Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka þær góðu undirtektir sem fjölmargt í þessu frv. hefur hlotið við þessa umræðu. ( GHG: Það eru engar góðar undirtektir.) Það er rangt, hv. þm. ( GHG: Ég mótmæli því, það eru undantekningar að það séu einhverjar góðar undirtektir.) Mér þykir nú afar leitt ef hv. þm. hefur ekki skilið þetta á sama veg og ég, en ég hlustaði mjög grannt á ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals hér áðan þar sem hann tók undir og lýsti yfir stuðningi við ýmislegt í þessu frv. Fagnaði m.a. sérstaklega þeirri ákvörðun að ekki yrði virðisaukaskattur á bókum og að ekki yrði virðisaukaskattur á tímaritum, svo ég nefni nú bara eitt atriði. ( GHG: Það er ekki tryggt með bækurnar.) Það er auðvitað alveg tryggt með bækurnar. Mér þykir leitt ef hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson kann ekki að meta það að ég sýni þá sjálfsögðu kurteisi að þakka fyrir þær góðu undirtektir sem margt í þessu frv. hefur fengið. Það er ekkert óeðlilegt að ýmislegt í því fái góðar undirtektir vegna þess að margt af því er auðvitað byggt á viðhorfum sem komið hafa fram, ekki aðeins hjá þeim flokkum sem nú eru í ríkisstjórn, heldur hjá ýmsum öðrum flokkum og samtökum í landinu. Sem betur fer er það nú þannig að þó við deilum um ýmislegt hér á Alþingi getum við orðið sammála um annað.
    Það er einnig ljóst að margt af því sem menn hafa nefnt hér í umræðunni er betur fallið til þess að taka til nánari umræðu við 2. umr. þegar nefndarmenn í fjh.- og viðskn. og aðrir þingmenn hafa haft aðgang að þeim gögnum sem nauðsynlegt er að menn hafi við höndina þegar þau atriði eru metin. Ég tel þess vegna skynsamlegt að við geymum okkur ítarlega umræðu um þau efnisatriði þar til hv. alþm. hafa haft sambærilegan aðgang að þeim gögnum og frsm. með frumvarpinu, annað fyndist mér ekki sanngjarnt hér við þessa umræðu.
    Ég ætla þess vegna aðeins að víkja hér að fáeinum atriðum og stikla kannski á þeim stærstu í þeim efnum. Ég vil fyrst ítreka það sem kom fram í framsöguræðu að endurgreiðslukerfið á þessum tegundum innlendra matvæla er bundið í virðisaukaskattslögunum og virðisaukaskattskerfinu og niðurgreiðslustigið hefur á engan hátt áhrif á þetta endurgreiðslukerfi. Fjármagn til endurgreiðslunnar kemur af tekjum virðisaukaskattsins sjálfs og endurgreiðslurnar eru framkvæmdar af innheimtumönnum ríkisins, gjaldheimtum og sýslumönnum, sem bæði taka við virðisaukaskattinum og endurgreiða hann, bæði í formi þess innskatts sem endurgreiddur er rekstraraðilum og eins þessara sérstöku endurgreiðslna. Það endurgreiðslukerfi til lækkunar á verðlagi matvæla sem jafngildir 14% virðisaukaskatti á þessar tegundir stendur alveg sjálfstætt og óháð öllum öðrum þáttum í verðlagningu þessara vörutegunda í landinu. Það er mikilvægt að menn átti sig á þessu vegna þess að með samþykkt frv. hér á Alþingi verður komið á föstu, varanlegu

verðlækkunarkerfi á þessum vörutegundum sem eingöngu meiri hluti Alþingis getur breytt með því að breyta lögunum um virðisaukaskatt. Aftur á móti hvað niðurgreiðslurnar snertir geta stjórnvöld breytt þeim allverulega frá einni vörutegund til annarrar, eins og hv. alþm. er kunnugt, og frá einum mánuði til annars ef stjórnvöld kjósa að gera svo. Þetta skýrist væntanlega betur í meðferð málsins í nefnd og ég vil árétta að í þeirri nefnd sem starfaði í sumar og haust voru lögð fram fyrir allnokkru síðan drög að reglugerð um þetta efni. Því miður mun fulltrúi Kvennalistans ekki hafa verið á þeim fundi, en fulltrúar annarra þingflokka hafa haft þau drög undir höndum um nokkuð langan tíma.
