Grunnskóli
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að hafa endurflutt þetta mál hér í þessari virðulegu deild og skýra frá því að til meðferðar er hjá stjórnarflokkunum og hefur verið síðan um miðjan október frv. til nýrra grunnskólalaga. Í þeim drögum er að vísu ekki tekið nákvæmlega eins á þessu máli og hv. þm. leggur til en ég tel einboðið með hliðsjón af því hversu mikinn skara flm. hún hefur með sér og hversu víðtækan stuðning má ætla að þeir hafi að baki sér hér á Alþingi, þá sé nokkurn veginn alveg einboðið að þau sjónarmið sem hún flytur í frv. eigi hér verulegan stuðning og geti komið inn við afgreiðslu grunnskólafrv. þegar það kemur hér til meðferðar á hv. Alþingi. Ég hafði reyndar hugsað mér að leggja það fram í þessari deild þannig að það gefst kostur á því að bera saman efni frv. sem hv. þm. var að mæla fyrir og frv. til nýrra grunnskólalaga.
    Ég vil einnig leyfa mér, virðulegi forseti, í tilefni af næstsíðasta dagskrármálinu að geta þess sem drepið var á í ræðu hv. l8. þm. Reykv. að í gangi er endurskoðun á reglum öllum um listamannalaun, hvaða nafni sem þau nefnast, hvort sem um er að ræða heiðurslaun, starfslaun eða önnur listamannalaun. Sú nefnd, sem starfað hefur að þeirri endurskoðun undir forustu Ragnars Arnalds alþm., hefur skilað bráðabirgðaáliti sem verður til meðferðar í stjórnarflokkunum núna á næstu vikum og í framhaldi af því geri ég ráð fyrir að samið verði frv. á grundvelli þessa nefndarálits sem kæmi þá til kasta þingsins síðar í vetur. Ég tel einnig eðlilegt að frv. um starfslaunasjóð sem hér var mælt fyrir í næstsíðasta dagskrármáli verði tekið til athugunar um leið og farið er yfir listamannalaunin í heild.
    Ég vildi leyfa mér, virðulegi forseti, þrátt fyrir það að annað mál sé nú á dagskrá að skjóta þessu máli hér inn í umræðuna.