Samræmt lífeyriskerfi
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Hér er einnig um að ræða fsp. sem fram var borin af hv. þm. Sveini G. Hálfdánarsyni í nóvember varðandi samræmt lífeyriskerfi allra landsmanna og að nokkru hefur raunar undir annarri fsp. komið svar við því sem hér er um spurt.
    Eitt mesta ranglætið sem í dag viðgengst í íslensku þjóðfélagi er tvímælalaust misrétti í lífeyrismálum, þegar sumir þegnar þjóðfélagsins hafa verðtryggðan lífeyri sem ríkissjóður og sveitarfélög ábyrgjast og verðtryggja, en á meðan brennur lífeyrir annarra á báli verðbólgu.
    Á fyrsta þingi eftir kosningar 1987 lagði þáv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, fram til kynningar frv. um lífeyrissjóði og samræmingu lífeyrisréttinda. Í stefnuyfirlýsingu þáv. ríkisstjórnar Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. sagði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn á grundvelli fyrirliggjandi frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða.``
    Í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar Framsfl., Alþfl., Alþb., Borgfl. og Samtaka jafnréttis og félagshyggju segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Komið verði á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.``
    Í þessum tveimur stjórnarsáttmálum sem hér hefur verið vitnað til má segja að sex stjórnmálaflokkar af átta sem fulltrúa eiga á þingi eða samtals 55 þingmenn hafi gefið þjóðinni fyrirheit um samræmt og réttlátt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, að koma á lífeyriskerfi sem færði þjóðinni trú á að löggjafarvaldið meinti eitthvað með loforðum sínum um betra þjóðfélag og meiri jöfnun og koma á lífeyriskerfi sem skæri niður við trog það misrétti sem nú viðgengst í þessum málum og jafnaði aðstöðu landsmanna á þeim árum sem þeir hafa lokið ævistarfi sínu og að koma á lífeyriskerfi sem afnæmi þann frumskóg sem nú er í þessu fjölsjóðakerfi.
    Í dag er engin heildarlöggjöf um lífeyrissjóði á Íslandi. Í ljósi þess og í ljósi loforða 55 þingmanna í tveimur stjórnarsáttmálum er borin fram svohljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh. á þskj. 163:
    ,,Hvað líður framlagningu frumvarps um samræmt lífeyriskerfi allra landsmanna, sbr. málefnasamning ríkisstjórnarinnar?``