    Eins og kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal voru mörg þessara mála sem hann vék að rædd í nefndinni og eins og kom fram hjá honum var mér, vegna þeirra ágætu umræðna sem þar fóru fram, kunnugt um flest af þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. þm., bæði hvað snertir virðisaukaskatt á lögfræðiþjónustu, á eldsneyti til flugvéla og margt annað sem hann nefndi. Eins og fram kom á fundum nefndarinnar var talið að verðáhrifin af virðisaukaskattinum á eldsneyti flugvéla væru það lítil að á þeim grundvelli væri ekki réttlætanlegt að fella hann niður. Mig minnir að áhrifin hafi verið á flugmiða til Akureyrar í kringum 50 kr. Hvað lögfræðiþjónustuna snertir þá réði það sjónarmið að öll þjónusta sérfræðinga, hvort sem það væru lögfræðingar, endurskoðendur eða aðrir sérfræðingar, væri skattlögð með sambærilegum hætti. Þar er auðvitað hægt að reiða fram þau sjónarmið sem hv. þm. Halldór Blöndal gerði og færa fyrir þeim ýmis rök, þau eru athyglisverð. Á móti kemur það samræmingarsjónarmið sem er höfuðeinkenni virðisaukaskattsins að hann eigi ekki að vera mismunandi skattur á sambærilega starfsemi.
    Hér hefur einnig nokkuð verið spurt um það hvers vegna dagsetningin 16. nóv. sé valin hvað snerti afnám skattlagningar á íslenskum bókum. Svarið við þeirri spurningu er mjög einfalt. Mér var ljóst að sú tillaga sem ég flutti í ríkisstjórninni, að virðisaukaskattur yrði ekki á íslenskum bókum, fól í sér mestu tekjurýrnun fyrir ríkissjóð sem nokkur ein breyting á skattlagningu einnar vöru hefur haft í för með sér um langt árabil. Tekjutap ríkissjóðs af þessari ákvörðun einni saman nemur a.m.k. um 400 millj. kr.
    Ég taldi mér ekki kleift sem ábyrgðarmaður ríkisfjármála að leggja til
slíkar breytingar á forsendum fjárlagafrv. fyrir næsta ár, að með einni ákvörðun yrði tekin út úr tekjudæmi fjárlagafrv. svo há upphæð. Það hefði að mínum dómi verið ábyrgðarleysi af mér sem fjmrh. að gera það miðað við núverandi aðstæður. Þess vegna kaus ég að sameina þetta tvennt, leggja til að með lögum yrði skattlagning af bókaútgáfu íslenskra bóka afnumin, en þó þannig að það hefði ekki áhrif á það fjárlagafrv. sem ég hafði þegar lagt fram á Alþingi, en kæmi til framkvæmda og hefði áhrif á fjárlagafrv. fyrir árið 1991. Dagsetningin 16. nóv. er valin vegna þess að

það er upphafsdagur síðasta uppgjörstímabils virðisaukaskatts á komandi ári sem hefur ekki áhrif á ríkisfjármálin á því ári heldur á árinu 1991.
    Þeir sem vilja leggja til aðra dagsetningu eru þess vegna um leið að leggja til breytingar á tekjuforsendum fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Menn geta auðvitað haft á því skoðanir að allt í lagi og eðlilegt sé að breyta þeim tekjuforsendum, en ég tel ekki, miðað við erfiðleikana í okkar þjóðfélagi og það efnahagsástand sem við búum við, að ég eða ríkisstjórnin geti haft forgöngu um slíkar breytingar.
    Ég vek athygli á því að þetta er mjög há upphæð. Þetta er stærsta upphæðin sem ákveðin hefur verið hvað snertir fjárframlög til menningarstarfsemi á Íslandi. Það hefur engin ein slík veigamikil breyting verið gerð hér sem þessi
og það tel ég mikilvægasta þátt málsins þótt dagsetningin kunni hins vegar að vera með þeim hætti að sumum finnist hún eiga að vera fyrr. Ég vek þó athygli á því að allur þorri bókaútgáfunnar á næsta ári sem er bókaútgáfan á síðustu sex vikum ársins mun njóta þessarar breytingar.
