Listskreytingasjóður ríkisins
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir að bera fram þessa fsp. og vekja þannig athygli á málefnum Listskreytingasjóðs.
    Listskreytingasjóður hefur verið starfandi allt frá árinu 1983. Fsp. er nokkuð viðamikil og verð ég þess vegna að bregða á það ráð að afhenda hv. þm. skriflega nokkuð af þeim upplýsingum sem ég hef hér undir höndum um sjóðinn til að svara fsp. hennar.
    Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Hvernig hefur ákvæðum um listskreytingar opinberra bygginga verið fylgt frá setningu laganna um Listskreytingasjóð?`` Svarið er: Illa. Það hefur vantað verulega á á hverju einasta ári að framlög til sjóðsins væru í samræmi við lagaákvæðin sem gera ráð fyrir 1% af stofnverði þeirra bygginga sem upp eru taldar í lögunum.
    T.d. á árinu 1988 var framlagið 5 millj. kr. en hefði átt að vera 25 millj. Árið 1987 var framlagið 4 millj. kr., hefði átt að vera 19. Árið 1989 er framlagið 6 millj. kr. en í fjárlagafrv. ársins 1990 er gert ráð fyrir að þetta framlag verði 10 millj. kr. Það hefur sem sagt vantað verulega upp á það að sjóðurinn fengi það sem hann hefði átt að fá samkvæmt gildandi lögum öll árin frá því að hann var stofnaður. Ég mun afhenda hv. þm. yfirlit yfir það hvað sjóðurinn hefur fengið og hvað sjóðurinn hefði átt að fá sundurliðað ár fyrir ár.
    Í annan stað spyr hv. þm.: ,,Hvert hefur framlag ríkisins verið?`` Framlag ríkisins hefur verið, ef ég rek mig hratt í gegnum það í tölum, 1983 2 millj., 1984 4 millj., 1985 3,7 millj., 1986, 1987 og 1988 4 millj. öll árin, eða óbreytt krónutala í þrjú ár, og síðan næsta ár þar á eftir 5 millj. og svo í ár 6 millj., og í fjárlagafrv. ársins 1990 10 millj. kr.
    ,,Hve miklu hefur verið veitt úr sjóðnum og til hvaða listaverka?`` Svarið er sem sagt að á árinu 1983 voru 7 verk styrkt með framlögum úr sjóðnum, samtals 738 þús. kr., 1984 6 verk, 968 þús. kr., 1985 14 verk, 4 millj. 262 þús. kr., 1986 12 verk, 4 millj. 882 þús. 500 kr., 1987 11 verk, 6 millj. kr., 1988 19 verk, 11,6 millj. kr., og 1989 12 verk, 8 millj. kr., þ.e. til 31. okt. sl.
    Ég hef hér undir höndum yfirlit yfir öll þau verk sem veitt hefur verið fé til frá upphafi, stofnun sjóðsins, og mun afhenda það hv. fyrirspyrjanda hér á eftir.
    Ég get aðeins nefnt árið 1989 sem dæmi, það sem af er þessu ári. Það er Borgarspítalinn í Reykjavík til fullhönnunar myndverks við aðalinngang hússins. Það er verk eftir Jón Gunnar Árnason. Það er Garðaskóli í Garðabæ vegna kaupa á höggmynd eftir Sigurjón Ólafsson. Það er Fjölbrautaskólinn í Breiðholti til listskreytingar á gafli íþróttahúss með myndverki eftir Sigrúnu Guðjónsdóttur og Gest Þorgrímsson. Það er Bændaskólinn á Hvanneyri til listskreytingar í aðalbyggingu með veflistarverkum eftir Ingibjörgu Styrgerði og Þorbjörgu Þórðardóttur. Það er Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, Grundarfirði, vegna listskreytingar utan húss, myndverks eftir Steinunni

Þórarinsdóttur. Það er heilsugæslustöðin á Seltjarnarnesi til kaupa á fjórum listaverkum eftir Guðbjörgu Lind, Jón Óskar Hafsteinsson, Sigurð Örlygsson og Þorlák Kristinsson. Það er Heilsugæslustöðin á Húsavík vegna hugmyndasamkeppni um listskreytingu í skála. Það er Glerárskóli, Akureyri, til veggskreytingar úr keramikflísum. Höfundur er Soffía Árnadóttir. Það er Menntaskólinn á Akureyri til að láta gera stækkaða afsteypu af höggmynd eftir Ásmund Sveinsson og koma myndinni fyrir á lóð skólans. Það er Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Keldnaholti, vegna listskreytingar í tilraunaskála. Það er myndverk eftir Elísabetu Haraldsdóttur. Það er stjórnsýsluhús á Ísafirði vegna listskreytingar í miðrými, myndverks eftir Steinunni Þórarinsdóttur, viðbótarframlag og það er verndaður vinnustaður á Vesturlandi, Dalbraut 10--12, Akranesi, til kaupa á tveimur höggmyndum eftir Guttorm Jónsson. Þetta var yfirlit yfir framlögin til þessa á árinu 1989.
    Og síðan spyr hv. þm. að lokum:
    ,,Hvað líður endurskoðun á lögunum sem fara átti fram að fimm árum liðnum frá setningu þeirra?`` Sem sagt, endurskoðunin hefði átt að fara fram á árinu 1987. Þessari endurskoðun er nú lokið og frv. um endurskoðuð lög fyrir Listskreytingasjóð verður lagt fyrir ríkisstjórnina eftir áramót.