Grunnskóli
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Það gildir það sama um þetta frv. sem ég mæli nú fyrir um breytingu á grunnskólalögum og það fyrra að það er endurflutt. Flm. með mér eru hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, Guðrún Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Árni Gunnarsson.
    Frv. þetta hlaut nokkuð ítarlega umfjöllun hér í þinginu í fyrra og var sent til umsagnar og hlaut mjög jákvæðar viðtökur, bæði hér í þinginu og eins í þeim umsögnum sem bárust.
    Þetta frv. gerir ráð fyrir því að við 43. gr. grunnskólalaga bætist þrjár nýjar málsgreinar. Tilgangur þessa frv. er fyrst og fremst að styrkja stöðu íslenskrar menningar innan íslenska skólakerfisins og efla tengsl grunnskóla við stofnanir lista og fræða í landinu ásamt því fólki sem stundar lista- eða fræðistörf. Í 43. gr. grunnskólalaga er fyrst og fremst fjallað um félags- og tómstundastarf og ekki óeðlilegt að starfsemi af þessu tagi flokkaðist undir slíkt.
    Í vor var samþykkt hér á Alþingi aðalnámsskrá fyrir grunnskóla og þó að langt sé frá því að allt í þeirri aðalnámsskrá sé komið til framkvæmda, þá eru þar þó a.m.k. markmiðslýsingar, eitthvað sem vinna ber að, og ég ætla, virðulegi forseti, að vitna hér til þess kafla í aðalnámsskrá sem fjallar um menningarmál. Þar segir:
    ,,Kjölfesta hverrar þjóðar er menning hennar. Í menningararfi íslensku þjóðarinnar frá landnámi til samtímans teljast tengsl við landið og hafið umhverfis það, náttúru þess og auðlindir, sögu lands og þjóðar, þjóðtunguna, bókmenntir, verkmenningu, listir, vísindi, lýðræði, kristinn sið, trú og þjóðhætti.
    Grunnskóli þarf að efla vitund um menningararfleifð þessa og standa traustan vörð um menningu þjóðarinnar. Mikilvægt er að í skólastarfi sé stuðlað að þátttöku nemenda við framvindu og mótun menningar.``
    Í sama kafla segir líka, með leyfi forseta: ,,Til þess að nemendur finni tilgang með námi sínu þurfa að vera skýr tengsl milli þess náms sem fram fer í skólanum og þeirrar reynslu sem þeir fá utan skóla.``
    Þarna er nú kannski mergurinn málsins og þetta frv. sem hér er lagt fram er í rauninni útfærsla á því sem segir til um í aðalnámsskrá.
    Hér hafa iðulega orðið umræður um stöðu íslensks skólakerfis og svokallað menningarástand í skólum og þá jafnframt í landinu öllu. Því meir sem tengsl okkar aukast við aðrar þjóðir, á hvaða sviði sem það nú er, þeim mun meiri þörf er á að styrkja íslenska menningu. Það er ekki hægt að ætlast til að börn eða unglingar finni það upp hjá sjálfum sér að hafa áhuga á því sem íslenskt er og áhuga á sinni fortíð, sínum menningararfi og landi sínu þegar fátt eitt sem að þeim er haldið gefur tilefni til þess. Ég vil af því tilefni vísa til fsp. sem ég hef gert hér ítrekað á Alþingi um barnaefni í hljóðvarpi og sjónvarpi. Svör við þeirri fsp. leiða það mjög skýrt í ljós að

sannarlega er það ekki í íslenska sjónvarpið sem börn geta sótt sér nokkurn fróðleik um íslenska menningu eða sína fortíð og væri auðvitað þörf á að ráða þar bót á. En ég hygg að svo sé málum komið að það verði ekki undan því vikist að skólakerfið sinni þessum málum betur en hingað til. Því miður hefur líklega nú síðari ár orðið þó nokkur afturför frá því sem áður var. Á því eru sjálfsagt margar skýringar. Helst er kannski sú að lítið fé er til umráða til slíkrar starfsemi sem hér er kveðið á um en einnig segir mér svo hugur um að eitthvað hafi stirðnað samstarf skólanna og þeirra stofnana eða fólks sem áður heimsótti skóla og lítill stuðningur virðist vera við það inni í skólakerfinu að hvetja nemendur til þess að sækja þá menningarviðburði sem þó bjóðast.
    Ég ætla ekki að fara út í hvernig hægt væri að framkvæma þetta eða nánari útfærslu. Ég nefndi í grg. þó nokkrar hugmyndir um hvernig að þessu mætti standa og vísa til hennar án þess að halda því fram að hún sé á nokkurn hátt tæmandi. Einhverjir höfðu skilið það svo við umfjöllun um frv. í fyrra að það væri verið að fara fram á að listamenn eða fræðimenn sem til væru kallaðir ættu að vinna launalaust. Það var alls ekki ætlun mín. Ég þori að fullyrða að í hópi listamanna sé að finna það fólk sem er hvað fúsast til að vinna án þess að þiggja laun fyrir, en ég ætlast nú ekki til þess að skipulegt samstarf við skóla fari fram með þeim hætti. En vegna þess hve ég hafði undirstrikað að með útsjónarsemi, hagræðingu, hugarflugi og samvinnu við menningarstofnanir og stéttarfélög mætti halda kostnaði í lágmarki og skírskota til ábyrgðar allra einstaklinga, félaga og stofnana á uppeldi nýrrar kynslóðar og varðveislu menningar okkar og tungu skildu einhverjir það svo að ég ætti við að ekki yrðu þegin laun fyrir þessa starfsemi, en svo er sem sagt ekki.
    Að öðru leyti vísa ég til þeirrar umræðu sem hér fór fram í fyrra sem þó nokkrir tóku þátt í og var nokkuð ítarleg og jákvæð. Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.