Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fsp. fyrir hæstv. menntmrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvaða hlutverki er nýstofnaðri Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands ætlað að þjóna?``
    Tilefni fsp. er það að á síðasta sumri var stofnuð sjávarútvegsbraut við Háskóla Íslands og nú á haustdögum fer Háskólinn fram á það við fjvn. Alþingis að veitt sé fjárveiting til þess að koma á fót við þá stofnun tveimur stöðum.
    Það er líklegast ekki tilviljun að þetta ber upp á sama tíma og verið er að koma upp sjávarútvegsbraut við nýstofnaðan háskóla á Akureyri. Það er ekki tilviljun að mínu mati heldur að þetta gerist á sama tíma og verið er að koma sjávarútvegsbrautinni upp á Akureyri sem menn binda vonir við að verði í fararbroddi við að byggja Háskólann á Akureyri upp sem akademíska stofnun. En það er alger forsenda fyrir því að Háskólinn á Akureyri komist á fæturna að þar starfi í það minnsta ein deild sem sé byggð upp á akademískan hátt.
    Ég hef einnig öruggar heimildir fyrir því að sterk öfl innan Háskóla Íslands berjast fyrir því með oddi og egg að Háskólinn á Akureyri komist ekki á lappirnar. Ég held að það væri mun stórmannlegra fyrir aðstandendur Háskóla Íslands að aðstoða við þetta þjóðþrifamál, að koma upp háskóla á Akureyri.
    Öll ber þessi umræða mjög keim af þeim málflutningi sem haldið var á lofti fyrr á þessari öld í þá veru að ekki væri hægt að reka menntaskóla annars staðar en í Reykjavík. Nú er sagan algjörlega að endurtaka sig hvað þetta snertir nema nú er því haldið á lofti að háskólanámi á akademískum grunni sé ekki hægt að halda uppi annars staðar en í Reykjavík.
    Ég vil taka það fram að ég hef heimildir fyrir því að háskólarektor hafi sýnt full heilindi í þessu máli. Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Hvaða hlutverki er sjávarútvegsbrautinni ætlað að þjóna og hvernig á að fjármagna hana?
    Að lokum: Menntmrh. skrifaði undir reglugerð um stofnun þessarar stofnunar Háskóla Íslands nú í sumar. Ég tel að þetta mál sé þess eðlis að hér hefði átt að koma til sterk pólitísk leiðsögn og að menntmrh. hefði átt að leiðbeina háskólamönnum við Háskóla Íslands í þessu máli og beina kröftum þeirra í þá veru að aðstoða við að koma upp sjávarútvegsbrautinni á Akureyri frekar en að koma upp samkeppnisstofnun hér við Háskóla Íslands.