Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Mér þykir hæstv. fjmrh. segja mér tíðindi. Mér er kunnugt um að fulltrúi Kvennalistans sat alla þessa fundi og málið var ekki tekið fyrir. Vil ég benda á að aðalástæða þess að fjh.- og viðskn. vildi fá að fjalla nánar um málið hér á síðasta þingi og fá að taka það inn í störf þessarar nefndar var einmitt sú að nefndin taldi að sérfræðingar fjmrn. væru alls ekki óskeikulir. Þeir gætu gengið út frá öðrum forsendum en breiðari nefnd kynni að gera sem miðaði vinnu sína fyrst og fremst við að tryggja hag einstaklinganna. Á fundum í fjh.- og viðskn. í fyrra er mér kunnugt um að sýnd voru dæmi frá fjmrn. um vaxtabætur til fólks sem óhugsandi var að gæti lagt út í íbúðakaup. Þess vegna verkuðu þau dæmi alls ekki trúverðug og juku á efasemdir nefndarmanna um að ráðuneytismenn væru í nægum tengslum við fólkið í landinu sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég undrast þessi svör miðað við það að ég veit til þess að fulltrúi Kvennalistans hefur sótt alla fundi milliþinganefndarinnar og þetta mál hefur alls ekki verið tekið fyrir þar.