    Ég vil einnig vekja athygli hv. þm. Halldórs Blöndals á því að í þeirri reglugerð um framkvæmd virðisaukaskatts hjá fiskvinnslu og sjávarútvegsfyrirtækjum sem gefin hefur verið út kemur skýrt fram að það uppgjörskerfi sem þar er lagt til tekur gildi frá og með 1. jan. nk.
    Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði að við hér á Alþingi og í Stjórnarráði Íslands gætum margt lært hvað snertir breytingar á vinnubrögðum. Ég hef hins vegar sannfærst um það að vilji menn koma sér hjá þessari miklu örtröð mála fyrir jól, þá sé óhjákvæmilegt að gera annað tveggja: hefja þingstörfin fyrr, í septembermánuði t.d. líkt og margar þjóðir gera eða lok ágústmánaðar, eða þá að flytja fjárlagaárið eins og ég hef lagt til þannig að fjárlagaárið verði ekki almanaksárið heldur t.d. frá miðju ári til miðs árs þannig að Alþingi þurfi ekki á sömu tæpum tveimur mánuðum að afgreiða fjárlög, afgreiða fjáraukalög, afgreiða tekjuöflunarfrv. auk fjölmargra annarra frv. Meðan þingið kýs að koma saman 10. okt. og starfa fram að jólum en heldur allri annarri skipan óbreyttri held ég að það sé því miður óhjákvæmilegt að mikil örtröð verði í afgreiðslu mála á síðustu vikum fyrir jól.
    Hvað snertir þær lækkanir á verðlagi á nokkrum algengum innlendum matvælum sem ég hef gert hér að umtalsefni eru það að sjálfsögðu lækkanir frá því verði vörunnar sem það er við lok ársins. Með nýju ári tekur þessi breyting á verðlagningunni, sem felst í þessum ákvæðum virðisaukaskattslaganna, gildi. ( Gripið fram í: ... að hækka mjög mikið verð á matvöru?) Það er eins og ég hef vakið athygli á við önnur tækifæri og ætti að vera ljóst öllum þeim sem telja markaðinn hið ákjósanlegasta hreyfiafl hagkerfisins að vald stjórnvalda yfir verðlagningu er mjög takmarkað. Vara getur hækkað í verði á Íslandi af ýmsum orsökum. Það getur gerst vegna þess að

verslunin hækkar álagningu sína. Það getur verið vegna þess að innkaupsverðið hækkar. (Gripið fram í.) Ja, búvörurnar eru ekki allar með fastri álagningu. Það er frjáls álagning á mörgum tegundum búvara ( Gripið fram í: Mjólk?) og þess vegna geta stjórnvöld ekki í okkar hagkerfi tryggt það hvert verðlag á matvælum verður marga mánuði fram í tímann, hvað þá heldur heilt ár. Þau stjórnkerfi sem hafa ætlað sér að tryggja með stjórnvaldsákvörðunum varanlegt verðlag eru nú sem óðast að hrynja og ég vænti þess ekki að hér í salnum séu menn sem óski sérstaklega eftir því að íslensk stjórnvöld taki sér slíkt vald. ( HBl: Er þetta formaður Alþb. sem talar?) Já, já, það er formaður Alþb. sem talar og menn þurfa ekkert að verða neitt hissa á því vegna þess að Alþb. hefur um langa hríð talið eðliskosti markaðarins og frjálsrar samkeppni vera einmitt þá að geta tryggt með heilbrigðri samkeppni lágt vöruverð ef stjórnvöld haga hagstjórninni þannig að þensla er ekki svo að eðliskostir samkeppninnar fái að njóta sín til hins ýtrasta. Ég verð þess vegna að minna á að það er fyrst og fremst markaðurinn sem ræður hinu endanlega verði á vörunum en hvorki stjórnvöld eða einstakir aðrir valdhafar.
    Ég vænti þess að ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ekki svarað þeim öllum, en ég held að ýmsar þeirra, sérstaklega þær sem snerta meiri tæknilega útfærslu og krefjast ítarlegri svara og æskilegt væri fyrir alla viðstadda að hafa þá við höndina viðkomandi gögn, væri betra að fjalla um í viðkomandi nefnd og taka þá síðan til umræðu hér síðar.