Kjarnorkuvopnalaust svæði á norðurslóðum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. svör hans við fsp. Mér þykir leitt að heyra að ekki liggur enn fyrir hvenær gera má ráð fyrir að þessi vinnuhópur ljúki störfum. Starfandi er norræn þingmannanefnd undir forustu Ankers Jörgensen, fyrrv. forsætisráðherra Danmerkur, og fjallar nefndin um þetta mál. Þátttöku í þeirri nefnd eiga þingflokkar á Norðurlöndum til vinstri í stjórnmálunum, á miðjunni og yfir í hægri flokka. T.d. í Finnlandi munu allir flokkar eiga aðild að þessari nefnd og hún kemur saman nokkuð reglubundið einu sinni til tvisvar á ári.
    Á fundi sínum í Kaupmannahöfn 1. nóv. sl. ályktaði nefndin um þetta efni og segir þar m.a. í ályktun nefndarinnar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Norræna þingmannanefndin um að koma á kjarnorkulausu svæði á Norðurlöndum sem kom saman til fundar í Kristjánsborgarhöll hinn 1. nóvember 1989 skorar eindregið á ríkisstjórnir Norðurlanda að ljúka fljótt störfum embættismannanefndarinnar varðandi svæðið.`` Einnig segir þar: ,,Auk þess eru ríkisstjórnirnar hvattar til að hafa sem fyrst frumkvæði á alþjóðavettvangi um að koma á viðræðum um afvopnun á höfum úti, einkum hvað varðar skammdræg kjarnavopn með sérstöku tilliti til aðstæðna á öllum norrænum miðum``, --- ,,norrænum miðum`` stendur nú hér í þýðingu, ,,hafsvæðum`` kannski réttara, --- ,,þar með töldu Eystrasalti. Nefndin bendir einnig á þá hættu sem kjarnaknúin farartæki hafa á umhverfi sjávar sérstaklega.``
    Ég vísa til þessara orða sem þarna liggja fyrir og á blaðamannafundi kom fram af hálfu Ankers Jörgensen að áhersla væri lögð á að þessu starfi lyki á næstu mánuðum. Fylgi er mikið við hugmyndina um kjarnorkuvopnalaus svæði innan Norðurlanda. T.d. kom fram í skoðanakönnun 1987 að 76% svarenda hér sem voru í úrtaki svöruðu spurningu játandi, sögðust hlynntir kjarnorkuvopnalausu svæði þar sem Ísland væri þátttakandi. Ég tel einmitt að á tímum eins og nú, þegar mikil hreyfing er á afvopnunarmálum, þá sé sérstök ástæða til þess að vinnu embættismanna að þessum málum ljúki hið fyrsta þannig að stjórnmálamenn sem eiga að marka stefnu og taka ákvarðanir hafi þá greiningu fyrir framan sig sem æskileg er hverju sinni, ekki síst þegar mikil hreyfing er á málum eins og hæstv. utanrrh. vék að. Þess vegna skora ég á hæstv. utanrrh. að hlutast til um að af Íslands hálfu verði ýtt á eftir um þetta. Ég held að það sé fyrst og fremst spurning um pólitískan vilja að ljúka þessu starfi fyrr en seinna.