Kjarnorkuvopnalaust svæði á norðurslóðum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að verða við ósk minni og ég hef borið hér fram á þskj. 126 fsp. til hæstv. utanrrh. um kjarnorkuvopnalaust svæði á norðurslóðum. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    ,,Hvernig hefur miðað störfum vinnuhóps utanríkisráðuneyta Norðurlanda um kjarnorkuvopnalaust svæði á norðurslóðum og hvenær er þess að vænta að hann skili niðurstöðum?``
    Í skýrslu hæstv. utanrrh. til Alþingis í apríl sl. er kafli sem snertir þetta mál þar sem greint var frá störfum þessa vinnuhóps eins og þau stóðu þá. Síðan hefur margt gerst í sambandi við afvopnunarmál og þar á meðal mál sem snerta kjarnorkuvígbúnað. Þar sem hér er mjög mikilsvert mál á ferðinni sem hafin var vinna við þegar á árinu 1987 hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. til hæstv. ráðherra og vænti þess að það skýrist hér við umræðuna hvenær sé að vænta skila frá þessum vinnuhópi utanrríkisráðherra Norðurlanda.