Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á síðasta þingi voru sett lög um húsbréfakerfi og jafnframt um vaxtabætur. Tilgangurinn með vaxtabótafrumvarpinu var að styðja við bakið á hinum efnaminni við kaup á húsnæði og var það ein meginforsenda þess að Kvennalistinn studdi frv. til laga um húsbréf. Í samkomulagi Kvennalistans við ríkisstjórnina vegna húsbréfamálsins var m.a. gert ráð fyrir að þingflokkur Kvennalistans tæki þátt í undirbúningi gildistöku húsbréfakerfisins sem hann og gerði. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. segir orðrétt um vaxtabótafrumvarpið, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hl. þykir einboðið að vísa frv. um vaxtabætur einnig til þeirrar milliþinganefndar og óskar eftir því að hún taki sérstaklega til umfjöllunar ákvæði um tekju- og eignarviðmiðun við ákvörðun vaxtabóta.``
    Er þetta eitt af þeim skilyrðum sem hv. fjh.- og viðskn. setur fyrir samþykkt frv. um vaxtabætur. Nú hefur milliþinganefnd lokið störfum og húsbréfakerfið tekið gildi án þess að nefndin fjallaði um málið og fékk fulltrúi Kvennalistans í nefndinni þau svör að málið væri og yrði í höndum fjmrn. Nú hefur borist til þingmanna fréttatilkynning sem var send fréttastofum og dagblöðum í gær um breytingar á tekju- og eignarsköttum og kemur það m.a. fram að breytingar hafa verið gerðar á vaxtabótalögum.
    Þessi vinnubrögð teljum við bera vott um virðingarleysi við vinnu þingmanna hér á Alþingi en það var auðvitað ætlun fulltrúa í fjh.- og viðskn. með því að vísa málinu til milliþinganefndar um húsbréfamál að fá að taka nánari þátt í þessum störfum. Í ljósi þessa hef ég beint eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh. sem ég les hér, með leyfi forseta:
    ,,Hvers vegna var ekki farið að fyrirmælum meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar um að vísa frumvarpi um vaxtabætur til milliþinganefndar um húsbréfamál með þeim sérstöku tilmælum að taka ,,til umfjöllunar ákvæði um tekju- og eignarviðmiðun við ákvörðun vaxtabóta``, sbr. nefndarálit á þskj. 1033 á 111. löggjafarþingi?``