Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég má til að koma hér upp og óska eftir því að hæstv. fjmrh. endurtaki þessar fullyrðingar sínar vegna þess að mér finnst þetta með ólíkindum. Kristín Jónsdóttir, fulltrúi Kvennalistans í húsnæðismálastjórn, lagði fram bókun í húsnæðismálastjórn sem hljóðar svo, nokkur orð, með leyfi forseta: ,,Undirrituð situr í milliþinganefnd og þar hefur þetta ákvæði aldrei verið tekið til umfjöllunar.`` --- Þar er hún að tala um þetta ákvæði sem hér var lesið upp áðan um að ákvörðun um ákvæði um tekju- og eignarviðmiðun í vaxtabótafrumvarpinu skyldi tekið upp í þessari milliþinganefnd og hún segir hér: ,,Það hefur ekki verið tekið þar til umfjöllunar.`` Mér þykir það því með ólíkindum að hæstv. fjrmh. geti komið hér upp og fullyrt að svo hafi verið.