemur hér með skatt og hann gefur ríkissjóði sömu tekjur og söluskatturinn, hvernig í veröldinni getur hann þá lækkað vöruverð í landinu? Það stendur sem við höfum sagt, þessi breyting hefur í för með sér að heildarskattheimtan í landinu hækkar um tvo milljarða. Þegar öll kurl eru komin til grafar, tekið tillit til jöfnunargjaldsins sem er upp á 1 / 2 milljarð og alls þess sem vantar á vegna söluskattsins, þá þýðir þessi breyting að tekjurnar verða þær sömu, þýðir að byrðar þjóðarinnar af þessu verða þær sömu og þýðir að það sem hæstv. ráðherra hefur sagt um annað eru blekkingar.